Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hvað er mansöngur í rímum?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Talið er líklegt að rímnaskáld hafi snemma tekið upp á því að yrkja mansöng í upphafi hvers rímnaflokks en fljótlega fór þó að bera á því að mansöngur væri ortur á undan hverri rímu og þá nokkrir innan hvers flokks. Ýmislegt bendir til þess að mansöngvar hafi verið ortir að kröfu kvenna. Í Skáld-Helga rímum segir svo: „eitthvert orð vill auðar skorð / eiga í hverju kvæði“ (Rímnasafn, I 130 (er. IV 1)). Fullyrðingar á borð við þessa eru algengar og hafa jafnvel orðið að formúlu, það er staðlaðri - og ef til vill merkingarlítilli - staðhæfingu um að rímurnar séu ortar fyrir konur eða að konur eigi að minnsta kosti einhvern þátt í því að þær hafi verið ortar.

Orðið mansöngur (man: kona/ambátt) virðist upphaflega notað yfir erótísk kvæði og þá jafnvel kvæði sem voru notuð í eða tengd dansi. Í biskupasögunni Jóns sögu helga segir frá því að umræddur biskup, Jón Ögmundarson, hafi ekki kært sig um að heyra mansöngva. Það bendir til þess að yrkisefni þeirra hafi á einhvern hátt storkað samfélagslegum gildum eða ríkjandi viðhorfum. Vera má að þessi kvæði hafi þótt gróf eða haft tilhneigingu til þess að vekja hneykslan enda eru mansöngsvísur kallaðar klækilegar, hæðilegar og óáheyrilegar. Ekki má þó gleyma því að þetta voru kvæði sem karlar og konur kváðu hvert til annars í einhvers konar dansleik sem var heldur ekki vel séð – og nauðsynlegt er að hafa í huga að þau viðhorf sem hér koma fram eiga við um kvæði sem voru í umferð fyrir tíma rímnanna.

Í Grágás kemur fram að karlmenn sem ortu mansöng um konu gátu átt það á hættu að vera dæmdir útlægir. Á myndinni sést opna úr Staðarhólsbók (AM 334 fol.) en hún er annað helsta handrit Grágásar.

Í Íslendingasögum er orðið mansöngur notað um ástarkvæði sem karlmaður yrkir til konu og um slíkan kveðskap er líka getið í lögbókinni Grágás þar sem hann varðar við lög. Í Grágás kemur fram að karlmenn sem ortu mansöng um konu gátu átt það á hættu að vera dæmdir útlægir. Það kemur því ekki á óvart að kvæði sem þessi eru að jafnaði bara nefnd en ekki skrifuð upp þótt ef til vill megi finna leifar af þeim, eins og til dæmis í Hallfreðar sögu vandræðaskálds sem er varðveitt í handritum frá 14. öld, en þar yrkir Ingólfur nokkur mansöngsdrápu til Valgerðar, systur Hallfreðar, og Hallfreður sjálfur mansöng til Kolfinnu. Þessi skortur á uppskriftum mansöngva gefur til kynna að kvæðin hafi þótt of gróf eða opinská til að vera rithæf. Lagaklausa Grágásar bendir til þess að hugtakið mansöngur hafi verið notað í þröngum skilningi á 12. og 13. öld. Það er því ekki fyrr en á 14. eða 15. öld sem orðið er notað um þær vísur sem hér um ræðir, það er ljóðræn erindi sem rímnaskáld flétta saman við rímurnar.

Eftir því sem leið á rímnahefðina urðu mansöngvar ekki einungis sjálfsagður hluti rímnakveðskaparins heldur líka nauðsynlegur. Mansöngvarnir eru mislangir og fara til dæmis yfir 30 erindi í Pontus rímum eftir Magnús prúða sem kveður um óvini sína og öfundarmenn í mansöngnum. Það má því segja að eftir því sem tímar líða taki mansöngvar rímna að tengjast öðum samtímakveðskap á borð við ellikvæði og ádeilukvæði. Þar sem Pontus rímur eru ortar eftir almúgasögu bera bæði mansöngurinn og rímnaflokkurinn sjálfur vott um að efni rímna verði sífellt fjölbreyttara eftir því sem tímar líða.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

15.5.2024

Spyrjandi

Bjarney

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað er mansöngur í rímum?“ Vísindavefurinn, 15. maí 2024. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=86532.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2024, 15. maí). Hvað er mansöngur í rímum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=86532

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað er mansöngur í rímum?“ Vísindavefurinn. 15. maí. 2024. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=86532>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er mansöngur í rímum?
Talið er líklegt að rímnaskáld hafi snemma tekið upp á því að yrkja mansöng í upphafi hvers rímnaflokks en fljótlega fór þó að bera á því að mansöngur væri ortur á undan hverri rímu og þá nokkrir innan hvers flokks. Ýmislegt bendir til þess að mansöngvar hafi verið ortir að kröfu kvenna. Í Skáld-Helga rímum segir svo: „eitthvert orð vill auðar skorð / eiga í hverju kvæði“ (Rímnasafn, I 130 (er. IV 1)). Fullyrðingar á borð við þessa eru algengar og hafa jafnvel orðið að formúlu, það er staðlaðri - og ef til vill merkingarlítilli - staðhæfingu um að rímurnar séu ortar fyrir konur eða að konur eigi að minnsta kosti einhvern þátt í því að þær hafi verið ortar.

Orðið mansöngur (man: kona/ambátt) virðist upphaflega notað yfir erótísk kvæði og þá jafnvel kvæði sem voru notuð í eða tengd dansi. Í biskupasögunni Jóns sögu helga segir frá því að umræddur biskup, Jón Ögmundarson, hafi ekki kært sig um að heyra mansöngva. Það bendir til þess að yrkisefni þeirra hafi á einhvern hátt storkað samfélagslegum gildum eða ríkjandi viðhorfum. Vera má að þessi kvæði hafi þótt gróf eða haft tilhneigingu til þess að vekja hneykslan enda eru mansöngsvísur kallaðar klækilegar, hæðilegar og óáheyrilegar. Ekki má þó gleyma því að þetta voru kvæði sem karlar og konur kváðu hvert til annars í einhvers konar dansleik sem var heldur ekki vel séð – og nauðsynlegt er að hafa í huga að þau viðhorf sem hér koma fram eiga við um kvæði sem voru í umferð fyrir tíma rímnanna.

Í Grágás kemur fram að karlmenn sem ortu mansöng um konu gátu átt það á hættu að vera dæmdir útlægir. Á myndinni sést opna úr Staðarhólsbók (AM 334 fol.) en hún er annað helsta handrit Grágásar.

Í Íslendingasögum er orðið mansöngur notað um ástarkvæði sem karlmaður yrkir til konu og um slíkan kveðskap er líka getið í lögbókinni Grágás þar sem hann varðar við lög. Í Grágás kemur fram að karlmenn sem ortu mansöng um konu gátu átt það á hættu að vera dæmdir útlægir. Það kemur því ekki á óvart að kvæði sem þessi eru að jafnaði bara nefnd en ekki skrifuð upp þótt ef til vill megi finna leifar af þeim, eins og til dæmis í Hallfreðar sögu vandræðaskálds sem er varðveitt í handritum frá 14. öld, en þar yrkir Ingólfur nokkur mansöngsdrápu til Valgerðar, systur Hallfreðar, og Hallfreður sjálfur mansöng til Kolfinnu. Þessi skortur á uppskriftum mansöngva gefur til kynna að kvæðin hafi þótt of gróf eða opinská til að vera rithæf. Lagaklausa Grágásar bendir til þess að hugtakið mansöngur hafi verið notað í þröngum skilningi á 12. og 13. öld. Það er því ekki fyrr en á 14. eða 15. öld sem orðið er notað um þær vísur sem hér um ræðir, það er ljóðræn erindi sem rímnaskáld flétta saman við rímurnar.

Eftir því sem leið á rímnahefðina urðu mansöngvar ekki einungis sjálfsagður hluti rímnakveðskaparins heldur líka nauðsynlegur. Mansöngvarnir eru mislangir og fara til dæmis yfir 30 erindi í Pontus rímum eftir Magnús prúða sem kveður um óvini sína og öfundarmenn í mansöngnum. Það má því segja að eftir því sem tímar líða taki mansöngvar rímna að tengjast öðum samtímakveðskap á borð við ellikvæði og ádeilukvæði. Þar sem Pontus rímur eru ortar eftir almúgasögu bera bæði mansöngurinn og rímnaflokkurinn sjálfur vott um að efni rímna verði sífellt fjölbreyttara eftir því sem tímar líða.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. ...