Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er gott og gilt að nota orðið fríkeypis í staðinn fyrir ókeypis?

Eiríkur Rögnvaldsson

Orðið fríkeypis er ekki að finna í neinum orðabókum en sést samt stundum á prenti og merking þess er þá yfirleitt augljós af samhengi – það merkir ‘án endurgjalds’ og er augljóslega samsláttur orðanna frí(tt) og ókeypis sem bæði eru notuð í þessari merkingu. Þetta orð er ekki nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2001: „Þar sem aðgangur á tónlistarhátíðir er ekki fríkeypis er nauðsynlegt að leita á ódýrari mið þegar ölkneyfingar eru annars vegar.“ Á tímarit.is eru 25 dæmi um orðið, þar af allmörg úr auglýsingum Vodafone, en í Risamálheildinni er rúmlega hálft sjöunda hundrað dæma, langflest af samfélagsmiðlum. Orðið er því fyrst og fremst bundið við óformlegt mál en heldur virðist hafa dregið úr notkun þess.

Árið 2009 bannaði Neytendastofa notkun Vodafone á orðinu fríkeypis „við kynningu á áskriftarleiðinni Vodafone Gull […] þar sem ávallt þurfi að greiða mánaðargjald fyrir þjónustuna. Vísaði stofnunin annars vegar til álits Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og til þess að rök Vodafone fyrir því að orðið hefði merkinguna kaupauki fengi ekki staðist.“ Ekki kemur fram hvað staðið hafi í áliti Árnastofnunar en af vísun til þess má ráða að stofnunin hafi talið að fríkeypis merkti ‘án endurgjalds’ eins og ég held að það sé alltaf skilið. Þau rök að orðið merki ‘kaupauki’ ganga gegn almennum málskilningi og bera þess merki að vera sett fram til þess eins að losa fyrirtækið úr þeirri klípu sem villandi auglýsing kom því í.

Orðið fríkeypis er ekki að finna í neinum orðabókum en sést samt stundum á prenti og merking þess er þá yfirleitt augljós af samhengi – það merkir ‘án endurgjalds’ og er augljóslega samsláttur orðanna frí(tt) og ókeypis sem bæði eru notuð í þessari merkingu.

Orðið ókeypis er leitt með i-hljóðvarpi af stofninum kaup- í sögninni kaupa og nafnorðinu kaup, og neitunarforskeytinu ó- þar framan við og viðskeytinu -is aftan við. Það merkir ‘sem ekki er keypt’ (eða ‘ekki þarf að kaupa’), sbr. fá ókeypis, en það getur einnig merkt ‘sem ekki er greitt kaup fyrir’, sbr. vinna ókeypis. Í báðum tilvikum má segja að neitunarmerking forskeytisins og grunnmerking stofnsins skili sér. Orðið frír merkir upphaflega ‘frjáls, óheftur, laus og liðugur’ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók, en er nú oftast notað í sömu merkingu og ókeypis, í dæmum eins og frír aðgangur, frítt fæði o.s.frv. Sú merking er líklega runnin frá samböndum eins og frír við kostnað, frír við gjald, þ.e. ‘laus við kostnað/gjald’ o.þ.h., sbr. líka gjaldfrír.

Tungumálið er ekki alltaf „rökrétt“ – og þarf ekki að vera það. Hins vegar er ljóst að mörgum finnst eðlilegt að gera þá kröfu til nýrra orða að þau séu „rökrétt“, og það virðist í fljótu bragði eðlilegt að beita þeirri röksemd gegn fríkeypis sem lítur út eins og órökréttur samsláttur úr frí(tt) og ókeypis. En þótt orðið hafi örugglega orðið til við samslátt þýðir það ekki endilega að það sé rökleysa. Samkvæmt framansögðu má nefnilega vel halda því fram að fríkeypis sé rökrétt orð sem merki bókstaflega ‘laus við kaup’ – og sé því nokkurn veginn hliðstætt við ókeypis. Þetta þýðir ekki að ég sé að mæla sérstaklega með þessu orði – ég nota það ekki og finnst það óþarft. En ég sé samt ekki að sérstök málspjöll séu að því.

Mynd:

Þetta svar birtist upprunalega á heimasíðu höfundar en var endurskoðað fyrir birtingu á Vísindavefnum.

Höfundur

Eiríkur Rögnvaldsson

prófessor emeritus í íslenskri málfræði

Útgáfudagur

18.6.2024

Spyrjandi

Þorkell Máni Viðarsson, ritstjórn

Tilvísun

Eiríkur Rögnvaldsson. „Er gott og gilt að nota orðið fríkeypis í staðinn fyrir ókeypis?“ Vísindavefurinn, 18. júní 2024, sótt 16. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86471.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2024, 18. júní). Er gott og gilt að nota orðið fríkeypis í staðinn fyrir ókeypis? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86471

Eiríkur Rögnvaldsson. „Er gott og gilt að nota orðið fríkeypis í staðinn fyrir ókeypis?“ Vísindavefurinn. 18. jún. 2024. Vefsíða. 16. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86471>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er gott og gilt að nota orðið fríkeypis í staðinn fyrir ókeypis?
Orðið fríkeypis er ekki að finna í neinum orðabókum en sést samt stundum á prenti og merking þess er þá yfirleitt augljós af samhengi – það merkir ‘án endurgjalds’ og er augljóslega samsláttur orðanna frí(tt) og ókeypis sem bæði eru notuð í þessari merkingu. Þetta orð er ekki nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2001: „Þar sem aðgangur á tónlistarhátíðir er ekki fríkeypis er nauðsynlegt að leita á ódýrari mið þegar ölkneyfingar eru annars vegar.“ Á tímarit.is eru 25 dæmi um orðið, þar af allmörg úr auglýsingum Vodafone, en í Risamálheildinni er rúmlega hálft sjöunda hundrað dæma, langflest af samfélagsmiðlum. Orðið er því fyrst og fremst bundið við óformlegt mál en heldur virðist hafa dregið úr notkun þess.

Árið 2009 bannaði Neytendastofa notkun Vodafone á orðinu fríkeypis „við kynningu á áskriftarleiðinni Vodafone Gull […] þar sem ávallt þurfi að greiða mánaðargjald fyrir þjónustuna. Vísaði stofnunin annars vegar til álits Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og til þess að rök Vodafone fyrir því að orðið hefði merkinguna kaupauki fengi ekki staðist.“ Ekki kemur fram hvað staðið hafi í áliti Árnastofnunar en af vísun til þess má ráða að stofnunin hafi talið að fríkeypis merkti ‘án endurgjalds’ eins og ég held að það sé alltaf skilið. Þau rök að orðið merki ‘kaupauki’ ganga gegn almennum málskilningi og bera þess merki að vera sett fram til þess eins að losa fyrirtækið úr þeirri klípu sem villandi auglýsing kom því í.

Orðið fríkeypis er ekki að finna í neinum orðabókum en sést samt stundum á prenti og merking þess er þá yfirleitt augljós af samhengi – það merkir ‘án endurgjalds’ og er augljóslega samsláttur orðanna frí(tt) og ókeypis sem bæði eru notuð í þessari merkingu.

Orðið ókeypis er leitt með i-hljóðvarpi af stofninum kaup- í sögninni kaupa og nafnorðinu kaup, og neitunarforskeytinu ó- þar framan við og viðskeytinu -is aftan við. Það merkir ‘sem ekki er keypt’ (eða ‘ekki þarf að kaupa’), sbr. fá ókeypis, en það getur einnig merkt ‘sem ekki er greitt kaup fyrir’, sbr. vinna ókeypis. Í báðum tilvikum má segja að neitunarmerking forskeytisins og grunnmerking stofnsins skili sér. Orðið frír merkir upphaflega ‘frjáls, óheftur, laus og liðugur’ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók, en er nú oftast notað í sömu merkingu og ókeypis, í dæmum eins og frír aðgangur, frítt fæði o.s.frv. Sú merking er líklega runnin frá samböndum eins og frír við kostnað, frír við gjald, þ.e. ‘laus við kostnað/gjald’ o.þ.h., sbr. líka gjaldfrír.

Tungumálið er ekki alltaf „rökrétt“ – og þarf ekki að vera það. Hins vegar er ljóst að mörgum finnst eðlilegt að gera þá kröfu til nýrra orða að þau séu „rökrétt“, og það virðist í fljótu bragði eðlilegt að beita þeirri röksemd gegn fríkeypis sem lítur út eins og órökréttur samsláttur úr frí(tt) og ókeypis. En þótt orðið hafi örugglega orðið til við samslátt þýðir það ekki endilega að það sé rökleysa. Samkvæmt framansögðu má nefnilega vel halda því fram að fríkeypis sé rökrétt orð sem merki bókstaflega ‘laus við kaup’ – og sé því nokkurn veginn hliðstætt við ókeypis. Þetta þýðir ekki að ég sé að mæla sérstaklega með þessu orði – ég nota það ekki og finnst það óþarft. En ég sé samt ekki að sérstök málspjöll séu að því.

Mynd:

Þetta svar birtist upprunalega á heimasíðu höfundar en var endurskoðað fyrir birtingu á Vísindavefnum....