Sólin Sólin Rís 10:42 • sest 15:50 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:00 • Síðdegis: 20:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:20 í Reykjavík

Hvað er nýraunsæi og hvernig birtist það í íslenskum bókmenntum?

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Raunsæisbylgja, sem oft er kennd við nýraunsæi, flæddi yfir íslenskt bókmenntasvið á síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar. Í henni fólst bæði áhersla rithöfunda á félagslegt raunsæi og gagnrýnin krafa lesenda og bókmenntarýna, innblásin af verkalýðsbaráttu og róttækri hugsun 68-kynslóðarinnar. Lögð var áhersla á að almenningur ætti að geta lesið og skilið bókmenntir án vandkvæða, að verkin fjölluðu um fólk í raunverulegum aðstæðum, bentu á galla í ríkjandi samfélagsgerð, óréttlæti og ójafna stöðu kynja og stétta og vektu lesendur til umhugsunar. Gagnrýnin beindist því bæði að afþreyingarbókmenntum og módernisma, sem þótti torskilinn.

Nýraunsæið var auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri. Það tengdist til dæmis sterkri vinstri- og velferðarstefnu í pólitík á Norðurlöndunum og nýrri raunsæisbylgju í norrænum bókmenntum sem hófst um miðjan sjöunda áratuginn. Á Íslandi, ólíkt mörgum öðrum löndum, kom hið sterka ákall um raunsæisbókmenntir hins vegar á sama tíma og módernisminn var í algleymingi í íslenskri sagnagerð. Módernisminn hafði rétt slitið barnsskónum þegar hann fékk þennan mótleikara og það var við því að búast að stundum bæri á togstreitu og deilum um hvor tjáningarmátinn ætti meiri rétt á sér. Raunsæi og módernismi eru þó ekki endilega andstæður heldur má líta á þau sem ólíkar leiðir til að koma sama eða svipuðu efni á framfæri. Mörg þeirra verka sem kennd hafa verið við nýraunsæi voru róttæk og rétt eins og með módernísku verkin var þeim ætlað að fanga veruleika samtímans og breyta honum um leið. Sumir höfundar skrifuðu bæði módernísk og raunsæisverk, til dæmis Vésteinn Lúðvíksson (f. 1944) sem gerði tilraunir með óvenjulegar frásagnarraddir í smásagnasafninu Átta raddir úr pípulögn (1968). Skáldsöguna Gunnar og Kjartan (1971-1972) skrifaði hann aftur á móti með skýrt marxískt raunsæismarkmið að leiðarljósi en aðalpersónurnar tvær endurspegla ólíkar stéttir og samfélagsstöðu.

Raunsæisbylgja, sem oft er kennd við nýraunsæi, flæddi yfir íslenskt bókmenntasvið á síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar. Með nýraunsæinu var m.a. lögð áhersla á að almenningur ætti að geta lesið og skilið bókmenntir án vandkvæða og að verkin fjölluðu um fólk í raunverulegum aðstæðum.

Nýraunsæinu fylgdi einnig umræða um mikilvægi vandaðra bóka fyrir börn: þær áttu að hafa uppeldisgildi og styðja börn til sjálfstæðis. Slík sýn kemur til dæmis skýrt fram í skrifum Silju Aðalsteinsdóttur (1981) en hún gagnrýndi afþreyingarbækur fyrir börn á þeim forsendum að í þeim væri ekki tekist á við raunveruleikann heldur tilbúinn heim þar sem vandamál leysast eins og fyrir kraftaverk án þess að persónurnar þurfi að vinna fyrir því, þroskast eða axla ábyrgð. Sögusvið flestra íslenskra barnabóka var áfram sveitin, að minnsta kosti að hluta til. Borgarbörn koma vissulega við sögu en þau fara oft í sveit og læra þar ýmislegt, til dæmis í bókum Magneu Magnúsdóttur frá Kleifum (1930-2015) um Hönnu Maríu (1966-1978). Hanna býr á sveitabæ hjá gömlum hjónum en kynnist fjölmörgum krökkum sem koma víða að og þótt þau lendi öll í ýmsum ævintýrum finna þau öryggi í sveitinni. Tóbías, sem er aðalpersónan í öðrum bókaflokki Magneu frá árunum 1982-1987, á heima í Reykjavík en sögurnar um hann gerast oft á ferðalagi um landið. Áherslan á félagslegt raunsæi hafði hins vegar í för með sér ósk um að börn, ekki bara þau sem bjuggu í sveit, gætu séð sitt eigið umhverfi í bókum og sú viðleitni einnig í öðrum bókmenntagreinum. Það var því til marks um nýja tíma að frá lokum áttunda áratugarins var Reykjavík sögusvið fjölmargra íslenskra barnabóka og sveitin lék þar oft lítið eða ekkert hlutverk. Sögur Njarðar P. Njarðvík (f. 1936) um Sigrúnu litlu eru gott dæmi en þær voru ætlaðar ungum börnum og fjalla, eins og titlarnir bera með sér, um ýmsa algenga viðburði sem geta tekið á: Sigrún fer á sjúkrahús (1976), Sigrún eignast systur (1977) og Sigrún flytur (1978).

Umfjöllunarefni nýju raunsæisbókanna var þó ekki endilega mjög ólíkt eldri verkum. Til dæmis eru vandamálin sem börnin standa frammi fyrir í bókum Magneu frá Kleifum oft tengd fullorðna fólkinu sem sinnir þeim lítið, er fjarverandi eða sýnir börnunum ósanngirni og bækurnar fela þannig í sér samfélagsgagnrýni. Það sama á við um bækur sem gerast í þéttbýli, eins og Vegurinn heim (1982) eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur (f. 1953) þar sem foreldrar aðalpersónunnar Huldu standa í skilnaði og forræðisdeilu. Titill bókarinnar Lyklabarn (1979) eftir Andrés Indriðason (1941-2020) er enn fremur lýsandi fyrir tíðarandann en á áttunda áratugnum var orðið algengt að börn í þéttbýli fengju húslykil til umráða. Þetta voru uppgangstímar; margar fjölskyldur voru að byggja hús og foreldrarnir unnu langan vinnudag en frístundaheimili höfðu ekki enn tekið til starfa og því urðu börn að sjá um sig sjálf hluta dagsins. Í sumum tilvikum, líkt og í bókum Guðmundar Ólafssonar (f. 1951) um Emil og hundinn Skunda (1986, 1990 og 1993), láta börnin þó ekki bjóða sér aðstæðurnar og strjúka að heiman en allt fer yfirleitt vel að lokum.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Ásta Kristín Benediktsdóttir

lektor í íslenskum samtímabókmenntum

Útgáfudagur

12.1.2023

Spyrjandi

Sigríður Jóna

Tilvísun

Ásta Kristín Benediktsdóttir. „Hvað er nýraunsæi og hvernig birtist það í íslenskum bókmenntum?“ Vísindavefurinn, 12. janúar 2023. Sótt 30. nóvember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=84351.

Ásta Kristín Benediktsdóttir. (2023, 12. janúar). Hvað er nýraunsæi og hvernig birtist það í íslenskum bókmenntum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84351

Ásta Kristín Benediktsdóttir. „Hvað er nýraunsæi og hvernig birtist það í íslenskum bókmenntum?“ Vísindavefurinn. 12. jan. 2023. Vefsíða. 30. nóv. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84351>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er nýraunsæi og hvernig birtist það í íslenskum bókmenntum?
Raunsæisbylgja, sem oft er kennd við nýraunsæi, flæddi yfir íslenskt bókmenntasvið á síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar. Í henni fólst bæði áhersla rithöfunda á félagslegt raunsæi og gagnrýnin krafa lesenda og bókmenntarýna, innblásin af verkalýðsbaráttu og róttækri hugsun 68-kynslóðarinnar. Lögð var áhersla á að almenningur ætti að geta lesið og skilið bókmenntir án vandkvæða, að verkin fjölluðu um fólk í raunverulegum aðstæðum, bentu á galla í ríkjandi samfélagsgerð, óréttlæti og ójafna stöðu kynja og stétta og vektu lesendur til umhugsunar. Gagnrýnin beindist því bæði að afþreyingarbókmenntum og módernisma, sem þótti torskilinn.

Nýraunsæið var auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri. Það tengdist til dæmis sterkri vinstri- og velferðarstefnu í pólitík á Norðurlöndunum og nýrri raunsæisbylgju í norrænum bókmenntum sem hófst um miðjan sjöunda áratuginn. Á Íslandi, ólíkt mörgum öðrum löndum, kom hið sterka ákall um raunsæisbókmenntir hins vegar á sama tíma og módernisminn var í algleymingi í íslenskri sagnagerð. Módernisminn hafði rétt slitið barnsskónum þegar hann fékk þennan mótleikara og það var við því að búast að stundum bæri á togstreitu og deilum um hvor tjáningarmátinn ætti meiri rétt á sér. Raunsæi og módernismi eru þó ekki endilega andstæður heldur má líta á þau sem ólíkar leiðir til að koma sama eða svipuðu efni á framfæri. Mörg þeirra verka sem kennd hafa verið við nýraunsæi voru róttæk og rétt eins og með módernísku verkin var þeim ætlað að fanga veruleika samtímans og breyta honum um leið. Sumir höfundar skrifuðu bæði módernísk og raunsæisverk, til dæmis Vésteinn Lúðvíksson (f. 1944) sem gerði tilraunir með óvenjulegar frásagnarraddir í smásagnasafninu Átta raddir úr pípulögn (1968). Skáldsöguna Gunnar og Kjartan (1971-1972) skrifaði hann aftur á móti með skýrt marxískt raunsæismarkmið að leiðarljósi en aðalpersónurnar tvær endurspegla ólíkar stéttir og samfélagsstöðu.

Raunsæisbylgja, sem oft er kennd við nýraunsæi, flæddi yfir íslenskt bókmenntasvið á síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar. Með nýraunsæinu var m.a. lögð áhersla á að almenningur ætti að geta lesið og skilið bókmenntir án vandkvæða og að verkin fjölluðu um fólk í raunverulegum aðstæðum.

Nýraunsæinu fylgdi einnig umræða um mikilvægi vandaðra bóka fyrir börn: þær áttu að hafa uppeldisgildi og styðja börn til sjálfstæðis. Slík sýn kemur til dæmis skýrt fram í skrifum Silju Aðalsteinsdóttur (1981) en hún gagnrýndi afþreyingarbækur fyrir börn á þeim forsendum að í þeim væri ekki tekist á við raunveruleikann heldur tilbúinn heim þar sem vandamál leysast eins og fyrir kraftaverk án þess að persónurnar þurfi að vinna fyrir því, þroskast eða axla ábyrgð. Sögusvið flestra íslenskra barnabóka var áfram sveitin, að minnsta kosti að hluta til. Borgarbörn koma vissulega við sögu en þau fara oft í sveit og læra þar ýmislegt, til dæmis í bókum Magneu Magnúsdóttur frá Kleifum (1930-2015) um Hönnu Maríu (1966-1978). Hanna býr á sveitabæ hjá gömlum hjónum en kynnist fjölmörgum krökkum sem koma víða að og þótt þau lendi öll í ýmsum ævintýrum finna þau öryggi í sveitinni. Tóbías, sem er aðalpersónan í öðrum bókaflokki Magneu frá árunum 1982-1987, á heima í Reykjavík en sögurnar um hann gerast oft á ferðalagi um landið. Áherslan á félagslegt raunsæi hafði hins vegar í för með sér ósk um að börn, ekki bara þau sem bjuggu í sveit, gætu séð sitt eigið umhverfi í bókum og sú viðleitni einnig í öðrum bókmenntagreinum. Það var því til marks um nýja tíma að frá lokum áttunda áratugarins var Reykjavík sögusvið fjölmargra íslenskra barnabóka og sveitin lék þar oft lítið eða ekkert hlutverk. Sögur Njarðar P. Njarðvík (f. 1936) um Sigrúnu litlu eru gott dæmi en þær voru ætlaðar ungum börnum og fjalla, eins og titlarnir bera með sér, um ýmsa algenga viðburði sem geta tekið á: Sigrún fer á sjúkrahús (1976), Sigrún eignast systur (1977) og Sigrún flytur (1978).

Umfjöllunarefni nýju raunsæisbókanna var þó ekki endilega mjög ólíkt eldri verkum. Til dæmis eru vandamálin sem börnin standa frammi fyrir í bókum Magneu frá Kleifum oft tengd fullorðna fólkinu sem sinnir þeim lítið, er fjarverandi eða sýnir börnunum ósanngirni og bækurnar fela þannig í sér samfélagsgagnrýni. Það sama á við um bækur sem gerast í þéttbýli, eins og Vegurinn heim (1982) eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur (f. 1953) þar sem foreldrar aðalpersónunnar Huldu standa í skilnaði og forræðisdeilu. Titill bókarinnar Lyklabarn (1979) eftir Andrés Indriðason (1941-2020) er enn fremur lýsandi fyrir tíðarandann en á áttunda áratugnum var orðið algengt að börn í þéttbýli fengju húslykil til umráða. Þetta voru uppgangstímar; margar fjölskyldur voru að byggja hús og foreldrarnir unnu langan vinnudag en frístundaheimili höfðu ekki enn tekið til starfa og því urðu börn að sjá um sig sjálf hluta dagsins. Í sumum tilvikum, líkt og í bókum Guðmundar Ólafssonar (f. 1951) um Emil og hundinn Skunda (1986, 1990 og 1993), láta börnin þó ekki bjóða sér aðstæðurnar og strjúka að heiman en allt fer yfirleitt vel að lokum.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

...