Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jagúar (Panthera onca) er þriðja stærsta kattardýr heims og það stærsta sem lifir villt í nýja heiminum. Það er óhætt að segja að jagúarinn lifi í skugga stóru kattardýra gamla heimsins enda margt í líffræði hans sem er lítt þekkt, samanborið við stóru frændur hans, ljón og tígrisdýr.
Jagúarinn er svokallað topprándýr (e. apex predator) á þeim svæðum sem hans finnst á í Norður- og Suður-Ameríku. Það merkir að hann er efst í fæðukeðjunni. Talið er að forfeður nútímajagúarsins hafi borist með landbrúnni sem nú er Beringssund á pleistósentímabilinu sem hófst fyrir 2,6 milljónum ára og varði til loka síðasta jökulskeiðs. Útbreiðslusvæði jagúarsins nær nú frá Mexíkó og suður til Argentínu. Hann finnst bæði í þéttum regnskógum og opnum svæðum líkt og tígrisdýr í Asíu. Margt annað er sameiginlegt með honum og risavöxnum frænda hans í Asíu, til að mynda eru bæði jagúarar og tígrísdýr ákaflega góðir sundkettir og veigra sér ekki við að synda að bráð og koma henni þannig á óvart.
Jagúar (Panthera onca) er þriðja stærsta kattardýr heims og það stærsta sem lifir villt í nýja heiminum.
Talið er að jagúarinn hafi á síðastliðnum áratugum tapað allt að 36% af búsvæði sínu en tegundin telst ekki enn vera í mikilli hættu þó dýrum hafi fækkað verulega það sem af er þessari öld. Rannsóknir hafa verið gerðar á útbreiðslu jagúars á þeim svæðum þar sem fjallaljón (Puma concolor) finnast einnig en þau eru nokkuð minni en jagúarinn. Á þeim svæðum sem þessir tveir stærstu kettir nýja heimsins deila er fjallaljónið marktækt smærra að vexti en á þeim svæðum þar sem fjallaljónið þarf ekki að standa í samkeppni við þennan rósettulaga og illvíga kött.
Þetta er þekkt í þróunarsögunni og vísar í aðlögun dýra að smærri bráð þar sem annað og sterkara dýr er í samkeppni við það. Á þeim svæðum er bæði dýrin finnast veiðir jagúarinn að jafnaði dýr sem eru vel yfir 20 kg að þyngd en fjallaljónið veiðir smærri dýr, frá 2-20 kg. Þar sem jagúarsins nýtur ekki við, er meirihluti bráðar fjallaljónsins vel yfir 20 kg.
Viðamiklar rannsóknir á fæðuvali jagúarsins hafa sýnt að á „matseðli“ hans hafa fundist 87 tegundir misstóra dýra, þó aðallega spendýra. Jagúarinn er virkastur í veiðum snemma morguns eða í ljósaskiptum seint að kvöldi. Drápsaðferðir hans eru allsérstakar miðað við aðra ketti. Jagúarinn ræðst aftan á dýrið og bítur í hauskúpuna neðanverða á gagnaugnasvæði (e. temporal bones) við eyrun og kemst þannig að heila dýrsins.
Bitkraftur jagúarsins er óvenjuöflugur og það einnig ef miðað er við aðra stórketti.
Ljón og aðrir stórkettir, og jafnvel smærri kattardýr, ráðast að hálsi fórnarlambs síns en sé bráðin stór reyna þau að kæfa hana með því að loka fyrir öndunarveginn. Slík aðferð þekkist einnig hjá jagúarnum. Þessi aðferð jagúarsins við höfuðkúpumulningu á bráð kann að hafa þróast meðal þeirra á pleistósentímabilinu við veiðar á skjaldbökum, til dæmis sæskjaldbökum en þær eru einnig regluleg bráð hjá þeim í Norður-Ameríku. Sökum þessarar aðlögunar er bitkraftur jagúarsins óvenjuöflugur og það einnig ef miðað er við aðra stórketti.
Einhver breytileiki þekkist í litarfari jagúarsins. Þekktir eru svartir jagúarar en talið er að allt að 6% heimsstofns jagúarsins sé svartur vegna víkjandi gens.
Enginn veit nákvæmlega hver heimsstofn jagúarsins er í dag. Árin 1990 og 1991 var gert nokkuð gott stofnstærðarmat á takmörkuðum svæðum á þessu víðfeðma útbreiðslusvæði hans. Þá var talið að á milli 600 og 1.000 dýr hafi verið að finna í skógum Belís. Á Calakamul-verndarsvæðinu í Mexíkó voru um 125-180 dýr á 4.000 km2 svæði og í Maja-þjóðgarðinum í Gvatemala er talið að 500 dýr hafi verið á 15.000 km2 svæði.
Þess má geta að jagúarar héldu sig einnig áður fyrr í suðurríkjum Bandaríkjanna, nánar tiltekið í Arizona, Nýju-Mexíkó og Texas, en þeir fundust einnig í Kaliforníu og Colorado. Jagúarnum var þó óformlega útrýmt í Bandaríkjunum árið 1963 þegar kvendýr var skotið í Arizona. Síðan þá hafa aðeins örfá dýr sést í Bandaríkjunum, nálægt landamærunum við Mexíkó.
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um kattardýrið jagúar?“ Vísindavefurinn, 23. febrúar 2017, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73233.
Jón Már Halldórsson. (2017, 23. febrúar). Hvað getið þið sagt mér um kattardýrið jagúar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73233
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um kattardýrið jagúar?“ Vísindavefurinn. 23. feb. 2017. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73233>.