Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er eitthvað raunverulega ókeypis?

Það fer nú dálítið eftir því hvaða skilning menn leggja í „ókeypis“. Margt kostar nefnilega ekki pening. Sem dæmi mætti nefna bros, hrós eða faðmlag. Í ensku er til orðatiltækið „The best things in life are free“ sem mætti þýða eitthvað á þá leið að það besta í lífinu sé ókeypis. Ef við lítum svo á að „ókeypis“ þýði einfaldlega að ekki þurfi að greiða neinn pening þá er svarið einfalt og í samræmi við þetta orðatiltæki: Já.

Þegar nánar er að gáð er málið þó auðvitað aðeins flóknara. Bros kostar til dæmis almennt engan pening en það krefst smáviðviks af hálfu þess sem brosir. Vöðvar þurfa að lyfta munnvikunum og í það fer smá orka. Ef einhver er í mikilli fýlu gæti jafnvel verið talsvert átak fyrir hann, að minnsta kosti andlega ef ekki líkamlega, að brosa. Það sama má segja um hrós, það fer örlítil orka í það að hrósa einhverjum. Hrósið er því ekki án allra fórna – þótt það geti auðvitað bætt líðan bæði þess sem hrósar og viðtakanda hróssins.

Bros kostar til dæmis almennt engan pening.

Hagfræðingar nota iðulega hugtakið fórnarkostnaður til að greina hvað eitthvað kostar. Fórnarkostnaður þess að gera eitthvað er næstbesti kosturinn, það er það sem við gerum ekki í staðinn. Til dæmis gæti val einhvers staðið á milli þess að hrósa öðrum eða bara hvíla sig og gera ekki neitt. Þá er sú örlitla hvíld sem sá verður af sem hrósar öðrum fórnarkostnaður hróssins. Það er því ekki ókeypis í þessum skilningi þótt fórnin og þar með kostnaðurinn sé sáralítil.

Samandregið er svarið því að margt kostar engan pening en öllu fylgir einhver fórnarkostnaður ef grannt er skoðað. Það er nú samt oft engin ástæða til að hafa áhyggjur af þeim kostnaði og alveg sjálfsagt að reyna að fara brosandi í gegnum lífið og hrósa samferðamönnunum!

Mynd:

Útgáfudagur

9.5.2018

Spyrjandi

Heiðar Snær Tómasson

Höfundur

Gylfi Magnússon

dósent í hagfræði við HÍ

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Er eitthvað raunverulega ókeypis?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2018. Sótt 27. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=75788.

Gylfi Magnússon. (2018, 9. maí). Er eitthvað raunverulega ókeypis? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75788

Gylfi Magnússon. „Er eitthvað raunverulega ókeypis?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2018. Vefsíða. 27. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75788>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Ásta Bryndís Schram

1958

Ásta Bryndís Schram er lektor og kennsluþróunarstjóri við Heilbrigðisvísindasvið HÍ auk þess sem hún starfar við kennsluráðgjöf hjá Kennslumiðstöð. Meginviðfangsefni hennar í rannsóknum er áhugahvöt, sjálfsmynd, samsömun og samspil þessara þátta við kennsluaðferðir.