Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða áhrif hafði fútúrismi á tónlist snemma á 20. öld?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Fútúrismi var hreyfing sem mest kvað að í bókmenntum og myndlist á fyrri hluta 20. aldar. Hreyfingin kom bæði fram á Ítalíu og í Rússlandi. Ítalski fútúrisminn einkenndist af mikilli dýrkun á vélum og hraða nútímans en hafði ímugust á fortíðinni. Eitt helsta einkenni fútúrismans voru stefnuyfirlýsingar af ýmsu tagi.

Einn ítölsku fútúristanna var Luigi Carlo Filippo Russolo (1895-1947). Hann fékkst bæði við myndlist og tónlist. Árið 1913 skrifaði hann fræga stefnuyfirlýsingu sem kom síðan út árið 1916. Stefnuyfirlýsingin er eitt helsta framlag fútúrismans til tónlistar og kallast Hávaðaávarpið (ít. L'arte dei Rumori). Þar lýsti Russolo þeirri ætlun sinni að endurnýja tónlist fortíðarinnar með hávaðalist og hljóðgjöfum nútímans. Sumir telja að stefnuyfirlýsing Russolo sé meðal áhrifamestu texta um fagurfræði tónlistar á 20. öld.[1] Í ávarpinu flokkar Russolo hávaða og hljóð fútúrismans í sex flokka. Þessi hljóð áttu að vera efniviður hljómsveita í anda fútúrismans. Hér eru nokkur dæmi um hljóð sem Russolo tiltók í hverjum flokki fyrir sig:
  1. klapp, öskur, umferðarniður
  2. blístur, hrotur, hvæs
  3. hvísl, muldur, hjal
  4. hvellir, suð, skrölt
  5. slagverkshljóð mynduð með: málmi, tré, húð, grjóti
  6. dýra- og mannahljóð: hróp, stunur, hlátur, snökt

Russolo greindi einnig frá því í ávarpinu að hann væri að vinna að tilraunahljóðfærum sem gætu gefið frá sér öll þessi hljóð. Hljóðfærin kallaði hann intonarumori. Þau voru órafmögnuð og litu dagsins ljós í nokkrum útgáfum á árabilinu 1910-1930. Flestar útgáfurnar eyðilögðust í seinni heimsstyrjöldinni og aðrar týndust.

Luigi Russolo og aðstoðarmaður hans Ugo Piatti við tilraunahljóðfærin intonarumori árið 1913.

Nokkur tónskáld á fyrri hluta 20. aldar hrifust af stefnuyfirlýsingu Russolo. Þar má til dæmis nefna franska tónskáldið Edgard Varèse (1883-1965) sem blandaði ýmsum hljóðum nútímans saman við hefðbundinn hljóðheim sinfóníutónlistar í verkinu Amériques (1919-22). Verkið krefst ellefu slagverksleikara og tveir þeirra leika á sírenur. Það tekur um 23 mínútur í flutningi og hefst á blíðum tónum sem minna á verk í anda franska impressjónistans Claude Debussys (1862-1918). Fljótt taka leikar hins vegar að æsast og hljóðheimurinn minnir á iðandi stórborg þar sem umferðagnýr heyrist og þokulúðrar hljóma.

Ýmis önnur tónskáld nýttu sér hljóðheim nútímans á fyrri hluta 20. aldar, til að mynda bandaríska tónskáldið George Antheil (1900-1959). Hann samdi Vélrænan ballett (fr. Ballet mécanique) árið 1925 en í honum er meðal annars notast við sjálfspilandi píanó, sírenur og þrjá flugvélahreyfla.

Tengt fútúrisma í tónlist eru líka ný hljóðfæri sem urðu til á svipuðum tíma, til að mynda þeremín sem rússneski vísinda- og tónlistarmaðurinn Lev Termen (1896-1993) fann upp um 1920. Það var eitt af fyrstu rafhljóðfærunum og um leið fyrsta hljóðfærið sem ekki krafðist neinnar snertingar. Á þeremín var leikið með því að breyta segulsviði á milli tveggja sveifluvaka með handahreyfingum. Franskur verkfræðingur að nafni Maurice Martenot (1898-1980) bjó nokkrum árum síðar til hljóðfæri sem einnig nýtti rafsegulsvið en ólíkt þeremíni studdist það við nótnaborð.

Segja má að helsta framlag fútúrismans til tónlistar 20. aldar hafi verið að færa hljóðheim nútímaborgarlífs inn í tónlistina og þar með endurnýja og umbylta tónmáli hefðarinnar.

Efni til hlustunar og áhorfs á vefnum YouTube:

Tilvísun:
  1. ^ Daniel Werner og Christoph Cox. Audio Culture. Readings in Modern Music. London: Continiuum International Publishing Group LTD, 2004.

Heimildir og frekara lesefni:
  • Árni Heimir Ingólfsson, Saga tónlistarinnar: Tónlist á Vesturlöndum frá miðöldum til nútímans, Forlagið, Reykjavík 2016.
  • Luigi Russolo, The Art of Noise (futurist manifesto, 1913), (þýð. Robert Filliou), Ubuclassics, 2004. (Sótt 4.05.2023).

Mynd:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

1.8.2023

Spyrjandi

Guðbjörg

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvaða áhrif hafði fútúrismi á tónlist snemma á 20. öld?“ Vísindavefurinn, 1. ágúst 2023, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85031.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2023, 1. ágúst). Hvaða áhrif hafði fútúrismi á tónlist snemma á 20. öld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85031

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvaða áhrif hafði fútúrismi á tónlist snemma á 20. öld?“ Vísindavefurinn. 1. ágú. 2023. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85031>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif hafði fútúrismi á tónlist snemma á 20. öld?
Fútúrismi var hreyfing sem mest kvað að í bókmenntum og myndlist á fyrri hluta 20. aldar. Hreyfingin kom bæði fram á Ítalíu og í Rússlandi. Ítalski fútúrisminn einkenndist af mikilli dýrkun á vélum og hraða nútímans en hafði ímugust á fortíðinni. Eitt helsta einkenni fútúrismans voru stefnuyfirlýsingar af ýmsu tagi.

Einn ítölsku fútúristanna var Luigi Carlo Filippo Russolo (1895-1947). Hann fékkst bæði við myndlist og tónlist. Árið 1913 skrifaði hann fræga stefnuyfirlýsingu sem kom síðan út árið 1916. Stefnuyfirlýsingin er eitt helsta framlag fútúrismans til tónlistar og kallast Hávaðaávarpið (ít. L'arte dei Rumori). Þar lýsti Russolo þeirri ætlun sinni að endurnýja tónlist fortíðarinnar með hávaðalist og hljóðgjöfum nútímans. Sumir telja að stefnuyfirlýsing Russolo sé meðal áhrifamestu texta um fagurfræði tónlistar á 20. öld.[1] Í ávarpinu flokkar Russolo hávaða og hljóð fútúrismans í sex flokka. Þessi hljóð áttu að vera efniviður hljómsveita í anda fútúrismans. Hér eru nokkur dæmi um hljóð sem Russolo tiltók í hverjum flokki fyrir sig:
  1. klapp, öskur, umferðarniður
  2. blístur, hrotur, hvæs
  3. hvísl, muldur, hjal
  4. hvellir, suð, skrölt
  5. slagverkshljóð mynduð með: málmi, tré, húð, grjóti
  6. dýra- og mannahljóð: hróp, stunur, hlátur, snökt

Russolo greindi einnig frá því í ávarpinu að hann væri að vinna að tilraunahljóðfærum sem gætu gefið frá sér öll þessi hljóð. Hljóðfærin kallaði hann intonarumori. Þau voru órafmögnuð og litu dagsins ljós í nokkrum útgáfum á árabilinu 1910-1930. Flestar útgáfurnar eyðilögðust í seinni heimsstyrjöldinni og aðrar týndust.

Luigi Russolo og aðstoðarmaður hans Ugo Piatti við tilraunahljóðfærin intonarumori árið 1913.

Nokkur tónskáld á fyrri hluta 20. aldar hrifust af stefnuyfirlýsingu Russolo. Þar má til dæmis nefna franska tónskáldið Edgard Varèse (1883-1965) sem blandaði ýmsum hljóðum nútímans saman við hefðbundinn hljóðheim sinfóníutónlistar í verkinu Amériques (1919-22). Verkið krefst ellefu slagverksleikara og tveir þeirra leika á sírenur. Það tekur um 23 mínútur í flutningi og hefst á blíðum tónum sem minna á verk í anda franska impressjónistans Claude Debussys (1862-1918). Fljótt taka leikar hins vegar að æsast og hljóðheimurinn minnir á iðandi stórborg þar sem umferðagnýr heyrist og þokulúðrar hljóma.

Ýmis önnur tónskáld nýttu sér hljóðheim nútímans á fyrri hluta 20. aldar, til að mynda bandaríska tónskáldið George Antheil (1900-1959). Hann samdi Vélrænan ballett (fr. Ballet mécanique) árið 1925 en í honum er meðal annars notast við sjálfspilandi píanó, sírenur og þrjá flugvélahreyfla.

Tengt fútúrisma í tónlist eru líka ný hljóðfæri sem urðu til á svipuðum tíma, til að mynda þeremín sem rússneski vísinda- og tónlistarmaðurinn Lev Termen (1896-1993) fann upp um 1920. Það var eitt af fyrstu rafhljóðfærunum og um leið fyrsta hljóðfærið sem ekki krafðist neinnar snertingar. Á þeremín var leikið með því að breyta segulsviði á milli tveggja sveifluvaka með handahreyfingum. Franskur verkfræðingur að nafni Maurice Martenot (1898-1980) bjó nokkrum árum síðar til hljóðfæri sem einnig nýtti rafsegulsvið en ólíkt þeremíni studdist það við nótnaborð.

Segja má að helsta framlag fútúrismans til tónlistar 20. aldar hafi verið að færa hljóðheim nútímaborgarlífs inn í tónlistina og þar með endurnýja og umbylta tónmáli hefðarinnar.

Efni til hlustunar og áhorfs á vefnum YouTube:

Tilvísun:
  1. ^ Daniel Werner og Christoph Cox. Audio Culture. Readings in Modern Music. London: Continiuum International Publishing Group LTD, 2004.

Heimildir og frekara lesefni:
  • Árni Heimir Ingólfsson, Saga tónlistarinnar: Tónlist á Vesturlöndum frá miðöldum til nútímans, Forlagið, Reykjavík 2016.
  • Luigi Russolo, The Art of Noise (futurist manifesto, 1913), (þýð. Robert Filliou), Ubuclassics, 2004. (Sótt 4.05.2023).

Mynd:...