Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hreisturdýr eru spendýr í ættbálknum Pholidota. Aðeins ein ætt tilheyrir þeim ættbálki: Manidae eða hreisturdýraætt. Ættin skiptist í þrjár ættkvíslir, Manis-ættkvíslina í Asíu sem telur fjórar tegundir og afrísku ættkvíslarnar Phataginus og Smutsia sem hvor um sig greinist í tvær tegundir.
Manis culionensis (filippseyska hreisturdýrið, e. Philippine pangolin eða Palawan pangolin) er einlend tegund sem finnst á nokkrum eyjum í Palawan-héraði í Filippseyjaklasanum. Vísindamenn telja að stofninn sé afar smár sökum mikils veiðiálags undanfarna áratugi og er hann talinn í hættu (EN – endangered - samkvæmt viðmiðum Alþjóðanáttúruverndarsambandsins IUCN).
Ungviði filippeysks hreisturdýrs nuddar sér upp að móðurinni sem hefur hringað sig saman.
Manis pentadactyla (kínverska hreisturdýrið, e. Chinese pangolin) finnst eins og nafnið gefur til kynna á meginlandi Kína en teygir einnig útbreiðslu sína til annarra landa við rætur Himalajafjalla svo sem Nepal, Indlands, Bangladess, Mjanmar og Víetnam. Tegundin er talin í bráðri hættu (CR – critially endangered) samkvæmt viðmiðum IUCN.
Manis javanica (sunda-hreisturdýrið, e. Sunda pangolin eða Javan pangolin) er kennt við eyjuna Jövu í Indónesíu en finnst víða annars staðar í Suðaustur-Asíu svo sem á Borneó og víða á eyjum Indónesíu, Taílandi, Kambódíu og Mjanmar. Tegundin er orðin afar fágæt á upprunalegu búsvæði sínu og er nú talin í bráðri hættu.
Manis crassicaudata (indverska hreisturdýrið, e. Indian pangolin eða thick-tailed pangolin) lifir á Indlandsskaga. Þessu dýri virðist farnast ágætlega á verndarsvæðum skagans en er þó flokkað í hættu. Indverska hreisturdýrið er nokkuð stórt eða allt að 120 cm á lengd. Hin kunnu varnarviðbrögð, að hnipra sig saman í kúlu, sem almennt þekkjast meðal hreisturdýra var fyrst rannsakað hjá þessari tegund enda þarf indverska hreisturdýrið að verjast árásum stórra kattardýra eins bengal-tígrisdýra og hlébarða.
Indverskt hreisturdýr hniprar sig saman í bolta til að verjast ljónum í Gir-skóginum í Gujarat-ríki á Indlandi.
Phataginus tricuspis (köngulbroddi, e. white-bellied pangolin eða tree pangolin) er afrísk tegund sem heldur í trjám eins og nafnið gefur til kynna. Þessi tegund er tiltölulega smávaxin og verður vart lengri en 40 cm fyrir utan halann. Tegundin finnst á regnskógarsvæðum Mið-Afríku. Líkt og asísku tegundirnar á köngulbroddi í vök að verjast, meðal annars er kjöt hans vinsælt á mörkuðum sem selja villt dýr og er tegundin talin vera í hættu.
Phataginus tetradactyla (langi hreisturhali, e. black-bellied pangolin eða long-tailed pangolin) er með óvenjulangan hala og því auðvelt að greina það frá öðrum hreisturdýrum. Langi hreisturhali finnst líkt og köngulbroddi í þéttum regnskógum Mið-Afríku. Tegundin stendur nokkuð vel miðað við önnur hreisturdýr og er flokkuð af IUCN sem tegund í nokkurri hættu (VU - vulnarable).
Smutsia gigantea (hreisturtrölli, e. giantground pangolin ) finnst víða um miðbik og vesturhluta Afríku og er hvort tveggja í þéttum regnskógum eða stjaktrjáasléttum (savanna). Mestur þéttleiki dýranna er þó í Kenía og Úganda. Þetta hreisturdýr getur orðið allt að 140 cm á lengd og því marktækt stærra en indverska hreisturdýrið. Tegundin er í hættu.
Smutsia temminckii (gresju-hreisturdýr, e. Temminck’s pangolin eða Cape pangolin) er kennt við hollenska dýrafræðingin, Coenraad Jacob Temminck og finnst víða í sunnan- og austanverðri Afríku. Gresju-hreisturdýrið er helmingi minni en hin tegund ættkvíslarinnar og getur orðið allt að 70 cm á lengd. Samkvæmt viðmiðum IUCN er tegundin talin í nokkurri hættu.
Helsta einkenni hreisturdýra eru harðar hreistur-plötur úr keratíni en það er sama efni og hár okkar og neglur eru gerðar úr. Plöturnar þekja allan líkamann að kviðnum undanskildum. Þegar hreisturdýri er ógnað af rándýri hniprar það sig saman í bolta til að verja viðkvæman kviðinn en erfitt er fyrir rándýr að bíta sig í gegnum harðar plöturnar. Ef rándýrið tekur hreisturdýrið upp í skoltinn þá á það á hættu að hreisturdýrið sveifli halanum kröftuglega þannig að hvassar brúnir platnanna særi rándýrið. Hreisturplöturnar eru því öflug vörn.
Helsta einkenni hreisturdýra eru harðar hreisturplötur úr keratíni sem þekja allan líkamann að kviðnum undanskildum.
Allar tegundir hreisturdýra eru sérhæfðar skordýraætur sem lifa á maurum og termítum. Dýrin nota öflugar klær til þess að grafa eftir fæðu og ná henni upp með langri tungunni. Þótt hreisturdýr séu keimlík maurætum þá eru þau skyldari rándýrum (Carnivora) en sameiginlegur forfaðir þessara ólíku hópa spendýra var uppi fyrir um 78 milljón árum síðan.
Upplýsingar um stofnstærð hreistudýrategundanna eru af skornum skammti. Allar eru tegundirnar næturdýr og miklir einfarar og sjást sjaldan. Mat vísindamanna er að allar tegundirnar séu í viðkvæmri stöðu og sumar í töluverðri hættu. Ástæða þess er fyrst og fremst vegna athafna mannskepnunnar. Víða hefur verulega verið gengið á náttúrleg heimkynni þeirra með þeim afleiðingum að stofnum dýranna hnignar. Þá hafa hreisturdýr orðið illa fyrir barðinu á ólöglegum veiðum en dýrin eru veidd bæði vegna kjötsins og eins eru hreisturplöturnar notaðar til lækninga í kínverskri læknisfræði auk annarra nytja.
Hreisturdýr hafa fengið aukna athygli eftir að COVID-19-faraldurinn hófst en talið er mögulegt að sunda-hreisturdýrið hafi komið við sögu sem millihýsill þegar veiran barst úr leðurblökum í menn.
Heimildir og myndir:
Schlitter, D.A. (2005). Order Pholidota. Í Wilson, D.E. og Reeder, D.M (ritstj.). Mammal Species of the World: A Taxonomic and Geographic Reference (3.útg.). Johns Hopkins University Press.
Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr eru hreisturdýr og hvað eru til margar tegundir af þeim?“ Vísindavefurinn, 17. júní 2020, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79615.
Jón Már Halldórsson. (2020, 17. júní). Hvers konar dýr eru hreisturdýr og hvað eru til margar tegundir af þeim? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79615
Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr eru hreisturdýr og hvað eru til margar tegundir af þeim?“ Vísindavefurinn. 17. jún. 2020. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79615>.