Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Dýpsti staður hafsins er í Challenger-djúpinu í Maríana-djúpálnum í vestanverðu Kyrrahafi en þar eru alls rétt tæpir 11.000 m frá yfirborði sjávar niður á botn. Það dýpsta sem fólk hefur farið er niður á botn djúpsins og lengra verður ekki komist. Þegar þetta svar er skrifað, í júlí 2025, hafa alls 27 manns komið í Challenger-djúpið, sumir oftar en einu sinni.
Fyrstir til þess að kanna hafsbotninn á yfir 10.900 m dýpi voru svissneski haffræðingurinn Jacques Piccard og bandaríski sjóliðsforinginn Don Walsh sem fóru niður á botn Challenger-djúpsins í djúpsjávarfarinu Trieste þann 23. janúar 1960. Mælitæki um borð sýndu að þeir hefðu farið niður á 11.521 m dýpi en það var seinna leiðrétt og nú er talið að þeir hafi farið niður á 10.916 m dýpi. Ferðin niður í djúpið tók fjóra klukkutíma og 48 mínútur áður en stoppað var í um 20 mínútur á botninum. Ferðin til baka tók aðeins skemmri tíma eða þrjár klukkustundir og 17 mínútur. Þessi fyrsta heimsókn í Challenger-djúpið gekk áfallalaust fyrir sig, utan þess að þegar komið var niður fyrir 9.000 m brast í einum ytri glugga farsins svo það fór um áhöfnina en hamlaði þó ekki áframhaldandi för.
Trieste rétt áður en haldið var af stað í fyrsta leiðangurinn niður á botn Challenger-djúpsins 23. janúar 1960.
Rúm 50 ár liðu þar til næsta mannaða far fór niður í Challenger-djúpið. Þann 26. mars 2012 fór kanadíski kvikmyndaleikstjórinn og könnuðurinn James Cameron einn síns liðs niður á botn Challenger-djúpsins í djúpsjávarfarinu Deepsea Challenger og mældist hann hafa farið niður á 10.908 m dýpi. Cameron var aðeins fljótari í förum en Trieste hálfri öld áður, því það tók hann aðeins tvo klukkutíma og 36 mínútur að ná til botns. Hann var í um þrjá klukkutíma í djúpinu og kannaði hafsbotninn áður en haldið var upp á yfirborðið.
Á árunum 2019-2022 voru farnar margar ferðir niður í Challenger-djúpið og í öllum þeirra var farartækið djúpsjávarkafbáturinn Limiting Factor, fyrir utan eina ferð sem var á vegum Kínverja. Þeir sem hafa farið í þessar ferðir, eru eðli málsins samkvæmt, margt hvert mikið ævintýrafólk. Fyrstan má nefna Bandaríkjamanninn Victor Vescovo sem hefur oftast allra farið niður í Challenger-djúpið, alls fimmtán sinnum, þar af tvisvar sinnum einn en annars með öðrum sem stjórnandi djúpsjávarfarsins. Í einni af ferðum sínum náði hann að komast niður á um 10.928 m og er talið að það sé mesta dýpi sem manneskja hefur komið á. Vescovo er reyndar mikill ævintýramaður, hann hefur líka farið niður í Horizon-djúpið og Sirena-djúpið, en þessir staðir eru í Kyrrahafinu og teljast númer tvö og þrjú í röðinni um dýpstu staði jarðar. Vescovi hefur einnig farið niður á dýpsta hluta hafsbotnsins í hinum heimshöfunum fjórum. Þá hefur hann lokið hinu svokallaða „Explorers grand slam“ en í því fellst að klífa hæstu tinda heimsálfanna sjö, auk þess að komast á bæði á norður- og suðurpólinn.
Djúpsjávarfarið Limiting Factor hefur verið notað í flestar þeirra ferða sem farnar hafa verið í Challenger-djúpið.
Bandaríski jarðfræðingurinn og geimfarinn Kathryn Sullivan var fyrst kvenna til að fara niður í Challenger-djúpið en þá ferð fór hún ásamt áðurnefndum Vescovo árið 2020. Sullivan á þrjár geimferðir að baki, var fyrsta bandaríska konan til þess að fara í geimgöngu og er fyrsta manneskjan til þess að fara bæði út í geim og niður á dýpsta stað sjávar.
Önnur konan til þess að fara niður í Challenger-djúpið er hin breska-bandaríska Vanessa O'Brien sem einnig fór með Vescovo árið 2020. Með ferðinni niður í Challenger-djúpið varð hún fyrst kvenna til að koma á bæði hæsta og lægsta stað jarðar en áður hafði hún, rétt eins og Vescovo, lokið við áðurnefnt Explorers grand slam.
Loks má nefna Bandaríkjamanninn Richard Garriott sem fór ásamt Vescovo niður í Challenger-djúpið árið 2021. Með ferðinni varð hann fyrsti karlkyns geimfarinn til þess að fara niður á mesta dýpi hafsins og fyrstur allra til þess að hafa farið út í geim, í Challenger-djúpið og á báða póla jarðar.
Heimildir og myndir:
Loranger, S., D. Barclay & M. Buckingham. (2021). Implosion in the Challenger Deep: Echo sounding with the shock wave. Oceanography 34(2):156–165, https://doi.org/10.5670/oceanog.2021.201
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hversu djúpt niður á hafsbotn hafa menn farið?“ Vísindavefurinn, 21. júlí 2025, sótt 21. júlí 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=81891.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2025, 21. júlí). Hversu djúpt niður á hafsbotn hafa menn farið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81891
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hversu djúpt niður á hafsbotn hafa menn farið?“ Vísindavefurinn. 21. júl. 2025. Vefsíða. 21. júl. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81891>.