Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær fóru menn að nota stóran staf í upphafi setninga og enda á punkti?

Jóhannes B. Sigtryggsson

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvernig og hvenær byrjuðu menn að rita á þann hátt að byrja setningar með stórum staf og enda þær á punkti?

Greinarmerkið punktur (.) er upprunnið hjá Grikkjum um 200 fyrir Krist. Letur var þá hástafaletur og því engir litlir stafir. Yfirleitt var ekki haft bil á milli orða í grískum og rómverskum textum en punktar voru stundum notaðir í rómverskum áletrunum til að greina á milli orða. Á 7. og 8. öld urðu lágstafaletur algeng, meðal annars í Frakklandi, Írlandi, Englandi og Þýskalandi, og var þá gerður greinarmunur á stórum og litlum stöfum. Þá þegar var algengt að setning endaði á bili og ný setning hæfist á stórum staf. Nútímagreinarmerkjasetning á rætur að rekja til ítalskra og franskra prentara á 15. og 16. öld.

Í íslenskum miðaldahandritum var punktur algengasta greinarmerkið til að tákna lok setningar og gat punkturinn staðið á línu eða verið í miðhæð. Hann var hins vegar einnig notaður þar sem nú væri sett komma, spurningarmerki, tvípunktur eða annað greinarmerki. Algengt var að á eftir punkti í lok setningar hæfist ný setning á stórum staf en þó var það ekki algilt.

Oc er hann hafði þessa luti heyrða oc set. þa ætlaði hann at stiga niðr af steininum. Oc er hann for ovan. þa sa hann ogorliga staði fulla af logum og qvolum oc þar með heyrði hann aumligan grat. oc margsconar ogorliga luti. (úr handritinu AM 310 4to frá þriðja fjórðungi 13. aldar)

Prentsmiðja á 16. öld.

Prentun bóka hófst á Íslandi á 16. öld. Í Nýjatestamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540 eru eingöngu notuð tvenns konar greinarmerki, punktur (.) og skástrik (/). Stórir stafir eru einkum notaðir í sérnöfnum en koma einnig fyrir í fleiri nafnorðum. Í Guðbrandsbiblíu 1584 eru fleiri ólík greinarmerki notuð en í Nýjatestamentisþýðingu Odds, það er einnig spurningarmerki, tvípunktur og svigar. Á eftir punkti í Guðbrandsbiblíu er venjulega stór stafur en þó ekki alltaf.

Á 19. öld kemst meiri festa á greinarmerkjasetningu. Rasmus Chr. Rask er til að mynda með reglur um þær í bók sinni Lestrarkver handa heldri manna börnum frá 1830. Þar segir um notkun punkts: „(.) Klausuteikn, púnktr, (á lat. punctum) brúkast þegar heill þánki er á enda, hvort sem vera kann lengri eðr styttri [...].“

Frekar er hægt að lesa um punkta og önnur greinarmerki í svari Guðrúnar Kvaran Hvenær var upphaflega farið að nota punkta, kommur og greinaskil?

Heimildir:

  • Jón Helgason. 1929. Málið á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar.
  • Julian T. Brown. 1990. Adjuncts to writing. Í: The New Encyclopædia Britannica. (15. útg.). Volume 29. Macropædia, bls. 1050–1052.
  • Oskar Bandle. 1956. Die Sprache der Guðbrandsbiblía.
  • Rasmus Chr. Rask. 1830. Lestrarkver handa heldri manna börnum.

Mynd:

Höfundur

Jóhannes B. Sigtryggsson

rannsóknarlektor á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

14.4.2014

Spyrjandi

Rósa Björt Bragadóttir

Tilvísun

Jóhannes B. Sigtryggsson. „Hvenær fóru menn að nota stóran staf í upphafi setninga og enda á punkti?“ Vísindavefurinn, 14. apríl 2014, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67072.

Jóhannes B. Sigtryggsson. (2014, 14. apríl). Hvenær fóru menn að nota stóran staf í upphafi setninga og enda á punkti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67072

Jóhannes B. Sigtryggsson. „Hvenær fóru menn að nota stóran staf í upphafi setninga og enda á punkti?“ Vísindavefurinn. 14. apr. 2014. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67072>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær fóru menn að nota stóran staf í upphafi setninga og enda á punkti?
Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Hvernig og hvenær byrjuðu menn að rita á þann hátt að byrja setningar með stórum staf og enda þær á punkti?

Greinarmerkið punktur (.) er upprunnið hjá Grikkjum um 200 fyrir Krist. Letur var þá hástafaletur og því engir litlir stafir. Yfirleitt var ekki haft bil á milli orða í grískum og rómverskum textum en punktar voru stundum notaðir í rómverskum áletrunum til að greina á milli orða. Á 7. og 8. öld urðu lágstafaletur algeng, meðal annars í Frakklandi, Írlandi, Englandi og Þýskalandi, og var þá gerður greinarmunur á stórum og litlum stöfum. Þá þegar var algengt að setning endaði á bili og ný setning hæfist á stórum staf. Nútímagreinarmerkjasetning á rætur að rekja til ítalskra og franskra prentara á 15. og 16. öld.

Í íslenskum miðaldahandritum var punktur algengasta greinarmerkið til að tákna lok setningar og gat punkturinn staðið á línu eða verið í miðhæð. Hann var hins vegar einnig notaður þar sem nú væri sett komma, spurningarmerki, tvípunktur eða annað greinarmerki. Algengt var að á eftir punkti í lok setningar hæfist ný setning á stórum staf en þó var það ekki algilt.

Oc er hann hafði þessa luti heyrða oc set. þa ætlaði hann at stiga niðr af steininum. Oc er hann for ovan. þa sa hann ogorliga staði fulla af logum og qvolum oc þar með heyrði hann aumligan grat. oc margsconar ogorliga luti. (úr handritinu AM 310 4to frá þriðja fjórðungi 13. aldar)

Prentsmiðja á 16. öld.

Prentun bóka hófst á Íslandi á 16. öld. Í Nýjatestamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540 eru eingöngu notuð tvenns konar greinarmerki, punktur (.) og skástrik (/). Stórir stafir eru einkum notaðir í sérnöfnum en koma einnig fyrir í fleiri nafnorðum. Í Guðbrandsbiblíu 1584 eru fleiri ólík greinarmerki notuð en í Nýjatestamentisþýðingu Odds, það er einnig spurningarmerki, tvípunktur og svigar. Á eftir punkti í Guðbrandsbiblíu er venjulega stór stafur en þó ekki alltaf.

Á 19. öld kemst meiri festa á greinarmerkjasetningu. Rasmus Chr. Rask er til að mynda með reglur um þær í bók sinni Lestrarkver handa heldri manna börnum frá 1830. Þar segir um notkun punkts: „(.) Klausuteikn, púnktr, (á lat. punctum) brúkast þegar heill þánki er á enda, hvort sem vera kann lengri eðr styttri [...].“

Frekar er hægt að lesa um punkta og önnur greinarmerki í svari Guðrúnar Kvaran Hvenær var upphaflega farið að nota punkta, kommur og greinaskil?

Heimildir:

  • Jón Helgason. 1929. Málið á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar.
  • Julian T. Brown. 1990. Adjuncts to writing. Í: The New Encyclopædia Britannica. (15. útg.). Volume 29. Macropædia, bls. 1050–1052.
  • Oskar Bandle. 1956. Die Sprache der Guðbrandsbiblía.
  • Rasmus Chr. Rask. 1830. Lestrarkver handa heldri manna börnum.

Mynd:

...