Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða maurar hafa náð fótfestu á Íslandi?

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson

Eins og fram kemur í svari sömu höfunda við spurningunni Hafa maurar numið land á Íslandi? hafa fundist tæplega 20 tegundir maura hér á landi. Vísbendingar eru um að fjórar þeirra hafi náð hér fótfestu: húsamaur, blökkumaur, faraómaur og draugamaur.

Húsamaur (Hypoponera punctatissima) er ættaður frá svæðum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku. Í Evrópu finnast húsamaurar aðallega í upphituðum húsum og í moltuhaugum. Innandyra byggja maurarnir oft bú undir gólfum og við lagnir, þar sem hitastig er stöðugt og mikill raki. Bú húsamaura hafa yfirleitt margar drottningar og samanstanda af nokkrum aðskildum hreiðrum, sem vinna saman. Vinnumaurarnir eru 2-3 mm langir og gulbrúnir að lit. Drottningarnar eru 2,7-3 mm langar, dekkri að lit og oft með vængi stóran hluta lífskeiðsins. Vinnumaurarnir yfirgefa búin sjaldan og sjást því næstum aldrei. Vængjaðar drottningar yfirgefa búin og fljúga af stað (sverma) og birtast þá oft margar á stuttum tíma. Húsamaurarnir hafa lítinn brodd á afturbolnum sem þeir nota við veiðar. Þeir nærast aðallega á litlum hryggleysingjum svo sem silfurskottum og mordýrum.

Mynd 1. Húsamaurar (Hypoponera punctatissima) - vinnumaur (vinstri) og drottning skiptast á næringu.

Blökkumaur (Lasius niger) kemur upprunalega frá Evrasíu en hefur síðan breiðst út um alla Evrópu, til Asíu, Norður-Ameríku og Norður-Afríku. Blökkumaurar þola vel fjölbreytt loftslag og hafa aðlagast lífi í þéttbýli vel. Hérlendis mynda þeir oft bú undir hellum og steinum sem halda vel í hita, eða í jörð við grunna upphitaðra bygginga. Vinnumaurar þeirra eru dökkir að lit og um 3-5 mm að lengd en drottningarnar ná um 1 cm að lengd. Hvert bú hefur einungis eina drottningu en erlendis er talið að hvert bú geti haft um 60.000 vinnumaura. Blökkumaurar geyma gjarnan púpur og egg í litlum „systurbúum“ þar sem umhverfi er heppilegra, til dæmis þar sem rakastig er hærra. Blökkumaurar yrkja stundum blaðlýs í búum sínum. Þeir verja blaðlýsnar frá rándýrum og fá í staðinn sykurríkan úrgang blaðlúsanna.

Mynd 2. Blökkumaurar (Lasius niger). Vinnumaurar nærast á dropa sykurvatns.

Talið er að faraómaurar (Monomorium pharaonis) komi upphaflega úr frumskógum Suður-Asíu en hafi borist til Evrópu á fyrri hluta 19. aldar. Þeir geta myndað bú í flestum upphituðum byggingum. Faraómaurar grafa ekki bú sín en setjast þess í stað að í rifum og sprungum, til dæmis bak við innstungur, undir gluggakistum eða í veggjum. Vinnumaurarnir eru gulbrúnir að lit og um 2 mm að lengd. Drottningarnar eru 4 mm að lengd og í hverju búi geta verið margar drottningar. Faraómaurar mynda stundum gríðarlega stór bú sem geta haft allt að 2000 drottningar og mörg þúsund vinnumaura. Sérstaklega varhugavert er ef faraómaurar hreiðra um sig á spítölum, þar sem þeir geta borið sýkla sem eru hættulegir sjúklingum, til dæmis bakteríur eins og salmonellu og streptókokka. Þeir fundust einmitt á Landspítalanum árið 2014 en var snarlega útrýmt.

Mynd 3. Faraómaur (Monomorium pharaonis). Vinnumaur nærist á leifum bakkelsis.

Fjórða tegundin sem hefur náð fótfestu hérlendis er draugamaur (Tapinoma melanocephalum). Draugamaurar eru það útbreiddir í heiminum að ekki er vitað hvaðan þeir komu upphaflega. Draugamaurar þarfnast mikils raka í búum sínum sem þeir mynda oft í sprungum, en hérlendis undir blómapottum og undir gluggakistum. Vinnumaurarnir eru um 1,3 - 1,5 mm að lengd og þar með minnstu maurar sem fundist hafa á Íslandi. Nafn sitt draga þeir af útlitinu; höfuð þeirra er dökkt en afturbolurinn nær gegnsær. Bú draugamaura hafa margar drottningar og oft þúsundir vinnumaura. Þessir maurar nærast helst á sykraðri fæðu (eins og leifum gosdrykkja) en stunda einnig veiðar á öðrum skordýrum.

Mynd 4. Draugamaurar (Tapinoma melanocephalum). Stórt bú undir blómapotti í blokkaríbúð.

Eins og áður sagði hafa fundist hér á landi fleiri tegundir en þessar fjórar og er fjallað um nokkrar þeirra í svari sömu höfunda við spurningunni Hvaða maurategundir hafa fundist hér á landi en ekki náð fótfestu?

Þakkir:

Sérstakar þakkir fá Erling Ólafsson og Matthías S. Alfreðsson fyrir að veita árið 2020 aðgang að gögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands um maura hérlendis.

Heimildir og myndir:
  • Erling Ólafsson. (2018). Mauraætt (Formicidae). Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 28.6.2021).
  • Hedges, S. A. (2010). Field Guide for the Management of Structure-Infesting Ants. G.I.E Inc.
  • Klotz, J., Hansen, L., Pospischil, R. & Rust, M. (2008). Urban Ants of North America and Europe. Identification, Biology and Management. Cornell University Press.
  • Seifert, B. (2018). The Ants of Central and North Europe. Lutra.
  • RÚV (2014, 31. október). Faraó - maurar finnast á Landspítalanum. (Sótt 28.6.2021).
  • Allar myndir: Marco Mancini.

Hér er einnig svarað spurningunni:
  • Hvað getið þið sagt mér um húsamaura?


Áhugasömum lesendum er bent á síðuna Maurar á Íslandi þar sem finna má frekari fróðleik um maura. Einnig má benda á stutt myndskeið, Búa maurar undir Reykjavík? þar sem tveir höfundar þessa svars fjalla maura á Íslandi.

Höfundar

Marco Mancini

meistaranemi í líffræði við HÍ

Andreas Guðmundsson

BS-nemi í líffræði við HÍ

Arnar Pálsson

erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við HÍ

Útgáfudagur

9.7.2021

Síðast uppfært

12.7.2021

Spyrjandi

Hrafnkell Jónsson, Snorri Björn Magnússon, Linda Sigurðar, Arnar Þórðarson

Tilvísun

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. „Hvaða maurar hafa náð fótfestu á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 9. júlí 2021, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=47708.

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. (2021, 9. júlí). Hvaða maurar hafa náð fótfestu á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=47708

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. „Hvaða maurar hafa náð fótfestu á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 9. júl. 2021. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=47708>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða maurar hafa náð fótfestu á Íslandi?
Eins og fram kemur í svari sömu höfunda við spurningunni Hafa maurar numið land á Íslandi? hafa fundist tæplega 20 tegundir maura hér á landi. Vísbendingar eru um að fjórar þeirra hafi náð hér fótfestu: húsamaur, blökkumaur, faraómaur og draugamaur.

Húsamaur (Hypoponera punctatissima) er ættaður frá svæðum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku. Í Evrópu finnast húsamaurar aðallega í upphituðum húsum og í moltuhaugum. Innandyra byggja maurarnir oft bú undir gólfum og við lagnir, þar sem hitastig er stöðugt og mikill raki. Bú húsamaura hafa yfirleitt margar drottningar og samanstanda af nokkrum aðskildum hreiðrum, sem vinna saman. Vinnumaurarnir eru 2-3 mm langir og gulbrúnir að lit. Drottningarnar eru 2,7-3 mm langar, dekkri að lit og oft með vængi stóran hluta lífskeiðsins. Vinnumaurarnir yfirgefa búin sjaldan og sjást því næstum aldrei. Vængjaðar drottningar yfirgefa búin og fljúga af stað (sverma) og birtast þá oft margar á stuttum tíma. Húsamaurarnir hafa lítinn brodd á afturbolnum sem þeir nota við veiðar. Þeir nærast aðallega á litlum hryggleysingjum svo sem silfurskottum og mordýrum.

Mynd 1. Húsamaurar (Hypoponera punctatissima) - vinnumaur (vinstri) og drottning skiptast á næringu.

Blökkumaur (Lasius niger) kemur upprunalega frá Evrasíu en hefur síðan breiðst út um alla Evrópu, til Asíu, Norður-Ameríku og Norður-Afríku. Blökkumaurar þola vel fjölbreytt loftslag og hafa aðlagast lífi í þéttbýli vel. Hérlendis mynda þeir oft bú undir hellum og steinum sem halda vel í hita, eða í jörð við grunna upphitaðra bygginga. Vinnumaurar þeirra eru dökkir að lit og um 3-5 mm að lengd en drottningarnar ná um 1 cm að lengd. Hvert bú hefur einungis eina drottningu en erlendis er talið að hvert bú geti haft um 60.000 vinnumaura. Blökkumaurar geyma gjarnan púpur og egg í litlum „systurbúum“ þar sem umhverfi er heppilegra, til dæmis þar sem rakastig er hærra. Blökkumaurar yrkja stundum blaðlýs í búum sínum. Þeir verja blaðlýsnar frá rándýrum og fá í staðinn sykurríkan úrgang blaðlúsanna.

Mynd 2. Blökkumaurar (Lasius niger). Vinnumaurar nærast á dropa sykurvatns.

Talið er að faraómaurar (Monomorium pharaonis) komi upphaflega úr frumskógum Suður-Asíu en hafi borist til Evrópu á fyrri hluta 19. aldar. Þeir geta myndað bú í flestum upphituðum byggingum. Faraómaurar grafa ekki bú sín en setjast þess í stað að í rifum og sprungum, til dæmis bak við innstungur, undir gluggakistum eða í veggjum. Vinnumaurarnir eru gulbrúnir að lit og um 2 mm að lengd. Drottningarnar eru 4 mm að lengd og í hverju búi geta verið margar drottningar. Faraómaurar mynda stundum gríðarlega stór bú sem geta haft allt að 2000 drottningar og mörg þúsund vinnumaura. Sérstaklega varhugavert er ef faraómaurar hreiðra um sig á spítölum, þar sem þeir geta borið sýkla sem eru hættulegir sjúklingum, til dæmis bakteríur eins og salmonellu og streptókokka. Þeir fundust einmitt á Landspítalanum árið 2014 en var snarlega útrýmt.

Mynd 3. Faraómaur (Monomorium pharaonis). Vinnumaur nærist á leifum bakkelsis.

Fjórða tegundin sem hefur náð fótfestu hérlendis er draugamaur (Tapinoma melanocephalum). Draugamaurar eru það útbreiddir í heiminum að ekki er vitað hvaðan þeir komu upphaflega. Draugamaurar þarfnast mikils raka í búum sínum sem þeir mynda oft í sprungum, en hérlendis undir blómapottum og undir gluggakistum. Vinnumaurarnir eru um 1,3 - 1,5 mm að lengd og þar með minnstu maurar sem fundist hafa á Íslandi. Nafn sitt draga þeir af útlitinu; höfuð þeirra er dökkt en afturbolurinn nær gegnsær. Bú draugamaura hafa margar drottningar og oft þúsundir vinnumaura. Þessir maurar nærast helst á sykraðri fæðu (eins og leifum gosdrykkja) en stunda einnig veiðar á öðrum skordýrum.

Mynd 4. Draugamaurar (Tapinoma melanocephalum). Stórt bú undir blómapotti í blokkaríbúð.

Eins og áður sagði hafa fundist hér á landi fleiri tegundir en þessar fjórar og er fjallað um nokkrar þeirra í svari sömu höfunda við spurningunni Hvaða maurategundir hafa fundist hér á landi en ekki náð fótfestu?

Þakkir:

Sérstakar þakkir fá Erling Ólafsson og Matthías S. Alfreðsson fyrir að veita árið 2020 aðgang að gögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands um maura hérlendis.

Heimildir og myndir:
  • Erling Ólafsson. (2018). Mauraætt (Formicidae). Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 28.6.2021).
  • Hedges, S. A. (2010). Field Guide for the Management of Structure-Infesting Ants. G.I.E Inc.
  • Klotz, J., Hansen, L., Pospischil, R. & Rust, M. (2008). Urban Ants of North America and Europe. Identification, Biology and Management. Cornell University Press.
  • Seifert, B. (2018). The Ants of Central and North Europe. Lutra.
  • RÚV (2014, 31. október). Faraó - maurar finnast á Landspítalanum. (Sótt 28.6.2021).
  • Allar myndir: Marco Mancini.

Hér er einnig svarað spurningunni:
  • Hvað getið þið sagt mér um húsamaura?


Áhugasömum lesendum er bent á síðuna Maurar á Íslandi þar sem finna má frekari fróðleik um maura. Einnig má benda á stutt myndskeið, Búa maurar undir Reykjavík? þar sem tveir höfundar þessa svars fjalla maura á Íslandi....