Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Maurar (Formicidae) eru stór ætt skordýra með yfir 22 þúsund tegundir. Þeir hafa alheimsútbreiðslu og finnast á öllum meginlöndum nema Suðurskautslandinu, einnig hafa maurar ekki fundist á nokkrum eyjum, meðal annars Grænlandi og einhverjum Kyrrahafseyjum. Frá 1977 hafa maurabú fundist á hverju ári á Íslandi og teljast þeir sennilega vera orðnir hluti af fánu landsins.
Til eru mörg þúsund maurategundir og finnast maurar á flestum svæðum heims.
Ætt maura telur ekki aðeins þúsundir tegunda heldur er einstaklingsfjöldinn gríðarlegur. Engin veit fyrir víst hversu margir einstaklingar lifa í efstu lögum jarðvegs um allan heim en einhverjir hafa áætlað fjöldann vera trilljónir einstaklinga og heildarlífmassinn er því ógnarmikill.
Maurar eru afar mikilvægir fyrir þau vistkerfi þar sem þeir lifa. Þeir gegna til að mynda stóru hlutverki í sundrun lífrænna efna í regnskógum jarðar, þar sem þeir opna jarðveginn og flytja til fræ, svo nokkur dæmi séu nefnd. En vegna þess hversu fyrirferðarmiklir þeir eru í vistkerfinu þá eru þeir einnig mikilvæg fæða fyrir fjölda dýrategunda. Of langt mál er að telja upp allar þær tegundir sem byggja tilveru sína að hluta eða mestu leyti á mauraáti en hér fyrir neðan eru tilgreind nokkur dæmi.
Stóra maurætan (Myrmecophaga tridactyla), sem á heimkynni sín í Suður-Ameríku, er líklega þekktasta spendýrategundin sem lifir á maurum. Þrjár aðrar tegundir mauræta finnast í álfunni, það eru dvergmaurætan (Cyclopes didactylus), langrófu-tamandúan (Tamandua tetradactyla) og Tamandua mexicana sem ekki hefur fengið íslenskt heiti. Þessar tegundir hafa allar einkennandi ranalaga snjáldru og slöngulaga tungu sem auðveldar þeim að ná til maura og termíta í búum þeirra. Auk þess eru þær búnar löngum klóm sem þær nota til að rífa upp jarðveg til að komast í termíta- og maurabúin.
Stóra maurætan (Myrmecophaga tridactyla) er ein fjögurra tegunda mauræta í Suður-Ameríku. Hún getur orðið yfir tveir metrar á lengd og allt að 50 kg.
Í sunnanverðri Afríku er tegund spendýra sem lifir mikið til á maurum og kallast Orycteropus afer eða jarðsvín upp á íslensku. Þetta dýr minnir að sumu leyti á svín, sérstaklega trýnið, án þess þó að vera svín. Jarðsvín eru einkum á ferðinni á nóttunni og nota kló líkt og maurætur Suður-Ameríku til að opna og grafa upp termíta- og maurabú.
Þriðji hópur spendýra sem er aðlagaður maura- og termítaáti eru hreisturdýr (e. pangolin). Þetta eru átta tegundir sem eru flokkaðar í þrjár ættkvíslir og finnast í sunnanverðri Afríku og Asíu. Allar eru tegundirnar sérhæfðar skordýraætur sem lifa á maurum og termítum. Dýrin nota öflugar klær til þess að grafa eftir fæðu og ná henni upp með langri tungunni. Þótt hreisturdýr séu keimlík maurætum þá eru þau skyldari rándýrum.
Jarðsvín (Orycteropus afer) minna nokkuð á svín og lifa í sunnanverðri Afríku. Maurar eru stór hluti af fæðu jarðsvína.
Einnig má geta þess að maurar eru meginuppistaðan í fæðu ýmissa fuglategunda. Þar má meðal annars nefna spörfugla af ættinni Thamnophilidae sem kallast á ensku antbirds eða maurfuglar. Þetta eru allt að 230 tegundir sem lifa í þéttum skógum í Mið- og Suður-Ameríku og tína upp maura og aðra hryggleysingja sem finnast í tegundaríkum skógum álfunnar.
Spætur (e. woodpeckers) eru þó sennilega kunnustu tegundir maurétandi fugla en þær rífa upp efstu lög trjástofna í leit að maurum og öðrum hryggleysingjum. Spætur hafa alheimsútbreiðslu og finnast skóglendi um allan heim.
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvaða tegundir spendýra lifa fyrst og fremst á maurum?“ Vísindavefurinn, 19. apríl 2024, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86350.
Jón Már Halldórsson. (2024, 19. apríl). Hvaða tegundir spendýra lifa fyrst og fremst á maurum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86350
Jón Már Halldórsson. „Hvaða tegundir spendýra lifa fyrst og fremst á maurum?“ Vísindavefurinn. 19. apr. 2024. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86350>.