Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er getur reynst virkilega áhugavert að velta því fyrir sér hvaða heimspekingur í sögunni telst svartsýnni, eða pessimískari, en aðrir. Ein ástæða þess er að heimspekileg hugsun, eða gagnrýnin hugsun, er iðulega – að minnsta kosti á yfirborðinu – andstæð þeirri jákvæðu hugsun sem við kennum stundum við bjartsýni. Ekki ósjaldan hefur það verið hlutskipti heimspekinga að benda á að óskhyggja sú eða bjartsýni sem er mannkyninu svo eðlislæg byggi á veikum grunni. Það sem fólk telur að liggi í augum uppi sé það alls ekki þegar fleiri hliðar málsins eru dregnar fram. Að horfa björtum augum fram á veginn hefur þó líklega reynst mannkyninu ágætlega í gegnum söguna og stutt fólk í gegnum þann táradal sem tilveran getur reynst. Heimspekingar hafa sjaldan verið sérstaklega vinsælir þegar þeir hafa sinnt hlutverki sínu og efast um að hlutir fari nauðsynlega eins vel og búist er við, eða að merkingu megi finna í tilviljanakenndum ferlum náttúrunnar. Hvað þá að algóðir guðir verndi mannkyn og sjái til þess að allt fari á besta veg að lokum.
Í verkinu Birtíngur gerði franski hugsuðurinn Voltaire (1694-1778) stólpagrín að þeirri bjartsýnishugmynd að við búum í hinum besta mögulega heimi allra mögulegra heima. Myndin er úr enskri þýðingu verksins frá 1939.
Einn af fáum heimspekingum sem hefur verið kenndur við bjartsýni er þýski heimspekingurinn Gottfried Leibniz (1646-1716) sem meðal annars er þekktur fyrir þá hugmynd að við búum í hinum besta mögulega heimi allra mögulegra heima. Franski hugsuðurinn Voltaire (1694-1778) gerði stólpagrín að slíkum hugmyndum í hinu óborganlega verki sínu Birtíngi. Í verkinu er doktor Altúnga látinn þrástagast á þessari hugmynd Leibniz til að réttlæta alls konar böl og óáran sem söguhetjurnar verða fyrir. Hvort um rétta túlkun á kenningu Leibniz sé að ræða getum við látið liggja milli hluta í þessu svari. Voltaire var þó enginn sérstakur svartsýnismaður og raunar má segja að hann sé hluti af þeirri stefnu í vestrænni hugmyndasögu sem við kennum við upplýsingu. Ef heimspekisagan á sér nokkurt tímabil þar sem mikið var gert úr möguleikum skynseminnar og að mannkynið hefði raunverulegt tækifæri til að varpa af sér andlegu og félagslegu oki þá var það á seinni hluta átjándu aldar.
Hversdagsleg merking þess að vera svartsýnn á sér líklega oftast rætur í sálrænum upplifunum sem við tengjum við tilgangs- eða dugleysi. Þótt heimspekilegur skilningur á svartsýni standi ekki langt frá þeim sálræna er þó líklega um aðra merkingu að ræða. En það þýðir ekki að það sé einfalt að átta sig á hvað heimspekileg svartsýni felur í sér. Og að sama skapi er ekki hægt að segja að allir þeir heimspekingar sem kenndir hafa verið við svartsýn viðhorf hafi verið á sömu slóðum með kenningar sínar. Sumir heimspekingar hafa til dæmis verið svartsýnir um að við getum fundið merkingu í veruleikanum þótt þeir hafni ekki að slík merking eða tilgangur kunni að vera til. Aðrir eru svartsýnir um að heimurinn, eða mannkyn réttara sagt, stefni í rétta átt. Fortíðarþrá getur þannig tengst svartsýni. Svo hafa verið uppi heimspekingar sem hafa í ritum sínum efast um tilvist algóðs guðs sem vaki sérstaklega yfir mannkyninu. Þeir eru þá meðal annars svartsýnir um tilgang og markmið trúarbragða. Enn aðrir heimspekingar eru svartsýnir um möguleika mannlegrar þekkingar en gefa svo sem lítið út á að hverju frumspekilegar vangaveltur kunna að beinast. Að lokum höfum við svo heimspekinga sem eru svartsýnir á að það grundvallarstef í hugmyndakerfum mannkyns að tilvist sé nauðsynlega betri en tilvistarleysi. Má segja að þar sé komin sú heimspekilega svartsýni sem oftast er vitnað til þegar rætt er um svartsýni.
Að öðrum ólöstuðum þá er það þýski nítjándu aldar heimspekingurinn Arthur Schopenhauer (1788-1860) sem telst hafa verið sá svartsýnasti í sögunni. Fleiri nítjándu aldar heimspekingar koma til greina, ekki síst þýskir, en svartsýni hans var slík og er svo alkunn að nafn hans hefur ratað inn í dægurmenninguna. Þegar fólk hefur áhyggjur af neikvæðu lífsviðhorfi félaga sinna er oft haft á orði að miðað við félagann hafi Schopenhauer verið eins og Jón Jónsson.
Oft er þýski nítjándu aldar heimspekingurinn Arthur Schopenhauer talinn hafa verið sá svartsýnasti í sögunni. Nafn hans og lífsviðhorf hefur af þeim sökum ratað í dægurmenninguna. Málverkið er frá 1859, eftir J. Schäfer.
Heimspeki Schopenhauers er þó ákaflega margbrotin og ástæða til að fara varlega í að teikna upp ýktar myndir af því hvað felst í svartsýni hans. Og þá má einnig nefna að hann sjálfur ræddi aldrei um heimspeki sína sem svartsýna, eins og margir af bæði gagnrýnendum hans og helstu aðdáendum hafa gert æ síðan. En lesendum verka hans dylst ekki hvernig hann tekur sér stöðu gegn vestrænni heimspekihefð. Þrátt fyrir gagnrýninn anda hafa flestir straumar í þeirri hefð snúist um vangaveltur hvernig beiting skynseminnar getur að lokum fært okkur farsæld eða hamingju. Kjarni heimspeki Schopenhauers var hins vegar ekki ólíkur því sem Voltaire lét söguhetju sína Martein staðhæfa í Birtíngi: „að maðurinn væri til þess fæddur að lifa í krampakendri óeiru, elleger rænulaus af leiðindum.“
Markmið heimspekinnar getur því ekki verið að finna út hvernig við eigum að lifa hamingjusömu lífi. Schopenhauer var svartsýnn um möguleikana á því, enda slíkt ástand aldrei til að hans mati. Þvert á móti sveiflumst við á milli þess að drepast úr leiðindum eða að bugast yfir því kaosi sem líf okkar er. Hann var þó ekki þeirrar skoðunar að fólki væri best borgið með að enda líf sitt í þessu tilgangsleysi fyrst tilvera væri engu betri en andstæða sín. Verk Schopenhauers eru oft og tíðum merkilega hvetjandi, skemmtileg og full af ábendingum um hvernig fólk skal best haga lífi sínu. Hann telur það einfaldlega marklaust að halda að maður geti losnað undan þjáningu leiðinda og óeiru og fundið þannig hamingju. Það sem gerir lífið óbærilegt er ávallt viðvarandi, raunverulegt og óhjákvæmilegt – en það verður bærilegra ef maður gerir sér grein fyrir að ekki sé hægt að komast undan þjáningunni.
Myndir:
Henry Alexander Henrysson. „Hver er svartsýnasti heimspekingur allra tíma?“ Vísindavefurinn, 3. október 2022, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83311.
Henry Alexander Henrysson. (2022, 3. október). Hver er svartsýnasti heimspekingur allra tíma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83311
Henry Alexander Henrysson. „Hver er svartsýnasti heimspekingur allra tíma?“ Vísindavefurinn. 3. okt. 2022. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83311>.