Sólin Sólin Rís 08:54 • sest 18:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:18 • Sest 09:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:33 • Síðdegis: 12:58 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvenær kom orðið gervigreind fyrst fram í íslensku?

Ágústa Þorbergsdóttir, Starkaður Barkarson og Steinþór Steingrímsson

Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvenær kom orðið gervigreind fyrst fram í íslensku og hvenær varð fræðigreinin til?

Elsta dæmi sem höfundar þessa svars hafa fundið um íslenska orðið gervigreind er í þýðingu Halldórs Halldórssonar á bók Noams Chomsky Mál og mannshugur, sem kom út á íslensku 1973.[1] Rithöfundurinn Einar Kárason notar svo lýsingarorðið gervigreindur í skáldsögunni Þetta eru asnar Guðjón frá 1981[2] og má þá reikna með að nafnorðið hafi verið orðið nokkuð þekkt. Talsverðan fjölda notkunardæma frá níunda áratugnum má finna á Tímarit.is en þá var ýmist talað um gervigreind/gerfigreind, tölvugreind eða tölvuvit þegar talað var um það sem er kallað artificial intelligence á ensku. Oddur Benediktsson, frumkvöðull í tölvunarfræði á Íslandi, talaði til dæmis um tölvuvit í fyrirlestri vorið 1984 þar sem hann fjallaði um greiningu talaðs máls, vélmenni og leikjaforrit á borð við skákforrit sem þá þóttu vera orðin það fullkomin að þau virtust gæða tölvurnar viti.

Í nágrannamálunum ber hugtakið yfirleitt meiri keim af ensku en hjá okkur. Danir og Norðmenn tala um kunstig intelligens, Þjóðverjar um künstliche Intelligenz og Svíar um artificiell intelligens. Færeyingar skera sig þó úr því þeir tala um vitlíki, sem færeyska ríkisútvarpið,  Kringvarp Føroya, valdi einmitt orð ársins 2023.[3]

Undanfarin ár hefur ný gervigreindartækni sem byggist á marglaga tauganetum vakið mikla athygli. Tauganetin eru stærðfræðilíkön sem geta geymt og unnið með t.d. myndir eða texta. Þau eru þá greind í eindir sem hægt er að staðsetja í netinu með vigurreikningi. Mest áberandi eru svokölluð myndandi gervigreindarlíkön en þá er átt við að líkönunum sé fyrst og fremst ætlað að framkalla eða mynda eitthvað tiltekið efni, yfirleitt texta eða myndefni.

Rekja má sögu gervigreindar til áranna eftir síðari heimsstyrjöld. Þá jókst áhugi vísindamanna á nýrri fræðigrein sem kölluð var cybernetics á ensku en það hefur verið þýtt ‘stýrifræði’ á íslensku. Í grein frá árinu 1950 talaði enski stærðfræðingurinn og tölvunarfræðingurinn Alan Turing um eftirhermuleikinn (e. the imitation game) og velti fyrir sér hvort vélar gætu hugsað og hvernig hægt væri að meta það.[4] Enska hugtakið artificial intelligence er svo fyrst notað árið 1955 af John McCarthy, prófessor í Stanford-háskóla, um það sem hann kallar vísindin sem fást við smíði greindra véla. Sumarið eftir stóð hann fyrir tveggja mánaða málstofu í samstarfi við tíu aðra vísindamenn en hún er stundum sögð marka upphaf gervigreindar sem sérstaks rannsóknarsviðs. Á málstofunni var meðal annars rætt um hvað sviðið skyldi kallað. Þeir sem þá þegar stunduðu skyldar rannsóknir notuðu meðal annars hugtökin stýrifræði (e. cybernetics) og sjálfvirkjafræði (e. automata studies) en John McCarthy þótti of mikið af ótengdum rannsóknum falla þar undir, það er einhverju sem tengdist ekki því að gæða vélar einhvers konar greind. Á málstofunni sammæltust þátttakendur um að nota nýja hugtakið artificial intelligence yfir þau fræði. Fræðileg orðræða krefst nákvæmrar orðanotkunar og með því að festa ákveðna merkingu orðsins er stuðlað að skýrum og öruggum tjáskiptum eins og íðorðastarf miðar að.

Síðan þá hefur gervigreind orðið alltumlykjandi í umhverfi okkar þó að hugtakið sé oft aðeins notað um nýjustu tækni. Þegar tæknin verður sjálfsagðari hluti af tilverunni eru frekar notuð meira lýsandi orð, til dæmis ruslsöfnun (við forritun), leikjavélar (í tölvuleikjum) eða talgervlar, svo að eitthvað sé nefnt enda hefur verið haft eftir John McCarthy að „þegar það er farið að virka kallar enginn það gervigreind lengur“. Í því ljósi verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig talað verður í framtíðinni um þá nýju gervigreindartækni sem byggir á myndandi mállíkönum á borð við GPT-4 og hefur almennt verið kölluð gervigreind(in).

Tilvísanir:
  1. ^ Noam Chomsky. 1973. Mál og mannshugur. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  2. ^ Einar Kárason. 1981. Þetta eru asnar Guðjón. Reykjavík: Mál og menning.
  3. ^ http://malrad.fo/news_article.php?NewsArticleId=295
  4. ^ Computing Machinery and Intelligence. Mind 49: 433-460.

Mynd:

Þetta svar birtist fyrst sem hluti af lengri grein í Hugrás: Orð ársins 2023: Gervigreind(in). (Sótt 9.1.2024). Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum.

Höfundar

Ágústa Þorbergsdóttir

deildarstjóri á málræktarsviði hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Starkaður Barkarson

MA í máltækni

Steinþór Steingrímsson

verkefnisstjóri í upplýsingatækni hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

11.1.2024

Spyrjandi

Hjálmar

Tilvísun

Ágústa Þorbergsdóttir, Starkaður Barkarson og Steinþór Steingrímsson. „Hvenær kom orðið gervigreind fyrst fram í íslensku?“ Vísindavefurinn, 11. janúar 2024. Sótt 24. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=86041.

Ágústa Þorbergsdóttir, Starkaður Barkarson og Steinþór Steingrímsson. (2024, 11. janúar). Hvenær kom orðið gervigreind fyrst fram í íslensku? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=86041

Ágústa Þorbergsdóttir, Starkaður Barkarson og Steinþór Steingrímsson. „Hvenær kom orðið gervigreind fyrst fram í íslensku?“ Vísindavefurinn. 11. jan. 2024. Vefsíða. 24. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=86041>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær kom orðið gervigreind fyrst fram í íslensku?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvenær kom orðið gervigreind fyrst fram í íslensku og hvenær varð fræðigreinin til?

Elsta dæmi sem höfundar þessa svars hafa fundið um íslenska orðið gervigreind er í þýðingu Halldórs Halldórssonar á bók Noams Chomsky Mál og mannshugur, sem kom út á íslensku 1973.[1] Rithöfundurinn Einar Kárason notar svo lýsingarorðið gervigreindur í skáldsögunni Þetta eru asnar Guðjón frá 1981[2] og má þá reikna með að nafnorðið hafi verið orðið nokkuð þekkt. Talsverðan fjölda notkunardæma frá níunda áratugnum má finna á Tímarit.is en þá var ýmist talað um gervigreind/gerfigreind, tölvugreind eða tölvuvit þegar talað var um það sem er kallað artificial intelligence á ensku. Oddur Benediktsson, frumkvöðull í tölvunarfræði á Íslandi, talaði til dæmis um tölvuvit í fyrirlestri vorið 1984 þar sem hann fjallaði um greiningu talaðs máls, vélmenni og leikjaforrit á borð við skákforrit sem þá þóttu vera orðin það fullkomin að þau virtust gæða tölvurnar viti.

Í nágrannamálunum ber hugtakið yfirleitt meiri keim af ensku en hjá okkur. Danir og Norðmenn tala um kunstig intelligens, Þjóðverjar um künstliche Intelligenz og Svíar um artificiell intelligens. Færeyingar skera sig þó úr því þeir tala um vitlíki, sem færeyska ríkisútvarpið,  Kringvarp Føroya, valdi einmitt orð ársins 2023.[3]

Undanfarin ár hefur ný gervigreindartækni sem byggist á marglaga tauganetum vakið mikla athygli. Tauganetin eru stærðfræðilíkön sem geta geymt og unnið með t.d. myndir eða texta. Þau eru þá greind í eindir sem hægt er að staðsetja í netinu með vigurreikningi. Mest áberandi eru svokölluð myndandi gervigreindarlíkön en þá er átt við að líkönunum sé fyrst og fremst ætlað að framkalla eða mynda eitthvað tiltekið efni, yfirleitt texta eða myndefni.

Rekja má sögu gervigreindar til áranna eftir síðari heimsstyrjöld. Þá jókst áhugi vísindamanna á nýrri fræðigrein sem kölluð var cybernetics á ensku en það hefur verið þýtt ‘stýrifræði’ á íslensku. Í grein frá árinu 1950 talaði enski stærðfræðingurinn og tölvunarfræðingurinn Alan Turing um eftirhermuleikinn (e. the imitation game) og velti fyrir sér hvort vélar gætu hugsað og hvernig hægt væri að meta það.[4] Enska hugtakið artificial intelligence er svo fyrst notað árið 1955 af John McCarthy, prófessor í Stanford-háskóla, um það sem hann kallar vísindin sem fást við smíði greindra véla. Sumarið eftir stóð hann fyrir tveggja mánaða málstofu í samstarfi við tíu aðra vísindamenn en hún er stundum sögð marka upphaf gervigreindar sem sérstaks rannsóknarsviðs. Á málstofunni var meðal annars rætt um hvað sviðið skyldi kallað. Þeir sem þá þegar stunduðu skyldar rannsóknir notuðu meðal annars hugtökin stýrifræði (e. cybernetics) og sjálfvirkjafræði (e. automata studies) en John McCarthy þótti of mikið af ótengdum rannsóknum falla þar undir, það er einhverju sem tengdist ekki því að gæða vélar einhvers konar greind. Á málstofunni sammæltust þátttakendur um að nota nýja hugtakið artificial intelligence yfir þau fræði. Fræðileg orðræða krefst nákvæmrar orðanotkunar og með því að festa ákveðna merkingu orðsins er stuðlað að skýrum og öruggum tjáskiptum eins og íðorðastarf miðar að.

Síðan þá hefur gervigreind orðið alltumlykjandi í umhverfi okkar þó að hugtakið sé oft aðeins notað um nýjustu tækni. Þegar tæknin verður sjálfsagðari hluti af tilverunni eru frekar notuð meira lýsandi orð, til dæmis ruslsöfnun (við forritun), leikjavélar (í tölvuleikjum) eða talgervlar, svo að eitthvað sé nefnt enda hefur verið haft eftir John McCarthy að „þegar það er farið að virka kallar enginn það gervigreind lengur“. Í því ljósi verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig talað verður í framtíðinni um þá nýju gervigreindartækni sem byggir á myndandi mállíkönum á borð við GPT-4 og hefur almennt verið kölluð gervigreind(in).

Tilvísanir:
  1. ^ Noam Chomsky. 1973. Mál og mannshugur. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  2. ^ Einar Kárason. 1981. Þetta eru asnar Guðjón. Reykjavík: Mál og menning.
  3. ^ http://malrad.fo/news_article.php?NewsArticleId=295
  4. ^ Computing Machinery and Intelligence. Mind 49: 433-460.

Mynd:

Þetta svar birtist fyrst sem hluti af lengri grein í Hugrás: Orð ársins 2023: Gervigreind(in). (Sótt 9.1.2024). Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum....