Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvaða maurategundir hafa fundist hér á landi en ekki náð fótfestu?

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson

Tæplega 20 tegundir maura hafa fundist hér á landi. Vísbendingar eru um að fjórar þeirra hafi náð hér fótfestu; húsamaur, blökkumaur, faraómaur og draugamaur. Um þessar tegundir er fjallað í svari við spurningunni Hvaða maurar hafa náð fótfestu á Íslandi? Í þessu svari er sagt frá nokkrum tegundum sem hafa fundist hér á landi en ekki náð að festa sig í sessi.

Fundist hafa mörg bú maura af ættkvíslinni Camponotus sem mögulega mætti kalla smíðamaura eða smiðjumaura á íslensku. Þeir eru nefndir „carpenter ants“ á ensku. Vel mætti færa rök fyrir því að þeir hafi mögulega numið hér land fyrir síðustu aldamót. Þá fannst töluverður fjöldi búa en síðan ekki söguna meir. Þessir maurar eru þekktir um heim allan fyrir að byggja bú úr timbri. Maurar ættkvíslarinnar finnast í flestum skógum heims þar sem þeir byggja gjarnan bú í föllnum trjádrumbum. Sú flökkusaga gengur að Camponotus-maurar geti étið við, en það á ekki við rök að styðjast. Hins vegar hafa þeir mjög sterka kjálka sem þeir nota meðal annars til þess að naga sig í gegnum timbur. Þeir geta einnig byggt bú inni í húsum og húsgögnum. Þannig geta þeir valdið töluverðu tjóni, líkt og þekkist hjá termítum.

Háhöfðamaurar (Pheidole) er mjög fjölbreytt ættkvísl og inniheldur rúmlega 1000 tegundir. Vinnumaurar Pheidole skiptast í tvær gerðir eða stéttir (aðal: stærri og auka: minni). Einkennandi fyrir ættkvíslina eru stór höfuð aðalvinnumauranna sem sjást á myndinni hér fyrir neðan. Háhöfðamaurar eru sérstakir að því leyti að þeir mynda sambú. Slík bú eru eiginlega hæsta stig samvinnu meðal maura. Í venjulegum búum vinna ættingjar saman, í ofurbúum vinna allir maurar saman sem eru erfðafræðilega skyldir, en í sambúum vinna allir meðlimir sömu tegundar saman. Sambú geta því náð gríðarlegri stærð og jafnvel spannað hundruði kílómetra. Í ýktasta tilfelli gæti ein slík tegund myndað sambú sem spannaði heila heimsálfu og jafnvel útrýmt öllum öðrum maurategundum. Mjög ólíklegt er að þetta gæti nokkurn tímann gerst og allra síst á Íslandi þar sem þessir maurar geta aðeins lifað innandyra í upphituðum byggingum.

Háhöfðamaurar (Pheidole). Munurinn milli aðal- og aukavinnumaura er mikill.

Valentínusarmaurar (Crematogaster) draga nafn sitt af einkennandi hjartalaga afturbol sínum. Ef þeim er ógnað geta maurarnir lyft afturbolnum yfir höfuð sitt líkt og sporðdrekar. Valentínusarmaurar bú yfirleitt í skógum þar sem þeir geta byggt bú á trjám. Maurarnir hafa þróaða veiðitækni en fara sjaldan einir á veiðar. Ef mat vantar í búið hópast maurarnir saman í veiðihópa sem leita saman að bráð. Ef bráð finnst seyta maurarnir ferómónum sem kalla enn fleiri maura á svæðið og saman bera þeir bráðina til baka í búið, jafnvel lóðrétt upp trjástofna.

Fínbúksmaurar (Leptothorax sp.) hafa mjög sérkennilegt skipulag á búum sínum. Töluvert er um það að maurabú hafi margar drottningar en yfirleitt gerist þetta þegar nokkrar drottningar stofna bú saman. Leptothorax-mauradrottningar stofna hins vegar alltaf bú einar en taka stundum að sér aðrar drottningar, sem þræla. Drottningarnar innan búsins eru stöðugt í harðri samkeppni. Algengt er að drottningarnar éti egg hver annarrar til þess að halda hlutfalli sinna eigin afkvæma hærra en hlutfalli „andstæðinga“ sinna. Þræladrottningarnar þurfa ekki endilega að tilheyra sömu tegund og hafa sumar tegundir hreinlega sérhæfst til þess að verða þrælar annarra tegunda. Sumar þessara tegunda mynda aldrei vinnumaura og þurfa því að treysta á vinnumaura þrælahaldaranna til þess að gefa þeim næringu og annast egg sín.

Þetta eru aðeins nokkrar þeirra tegunda sem fundist hafa á Íslandi og gætu þær vart verið ólíkari. Allir hafa þessir maurar komið hingað frá útlöndum á síðustu árum með aðstoð mannfólks. Engin þessara tegunda telst vera ágeng hér á landi, en hægt er að lesa meira um ágengar tegundir á Vísindavefnum í svari við spurningunni Hvað eru ágengar framandi dýrategundir?

Þakkir:

Sérstakar þakkir fá Erling Ólafsson og Matthías S. Alfreðsson fyrir að veita árið 2020 aðgang að gögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands um maura hérlendis.

Heimildir og mynd:
  • Erling Ólafsson. (2018). Mauraætt (Formicidae). Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 28.6.2021).
  • Hedges, S. A. (2010). Field Guide for the Management of Structure-Infesting Ants. G.I.E Inc.
  • Klotz, J., Hansen, L., Pospischil, R. & Rust, M. (2008). Urban Ants of North America and Europe. Identification, Biology and Management. Cornell University Press.
  • Seifert, B. (2018). The Ants of Central and North Europe. Lutra.
  • RÚV (2014, 31. október). Faraó - maurar finnast á Landspítalanum. (Sótt 28.6.2021).
  • Mynd: Marco Mancini.


Áhugasömum lesendum má benda á síðuna Maurar á Íslandi þar sem finna má frekari fróðleik um maura. Einnig má benda á stutt myndskeið, Búa maurar undir Reykjavík? þar sem tveir höfundar þessa svars fjalla maura á Íslandi.

Höfundar

Marco Mancini

meistaranemi í líffræði við HÍ

Andreas Guðmundsson

BS-nemi í líffræði við HÍ

Arnar Pálsson

erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við HÍ

Útgáfudagur

12.7.2021

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. „Hvaða maurategundir hafa fundist hér á landi en ekki náð fótfestu?“ Vísindavefurinn, 12. júlí 2021. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82075.

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. (2021, 12. júlí). Hvaða maurategundir hafa fundist hér á landi en ekki náð fótfestu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82075

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. „Hvaða maurategundir hafa fundist hér á landi en ekki náð fótfestu?“ Vísindavefurinn. 12. júl. 2021. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82075>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða maurategundir hafa fundist hér á landi en ekki náð fótfestu?
Tæplega 20 tegundir maura hafa fundist hér á landi. Vísbendingar eru um að fjórar þeirra hafi náð hér fótfestu; húsamaur, blökkumaur, faraómaur og draugamaur. Um þessar tegundir er fjallað í svari við spurningunni Hvaða maurar hafa náð fótfestu á Íslandi? Í þessu svari er sagt frá nokkrum tegundum sem hafa fundist hér á landi en ekki náð að festa sig í sessi.

Fundist hafa mörg bú maura af ættkvíslinni Camponotus sem mögulega mætti kalla smíðamaura eða smiðjumaura á íslensku. Þeir eru nefndir „carpenter ants“ á ensku. Vel mætti færa rök fyrir því að þeir hafi mögulega numið hér land fyrir síðustu aldamót. Þá fannst töluverður fjöldi búa en síðan ekki söguna meir. Þessir maurar eru þekktir um heim allan fyrir að byggja bú úr timbri. Maurar ættkvíslarinnar finnast í flestum skógum heims þar sem þeir byggja gjarnan bú í föllnum trjádrumbum. Sú flökkusaga gengur að Camponotus-maurar geti étið við, en það á ekki við rök að styðjast. Hins vegar hafa þeir mjög sterka kjálka sem þeir nota meðal annars til þess að naga sig í gegnum timbur. Þeir geta einnig byggt bú inni í húsum og húsgögnum. Þannig geta þeir valdið töluverðu tjóni, líkt og þekkist hjá termítum.

Háhöfðamaurar (Pheidole) er mjög fjölbreytt ættkvísl og inniheldur rúmlega 1000 tegundir. Vinnumaurar Pheidole skiptast í tvær gerðir eða stéttir (aðal: stærri og auka: minni). Einkennandi fyrir ættkvíslina eru stór höfuð aðalvinnumauranna sem sjást á myndinni hér fyrir neðan. Háhöfðamaurar eru sérstakir að því leyti að þeir mynda sambú. Slík bú eru eiginlega hæsta stig samvinnu meðal maura. Í venjulegum búum vinna ættingjar saman, í ofurbúum vinna allir maurar saman sem eru erfðafræðilega skyldir, en í sambúum vinna allir meðlimir sömu tegundar saman. Sambú geta því náð gríðarlegri stærð og jafnvel spannað hundruði kílómetra. Í ýktasta tilfelli gæti ein slík tegund myndað sambú sem spannaði heila heimsálfu og jafnvel útrýmt öllum öðrum maurategundum. Mjög ólíklegt er að þetta gæti nokkurn tímann gerst og allra síst á Íslandi þar sem þessir maurar geta aðeins lifað innandyra í upphituðum byggingum.

Háhöfðamaurar (Pheidole). Munurinn milli aðal- og aukavinnumaura er mikill.

Valentínusarmaurar (Crematogaster) draga nafn sitt af einkennandi hjartalaga afturbol sínum. Ef þeim er ógnað geta maurarnir lyft afturbolnum yfir höfuð sitt líkt og sporðdrekar. Valentínusarmaurar bú yfirleitt í skógum þar sem þeir geta byggt bú á trjám. Maurarnir hafa þróaða veiðitækni en fara sjaldan einir á veiðar. Ef mat vantar í búið hópast maurarnir saman í veiðihópa sem leita saman að bráð. Ef bráð finnst seyta maurarnir ferómónum sem kalla enn fleiri maura á svæðið og saman bera þeir bráðina til baka í búið, jafnvel lóðrétt upp trjástofna.

Fínbúksmaurar (Leptothorax sp.) hafa mjög sérkennilegt skipulag á búum sínum. Töluvert er um það að maurabú hafi margar drottningar en yfirleitt gerist þetta þegar nokkrar drottningar stofna bú saman. Leptothorax-mauradrottningar stofna hins vegar alltaf bú einar en taka stundum að sér aðrar drottningar, sem þræla. Drottningarnar innan búsins eru stöðugt í harðri samkeppni. Algengt er að drottningarnar éti egg hver annarrar til þess að halda hlutfalli sinna eigin afkvæma hærra en hlutfalli „andstæðinga“ sinna. Þræladrottningarnar þurfa ekki endilega að tilheyra sömu tegund og hafa sumar tegundir hreinlega sérhæfst til þess að verða þrælar annarra tegunda. Sumar þessara tegunda mynda aldrei vinnumaura og þurfa því að treysta á vinnumaura þrælahaldaranna til þess að gefa þeim næringu og annast egg sín.

Þetta eru aðeins nokkrar þeirra tegunda sem fundist hafa á Íslandi og gætu þær vart verið ólíkari. Allir hafa þessir maurar komið hingað frá útlöndum á síðustu árum með aðstoð mannfólks. Engin þessara tegunda telst vera ágeng hér á landi, en hægt er að lesa meira um ágengar tegundir á Vísindavefnum í svari við spurningunni Hvað eru ágengar framandi dýrategundir?

Þakkir:

Sérstakar þakkir fá Erling Ólafsson og Matthías S. Alfreðsson fyrir að veita árið 2020 aðgang að gögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands um maura hérlendis.

Heimildir og mynd:
  • Erling Ólafsson. (2018). Mauraætt (Formicidae). Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 28.6.2021).
  • Hedges, S. A. (2010). Field Guide for the Management of Structure-Infesting Ants. G.I.E Inc.
  • Klotz, J., Hansen, L., Pospischil, R. & Rust, M. (2008). Urban Ants of North America and Europe. Identification, Biology and Management. Cornell University Press.
  • Seifert, B. (2018). The Ants of Central and North Europe. Lutra.
  • RÚV (2014, 31. október). Faraó - maurar finnast á Landspítalanum. (Sótt 28.6.2021).
  • Mynd: Marco Mancini.


Áhugasömum lesendum má benda á síðuna Maurar á Íslandi þar sem finna má frekari fróðleik um maura. Einnig má benda á stutt myndskeið, Búa maurar undir Reykjavík? þar sem tveir höfundar þessa svars fjalla maura á Íslandi....