Sólin Sólin Rís 06:22 • sest 20:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:41 • Sest 01:38 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:55 • Síðdegis: 17:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:32 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:22 • sest 20:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:41 • Sest 01:38 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:55 • Síðdegis: 17:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:32 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er sannsaga?

Rúnar Helgi Vignisson

Hugtakið sannsaga er þýðing og staðfærsla á enska hugtakinu creative nonfiction. Það virðist fyrst hafa komið fram á fyrri hluta 20. aldar þegar það var haft um einn efnisflokkinn í kanadískum bókmenntaverðlaunum. Hugtakið fór þó ekki á flot í nútímaskilningi fyrr en undir lok síðustu aldar og er nú orðið vel þekkt. Skrif af þessu tagi eru stundum skilgreind þannig í fáum orðum að um sé að ræða vel sagða sanna sögu.

Það er einkum þrennt sem einkennir sannsögur.

Í fyrsta lagi er stefnt að því að hafa það sem sannara reynist. Það er með öðrum orðum ekki skáldað í eyðurnar eða efnisatriðum hagrætt eins og í skáldævisögu (e. autofiction) heldur gerir höfundurinn sér far um að segja satt og rétt frá og samkvæmt bestu vitund. Það getur reyndar verið margslungið ferli að koma sannleikanum á framfæri, meðal annars vegna þess að höfundurinn þarf að velja hverju hann segir frá og hverju ekki. Enginn getur sagt allan sannleikann í ritaðri frásögn, enda er hann margbrotinn og iðulega háður því hver horfir og hvaðan, en í sannsögu gerir höfundur heiðarlega atlögu að því, gjarnan á afmörkuðu sviði.

Í öðru lagi er oftar en ekki beitt aðferðum frásagnarlistarinnar við að miðla efninu, svo sem samtölum, sviðsetningum og myndmáli, jafnvel hefðbundinni byggingu með kynningu, flækju og lausn. Efninu er því að hluta breytt í sögu til að gera textann áhugaverðari og aðgengilegri. Það er þetta sem átt er við þegar talað er um að sannsaga sé vel sögð saga en auðvitað tekst misvel til.

Í þriðja lagi skrifar höfundurinn yfirleitt í fyrstu persónu og er sama manneskja og skráð er fyrir ritsmíðinni. Fyrstu persónu sögumaðurinn er oft óformlegur og spjallar við lesandann. Hann gengst líka við huglægni sinni og lítur á það sem lið í að skapa trúverðuga frásögn.

Sannsaga er stundum skilgreind þannig í fáum orðum að um sé að ræða vel sagða sanna sögu. Tom Mamquist, sem hér sést á mynd, er einn af þekktum höfundum sannsagna.

Sannsaga felur því í sér aðferð og í rauninni geta allir textar sem nýta hana flokkast undir sannsögu. Hana er þó oftast að finna í minningabókum (e. memoirs), esseyjum (e. essays) og ferðasögum. Aðferðafræðin að baki sannsögum getur orðið til þess að erfitt sé að greina á milli þeirra og skáldaðra texta nema höfundur eða útgefandi gefi til kynna hvors kyns er.

Meðal þekktra sannsagna má nefna bókina Menntuð (e. Educated) eftir Töru Westover, Hvert andartak enn á lífi (s. I varje ögonblick är vi fortfarande vid liv) eftir Tom Malmquist, Heiðu eftir Steinunni Sigurðardóttur, Meydóm eftir Hlín Agnarsdóttur, Jarðsetningu eftir Önnu Maríu Bogadóttur og minningabækur Sigurðar Pálssonar, Minnisbók, Bernskubók og Táningabók. Ýmis rit sem voru skrifuð áður en hugtakið kom fram má líka tína til og hefur bók Þórbergs Þórðarsonar, Bréf til Láru, verið nefnd í því sambandi. Úr hinum enskumælandi heimi mætti nefna Sérherbergi (e. A Room of One’s Own) Virginiu Woolf, sem og esseyjur eftir George Orwell og Michel de Montaigne.

Frekara lesefni:

Sjá nánar í þemahefti Ritsins um sannsögur, 3/2024: https://ritid.hi.is/index.php/ritid.

Myndir:

Höfundur

Rúnar Helgi Vignisson

rithöfundur, þýðandi og prófessor í ritlist

Útgáfudagur

3.9.2025

Spyrjandi

Ragnheiður Gunnarsdóttir

Tilvísun

Rúnar Helgi Vignisson. „Hvað er sannsaga?“ Vísindavefurinn, 3. september 2025, sótt 5. september 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87800.

Rúnar Helgi Vignisson. (2025, 3. september). Hvað er sannsaga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87800

Rúnar Helgi Vignisson. „Hvað er sannsaga?“ Vísindavefurinn. 3. sep. 2025. Vefsíða. 5. sep. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87800>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er sannsaga?
Hugtakið sannsaga er þýðing og staðfærsla á enska hugtakinu creative nonfiction. Það virðist fyrst hafa komið fram á fyrri hluta 20. aldar þegar það var haft um einn efnisflokkinn í kanadískum bókmenntaverðlaunum. Hugtakið fór þó ekki á flot í nútímaskilningi fyrr en undir lok síðustu aldar og er nú orðið vel þekkt. Skrif af þessu tagi eru stundum skilgreind þannig í fáum orðum að um sé að ræða vel sagða sanna sögu.

Það er einkum þrennt sem einkennir sannsögur.

Í fyrsta lagi er stefnt að því að hafa það sem sannara reynist. Það er með öðrum orðum ekki skáldað í eyðurnar eða efnisatriðum hagrætt eins og í skáldævisögu (e. autofiction) heldur gerir höfundurinn sér far um að segja satt og rétt frá og samkvæmt bestu vitund. Það getur reyndar verið margslungið ferli að koma sannleikanum á framfæri, meðal annars vegna þess að höfundurinn þarf að velja hverju hann segir frá og hverju ekki. Enginn getur sagt allan sannleikann í ritaðri frásögn, enda er hann margbrotinn og iðulega háður því hver horfir og hvaðan, en í sannsögu gerir höfundur heiðarlega atlögu að því, gjarnan á afmörkuðu sviði.

Í öðru lagi er oftar en ekki beitt aðferðum frásagnarlistarinnar við að miðla efninu, svo sem samtölum, sviðsetningum og myndmáli, jafnvel hefðbundinni byggingu með kynningu, flækju og lausn. Efninu er því að hluta breytt í sögu til að gera textann áhugaverðari og aðgengilegri. Það er þetta sem átt er við þegar talað er um að sannsaga sé vel sögð saga en auðvitað tekst misvel til.

Í þriðja lagi skrifar höfundurinn yfirleitt í fyrstu persónu og er sama manneskja og skráð er fyrir ritsmíðinni. Fyrstu persónu sögumaðurinn er oft óformlegur og spjallar við lesandann. Hann gengst líka við huglægni sinni og lítur á það sem lið í að skapa trúverðuga frásögn.

Sannsaga er stundum skilgreind þannig í fáum orðum að um sé að ræða vel sagða sanna sögu. Tom Mamquist, sem hér sést á mynd, er einn af þekktum höfundum sannsagna.

Sannsaga felur því í sér aðferð og í rauninni geta allir textar sem nýta hana flokkast undir sannsögu. Hana er þó oftast að finna í minningabókum (e. memoirs), esseyjum (e. essays) og ferðasögum. Aðferðafræðin að baki sannsögum getur orðið til þess að erfitt sé að greina á milli þeirra og skáldaðra texta nema höfundur eða útgefandi gefi til kynna hvors kyns er.

Meðal þekktra sannsagna má nefna bókina Menntuð (e. Educated) eftir Töru Westover, Hvert andartak enn á lífi (s. I varje ögonblick är vi fortfarande vid liv) eftir Tom Malmquist, Heiðu eftir Steinunni Sigurðardóttur, Meydóm eftir Hlín Agnarsdóttur, Jarðsetningu eftir Önnu Maríu Bogadóttur og minningabækur Sigurðar Pálssonar, Minnisbók, Bernskubók og Táningabók. Ýmis rit sem voru skrifuð áður en hugtakið kom fram má líka tína til og hefur bók Þórbergs Þórðarsonar, Bréf til Láru, verið nefnd í því sambandi. Úr hinum enskumælandi heimi mætti nefna Sérherbergi (e. A Room of One’s Own) Virginiu Woolf, sem og esseyjur eftir George Orwell og Michel de Montaigne.

Frekara lesefni:

Sjá nánar í þemahefti Ritsins um sannsögur, 3/2024: https://ritid.hi.is/index.php/ritid.

Myndir:...