Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er vitað til þess að Tyrkjaránsmenn hafi eignast börn með íslenskum konum?

Már Jónsson

Stutta svarið við spurningunni er þetta: Óhætt er að fullyrða að engin börn hafi fæðst á Íslandi á vormánuðum 1628 sem áttu sjóræningja frá Norður-Afríku, Englandi, Hollandi eða Spáni fyrir föður. Aftur á móti er fullvíst að einhverjir hinna herteknu Íslendinga hafi aukið kyn sitt í Norður-Afríku næstu árin.

Lengra svar

Svonefnt Tyrkjarán árið 1627 fólst í því að nokkur vel sjófær skip mönnuð galvöskum sjóræningjum sigldu til Íslands alla leið frá Saléborg í Marokkó og sjálfri Algeirsborg. Fullvíst má telja að forsvarsmenn þessara leiðangra hafi vitað að Danir voru í vondum málum við stríðsrekstur á meginlandi Evrópu og höfðu ekki bolmagn til að halda uppi eftirliti með siglingum á Norður-Atlantshafi. Sömu aðilar, ef svo má segja, höfðu herjað á Írlandi áður og jafnvel siglt inn í Ermasund. Skipin frá Marokkó lögðu að landi í Grindavík 20. júní 1627 og nokkrir íbúar voru teknir til fanga – tólf til fimmtán manns eftir því sem næst verður komist. Ferðinni var haldið áfram fyrir Reykjanes og inn í Skerjafjörð nærri Bessastöðum, þar sem menn bjuggust til varna, en 25. júní héldu skipin á haf út. Þau komu ekki aftur að landi og sigldu rakleiðis til Salé.

Hinn 4. júlí sást til ókunnra skipa fyrir sunnanverðu Austurlandi, sem voru frá Algeirsborg og þrjú talsins. Ræningjar gengu á land og eirðu engu. Þeir skiptu með sér liði og í samtíðarfrásögn segir um hópinn sem fór um Berufjörð: „Ræntu svo alla ströndina bæði að fólki og fénaði, sem þeir náð gátu, og ráku svo þetta allt undan sér með skotum og spjótalögum og óvargahljóðum, en það ei vildi ganga hjuggu þeir til dauðs niður, svo þar hafa fundist nítján menn dauðir eftir þá.“ Ránsfengurinn varð 110 einstaklingar, mest Íslendingar en líka fáeinir Danir af kaupskipi. Ræningjaskipin sigldu sem leið lá suður með landinu til Vestmannaeyja og hafa forsprakkar vitað að þar var stærsta þorp í landinu og auðveld aðkoma af sjó. Kaupmaðurinn í Vestmanneyjum komst undan upp í Landeyjar og nokkrir Íslendingar og Danir með honum, en aðrir íbúar komust hvergi og urðu ræningjunum að bráð. Líklega voru 247 teknir höndum og ekki færri en 34 drepnir – og má ætla að rétt rúmlega hundrað manns hafi verið eftir í Eyjum þegar skipin sigldu burt 19. júlí.

Málverk eftir flæmska málarann Andries van Eertvelt (1590-1652) af seglskútu frá Algeirsborg í Barbaríinu, eins og Norður-Afríka var þá kölluð. Málverkið er frá sama tíma og svonefnt Tyrkjarán var framið hér á landi.

Aðförunum lýsti Kláus Eyjólfsson lögréttumaður eftir sjónarvottum: „Í fyrstu dreifðu þeir sér um allar eyjarnar, svo ei skyldi mannsbarn hjá komast.“ Ef einhver gat ekki gengið nógu hratt var hann drepinn: „þann hjuggu þeir til heljar, svo hann lá þar dauður eftir.“ Ógurlegust er lýsing á því hvernig ræningjarnir báru eld að húsum og komu að konu sem ekki gat fylgt hópnum eftir: „gripu þeir hana strax með sínu tvævetru barni og köstuðu báðum í bálið. En sem hún og barnskepnan veinuðu, kallandi á guð sér til hjálpar, grenjuðu þeir með óhljóðum, hrindandi þeim með spjótsoddum inn í bálið sem þau út skriðu, og pikkuðu svo líkamina í brunanum.“ Aðra konu eltu þeir uppi og hljóp hún eins hratt og hún gat á undan þeim „þar til hún fæddi sitt fóstur, og datt þar dautt niður bæði hún og fóstrið.“ Kláus segir frá líka því að einn ræningjanna hafi náð konu á flótta og nauðgað henni: „Hann tók hana strax og lá með henni, og setti hana á hest og riðu þau svo til Dönskuhúsa.“ Önnur lýsing á nauðgun er í textanum, en kemur aðeins fyrir í einu handriti og gæti verið yngri viðbót. Rétt er þó að tilfæra hana í heild:

Tvær kvensviftir urðu eftir sem seinfærari voru en hitt fólkið. Hjá þessum staðnæmdust þrír af þessum morðhundum, því þeir voru þrettán alls sem í þeim hóp voru. Önnur þeirra kvenna hafði tvö börn, þau með móðurinni emjuðu ógurlega, en þeir tóku börnin og brutu þeirra háls í sundur, síðan hvört bein mölvuðu þeir í sundur við klettana og köstuðu þeim síðan út í sjó, en móðirin með gríðuglegum hljóðunum svo ei mátti standast það að heyra. En þeir tóku hana með hinni, lágu þær í þessum hörmungum sem þær höfðu, höfðu þær síðan með sér að Dönskuhúsum.

Annan prestinn í Vestmannaeyjum drápu ræningjarnir og hertóku hinn, séra Ólaf Egilsson, sem síðar var sendur til Kaupmannahafnar í því augnamiði að útvega lausnargjald og sneri aftur til Íslands, en kona hans og börn urðu eftir í Algeirsborg. Hann lýsti aðförum ræningjanna svo: „þeir fóru sem flugur fljótlega upp á eyjarnar og yfir þær allar sem aðrir jagthundar í stórum hópum með sínum mörgu rauðu blóðmerkjum og algjörðri stríðsaðferð, með stórum látum og vargahljóðum, svo að það veika kvenfólk og barnakindur urðu ekki undan hafðar.“ Þeir „gripu fólkið og bundu hvar sem þeir því náðu, unga og gamla, kvinnur og menn, og svo einnin ungbörnin, innan húss og utan, á fjöllum uppi, í hellrum og holum, jafnvel þar íslenskir komust naumlega, en drápu þá alla sem á móti stóðu og þá sem gjörðu kross fyrir sér eða nefndu Jesú nafn.“ Hann nefnir ekki nauðganir, hvorki þar sem hann lýsir eigin reynslu né í því sem hann hefur eftir mönnum sem komust undan og lýstu atburðum fyrir honum eftir að hann sneri heim.

Og því er hér dregið fram það litla sem segir um nauðganir að einungis með þeim hætti hafa íslenskar konur getað orðið vanfærar af völdum ræningjanna. Ekki var slíku til að dreifa austanlands og Kláus Eyjólfsson getur þriggja kvenna sem var nauðgað í Eyjum. Þær voru allar fluttar í skip og teknar með. Hafi fleiri konum verið nauðgað þessa daga hefur það sama vafalaust gilt um þær. Fyrir vikið er óhætt að fullyrða að engin börn hafi fæðst á Íslandi á vormánuðum 1628 sem áttu sjóræningja frá Norður-Afríku, Englandi, Hollandi eða Spáni fyrir föður.

Sama niðurstaða fæst við athugun á svonefndum sakeyrisreikningum yfirvalda. Mjög strangt eftirlit var á þessum árum með því að ógiftar konur feðruðu börn sín. Forsenda þess var ótti við að börn væru getin í nánum skyldleika eða mægðum sem dauðarefsing lá við samkvæmt Stóradómi frá 1564. Árið 1603 var til dæmis samþykkt á alþingi að konur sem tregðuðust við að feðra börn sín skyldu reknar úr fjórðungi en hýðast árlega að öðrum kosti. Nokkru eldri ákvæði kirkjunnar gerðu ráð fyrir bannsetningu eða með öðrum orðum útskúfun úr söfnuðinum. Árið 1626 var síðan á alþingi lesið konungsbréf til Íslands frá 16. desember 1625 um konur sem neituðu að feðra börn sín og var sýslumönnum skipað að yfirheyra þær vandlega og senda til Kaupmannahafnar til refsingar ef þær þrjóskuðust við. Þeim viðurlögum var reyndar aldrei beitt vegna kostnaðarins og fremur nýttar fyrri aðferðir með hýðingu og útlegð. Nokkuð er um mál af þessu tagi í dómum og má vera ljóst að varla nokkur kona komst upp með að leyna því hver ætti barnið. Auðvitað var eitthvað um rangfeðranir eða að konur lýstu dauða menn feður að börnum sínum, sem engin leið var að sannprófa. Að því gefnu má taka mark á skrám um barneignir utan hjónabands sem til eru í lénsreikningum höfuðsmanna. Samkvæmt Stóradómi lágu misháar sektir við ólíkum tegundum slíkra brota og sýslumenn áttu að senda lista um þau á hverju ári til Bessastaða. Mest af þessu er varðveitt og foreldrar barnanna nafngreindir.

Athuganir á svonefndum sakeyrisreikingum yfirvalda gefa ekki til kynna að hér á landi hafi fæðst börn sem áttu sjóræningja fyrir föður á vormánuðum ársins 1628. Myndin sýnir sakeyrirreikning, fyrirsögnin er „Sagefald aff Rangeruelle Sysell stod Fusse Gislason regenshab aff paa hans faders vegne.“ Fyrst eru Sigurður Jónsson og Gunnhildur Gunnlaugsdóttir, sem voru systkinabörn, en síðan Bárður Árnason „udj Westmann Ø“ sem greiddi 8 dali fyrir sitt fyrsta hórdómsbrot. Þá koma þremenningarnir Andrés Gíslason og Hallbera Þorgrímsdóttir.

Reikningsárið var frá Jónsmessu á sumri eða 24. júní til sama tíma að ári. Fæðingar vorið 1628 geta því hafa náð inn í uppgjörið 24. júní 1628 en kannski ekki fyrr en ári síðar. Á landsvísu fæddust 72 óskilgetin börn reikningsárið 1627/1628 og 84 reikningsárið 1628/1629 eða samanlagt 156. Af þeim voru tólf í Gullbringu- og Kjósarsýslu, tíu í Múlasýslu og 24 í Rangárvallasýslu, sem Vestmannaeyjar tilheyrðu um þetta atriði. Allir foreldrarnir voru íslenskir og feðurnir hafa gengist fúslega við sínum hlut að máli. Eitt tilvik var úr Vestmannaeyjum fyrra árið og Bárður Árnason sektaður fyrir fyrsta hórdómsbrot, en konan ekki nefnd á nafn, sem er fátítt (sjá mynd). Líklega hafði eiginkona Bárðar verið hertekin, en barneignir slíkra manna – og raunar kvenna líka sem höfðu misst eiginmenn með sama hætti – voru mjög til umræðu næstu árin og komu til kasta bæði biskups og alþingis. Hvað átti að bíða lengi þangað til fangarnir hugsanlega sneru aftur? Til glöggvunar um sakeyrisskrárnar fylgja færslur úr Múlasýslu bæði árin – þýddar lauslega úr dönsku. Nöfn eru tilgreind og tegund brots með skýringum innan sviga, auk sektarinnar:

1628

Jón Brynjólfsson og Kristín Þórðardóttir; hans fyrsta og hennar annað brot í frillulífi (bæði ógift): 1½ dalur.

Marteinn Magnússon og Margrét Björnsdóttir; beggja fyrsta brot í einföldum hórdómi (annað þeirra gift) og þau voru þremenningar: 16 dalir fyrir hórdómsbrotið og hitt beið næsta árs (en var ekki afgreitt þá).

Eiríkur Ketilsson og Guðrún Árnadóttir; beggja fyrsta brot í frillulífi: 1 dalur.

1629

Erik Olsen og Guðrún Ormsdóttir; hans fyrsta og hennar annað brot í frillulífi: 1½ dalur.

Bjarni Sveinsson og Ólöf Styrbjarnardóttir; hans annað og hennar fyrsta brot í frillulífi: 1½ dalur.

Árni Herjólfsson og Þuríður Styrbjarnardóttir; hans þriðja og hennar fyrsta brot í frillulífi, en jafnframt voru þau þremenningar: 10 dalir.

Guðmundur Björnsson og Ragnhildur Andrésdóttir; beggja fyrsta brot í tvöföldum hórdómi (bæði gift öðrum). Hann borgaði 4 dali en hún var fátæk og gat ekki borgað, og var fyrir vikið hýdd.

Árni Herjólfsson og Guðríður Jónsdóttir; hans fjórða og hennar þriðja brot í frillulífi: 6 rd.

Björn Oddsson og Veiga Torfadóttir, beggja fyrsta brot í einföldum hórdómi: 16 rd.

Um barneignir sjóræninga á Íslandi þarf fyrir vikið ekki að velkjast í vafa – ekkert slíkt átti sér stað. Aftur á móti er fullvíst að einhverjir hinna herteknu Íslendinga hafi aukið kyn sitt ytra næstu árin. Gögn um útlausn fanga og fáein bréf sem skiluðu sér til Íslands sýna að býsna margir dóu fljótlega eftir komuna og flestir hinna héldu sinni kristnu trú, en ófáir aðlöguðust hinu nýja samfélagi, einkum þeir sem yngri voru að árum. Í bréfi Jóns Jónssonar frá Grindavík 24. janúar 1630, sem þá var í Algeirsborg, tekur hann fram að margir Íslendinganna standist enn allar freistingar, hvað sem líði „óheyrilegum erfiðismunum og ómiskunnsamlegum aðbúnaði“, en þó séu þeir fleiri „sem turnaðir eru og þó komnir til lögaldurs og meir.“ Í bréfi Guttorms Hallssonar 20. nóvember 1631, sem einnig var í Algeirsborg, segir um tvær konur af Austfjörðum að þær „turnuðu strax sem þær komu hér til landsins.“ Harðar var líka sótt að kvenfólkinu „því það ásækir svo þetta dífilsfólk fram úr máta að það umturnist og afneiti svo sínum guði og skapara. En guð hefur svo styrkt í þessu stríði margar dásamlega, svo þær halda sinni réttri trú allt til þessa.“

Nákvæmust um samneyti Íslendings við heimamenn er frásögn Halls Þorsteinssonar, sem var einn þeirra sem sneri aftur til Íslands. Hann kom á þing í Vestmannaeyjum í júní 1636 til að bera vitni um Önnu Jasparsdóttur, gifta konu frá Vestmannaeyjum, sem: „er þar vistföst í Tyrkjaríinu med fullkomnum samfélagsskap við einn tyrkneskan heiðingja og honum samþykk með sönnu hatri og óvild við þá kristnu, svo hennar er ei í neinn máta aftur von hingað til landsins fyrir mínum skilningi, því hún hefur alið börn við sama manni er hún við heldur og hér er ánefndur og er að merkja og reyna sem hans eiginkona sé.“ Hallur hafði síðast séð hana fjórum árum fyrr „og vildi hún þá ei sjá íslenska kristna menn, þess heldur umgengni með þeim að hafa.“ Ekki fer sögum af íslenskum körlum sem stofnuðu fjölskyldur í Barbaríinu, eins og Norður-Afríka var þá kölluð, en vafalaust hefur það gerst og má þar nefna sem mögulegt dæmi ónafngreindan son séra Ólafs og konu hans Ástríðar Þorsteinsdóttur, sem var níu ára gamall þegar þau voru hertekin. Í öðru bréfi árið 1633 vissi ofangreindur Jóns Jónsson að séra Ólafur var kominn aftur til Vestmannaeyja og sagði þær fréttir af Ástríði að hún bæri sig „allra hryggilegast, svo hennar augnatár þorni eigi, fyrir því hún fái ei bréf frá sínum ástvinum og vegna síns turnaða sonar sem fyrr frá segir og fór útlægur með hans húsbónda til Túnis með þeim útlægu Kollórum.“ Þar var hann horfinn í mannahafið, líkt og svo margir, en móðirin var meðal þeirra Íslendinga sem fengust leystir þremur árum síðar.

Heimildir
  • Már Jónsson, „Barnsfeðrun og eiðatökur á 17. öld“, Ný saga 3 (1989), bls. 34–46; Vef. https://timarit.is/page/5363293#page/n35/mode/2up
  • Reisubók Ólafs Egilssonar og aðrir textar um Tyrkjaránið 1627. Már Jónsson og Kári Bjarnason bjuggu til prentunar. Selfossi: Sæmundur 2020.
  • Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Útgefandi Jón Þorkelsson. Reykjavík: Sögufélag 1906–1909.
  • Þorsteinn Helgason, The Corsairs' Longest Voyage. The Turkish Raid in Iceland 1627. Leiden: Brill 2018.

Myndir:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

13.3.2024

Spyrjandi

Kristinn G.

Tilvísun

Már Jónsson. „Er vitað til þess að Tyrkjaránsmenn hafi eignast börn með íslenskum konum?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2024, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86353.

Már Jónsson. (2024, 13. mars). Er vitað til þess að Tyrkjaránsmenn hafi eignast börn með íslenskum konum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86353

Már Jónsson. „Er vitað til þess að Tyrkjaránsmenn hafi eignast börn með íslenskum konum?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2024. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86353>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er vitað til þess að Tyrkjaránsmenn hafi eignast börn með íslenskum konum?
Stutta svarið við spurningunni er þetta: Óhætt er að fullyrða að engin börn hafi fæðst á Íslandi á vormánuðum 1628 sem áttu sjóræningja frá Norður-Afríku, Englandi, Hollandi eða Spáni fyrir föður. Aftur á móti er fullvíst að einhverjir hinna herteknu Íslendinga hafi aukið kyn sitt í Norður-Afríku næstu árin.

Lengra svar

Svonefnt Tyrkjarán árið 1627 fólst í því að nokkur vel sjófær skip mönnuð galvöskum sjóræningjum sigldu til Íslands alla leið frá Saléborg í Marokkó og sjálfri Algeirsborg. Fullvíst má telja að forsvarsmenn þessara leiðangra hafi vitað að Danir voru í vondum málum við stríðsrekstur á meginlandi Evrópu og höfðu ekki bolmagn til að halda uppi eftirliti með siglingum á Norður-Atlantshafi. Sömu aðilar, ef svo má segja, höfðu herjað á Írlandi áður og jafnvel siglt inn í Ermasund. Skipin frá Marokkó lögðu að landi í Grindavík 20. júní 1627 og nokkrir íbúar voru teknir til fanga – tólf til fimmtán manns eftir því sem næst verður komist. Ferðinni var haldið áfram fyrir Reykjanes og inn í Skerjafjörð nærri Bessastöðum, þar sem menn bjuggust til varna, en 25. júní héldu skipin á haf út. Þau komu ekki aftur að landi og sigldu rakleiðis til Salé.

Hinn 4. júlí sást til ókunnra skipa fyrir sunnanverðu Austurlandi, sem voru frá Algeirsborg og þrjú talsins. Ræningjar gengu á land og eirðu engu. Þeir skiptu með sér liði og í samtíðarfrásögn segir um hópinn sem fór um Berufjörð: „Ræntu svo alla ströndina bæði að fólki og fénaði, sem þeir náð gátu, og ráku svo þetta allt undan sér með skotum og spjótalögum og óvargahljóðum, en það ei vildi ganga hjuggu þeir til dauðs niður, svo þar hafa fundist nítján menn dauðir eftir þá.“ Ránsfengurinn varð 110 einstaklingar, mest Íslendingar en líka fáeinir Danir af kaupskipi. Ræningjaskipin sigldu sem leið lá suður með landinu til Vestmannaeyja og hafa forsprakkar vitað að þar var stærsta þorp í landinu og auðveld aðkoma af sjó. Kaupmaðurinn í Vestmanneyjum komst undan upp í Landeyjar og nokkrir Íslendingar og Danir með honum, en aðrir íbúar komust hvergi og urðu ræningjunum að bráð. Líklega voru 247 teknir höndum og ekki færri en 34 drepnir – og má ætla að rétt rúmlega hundrað manns hafi verið eftir í Eyjum þegar skipin sigldu burt 19. júlí.

Málverk eftir flæmska málarann Andries van Eertvelt (1590-1652) af seglskútu frá Algeirsborg í Barbaríinu, eins og Norður-Afríka var þá kölluð. Málverkið er frá sama tíma og svonefnt Tyrkjarán var framið hér á landi.

Aðförunum lýsti Kláus Eyjólfsson lögréttumaður eftir sjónarvottum: „Í fyrstu dreifðu þeir sér um allar eyjarnar, svo ei skyldi mannsbarn hjá komast.“ Ef einhver gat ekki gengið nógu hratt var hann drepinn: „þann hjuggu þeir til heljar, svo hann lá þar dauður eftir.“ Ógurlegust er lýsing á því hvernig ræningjarnir báru eld að húsum og komu að konu sem ekki gat fylgt hópnum eftir: „gripu þeir hana strax með sínu tvævetru barni og köstuðu báðum í bálið. En sem hún og barnskepnan veinuðu, kallandi á guð sér til hjálpar, grenjuðu þeir með óhljóðum, hrindandi þeim með spjótsoddum inn í bálið sem þau út skriðu, og pikkuðu svo líkamina í brunanum.“ Aðra konu eltu þeir uppi og hljóp hún eins hratt og hún gat á undan þeim „þar til hún fæddi sitt fóstur, og datt þar dautt niður bæði hún og fóstrið.“ Kláus segir frá líka því að einn ræningjanna hafi náð konu á flótta og nauðgað henni: „Hann tók hana strax og lá með henni, og setti hana á hest og riðu þau svo til Dönskuhúsa.“ Önnur lýsing á nauðgun er í textanum, en kemur aðeins fyrir í einu handriti og gæti verið yngri viðbót. Rétt er þó að tilfæra hana í heild:

Tvær kvensviftir urðu eftir sem seinfærari voru en hitt fólkið. Hjá þessum staðnæmdust þrír af þessum morðhundum, því þeir voru þrettán alls sem í þeim hóp voru. Önnur þeirra kvenna hafði tvö börn, þau með móðurinni emjuðu ógurlega, en þeir tóku börnin og brutu þeirra háls í sundur, síðan hvört bein mölvuðu þeir í sundur við klettana og köstuðu þeim síðan út í sjó, en móðirin með gríðuglegum hljóðunum svo ei mátti standast það að heyra. En þeir tóku hana með hinni, lágu þær í þessum hörmungum sem þær höfðu, höfðu þær síðan með sér að Dönskuhúsum.

Annan prestinn í Vestmannaeyjum drápu ræningjarnir og hertóku hinn, séra Ólaf Egilsson, sem síðar var sendur til Kaupmannahafnar í því augnamiði að útvega lausnargjald og sneri aftur til Íslands, en kona hans og börn urðu eftir í Algeirsborg. Hann lýsti aðförum ræningjanna svo: „þeir fóru sem flugur fljótlega upp á eyjarnar og yfir þær allar sem aðrir jagthundar í stórum hópum með sínum mörgu rauðu blóðmerkjum og algjörðri stríðsaðferð, með stórum látum og vargahljóðum, svo að það veika kvenfólk og barnakindur urðu ekki undan hafðar.“ Þeir „gripu fólkið og bundu hvar sem þeir því náðu, unga og gamla, kvinnur og menn, og svo einnin ungbörnin, innan húss og utan, á fjöllum uppi, í hellrum og holum, jafnvel þar íslenskir komust naumlega, en drápu þá alla sem á móti stóðu og þá sem gjörðu kross fyrir sér eða nefndu Jesú nafn.“ Hann nefnir ekki nauðganir, hvorki þar sem hann lýsir eigin reynslu né í því sem hann hefur eftir mönnum sem komust undan og lýstu atburðum fyrir honum eftir að hann sneri heim.

Og því er hér dregið fram það litla sem segir um nauðganir að einungis með þeim hætti hafa íslenskar konur getað orðið vanfærar af völdum ræningjanna. Ekki var slíku til að dreifa austanlands og Kláus Eyjólfsson getur þriggja kvenna sem var nauðgað í Eyjum. Þær voru allar fluttar í skip og teknar með. Hafi fleiri konum verið nauðgað þessa daga hefur það sama vafalaust gilt um þær. Fyrir vikið er óhætt að fullyrða að engin börn hafi fæðst á Íslandi á vormánuðum 1628 sem áttu sjóræningja frá Norður-Afríku, Englandi, Hollandi eða Spáni fyrir föður.

Sama niðurstaða fæst við athugun á svonefndum sakeyrisreikningum yfirvalda. Mjög strangt eftirlit var á þessum árum með því að ógiftar konur feðruðu börn sín. Forsenda þess var ótti við að börn væru getin í nánum skyldleika eða mægðum sem dauðarefsing lá við samkvæmt Stóradómi frá 1564. Árið 1603 var til dæmis samþykkt á alþingi að konur sem tregðuðust við að feðra börn sín skyldu reknar úr fjórðungi en hýðast árlega að öðrum kosti. Nokkru eldri ákvæði kirkjunnar gerðu ráð fyrir bannsetningu eða með öðrum orðum útskúfun úr söfnuðinum. Árið 1626 var síðan á alþingi lesið konungsbréf til Íslands frá 16. desember 1625 um konur sem neituðu að feðra börn sín og var sýslumönnum skipað að yfirheyra þær vandlega og senda til Kaupmannahafnar til refsingar ef þær þrjóskuðust við. Þeim viðurlögum var reyndar aldrei beitt vegna kostnaðarins og fremur nýttar fyrri aðferðir með hýðingu og útlegð. Nokkuð er um mál af þessu tagi í dómum og má vera ljóst að varla nokkur kona komst upp með að leyna því hver ætti barnið. Auðvitað var eitthvað um rangfeðranir eða að konur lýstu dauða menn feður að börnum sínum, sem engin leið var að sannprófa. Að því gefnu má taka mark á skrám um barneignir utan hjónabands sem til eru í lénsreikningum höfuðsmanna. Samkvæmt Stóradómi lágu misháar sektir við ólíkum tegundum slíkra brota og sýslumenn áttu að senda lista um þau á hverju ári til Bessastaða. Mest af þessu er varðveitt og foreldrar barnanna nafngreindir.

Athuganir á svonefndum sakeyrisreikingum yfirvalda gefa ekki til kynna að hér á landi hafi fæðst börn sem áttu sjóræningja fyrir föður á vormánuðum ársins 1628. Myndin sýnir sakeyrirreikning, fyrirsögnin er „Sagefald aff Rangeruelle Sysell stod Fusse Gislason regenshab aff paa hans faders vegne.“ Fyrst eru Sigurður Jónsson og Gunnhildur Gunnlaugsdóttir, sem voru systkinabörn, en síðan Bárður Árnason „udj Westmann Ø“ sem greiddi 8 dali fyrir sitt fyrsta hórdómsbrot. Þá koma þremenningarnir Andrés Gíslason og Hallbera Þorgrímsdóttir.

Reikningsárið var frá Jónsmessu á sumri eða 24. júní til sama tíma að ári. Fæðingar vorið 1628 geta því hafa náð inn í uppgjörið 24. júní 1628 en kannski ekki fyrr en ári síðar. Á landsvísu fæddust 72 óskilgetin börn reikningsárið 1627/1628 og 84 reikningsárið 1628/1629 eða samanlagt 156. Af þeim voru tólf í Gullbringu- og Kjósarsýslu, tíu í Múlasýslu og 24 í Rangárvallasýslu, sem Vestmannaeyjar tilheyrðu um þetta atriði. Allir foreldrarnir voru íslenskir og feðurnir hafa gengist fúslega við sínum hlut að máli. Eitt tilvik var úr Vestmannaeyjum fyrra árið og Bárður Árnason sektaður fyrir fyrsta hórdómsbrot, en konan ekki nefnd á nafn, sem er fátítt (sjá mynd). Líklega hafði eiginkona Bárðar verið hertekin, en barneignir slíkra manna – og raunar kvenna líka sem höfðu misst eiginmenn með sama hætti – voru mjög til umræðu næstu árin og komu til kasta bæði biskups og alþingis. Hvað átti að bíða lengi þangað til fangarnir hugsanlega sneru aftur? Til glöggvunar um sakeyrisskrárnar fylgja færslur úr Múlasýslu bæði árin – þýddar lauslega úr dönsku. Nöfn eru tilgreind og tegund brots með skýringum innan sviga, auk sektarinnar:

1628

Jón Brynjólfsson og Kristín Þórðardóttir; hans fyrsta og hennar annað brot í frillulífi (bæði ógift): 1½ dalur.

Marteinn Magnússon og Margrét Björnsdóttir; beggja fyrsta brot í einföldum hórdómi (annað þeirra gift) og þau voru þremenningar: 16 dalir fyrir hórdómsbrotið og hitt beið næsta árs (en var ekki afgreitt þá).

Eiríkur Ketilsson og Guðrún Árnadóttir; beggja fyrsta brot í frillulífi: 1 dalur.

1629

Erik Olsen og Guðrún Ormsdóttir; hans fyrsta og hennar annað brot í frillulífi: 1½ dalur.

Bjarni Sveinsson og Ólöf Styrbjarnardóttir; hans annað og hennar fyrsta brot í frillulífi: 1½ dalur.

Árni Herjólfsson og Þuríður Styrbjarnardóttir; hans þriðja og hennar fyrsta brot í frillulífi, en jafnframt voru þau þremenningar: 10 dalir.

Guðmundur Björnsson og Ragnhildur Andrésdóttir; beggja fyrsta brot í tvöföldum hórdómi (bæði gift öðrum). Hann borgaði 4 dali en hún var fátæk og gat ekki borgað, og var fyrir vikið hýdd.

Árni Herjólfsson og Guðríður Jónsdóttir; hans fjórða og hennar þriðja brot í frillulífi: 6 rd.

Björn Oddsson og Veiga Torfadóttir, beggja fyrsta brot í einföldum hórdómi: 16 rd.

Um barneignir sjóræninga á Íslandi þarf fyrir vikið ekki að velkjast í vafa – ekkert slíkt átti sér stað. Aftur á móti er fullvíst að einhverjir hinna herteknu Íslendinga hafi aukið kyn sitt ytra næstu árin. Gögn um útlausn fanga og fáein bréf sem skiluðu sér til Íslands sýna að býsna margir dóu fljótlega eftir komuna og flestir hinna héldu sinni kristnu trú, en ófáir aðlöguðust hinu nýja samfélagi, einkum þeir sem yngri voru að árum. Í bréfi Jóns Jónssonar frá Grindavík 24. janúar 1630, sem þá var í Algeirsborg, tekur hann fram að margir Íslendinganna standist enn allar freistingar, hvað sem líði „óheyrilegum erfiðismunum og ómiskunnsamlegum aðbúnaði“, en þó séu þeir fleiri „sem turnaðir eru og þó komnir til lögaldurs og meir.“ Í bréfi Guttorms Hallssonar 20. nóvember 1631, sem einnig var í Algeirsborg, segir um tvær konur af Austfjörðum að þær „turnuðu strax sem þær komu hér til landsins.“ Harðar var líka sótt að kvenfólkinu „því það ásækir svo þetta dífilsfólk fram úr máta að það umturnist og afneiti svo sínum guði og skapara. En guð hefur svo styrkt í þessu stríði margar dásamlega, svo þær halda sinni réttri trú allt til þessa.“

Nákvæmust um samneyti Íslendings við heimamenn er frásögn Halls Þorsteinssonar, sem var einn þeirra sem sneri aftur til Íslands. Hann kom á þing í Vestmannaeyjum í júní 1636 til að bera vitni um Önnu Jasparsdóttur, gifta konu frá Vestmannaeyjum, sem: „er þar vistföst í Tyrkjaríinu med fullkomnum samfélagsskap við einn tyrkneskan heiðingja og honum samþykk með sönnu hatri og óvild við þá kristnu, svo hennar er ei í neinn máta aftur von hingað til landsins fyrir mínum skilningi, því hún hefur alið börn við sama manni er hún við heldur og hér er ánefndur og er að merkja og reyna sem hans eiginkona sé.“ Hallur hafði síðast séð hana fjórum árum fyrr „og vildi hún þá ei sjá íslenska kristna menn, þess heldur umgengni með þeim að hafa.“ Ekki fer sögum af íslenskum körlum sem stofnuðu fjölskyldur í Barbaríinu, eins og Norður-Afríka var þá kölluð, en vafalaust hefur það gerst og má þar nefna sem mögulegt dæmi ónafngreindan son séra Ólafs og konu hans Ástríðar Þorsteinsdóttur, sem var níu ára gamall þegar þau voru hertekin. Í öðru bréfi árið 1633 vissi ofangreindur Jóns Jónsson að séra Ólafur var kominn aftur til Vestmannaeyja og sagði þær fréttir af Ástríði að hún bæri sig „allra hryggilegast, svo hennar augnatár þorni eigi, fyrir því hún fái ei bréf frá sínum ástvinum og vegna síns turnaða sonar sem fyrr frá segir og fór útlægur með hans húsbónda til Túnis með þeim útlægu Kollórum.“ Þar var hann horfinn í mannahafið, líkt og svo margir, en móðirin var meðal þeirra Íslendinga sem fengust leystir þremur árum síðar.

Heimildir
  • Már Jónsson, „Barnsfeðrun og eiðatökur á 17. öld“, Ný saga 3 (1989), bls. 34–46; Vef. https://timarit.is/page/5363293#page/n35/mode/2up
  • Reisubók Ólafs Egilssonar og aðrir textar um Tyrkjaránið 1627. Már Jónsson og Kári Bjarnason bjuggu til prentunar. Selfossi: Sæmundur 2020.
  • Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Útgefandi Jón Þorkelsson. Reykjavík: Sögufélag 1906–1909.
  • Þorsteinn Helgason, The Corsairs' Longest Voyage. The Turkish Raid in Iceland 1627. Leiden: Brill 2018.

Myndir:...