Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:59 • Sest 13:45 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:31 í Reykjavík

Hvers konar planta er íslenskur einir?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Get ég fengið helstu upplýsingar um íslenskan eini (plöntuna)?

Einir (Juniperus communis) er eina upprunalega, innlenda barrtréð. Hann er af sýprusætt, einnig kölluð grátviðarætt (Cupressaceae). Talið að um 50-60 einitegundir séu í heiminum öllum sem skiptast svo niður í fleiri afbrigði og undirtegundir.

Einir er runni með trékenndan, oftast jarðlægan stofn. Börkurinn er brúnn og þunnur og blöðin eru sígræn og nállaga. Nálarnar eru 8-16 mm á lengd og 1-2 mm á breidd, oddhvassar og stinga töluvert. Blómin eru einkynja í sérbýli, það merkir að aðeins annað kynið finnst á hverri plöntu. Einungis kvenkyns plönturnar þroska ber en til þess að svo geti orðið þarf karlkyns planta að vera í nágrenninu þannig að vindurinn geti borið frjó á milli á vorin. Eftir æxlun tekur þrjú ár fyrir fræin að fullþroskast. Á fyrsta ári myndast kjötkennt aldin, um 8 mm í þvermál og rúmur sentimetri á lengd. Á öðru ári hafa myndast græn ber en á þriðja ári ná berin fullum þroska og eru dökkblá á lit.

Einiber ná fullum þroska á þremur árum.

Íslenskum eini er skipt í tvær deilitegundir. Sú sem er algengari og útbreiddari kallast J. communis ssp. nana og er smávaxinn og jarðlægur runni með stuttar, gildvaxnar og bognar nálar. Hin er J. communis ssp. communis sem er upprétt tré með hlutfallslega lengri, grennri og beinni nálar en deilitegundin nana. Þessi tegund vex aðallega inn til sveita á Vestur- og Norðurlandi. Til viðbótar eru ræktaðar allmargar tegundir hér á landi.

Einir vex gjarnan í kjarri og mólendi en líka í grýttu landi, svo sem hraunum og melum. Hann finnst nokkuð hátt til fjalla, oft upp í 600 m hæð en hefur hæst fundist í rúmlega 700 m hæð.

Einir hefur verið notaður á margvíslegan hátt, eins og lesa má í bókinni Flóra Íslands. Þar segir meðal annars:

… í Grasnytjum Björns Halldórssonar er langur kafli um þá trú sem menn höfðu á notkun hans [einis] til að lækna ótal marga kvilla. Hann var notaður við ýmsum öndunarfærasjúkdómum og berklum, brjóstsviða og magaverkjum, nýrnasjúkdómum, þursabiti og gigt svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir hafa staðfest bakteríudrepandi áhrif og hamlandi áhrif á vöxt krabbameins. Eins og flestöll barrtré myndar einir kvoðu með rokgjörnum olíum og er hægt að vinna þær úr nálunum, könglunum og viðnum. Þær hafa m.a. sveppadrepandi og bakteríudrepandi áhrif. Einir var mikið notaður af frumbyggjum Norður-Ameríku, m.a. gegn berklum, þvagfærasýkingum, nýrnameinum og hósta og til að bera á sár og sótthreinsa.

Einnig hafa einiber verið notuð sem krydd til dæmis á villibráð og í drykki eins og gin.

Einir vex víða í norðan- og vestanverðri Evrópu og til fjalla sunnar í álfunni. Hann er líka að finna í Norður-Ameríku og er algengur á Suður-Grænlandi. Út frá erfðafræðilegum samanburði á stofnum einis á norðurhveli er talið að íslenskir stofnar eigi sér ekki langa sögu og hafi borist hingað til lands frá Norður-Evrópu eftir ísöld og héðan áfram til Grænlands.

Heimildir:

Þetta svar er að mestu byggt á efni úr bókinni Flóra Íslands eftir Hörð Kristjánsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg sem út kom hjá Vöku Helgafelli 2018.

Aðrar heimildir:

  • Skógræktarfélag Eyfirðinga. (2021, 28. júlí). Einir. (Sótt 4.4.2022).
  • Jón Guðmundsson. (2002, 24. október). Einir. mbl.is. (Sótt 4.4.2022).
  • Hörður Kristinsson. (2007). Einir (Juniperus communis). Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 4.4.2022).

Mynd:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

6.4.2022

Spyrjandi

Heiðrún Jónsdóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvers konar planta er íslenskur einir?“ Vísindavefurinn, 6. apríl 2022. Sótt 11. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=82696.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2022, 6. apríl). Hvers konar planta er íslenskur einir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82696

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvers konar planta er íslenskur einir?“ Vísindavefurinn. 6. apr. 2022. Vefsíða. 11. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82696>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar planta er íslenskur einir?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Get ég fengið helstu upplýsingar um íslenskan eini (plöntuna)?

Einir (Juniperus communis) er eina upprunalega, innlenda barrtréð. Hann er af sýprusætt, einnig kölluð grátviðarætt (Cupressaceae). Talið að um 50-60 einitegundir séu í heiminum öllum sem skiptast svo niður í fleiri afbrigði og undirtegundir.

Einir er runni með trékenndan, oftast jarðlægan stofn. Börkurinn er brúnn og þunnur og blöðin eru sígræn og nállaga. Nálarnar eru 8-16 mm á lengd og 1-2 mm á breidd, oddhvassar og stinga töluvert. Blómin eru einkynja í sérbýli, það merkir að aðeins annað kynið finnst á hverri plöntu. Einungis kvenkyns plönturnar þroska ber en til þess að svo geti orðið þarf karlkyns planta að vera í nágrenninu þannig að vindurinn geti borið frjó á milli á vorin. Eftir æxlun tekur þrjú ár fyrir fræin að fullþroskast. Á fyrsta ári myndast kjötkennt aldin, um 8 mm í þvermál og rúmur sentimetri á lengd. Á öðru ári hafa myndast græn ber en á þriðja ári ná berin fullum þroska og eru dökkblá á lit.

Einiber ná fullum þroska á þremur árum.

Íslenskum eini er skipt í tvær deilitegundir. Sú sem er algengari og útbreiddari kallast J. communis ssp. nana og er smávaxinn og jarðlægur runni með stuttar, gildvaxnar og bognar nálar. Hin er J. communis ssp. communis sem er upprétt tré með hlutfallslega lengri, grennri og beinni nálar en deilitegundin nana. Þessi tegund vex aðallega inn til sveita á Vestur- og Norðurlandi. Til viðbótar eru ræktaðar allmargar tegundir hér á landi.

Einir vex gjarnan í kjarri og mólendi en líka í grýttu landi, svo sem hraunum og melum. Hann finnst nokkuð hátt til fjalla, oft upp í 600 m hæð en hefur hæst fundist í rúmlega 700 m hæð.

Einir hefur verið notaður á margvíslegan hátt, eins og lesa má í bókinni Flóra Íslands. Þar segir meðal annars:

… í Grasnytjum Björns Halldórssonar er langur kafli um þá trú sem menn höfðu á notkun hans [einis] til að lækna ótal marga kvilla. Hann var notaður við ýmsum öndunarfærasjúkdómum og berklum, brjóstsviða og magaverkjum, nýrnasjúkdómum, þursabiti og gigt svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir hafa staðfest bakteríudrepandi áhrif og hamlandi áhrif á vöxt krabbameins. Eins og flestöll barrtré myndar einir kvoðu með rokgjörnum olíum og er hægt að vinna þær úr nálunum, könglunum og viðnum. Þær hafa m.a. sveppadrepandi og bakteríudrepandi áhrif. Einir var mikið notaður af frumbyggjum Norður-Ameríku, m.a. gegn berklum, þvagfærasýkingum, nýrnameinum og hósta og til að bera á sár og sótthreinsa.

Einnig hafa einiber verið notuð sem krydd til dæmis á villibráð og í drykki eins og gin.

Einir vex víða í norðan- og vestanverðri Evrópu og til fjalla sunnar í álfunni. Hann er líka að finna í Norður-Ameríku og er algengur á Suður-Grænlandi. Út frá erfðafræðilegum samanburði á stofnum einis á norðurhveli er talið að íslenskir stofnar eigi sér ekki langa sögu og hafi borist hingað til lands frá Norður-Evrópu eftir ísöld og héðan áfram til Grænlands.

Heimildir:

Þetta svar er að mestu byggt á efni úr bókinni Flóra Íslands eftir Hörð Kristjánsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg sem út kom hjá Vöku Helgafelli 2018.

Aðrar heimildir:

  • Skógræktarfélag Eyfirðinga. (2021, 28. júlí). Einir. (Sótt 4.4.2022).
  • Jón Guðmundsson. (2002, 24. október). Einir. mbl.is. (Sótt 4.4.2022).
  • Hörður Kristinsson. (2007). Einir (Juniperus communis). Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 4.4.2022).

Mynd:...