Sólin Sólin Rís 08:51 • sest 18:32 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 09:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:10 • Síðdegis: 19:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:03 • Síðdegis: 13:25 í Reykjavík

Af hverju dó tasmaníutígurinn út?

Jón Már Halldórsson

Tasmaníutígurinn (Thylacinus cynocephalus), líka kallaður tasmaníuúlfur, var stærsta ránpokadýr nútímans. Heimkynni hans voru á Papúa Nýju-Gíneu og meginlandi Ástralíu auk eyjunnar Tasmaníu sem tegundin er kennd við.

Talið er að tasmaníutígurinn hafi verið horfinn af meginlandi Ástralíu fyrir um tvö þúsund árum. Lengi hefur verið álitið að hann hafi orðið undir í samkeppni við dingó-hundinn og það verið helsta ástæða þess að hann dó út í Ástralíu. Seinni tíma rannsóknir benda þó til að mögulega sé dingó-hundinum ekki einum um að kenna heldur hafi vaxandi fólksfjöldi á meginlandinu, samhliða bættri verk- og veiðitækni, einnig getað haft áhrif á afkomu tasmaníutígursins og ýtt undir að hann hvarf af sjónarsviðinu þar.

Tasmaníutígrar í dýragarðinum í Washington D.C. Mynd frá 1904.

Á Tasmaníu voru engir dingó-hundar til að keppa við tasmaníutígurinn og sambúðin við frumbyggja eyjunnar hafði ekki afgerandi áhrif á afkomu hans. Útdauða tegundarinnar á Tasmaníu má að stórum hluta rekja beint til athafna Evrópubúa sem settust þar að. Talið er að um það leyti sem Evrópubúar fóru að koma sér fyrir á Tasmaníu, í upphafi 19. aldar, hafi tasmaníutígrar verið um 5.000 en það breyttist hratt.

Evrópubúarnir lögðu meðal annars stund á landbúnað og þá sérstaklega sauðfjárrækt. Tasmaníutígurinn fékk fljótt á sig orð fyrir að leggjast á sauðfé og var mjög illa þokkaður fyrir vikið. Nú er reyndar talið að hann hafi ekki einn átt sök að máli heldur hafi hundar sem Evrópumenn fluttu með sér einnig lagst út og gerst dýrbítar. Örugglega hafa einhver lömb hafi lent í skolti tasmaníutígursins en hann var ekki sterkbyggður og veiddi helst minni dýr eins og fugla. Engu að síður fékk hann á sig illt orð sem leiddi til þess að farið var að greiða verðlaun fyrir hvert veitt dýr. Skýrslur sýna að á tímabilinu 1880-1909 var greitt fyrir tæplega 2.200 dýr, en talið er að miklu fleiri tasmaníutígrar hafi verið drepnir en krafist var verðlauna fyrir.

Þessar veiðar til að koma í veg fyrir árásir á búfénað hafa lengi verið álitnar helsta orsök þess að tegundin dó út. Fleiri þættir en veiði eru þó taldir koma við sögu varðandi hnignun og útdauða tegundarinnar, til dæmis samkeppni við villta hunda sem Evrópubúar höfðu með sér, hnignun á búsvæðum og smitsjúkdómar.

Þegar um aldamótin 1900 var farið að óttast um afkomu tegundarinnar en tilraunir til að vernda stofninn mistókust. Eftir því sem best er vitað var villtur tasmaníutígur síðast felldur árið 1930. Síðasti tasmaníutígurinn í haldi manna, oft kallaður Benjamin, dó í september 1936 í Hobart-dýragarðinum á Tasmaníu, líklega vegna vanrækslu. Þetta gerðist tæpum tveimur mánuðum eftir að tasmaníutígurinn hafði verið alfriðaður.

Langt fram eftir 20. öldinni töldu ýmsir sig hafa séð villta tasmaníutígra eða ummerki eftir þá og gerðir voru út leiðangrar til þess að reyna að finna einstaklinga á lífi. Á 9. áratug aldarinnar, þegar engar haldbærar sannanir höfðu komið fram um tilvist tasmaníutígra, var tegundin formlega skilgreind sem útdauð.

Heimildir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

20.4.2022

Spyrjandi

Sigtryggur Einar Sævarsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Af hverju dó tasmaníutígurinn út?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2022. Sótt 25. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82928.

Jón Már Halldórsson. (2022, 20. apríl). Af hverju dó tasmaníutígurinn út? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82928

Jón Már Halldórsson. „Af hverju dó tasmaníutígurinn út?“ Vísindavefurinn. 20. apr. 2022. Vefsíða. 25. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82928>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju dó tasmaníutígurinn út?
Tasmaníutígurinn (Thylacinus cynocephalus), líka kallaður tasmaníuúlfur, var stærsta ránpokadýr nútímans. Heimkynni hans voru á Papúa Nýju-Gíneu og meginlandi Ástralíu auk eyjunnar Tasmaníu sem tegundin er kennd við.

Talið er að tasmaníutígurinn hafi verið horfinn af meginlandi Ástralíu fyrir um tvö þúsund árum. Lengi hefur verið álitið að hann hafi orðið undir í samkeppni við dingó-hundinn og það verið helsta ástæða þess að hann dó út í Ástralíu. Seinni tíma rannsóknir benda þó til að mögulega sé dingó-hundinum ekki einum um að kenna heldur hafi vaxandi fólksfjöldi á meginlandinu, samhliða bættri verk- og veiðitækni, einnig getað haft áhrif á afkomu tasmaníutígursins og ýtt undir að hann hvarf af sjónarsviðinu þar.

Tasmaníutígrar í dýragarðinum í Washington D.C. Mynd frá 1904.

Á Tasmaníu voru engir dingó-hundar til að keppa við tasmaníutígurinn og sambúðin við frumbyggja eyjunnar hafði ekki afgerandi áhrif á afkomu hans. Útdauða tegundarinnar á Tasmaníu má að stórum hluta rekja beint til athafna Evrópubúa sem settust þar að. Talið er að um það leyti sem Evrópubúar fóru að koma sér fyrir á Tasmaníu, í upphafi 19. aldar, hafi tasmaníutígrar verið um 5.000 en það breyttist hratt.

Evrópubúarnir lögðu meðal annars stund á landbúnað og þá sérstaklega sauðfjárrækt. Tasmaníutígurinn fékk fljótt á sig orð fyrir að leggjast á sauðfé og var mjög illa þokkaður fyrir vikið. Nú er reyndar talið að hann hafi ekki einn átt sök að máli heldur hafi hundar sem Evrópumenn fluttu með sér einnig lagst út og gerst dýrbítar. Örugglega hafa einhver lömb hafi lent í skolti tasmaníutígursins en hann var ekki sterkbyggður og veiddi helst minni dýr eins og fugla. Engu að síður fékk hann á sig illt orð sem leiddi til þess að farið var að greiða verðlaun fyrir hvert veitt dýr. Skýrslur sýna að á tímabilinu 1880-1909 var greitt fyrir tæplega 2.200 dýr, en talið er að miklu fleiri tasmaníutígrar hafi verið drepnir en krafist var verðlauna fyrir.

Þessar veiðar til að koma í veg fyrir árásir á búfénað hafa lengi verið álitnar helsta orsök þess að tegundin dó út. Fleiri þættir en veiði eru þó taldir koma við sögu varðandi hnignun og útdauða tegundarinnar, til dæmis samkeppni við villta hunda sem Evrópubúar höfðu með sér, hnignun á búsvæðum og smitsjúkdómar.

Þegar um aldamótin 1900 var farið að óttast um afkomu tegundarinnar en tilraunir til að vernda stofninn mistókust. Eftir því sem best er vitað var villtur tasmaníutígur síðast felldur árið 1930. Síðasti tasmaníutígurinn í haldi manna, oft kallaður Benjamin, dó í september 1936 í Hobart-dýragarðinum á Tasmaníu, líklega vegna vanrækslu. Þetta gerðist tæpum tveimur mánuðum eftir að tasmaníutígurinn hafði verið alfriðaður.

Langt fram eftir 20. öldinni töldu ýmsir sig hafa séð villta tasmaníutígra eða ummerki eftir þá og gerðir voru út leiðangrar til þess að reyna að finna einstaklinga á lífi. Á 9. áratug aldarinnar, þegar engar haldbærar sannanir höfðu komið fram um tilvist tasmaníutígra, var tegundin formlega skilgreind sem útdauð.

Heimildir:...