Sólin Sólin Rís 07:15 • sest 19:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:55 • Sest 22:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 13:41 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:59 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík

Hvaðan kemur orðið hinsegin?

Eiríkur Rögnvaldsson

Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvaðan kemur orðið hinsegin? Getur verið að það hafi upprunalega verið hins veginn?

Orðið hinsegin er gamalt í málinu og talið vera einhvers konar sambræðingur úr hins vegar og (á) hinn veginn. Í Flateyjarbók frá lokum 14. aldar segir (með nútímastafsetningu): „Konungur leit til hans og mælti: „Hinn veg munum við nú breyta Brandur““ en í öðru handriti sama texta frá 15. öld stendur hinnsegin í stað hinn veg. Orðið var áður skilgreint sem atviksorð í orðabókum en hefur þó lengi einnig verið notað sem (óbeygjanlegt) lýsingarorð, það er látið standa með nafnorði, eins og til dæmis orðin þannig, svona og svoleiðis sem sömuleiðis voru lengst af eingöngu flokkuð sem atviksorð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það þó tvær flettur, annars vegar atviksorð og hins vegar lýsingarorð.

Aðalmerking orðsins var áður 'á hinn veginn, öðruvísi' og það var oft notað sem andstæða við svona. Í Heimilisritinu 1956 segir: „Sjaldan hef ég heyrt mann grípa fram í frásögn konu sinnar með þessari athugasemd: „Það skeði ekki svona – heldur hinsegin.““ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „Það verður væntanlega enginn hörgull á fólki, sem á eftir að benda á, að tiltekið atvik hafi nú ekki verið svona heldur hinsegin.“ En orðið gat líka merkt 'skrýtinn, undarlegur' eða jafnvel 'galinn'. Í Eimreiðinni 1939 segir: „Ertu eitthvað hinsegin, Dísa mín? Hvað heldurðu að hexið segi?“ Í Alþýðublaðinu 1975 segir: „Mér datt fyrst í hug, að nú væri einhver í einhverju ráðuneytinu orðinn eitthvað hinsegin.“

Orðið hinsegin er gamalt í málinu og kemur til að mynda fyrir í handriti frá 15. öld, að sama texta og er að finna í Flateyjarbók.

Orðið var mjög oft notað í sambandinu svona hinsegin sem merkir 'af því bara, út í loftið, í tilgangsleysi, af tilviljun, óvart‘ eða eitthvað slíkt. Í Nýjum kvöldvökum 1913 segir: „Þegar eg kom heim í gestahúsið, rak eg augun í blað og leit í það svona hinseginn.“ Í Alþýðublaðinu 1950 segir: „Í rauninni kærðum við okkur ekki um að eignast barn, það kom svona hinsegin.“ Í Tímanum 1955 segir: „Læknirinn hafði fengið mikinn áhuga fyrir trjáprófinu og bað sjúkling sinn að teikna tré svona hinsegin.“ Í Vikunni 1960 segir: „frú Gunnhildur segir, að hún hafi aldrei verið gift, bara átti barnið svona hinsegin, líklega með einhverjum útlendingi.“ Í Magna 1961 segir: „Ég var ekki hjónabandsbarn. Heldur varð ég til svona hinsegin.“

En merkingarnar voru fleiri. Í Íslenskri orðabók kemur fram að orðið geti merkt 'þunguð, ófrísk' og þá merkingu hefur það til dæmis í Iðunni 1933: „Sérðu ekki á mér hinsegin?“ Í Samtíðinni 1951 segir: „Sigga greyið var hinsegin og átti bara mánuð eftir.“ Í Vísi 1957 segir: „Það á að staurhýða þessa „legáta“, sem hlaupa eftir hverju pilsi og gera sumar kannske hinsegin.“ Það virðist líka hafa getað merkt 'á túr', til dæmis í Þjóðviljanum 1953 þar sem segir: „Hún er ein af þeim, sem verður að liggja í þrjá eða fjóra daga, þegar hún er hinsegin.“ Þessi dæmi sýna að hinsegin hefur verið notað sem skrauthvörf yfir feimnismál sem ekki mátti nefna, og þannig var það líka í upphafi með notkun þess um samkynhneigða.

Myndir:


Þessi texti birtist upphaflega á vefsíðu höfundar og er birtur hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Eiríkur Rögnvaldsson

prófessor emeritus í íslenskri málfræði

Útgáfudagur

11.8.2023

Spyrjandi

Garðar Friðrik Harðarson

Tilvísun

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvaðan kemur orðið hinsegin?“ Vísindavefurinn, 11. ágúst 2023. Sótt 24. september 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=85047.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2023, 11. ágúst). Hvaðan kemur orðið hinsegin? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=85047

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvaðan kemur orðið hinsegin?“ Vísindavefurinn. 11. ágú. 2023. Vefsíða. 24. sep. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=85047>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaðan kemur orðið hinsegin?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvaðan kemur orðið hinsegin? Getur verið að það hafi upprunalega verið hins veginn?

Orðið hinsegin er gamalt í málinu og talið vera einhvers konar sambræðingur úr hins vegar og (á) hinn veginn. Í Flateyjarbók frá lokum 14. aldar segir (með nútímastafsetningu): „Konungur leit til hans og mælti: „Hinn veg munum við nú breyta Brandur““ en í öðru handriti sama texta frá 15. öld stendur hinnsegin í stað hinn veg. Orðið var áður skilgreint sem atviksorð í orðabókum en hefur þó lengi einnig verið notað sem (óbeygjanlegt) lýsingarorð, það er látið standa með nafnorði, eins og til dæmis orðin þannig, svona og svoleiðis sem sömuleiðis voru lengst af eingöngu flokkuð sem atviksorð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það þó tvær flettur, annars vegar atviksorð og hins vegar lýsingarorð.

Aðalmerking orðsins var áður 'á hinn veginn, öðruvísi' og það var oft notað sem andstæða við svona. Í Heimilisritinu 1956 segir: „Sjaldan hef ég heyrt mann grípa fram í frásögn konu sinnar með þessari athugasemd: „Það skeði ekki svona – heldur hinsegin.““ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „Það verður væntanlega enginn hörgull á fólki, sem á eftir að benda á, að tiltekið atvik hafi nú ekki verið svona heldur hinsegin.“ En orðið gat líka merkt 'skrýtinn, undarlegur' eða jafnvel 'galinn'. Í Eimreiðinni 1939 segir: „Ertu eitthvað hinsegin, Dísa mín? Hvað heldurðu að hexið segi?“ Í Alþýðublaðinu 1975 segir: „Mér datt fyrst í hug, að nú væri einhver í einhverju ráðuneytinu orðinn eitthvað hinsegin.“

Orðið hinsegin er gamalt í málinu og kemur til að mynda fyrir í handriti frá 15. öld, að sama texta og er að finna í Flateyjarbók.

Orðið var mjög oft notað í sambandinu svona hinsegin sem merkir 'af því bara, út í loftið, í tilgangsleysi, af tilviljun, óvart‘ eða eitthvað slíkt. Í Nýjum kvöldvökum 1913 segir: „Þegar eg kom heim í gestahúsið, rak eg augun í blað og leit í það svona hinseginn.“ Í Alþýðublaðinu 1950 segir: „Í rauninni kærðum við okkur ekki um að eignast barn, það kom svona hinsegin.“ Í Tímanum 1955 segir: „Læknirinn hafði fengið mikinn áhuga fyrir trjáprófinu og bað sjúkling sinn að teikna tré svona hinsegin.“ Í Vikunni 1960 segir: „frú Gunnhildur segir, að hún hafi aldrei verið gift, bara átti barnið svona hinsegin, líklega með einhverjum útlendingi.“ Í Magna 1961 segir: „Ég var ekki hjónabandsbarn. Heldur varð ég til svona hinsegin.“

En merkingarnar voru fleiri. Í Íslenskri orðabók kemur fram að orðið geti merkt 'þunguð, ófrísk' og þá merkingu hefur það til dæmis í Iðunni 1933: „Sérðu ekki á mér hinsegin?“ Í Samtíðinni 1951 segir: „Sigga greyið var hinsegin og átti bara mánuð eftir.“ Í Vísi 1957 segir: „Það á að staurhýða þessa „legáta“, sem hlaupa eftir hverju pilsi og gera sumar kannske hinsegin.“ Það virðist líka hafa getað merkt 'á túr', til dæmis í Þjóðviljanum 1953 þar sem segir: „Hún er ein af þeim, sem verður að liggja í þrjá eða fjóra daga, þegar hún er hinsegin.“ Þessi dæmi sýna að hinsegin hefur verið notað sem skrauthvörf yfir feimnismál sem ekki mátti nefna, og þannig var það líka í upphafi með notkun þess um samkynhneigða.

Myndir:


Þessi texti birtist upphaflega á vefsíðu höfundar og er birtur hér með góðfúslegu leyfi....