Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er áberandi á síðustu árum að margt ungt fólk notar ekki punkt í lok málsgreina í stafrænum samskiptum svo sem tölvupósti, smáskilaboðum, spjallrásum og samfélagsmiðlum – og finnst jafnvel stuðandi að sjá punkt í lok málsgreina. Í þessu samhengi skiptir máli að hafa í huga það meginhlutverk greinarmerkja að vera hjálpartæki við lestur og skilning – þau koma í stað hikorða, þagna, tónfallsbreytinga, svipbrigða, líkamstjáningar og annarra aðferða sem notaðar eru í töluðu máli. Í formlegu máli hafa svo vissulega skapast ýmsar venjur og reglur um notkun greinarmerkja (sjá Ritreglur Árnastofnunar) sem ekki þjóna endilega alltaf því markmiði að auðvelda fólki lestur textans og stundum er greinarmerkjum þar ofaukið frá því sjónarmiði.
Hlutverk punkts í samfelldum texta er fyrst og fremst að láta lesandann vita að málsgreininni sé lokið og önnur taki við. Það er vissulega líka gert með því að láta nýja málsgrein hefjast á stórum staf en punkturinn er samt miklu öruggara tákn um málsgreinaskil því að stórir stafir eru ekki eingöngu hafðir í upphafi málsgreina heldur líka í sérnöfnum. Þótt margt ungt fólk sleppi oft punktum í lok málsgreina gildir það yfirleitt ekki ef um samfelldan texta er að ræða þar sem önnur málsgrein kemur á eftir – þá er venjulega hafður punktur á eftir þeirri fyrri. Honum er hins vegar sleppt í síðustu málsgrein textans og ef boðin eru aðeins ein málsgrein. En þegar að er gáð er það svo sem ekki bara í stafrænum boðum sem punkti er sleppt.
Punktur eru t.d. aldrei hafður á titilsíðum bóka, á eftir kaflafyrirsögnum í bókum, á eftir fyrirsögnum í blöðum og víðar þar sem textinn afmarkar sig sjálfur ef svo má segja þannig að punktur er óþarfur. En talsvert fram á tuttugustu öld var alsiða að punktar væru hafðir á eftir ýmiss konar textabrotum í einangrun. Þannig voru t.d. punktar á titilsíðum bóka – á eftir höfundarnafni, titli og öðrum upplýsingum – og á eftir kaflafyrirsögnum. Í blöðum og tímaritum voru punktar á eftir heiti ritsins og á eftir fyrirsögnum. Það var misjafnt hvenær þessu var hætt en í sumum blöðum hélst það a.m.k. fram á fjórða áratug tuttugustu aldar. Við hugsum aldrei út í að þarna eru ekki punktar og finnst óeðlilegt ef við sjáum punkta á þessum stöðum.
Þetta er í raun og veru alveg eðlilegt og í fullu samræmi við það hlutverk punktsins að láta lesandann vita að málsgreininni sé lokið. Þegar ekkert kemur á eftir segir það sig nefnilega sjálft að málsgreinin er á enda – það þarf engan punkt til að sýna það. Því má segja að það sé eðlileg naumhyggja að sleppa punkti þar. Unga fólkið sem sleppir punkti í lok texta í stafrænum boðum er því bara að feta í fótspor þeirra sem tóku upp á því að sleppa punktinum við sambærilegar aðstæður í prentuðum textum fyrir hundrað árum. Það er engin ástæða til að amast við því þótt punktinum sé sleppt, en hins vegar er auðvitað æskilegt að ungt fólk sýni því skilning að þau sem eldri eru nota punktinn oft í samræmi við reglur formlegs máls án þess að ætla sér að stuða.
Mynd:
Eiríkur Rögnvaldsson. „Þarf alltaf að nota punkt í lok málsgreina?“ Vísindavefurinn, 1. september 2025, sótt 1. september 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87901.
Eiríkur Rögnvaldsson. (2025, 1. september). Þarf alltaf að nota punkt í lok málsgreina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87901
Eiríkur Rögnvaldsson. „Þarf alltaf að nota punkt í lok málsgreina?“ Vísindavefurinn. 1. sep. 2025. Vefsíða. 1. sep. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87901>.