Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig lifir hlébarði?

Jón Már Halldórsson

Hlébarði eða pardusdýr (Panthera pardus) tilheyrir sömu ættkvísl og aðrar stórvaxnar kattategundir. Þar má nefna jagúarinn (Panthera onca), ljónið (Panthera leo) og tígrisdýrið (Panthera tigris). Engin tegund stórra kattardýra er jafn útbreidd og hlébarðinn; þeir finnast um alla Afríku, á Arabíuskaganum, í Íran, Mið-Asíu, Kína, á Indlandi, Sri Lanka og syðst í Síberíu. Vísindamenn hafa ekki verið á eitt sáttir um í hversu margar deilitegundir hlébarðar skiptast. Áður fyrr voru deilditegundirnar taldar um eða yfir 30 talsins en nú er algengara að þær séu taldar vera 6-9.

Talsverður stærðarmunur er á deilitegundum. Þyngdin er frá 50 og upp í 120 kg. Afrísku hlébarðarnir eru venjulega stærstir, frá 60 til 70 cm upp á herðakamb og um 210 cm á lengd (mælt með rófu, sem er venjulega um 90 cm).

Hlébarðinn er útbreiddasta tegund stórkatta og finnst um alla Afríku, á Arabíuskaganum, í Íran, Mið-Asíu, Kína, á Indlandi, Sri Lanka og syðst í Síberíu.

Hlébarðinn er einfari og er kjörlendi hans laufskógar og kjarrlendi. Hann á gott með að klifra og fer gjarnan með nýveidda bráð sína upp í tré þar sem keppinautar hans, ljón og hýenur (í Afríku) eða tígrisdýr og villihundar (í Asíu) ná ekki til hennar. Veiðiatferli hlébarðans er þannig að hann reynir að læðast að bráðinni og stökkva síðan á hana eða ná henni á stuttum spretti. Slíkt veiðiatferli þekkist meðal annars hjá tígrisdýrum.

Bráð hlébarða getur verið allt frá smáum spendýrum upp í meðalstóra hirti og antilópur. Í Afríku veiðir hlébarðinn oft bavíana en víða eru hundar í uppáhaldi hjá honum. Stundum gerast hlébarðar mannætur, en þau tilvik eru aðallega bundin við Indland þar sem menn eru farnir að þrengja verulega að heimkynnum hans.

Enginn afmarkaður fengitími er hjá hlébörðum. Venjulega eignast kvendýrin tvo til fjóra hvolpa eftir þriggja mánaða meðgöngutíma.

Þess má geta til gamans að til eru svartir hlébarðar en þeir eru einungis bundnir við regnskóga Suður-Asíu.

Nokkrar deilitegundir hlébarðans eru í verulegri útrýmingarhættu og má þar nefna Suður-Arabíuhlébarðann, Anatólíuhlébarðann sem lifir á svæðum í Tyrklandi og Íran, Sinaí-hlébarðann við botn Miðjarðarhafsins og Amúr-hlébarðann í Ussuri í Rússlandi.

Mynd:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

17.5.2001

Síðast uppfært

29.7.2020

Spyrjandi

Gréta Þórsdóttir, f. 1986

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig lifir hlébarði?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2001, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1618.

Jón Már Halldórsson. (2001, 17. maí). Hvernig lifir hlébarði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1618

Jón Már Halldórsson. „Hvernig lifir hlébarði?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2001. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1618>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig lifir hlébarði?
Hlébarði eða pardusdýr (Panthera pardus) tilheyrir sömu ættkvísl og aðrar stórvaxnar kattategundir. Þar má nefna jagúarinn (Panthera onca), ljónið (Panthera leo) og tígrisdýrið (Panthera tigris). Engin tegund stórra kattardýra er jafn útbreidd og hlébarðinn; þeir finnast um alla Afríku, á Arabíuskaganum, í Íran, Mið-Asíu, Kína, á Indlandi, Sri Lanka og syðst í Síberíu. Vísindamenn hafa ekki verið á eitt sáttir um í hversu margar deilitegundir hlébarðar skiptast. Áður fyrr voru deilditegundirnar taldar um eða yfir 30 talsins en nú er algengara að þær séu taldar vera 6-9.

Talsverður stærðarmunur er á deilitegundum. Þyngdin er frá 50 og upp í 120 kg. Afrísku hlébarðarnir eru venjulega stærstir, frá 60 til 70 cm upp á herðakamb og um 210 cm á lengd (mælt með rófu, sem er venjulega um 90 cm).

Hlébarðinn er útbreiddasta tegund stórkatta og finnst um alla Afríku, á Arabíuskaganum, í Íran, Mið-Asíu, Kína, á Indlandi, Sri Lanka og syðst í Síberíu.

Hlébarðinn er einfari og er kjörlendi hans laufskógar og kjarrlendi. Hann á gott með að klifra og fer gjarnan með nýveidda bráð sína upp í tré þar sem keppinautar hans, ljón og hýenur (í Afríku) eða tígrisdýr og villihundar (í Asíu) ná ekki til hennar. Veiðiatferli hlébarðans er þannig að hann reynir að læðast að bráðinni og stökkva síðan á hana eða ná henni á stuttum spretti. Slíkt veiðiatferli þekkist meðal annars hjá tígrisdýrum.

Bráð hlébarða getur verið allt frá smáum spendýrum upp í meðalstóra hirti og antilópur. Í Afríku veiðir hlébarðinn oft bavíana en víða eru hundar í uppáhaldi hjá honum. Stundum gerast hlébarðar mannætur, en þau tilvik eru aðallega bundin við Indland þar sem menn eru farnir að þrengja verulega að heimkynnum hans.

Enginn afmarkaður fengitími er hjá hlébörðum. Venjulega eignast kvendýrin tvo til fjóra hvolpa eftir þriggja mánaða meðgöngutíma.

Þess má geta til gamans að til eru svartir hlébarðar en þeir eru einungis bundnir við regnskóga Suður-Asíu.

Nokkrar deilitegundir hlébarðans eru í verulegri útrýmingarhættu og má þar nefna Suður-Arabíuhlébarðann, Anatólíuhlébarðann sem lifir á svæðum í Tyrklandi og Íran, Sinaí-hlébarðann við botn Miðjarðarhafsins og Amúr-hlébarðann í Ussuri í Rússlandi.

Mynd:...