Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvenær fór orðið hinsegin að vísa til samkynhneigðar?

Eiríkur Rögnvaldsson

Um uppruna orðsins hinsegin er fjallað sérstaklega í svari við spurningunni Hvaðan kemur orðið hinsegin? og er lesendum bent á að kynna sér það svar einnig.

Elsta dæmi sem höfundur þessa svars hefur fundið á prenti um vísun orðsins hinsegin í samkynhneigð er í Alþýðuhelginni 1949 þar sem segir: „Hvað, er hann nokkuð hinsegin? – Nei, það held ég ekki – en sveitamaður.“ Þarna er vissulega ekki öruggt að vísað sé til samkynhneigðar en samhengið bendir þó til þess. Enginn vafi er á merkingu orðsins í Speglinum 1960 þar sem segir: „En svo illa tókst til, að foringjarnir, sem þær hittu hafa líklega verið hinsegin, svo að ekki varð úr viðskiptum.“ Sama gildir um dæmi í Andvara 1960: „Þú ert þó ekki hinsegin? Jú, fari bölvað sem hún er ekki hinsegin!“ Í Samvinnunni 1969 segir: „margir þeir karlmenn sem skarað hafa frammúr á andlegu sviði hafa verið hinsegin, með öðrum orðum nokkurskonar kona.“

Elsta dæmi sem höfundur þessa svars hefur fundið á prenti um vísun orðsins hinsegin í samkynhneigð er frá 1949. Í dag er orðið fullkomlega viðurkennt og eðlilegt, eiginlega „regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk“.

Notkun orðsins hinsegin um samkynhneigð virðist hafa aukist smátt og smátt á sjöunda og áttunda áratugnum og Guðbergur Bergsson gaf til dæmis út Hinsegin sögur 1984. Framan af var þetta þó niðurlægjandi orð sem samkynhneigt fólk vildi ekki nota um sjálft sig. Böðvar Björnsson, þekktur baráttumaður samkynhneigðra, fjallar um orðfæri um samkynhneigð í Þjóðviljanum 1981 og nefnir meðal annars „tvö velþekkt orð, argur (argskapur) og blauður, og að lokum tvö nýlegri orð sem stundum heyrast, öfuguggi og hinsegin. Öll eru þessi orð þannig innréttuð að réttast er að fela þau þögninni til notkunar“. En þetta átti eftir að breytast og samkynhneigt fólk tók orðið hinsegin smátt og smátt upp á sína arma.

Ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta fór að breytast en þegar kom fram á tíunda áratuginn var samkynhneigt fólk að minnsta kosti farið að nota orðið um sjálft sig – árið 1995 stóðu Samtökin 78 fyrir „Hinsegin bíódögum“. Árið 1998 var umræðuþáttur í Ríkisútvarpinu undir heitinu „Af því við erum hinsegin“ og fjallaði um samkynhneigða Íslendinga í Kaupmannahöfn. Árið 1999 stóð jafnréttisnefnd Stúdentaráðs fyrir „hinsegin dögum“, og árið 2000 voru í fyrsta sinn haldnir „Hinsegin dagar“ á vegum fimm félagasamtaka samkynhneigðra. Nú er þetta fullkomlega viðurkennt og eðlilegt, eiginlega „regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk“.

Mynd:


Þessi texti birtist upphaflega á vefsíðu höfundar og er birtur hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Eiríkur Rögnvaldsson

prófessor emeritus í íslenskri málfræði

Útgáfudagur

14.8.2023

Spyrjandi

Sara

Tilvísun

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvenær fór orðið hinsegin að vísa til samkynhneigðar?“ Vísindavefurinn, 14. ágúst 2023. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=85366.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2023, 14. ágúst). Hvenær fór orðið hinsegin að vísa til samkynhneigðar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=85366

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvenær fór orðið hinsegin að vísa til samkynhneigðar?“ Vísindavefurinn. 14. ágú. 2023. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=85366>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær fór orðið hinsegin að vísa til samkynhneigðar?
Um uppruna orðsins hinsegin er fjallað sérstaklega í svari við spurningunni Hvaðan kemur orðið hinsegin? og er lesendum bent á að kynna sér það svar einnig.

Elsta dæmi sem höfundur þessa svars hefur fundið á prenti um vísun orðsins hinsegin í samkynhneigð er í Alþýðuhelginni 1949 þar sem segir: „Hvað, er hann nokkuð hinsegin? – Nei, það held ég ekki – en sveitamaður.“ Þarna er vissulega ekki öruggt að vísað sé til samkynhneigðar en samhengið bendir þó til þess. Enginn vafi er á merkingu orðsins í Speglinum 1960 þar sem segir: „En svo illa tókst til, að foringjarnir, sem þær hittu hafa líklega verið hinsegin, svo að ekki varð úr viðskiptum.“ Sama gildir um dæmi í Andvara 1960: „Þú ert þó ekki hinsegin? Jú, fari bölvað sem hún er ekki hinsegin!“ Í Samvinnunni 1969 segir: „margir þeir karlmenn sem skarað hafa frammúr á andlegu sviði hafa verið hinsegin, með öðrum orðum nokkurskonar kona.“

Elsta dæmi sem höfundur þessa svars hefur fundið á prenti um vísun orðsins hinsegin í samkynhneigð er frá 1949. Í dag er orðið fullkomlega viðurkennt og eðlilegt, eiginlega „regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk“.

Notkun orðsins hinsegin um samkynhneigð virðist hafa aukist smátt og smátt á sjöunda og áttunda áratugnum og Guðbergur Bergsson gaf til dæmis út Hinsegin sögur 1984. Framan af var þetta þó niðurlægjandi orð sem samkynhneigt fólk vildi ekki nota um sjálft sig. Böðvar Björnsson, þekktur baráttumaður samkynhneigðra, fjallar um orðfæri um samkynhneigð í Þjóðviljanum 1981 og nefnir meðal annars „tvö velþekkt orð, argur (argskapur) og blauður, og að lokum tvö nýlegri orð sem stundum heyrast, öfuguggi og hinsegin. Öll eru þessi orð þannig innréttuð að réttast er að fela þau þögninni til notkunar“. En þetta átti eftir að breytast og samkynhneigt fólk tók orðið hinsegin smátt og smátt upp á sína arma.

Ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta fór að breytast en þegar kom fram á tíunda áratuginn var samkynhneigt fólk að minnsta kosti farið að nota orðið um sjálft sig – árið 1995 stóðu Samtökin 78 fyrir „Hinsegin bíódögum“. Árið 1998 var umræðuþáttur í Ríkisútvarpinu undir heitinu „Af því við erum hinsegin“ og fjallaði um samkynhneigða Íslendinga í Kaupmannahöfn. Árið 1999 stóð jafnréttisnefnd Stúdentaráðs fyrir „hinsegin dögum“, og árið 2000 voru í fyrsta sinn haldnir „Hinsegin dagar“ á vegum fimm félagasamtaka samkynhneigðra. Nú er þetta fullkomlega viðurkennt og eðlilegt, eiginlega „regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk“.

Mynd:


Þessi texti birtist upphaflega á vefsíðu höfundar og er birtur hér með góðfúslegu leyfi....