Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig myndast djúprennur?

Jarðskorpan skiptist í fleka sem rekur um jarðarkringluna. Þar sem flekana rekur sundur myndast úthafshryggir, þar sem þá rekur saman myndast sökkbelti sem einkennist af djúprennu eða djúpál hafsbotnsmegin en af fellingafjöllum eða eyjabogum landmegin. Djúpálar eru dýpsti hluti hafsbotnsins.

Hinn stinni hafsbotnsfleki er tvískiptur; yst er um 7 km þykk basaltskorpa sem storknað hefur úr basískri bergbráð. Undir henni er lag úr kristölluðu möttulefni sem þykknar með aldri, nefnilega fjarlægð frá myndunarhrygg flekans, eftir því sem bergið kólnar. Hiti í jörðinni vex með dýpi. Undir hinum tvískipta fleka, sem skjálftafræðingar nefna stinnhvolf, er deighvolfið, þar sem möttulefnið er svo nálægt bræðslumarki sínu að það er tiltölulega mjúkt.

1. mynd. Djúprennur eða djúpálar myndast þar sem tveir flekar mætast og annar treðst undir hinn.

Eðlisþyngd bergs fer eftir efnasamsetningu þess, hita og þrýstingi. Á 3. mynd hér að neðan er gert ráð fyrir að eðlisþyngd kaldrar basaltskorpu sé 3,0 g/cm3, stinns (kalds) möttulefnis 3,3 g/cm3 en deigs (heits) möttulefnis 3,25 g/cm3. Hinir ýmsu hlutar jarðar leitast við að vera í flotjafnvægi; þannig „flýtur“ létt skorpa ofan á þyngri möttli, sem aftur umlykur enn þá þyngri kjarna jarðarinnar. Vegna efnasamsetningar sinnar er meginlandsskorpa ævinlega léttari en möttullinn sem hún flýtur á, en öðru máli gildir um hafsbotnsskorpuna – og þess vegna myndast djúpálar.

Hin basaltíska úthafsskorpa verður til úr glóandi bergbráð á rekhryggjum og jafnframt því að hana rekur frá hryggnum kólnar hún. Utan heitra reita er basaltskorpan um 7 km þykk, og undir hryggnum tekur við heitt möttulefni (nærri bræðslumarki sínu) á 7 km dýpi. Með tímanum kólnar möttulefnið vegna varmaleiðni til yfirborðsins og „stinningarflöturinn“ færist neðar – stinnhvelið þykknar og sekkur jafnframt dýpra niður í deighvelið. (Eðlisþyngdarmunur kalds og heits möttulefnis er 3,3 g/cm3 - 3,25 g/cm3 = 0,05 g/cm3) Mynd 2 sýnir hvernig hafsdýpi vex (hafsbotninn sekkur) með aldri, eðlisþyngd þess eykst.

2. mynd. Hafdýpi vex reglulega með aldri úthafsfleka.

3. mynd. Þykknun stinnhvels með aldri.

Mynd 3 sýnir hvernig stinnhvelið þykknar með aldri uns það verður eðlisþyngra en deighvelið og sekkur niður í möttulinn: Í rammanum lengst til hægri er basaltskorpan 6% af þykkt flekans en kalt möttulefni 94%. Þá er eðlisþyngd stinnhvolfsins 3,28 g/cm3 (3,0 g/cm3 $\cdot$ 0,06 + 3,3 g/cm3 $\cdot$ 0,94 = 3,28 g/cm3), nefnilega þyngri en deighvolfið, og sekkur því. Þannig myndast djúpálar.

Myndir:

Útgáfudagur

5.4.2013

Spyrjandi

Eirikur Guðberg Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndast djúprennur?“ Vísindavefurinn, 5. apríl 2013. Sótt 21. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=61738.

Sigurður Steinþórsson. (2013, 5. apríl). Hvernig myndast djúprennur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61738

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndast djúprennur?“ Vísindavefurinn. 5. apr. 2013. Vefsíða. 21. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61738>.

Chicago | APA | MLA

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Elsa Eiríksdóttir

1975

Elsa Eiríksdóttir er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúa að því hvernig fólk lærir verklega kunnáttu, hvernig yfirfærsla þekkingar og færni á sér stað og hvernig uppbygging náms og framsetning námsefnis getur haft þar áhrif.