Sólin Sólin Rís 05:50 • sest 21:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 08:59 • Sest 20:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 19:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:34 • Síðdegis: 13:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 05:50 • sest 21:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 08:59 • Sest 20:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 19:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:34 • Síðdegis: 13:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Fór Íslendingasögum hnignandi á 14. öld?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Ein þekktasta kenning um þróun íslenskra bókmennta er eftir Sigurð Nordal (1886-1974), sem taldi að greina mætti fimm þrep í þróun Íslendingasagna. Greiningin tengist þeirri bókmenntalegu sýn Sigurðar að ritun sagnfræði og frásagna hafi hafist sitt í hvoru lagi, þær nái svo fullkomnun í sambúð hvor við aðra þar sem til hafi orðið sagnfræðileg skáldverk og á 14. öld taki þær að greinast að aftur og til verði annars vegar annálar og hins vegar ýkjusögur.

Samkvæmt þróunarkenningu Sigurðar eru unglegar Íslendingasögur Bárðar saga Snæfellsáss, Finnboga saga ramma, Flóamanna saga, Gull-Þóris saga, Kjalnesinga saga, Víglundar saga og Þórðar saga hreðu. Þessar sögur hafa því stundum verið hafðar til marks um hnignandi bókmenntasmekk og almennt eru þær álitnar síðri bókmenntir en þær sem ritaðar voru á „hátindi“ sagnaritunarinnar. Á heildina séð voru þær álitnar meiri „tilbúningur“ en sögur frá 13. öld og að auki þóttu þær um of markaðar formúlum, það er föstum orðasamböndum, og öðrum einkennum úr munnlegri geymd.

Langt fram eftir 20. öld virðast fræðimenn eiga auðvelt með að samsama sig kenningu Sigurðar og tala um hnignun eins og hún hafi virkilega átt sér stað, jafnt í tilfelli Íslendingasagna sem og annarra miðaldasagna. Til sönnunar því að um þróun í átt til hnignunar hafi verið að ræða er svo oftar en ekki gripið til alhæfinga. Dæmigerð umfjöllun um sagnasköpun 14. aldar hefur því lengi litast af stöðluðum klisjum. Yfirleitt er talað um að margs konar bókmenntaleg minni, svokölluð sagnaminni, hafi borist frá einni sögu til annarrar, svo sem um kolbíta, vondar stjúpur, álög og hamskipti, dreka og skrímsli, forsendingar, ævintýraferðir, haugbrot og ýmiss konar staðlaðar aðstæður sem höfundar notuðu í þeim tilgangi að styrkja hetjuímyndina. Undir þetta mætti þá fella sögur þar sem karlhetjan berst við ómennskan andstæðing eða bjargar kvenhetju úr háska rétt eins og í síðari tíma ævintýrum. Að lokum er gjarnan sagt að mikið sé um yfirnáttúruleg einkenni í sögum frá 14. öld, svo sem töfra og galdra, risa, tröll, blámenn, berserki og dverga.

Samkvæmt þróunarkenningu Sigurðar Nordal eru unglegar Íslendingasögur Bárðar saga Snæfellsáss, Finnboga saga ramma, Flóamanna saga, Gull-Þóris saga, Kjalnesinga saga, Víglundar saga og Þórðar saga hreðu. Þessar sögur hafa því stundum verið hafðar til marks um hnignandi bókmenntasmekk. Myndin sýnir minnisvarða um Bárð Snæfellsás á Arnarstapa.

Því er ekki að neita að mörg þessara minna skjóta upp kollinum í bókmenntum aldarinnar en yfirleitt má þó rekja þau til eldri fornaldar- og riddarasagna, það er að segja til bókmennta frá 13. öld. Í einhverjum tilvikum má vera að þessar ungu sögur séu lítið annað en samansafn áður þekktra minna en í flestum tilfellum búa sögurnar þó yfir frumlegri meðferð á eldra efni og til verða ný tilbrigði við áður þekktar formúlur. Það var þó ekki einungis að menn hafi talið sig greina þróun í sagnaefninu sem slík slíku, heldur líka söguhetjunum og miðað við eldri og tragískari hetjur þóttu hetjur yngri sagnanna allt að því ómerkilegar.

Einar Ól. Sveinsson (1899-1984), prófessor í íslenskum bókmenntum, var einn þeirra sem töldu að hetjuímyndin hefði tekið miklum stakkaskiptum frá því sem var í hinum eldri sögum þar sem hin göfuga hetja hefði að lokum orðið að söguhetju í anda ævintýra. Þótt vera megi að hetjuímyndin hafi í einhverjum tilvikum þróast með þessum hætti er það alls ekki algilt. Söguhetja er vanalega flóknari en svo að henni nægi að berjast við alvondan andstæðing. Hún þarf að höfða til áheyrenda og halda samúð þeirra söguna á enda. Allt önnur lögmál gilda um hetjur ævintýranna sem ýmist glíma við einn andstæðing eða þrjá og þurfa einungis á athygli okkar að halda í stutta stund.

Myndir:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Margþættri spurningu Tinnu er hér svarað að hluta.

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

25.8.2025

Spyrjandi

Tinna

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Fór Íslendingasögum hnignandi á 14. öld?“ Vísindavefurinn, 25. ágúst 2025, sótt 25. ágúst 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87846.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2025, 25. ágúst). Fór Íslendingasögum hnignandi á 14. öld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87846

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Fór Íslendingasögum hnignandi á 14. öld?“ Vísindavefurinn. 25. ágú. 2025. Vefsíða. 25. ágú. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87846>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Fór Íslendingasögum hnignandi á 14. öld?
Ein þekktasta kenning um þróun íslenskra bókmennta er eftir Sigurð Nordal (1886-1974), sem taldi að greina mætti fimm þrep í þróun Íslendingasagna. Greiningin tengist þeirri bókmenntalegu sýn Sigurðar að ritun sagnfræði og frásagna hafi hafist sitt í hvoru lagi, þær nái svo fullkomnun í sambúð hvor við aðra þar sem til hafi orðið sagnfræðileg skáldverk og á 14. öld taki þær að greinast að aftur og til verði annars vegar annálar og hins vegar ýkjusögur.

Samkvæmt þróunarkenningu Sigurðar eru unglegar Íslendingasögur Bárðar saga Snæfellsáss, Finnboga saga ramma, Flóamanna saga, Gull-Þóris saga, Kjalnesinga saga, Víglundar saga og Þórðar saga hreðu. Þessar sögur hafa því stundum verið hafðar til marks um hnignandi bókmenntasmekk og almennt eru þær álitnar síðri bókmenntir en þær sem ritaðar voru á „hátindi“ sagnaritunarinnar. Á heildina séð voru þær álitnar meiri „tilbúningur“ en sögur frá 13. öld og að auki þóttu þær um of markaðar formúlum, það er föstum orðasamböndum, og öðrum einkennum úr munnlegri geymd.

Langt fram eftir 20. öld virðast fræðimenn eiga auðvelt með að samsama sig kenningu Sigurðar og tala um hnignun eins og hún hafi virkilega átt sér stað, jafnt í tilfelli Íslendingasagna sem og annarra miðaldasagna. Til sönnunar því að um þróun í átt til hnignunar hafi verið að ræða er svo oftar en ekki gripið til alhæfinga. Dæmigerð umfjöllun um sagnasköpun 14. aldar hefur því lengi litast af stöðluðum klisjum. Yfirleitt er talað um að margs konar bókmenntaleg minni, svokölluð sagnaminni, hafi borist frá einni sögu til annarrar, svo sem um kolbíta, vondar stjúpur, álög og hamskipti, dreka og skrímsli, forsendingar, ævintýraferðir, haugbrot og ýmiss konar staðlaðar aðstæður sem höfundar notuðu í þeim tilgangi að styrkja hetjuímyndina. Undir þetta mætti þá fella sögur þar sem karlhetjan berst við ómennskan andstæðing eða bjargar kvenhetju úr háska rétt eins og í síðari tíma ævintýrum. Að lokum er gjarnan sagt að mikið sé um yfirnáttúruleg einkenni í sögum frá 14. öld, svo sem töfra og galdra, risa, tröll, blámenn, berserki og dverga.

Samkvæmt þróunarkenningu Sigurðar Nordal eru unglegar Íslendingasögur Bárðar saga Snæfellsáss, Finnboga saga ramma, Flóamanna saga, Gull-Þóris saga, Kjalnesinga saga, Víglundar saga og Þórðar saga hreðu. Þessar sögur hafa því stundum verið hafðar til marks um hnignandi bókmenntasmekk. Myndin sýnir minnisvarða um Bárð Snæfellsás á Arnarstapa.

Því er ekki að neita að mörg þessara minna skjóta upp kollinum í bókmenntum aldarinnar en yfirleitt má þó rekja þau til eldri fornaldar- og riddarasagna, það er að segja til bókmennta frá 13. öld. Í einhverjum tilvikum má vera að þessar ungu sögur séu lítið annað en samansafn áður þekktra minna en í flestum tilfellum búa sögurnar þó yfir frumlegri meðferð á eldra efni og til verða ný tilbrigði við áður þekktar formúlur. Það var þó ekki einungis að menn hafi talið sig greina þróun í sagnaefninu sem slík slíku, heldur líka söguhetjunum og miðað við eldri og tragískari hetjur þóttu hetjur yngri sagnanna allt að því ómerkilegar.

Einar Ól. Sveinsson (1899-1984), prófessor í íslenskum bókmenntum, var einn þeirra sem töldu að hetjuímyndin hefði tekið miklum stakkaskiptum frá því sem var í hinum eldri sögum þar sem hin göfuga hetja hefði að lokum orðið að söguhetju í anda ævintýra. Þótt vera megi að hetjuímyndin hafi í einhverjum tilvikum þróast með þessum hætti er það alls ekki algilt. Söguhetja er vanalega flóknari en svo að henni nægi að berjast við alvondan andstæðing. Hún þarf að höfða til áheyrenda og halda samúð þeirra söguna á enda. Allt önnur lögmál gilda um hetjur ævintýranna sem ýmist glíma við einn andstæðing eða þrjá og þurfa einungis á athygli okkar að halda í stutta stund.

Myndir:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Margþættri spurningu Tinnu er hér svarað að hluta....