Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ýmsar getgátur hafa verið um höfunda einstakra Íslendingasagna. Á hinn bóginn má vera að nafnleynd þeirra sé engin tilviljun því að líkt og í tilviki fornaldarsagnanna byggðu höfundar Íslendingasagna á arfgengu sagnaefni og hugsanlega hafa þeir, að minnsta kosti sumir hverjir, litið á sig sem skrásetjara efnis sem hafði lifað í manna minnum um langa tíð fremur en „höfunda" endanlegra bókmenntaverka. Sé svo, gæti þeim jafnvel hafa þótt óviðeigandi að setja nafn sitt við sögurnar, hvað þá að semja við þær formála enda litu þeir sem afrituðu sögurnar síðar ekki svo á að textarnir væru endanlegir og fullbúnir af hendi fyrri höfunda.
Margir töldu sig í fullum rétti til að breyta sögunum, bæta við klausum og fella úr þeim vísur og annað efni eða jafnvel að setja saman nýja gerð. Arfgengt sagnaefni var sameign allra og þótt í sumum tilvikum hafi sprottið úr þessum viðamikla efnivið stórbrotin bókmenntaverk er umhugsunarvert hvort höfundar þeirra hafi nokkurn tímann litið á sig sem eiginlega höfunda, eins og við skilgreinum þá nú. Eitt af einkennum Íslendingasagna er einmitt hversu lausar þær eru við innskot höfunda og hversu fjarlæg rödd þeirra er í frásögninni sem er að jafnaði hlutlæg.
Með því að rannsaka stíl Íslendingasagna og bera þær saman innbyrðis - eða við önnur þekkt verk - má í sumum tilvikum geta sér þess til hverjir höfundar þeirra voru. Á allra síðustu árum hafa verið þróaðar rafrænar aðferðir í stílrannsóknum og eru textarnir þá bornir saman vélrænt við aðra texta og fengin út sameiginleg líkindi í orða- og setninganotkun.
Samkvæmt fyrstu niðurstöðum er augljóst að tilteknar sögur búa yfir áberandi líkum orðaforða. Skekkjumörk eru þó allnokkur og fólk ekki á einu máli um það hversu afdráttarlausar ályktanir megi draga af slíkum samanburði. Á hinn bóginn er ljóst að um er að ræða spennandi framtíðarverkefni og hugsanlega verður hægt að skipta sögunum niður í afmarkaða skyldleikahópa áður en langt um líður. Það eitt og sér gæti svo hjálpað okkur að móta hugmyndir okkar um uppruna Íslendingasagna betur en áður hefur verið unnt.
Mynd:
Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.
Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Af hverju eru engir nafngreindir höfundar Íslendingasagna þekktir?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2025, sótt 3. júlí 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87823.
Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2025, 3. júlí). Af hverju eru engir nafngreindir höfundar Íslendingasagna þekktir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87823
Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Af hverju eru engir nafngreindir höfundar Íslendingasagna þekktir?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2025. Vefsíða. 3. júl. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87823>.