Átti kona Axlar-Bjarnar einhvern þátt í morðum eiginmanns síns?Stutta svarið Seint verður með óyggjandi hætti komist að því hversu mörg fórnarlömb Axlar-Bjarnar voru og illu heilli er það nú svo að í margbrotinni umfjöllun um hann er einatt blandað saman því litla sem virkilega er hægt að vita um athæfi hans, frásögnum sem stigmögnuðust næstu öldina, þjóðsögum frá miðri 19. öld og hugarburði þeirra sem hafa orðið eða halda á penna hverju sinni. Einu samtíðarheimildirnar um Björn Pétursson, sem yfirleitt er nefndur Axlar-Björn, gefa til kynna að hann hafi drepið fleiri en þrjá eða fjóra. Margar seinni tíma heimildir auka heldur við töluna, allt upp í átján. Samtíðarheimildir benda til þess að Þórdís, kona Axlar-Bjarnar, hafi verið saklaus af öllum ákærum. Lengra svar Á Vísindavef hefur áður verið skrifað um Axlar-Björn, þó þannig að ekki er farið í saumana á því sem vitað verður; sjá Hver var Axlar-Björn? og Hverrar ættar var Axlar-Björn og hver var kona hans? Hér verða varðveittir vitnisburðir greindir með nokkurri tortryggni út frá mögulegu sannleiksgildi. Það sama gerði Einar Arnórsson í merkri tímaritsgrein árið 1940 en gekk ekki jafn langt og hér verður gert. Í Lesbók Morgunblaðsins 21. september 1996 útskýrði Arnaldur Indriðason niðurstöður Einars, en honum þóttu þær alls ekki nógu spennandi og hann vildi heldur halda sögusögnunum til streitu: „Björn er nífaldur morðingi samkvæmt eigin játningu og hvert morð hans er framið með köldu blóði. Hann gengur hreint til verks. Ásetningur hans er skýr“ (bls. 5). Einu samtíðarheimildirnar um að Björn Pétursson hafi yfirleitt drepið nokkurn mann eru úrskurðir Alþingis um konu hans Þórdísi Ólafsdóttur. Þetta eru tvær málsgreinar skrifaðar sumarið eftir að Björn var tekinn af lífi og ári síðar. Einfaldast er að birta þessa stuttu texta í heilu lagi:
Anno 1596. Dómur af allri lögréttunni um konu Manndrápa-Björns.Ljóst má vera af orðalaginu að morðin hafa verið fleiri en þrjú eða fjögur og Björn hafði þá þegar verið tekinn af lífi. Grunur lék á aðild Þórdísar og henni var gert að vinna tylftareið gegn þeim áburði, þannig að sex karlar og sex konur skyldu segja álit sitt. Út frá þeirri niðurstöðu átti sýslumaður að taka málið til dóms og ætlast var til þess hún væri í varðhaldi þangað til. Ekki tókst að ganga frá málinu um veturinn og það kom aftur til Alþingis sumarið 1597:
Beiddist Kastian Boch dóms og ráða um þá konu Þórdísi Ólafsdóttir er átt hafði Björn Pétursson, vegna þeirra fáheyrðu morða sem sami Björn hafði meðkennst. Dæmdist af allri lögréttunni. Í fyrstu hafði þessi maður Björn réttaður verið, eftir lögmáli <réttu>. Virtist þeim réttast að Kastian nefndi til tólf skynsama menn og ráðvanda, hálfpart konur og karla, það fyrsta hann kemur heim í sveit, hvörjir að sverja skyldu hvort þeim líkligra þætti að hún sökuð eður saklaus yrði af áðursögðum morðum, og gangi síðan eftir dómi góðra manna og sé rétt tekin til fanga (Alþingisbækur III, bls. 64).
Dómur um þá manneskju Þórdísi Ólafsdóttir. Dæmdur af allri lögréttunni.Hér bendir orðalag til þess að lögréttumönnum hafi heldur litist svo á lýsingu málsatvika að Þórdís væri saklaus af öllum ákærum, en samt var sýslumanni gert að ljúka sinni rannsókn þá um haustið, væntanlega með töku eiða. Næstu vitnisburðir um morðin sem Axlar-Björn átti að hafa framið voru skráðir í annála fjórum til fimm áratugum eftir atburðina og fyrir vikið verður að taka þeim með fyrirvara. Björn Jónsson, síðar bóndi á Skarðsá í Skagafirði, var fæddur árið 1574 og hefur áreiðanlega heyrt af ódæðisverkunum sem ungur maður þótt hann byggi í fjarlægum landshluta. Hann var lögréttumaður frá árinu 1616 og eftir því sem næst verður komist tók hann annál sinn saman á fjórða áratug aldarinnar. Þar segir um árið 1596:
Dæmdu þeir að kóngs umboðsmaðurinn í Snæfellsness sýslu skyldi eftir leita hvort hún væri nokkuð sökuð í þessum málum eður ei, enn að nýju, og ef svo er að nokkuð bívísast, að hún hafi sig í þeim vandræðum vafið með sínum manni Birni Péturssyni, þá dæmum vér henni refsing og straff eftir því prófi. En bívísist ekki upp á hana öðruvís en nú hefur fram fyrir oss komið, þá kunnum vér ekki henni refsing að dæma. Skal sýslumaður hér eftir leita fyrir næsta leiðarþing (Alþingisbækur III, bls. 101).
Urðu uppvís morðsverk Björns í Öxl vestur. Hann hafði drepið og myrt níu menn, sem hann meðkenndi sjálfur, suma til fjár, en hina aðra fátæka drap hann þá sem í nánd voru þegar hann myrti aðra til fjárins. En þegar honum varð aflskortur, þá veitti kona hans honum lið. Hún brá snæri um háls þeim og rotaði með sleggju. Þessa dauða gróf hann í heygarði og fjósi, og fundust fleiri manna bein en hann meðgekk að drepið hefði, og kvaðst hafa fundið þá dauða, og nennt ekki til kirkju að hafa. Hann var dæmdur á Laugarbrekkuþingi. Var fyrst limamarinn með sleggjum og síðan afhöfðaður, og svo í sundur stykkjaður og festur upp á stengur. Jón Jónsson lögmaður var yfirdómari. Kona Björns var ei deydd, því hún var með barni (Annálar I, bls. 180).Miðað við úrskurði Alþingis er allt sem Björn segir um Þórdísi tilbúningur. Annað gæti verið það líka, en áður en lengra er haldið er vert að líta á frásögn Péturs Einarssonar. Hann var fæddur 1597 og bjó á Ballará á Skarðsströnd, varð lögréttumaður árið 1627 og skrifaði annál sinn um og eftir 1640. Hann setti aftöku Axlar-Bjarnar til ársins 1597, sem var fyrsta árið sem hann skrifaði um, en var ekki viss:
Ei hef ég heyrt neitt sérlegt tilborið hafa á því ári, svo annálað sé, nema ég hef ei gerla að komist í annálum, hvort á þessu ári eður árinu fyrr hafi komist fyrst þau morð og manndráp sem Axlar-Björn gerði. Hann drap menn og gróf þá suma í heygarðinum, sumum hleypti hann niður í dý með hestum. Einn af þeim hét Einar, var vermaður úr Miklholtshrepp, hvarf fyrir jól. Um vorið páskadaginn við kirkju þekkti bróðir Einars hempu hans á Birni. Og svo var hann tekinn og meðkenndi morðin. Hvort þau voru 14 eða 15 man ég ekki. Hann var stegldur á Laugarbrekkuþingi (Annálar III, bls. 187–188).Björn og Pétur sátu saman í lögréttu á sumrin en hafa greinilega ekki rætt um þetta mál eða lesið texta hvors annars, því þeir eru gjörólíkir. Þar af leiðandi eru þeir sjálfstæðar heimildir um það sem skrafað var um morðin og gætu fyrir vikið sagt eitthvað um það sem gerðist í raun. Björn á Skarðsá fór með rangt mál um Þórdísi og atriði Péturs með peysuna er þjóðsagnakennt – maður týnist og morðinginn klæðist fötum hans! Níu voru myrtir og áreiðanlega fleiri, segir Björn, fjórtán eða fimmtán segir Pétur, sem lætur Axlar-Björn sökkva líkunum í dý með hestum en ekki bara grafa þau í fjósi. Báðir nefna heygarða og það eitt er sameiginlegt. Sögusagnir umturnast á færri árum en þetta og bæði í Skarðsárannál og Ballarárannál eru ýkjusögur af ýmsu tagi úr samtímanum, sem ekki verða tíundaðar hér en vekja grun um að hvorugum höfundi hafi þótt verra að færa í stílinn. Líklega má þó taka mark á því að Axlar-Björn hafi verið tekinn af lífi á Laugarbrekku, enda var það næsti þingstaður við Öxl. Tölunum er kannski ekki treystandi en það sem menn þóttust vita var að morðin voru mörg, líkt og gefið er til kynna í úrskurðum Alþingis.

Björn Pétursson, sem yfirleitt er nefndur Axlar-Björn, bjó á Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Samtíðarheimildirnar um hann gefa til kynna að hann hafi drepið fleiri en þrjá eða fjóra. Margar seinni tíma heimildir auka heldur við töluna, allt upp í átján.
Urðu hljóðbær og uppvís morðverk og manndráp Björns í Öxl vestur. Lá nokkra stund sá orðrómur á honum, en enginn vogaði að koma upp með soddan ódæði, en fólkið hvarf oft snögglega og spurðist ekki til. Eitt sinn kom þar að til hans förukona með þremur börnum, nokkuð til ára komin. Hún beiddi húsa og fékk þau, en sem hún var um kyrrt setzt, lokkaði þessi skálkur frá henni börnin, sitt í hvert sinn, og fyrirfór þeim, en sem hann ætlaði að sækja hana var hún komin þar í skot eður afkima einn, er í þeim kofa var er hann leyfði henni, og duldist þar, því hana grunaði hverju gegna mundi, en sem Björn sá hana ekki varð honum illt við það mjög og rak upp hljóð, gekk síðan. Kona þessi komst svo í brunnhús er þar var nærri og sat þar meðan Björn leitaði hennar með ljósi um bæinn, því þetta var á kvöldtíma. Komst þessi fátæka kona svo þaðan um nóttina og til sama bæjar og hún áður hafði næstu nótt á verið. Sagði hún þá frá að hún hefði misst frá sér börn sín öll. Síðan var eftir þessu gengið og var svo Björn tekinn og settur fastur, en sem á hann var gengið meðkenndist hann að níu menn líflátið hefði. Hafði hann suma drepið til fjár, en hina aðra fátæka drap hann þá sem í nánd voru þegar hann myrti aðra til fjárins, en þegar honum varð aflskortur, þá veitti kona hans honum lið. Hún hafði brugðið snæri um háls þeim og rotað þá með sleggju, stundum kyrkt þá með hálsklæði sínu. Þessa dauða hafði hann grafið í heygarði og fjósi, og fundust þó að sönnu fleiri manna bein en hann meðkenndi að drepið hefði, en hann sagðist hafa fundið þá dauða og ekki nennt þá til kirkju að flytja. Hefur um það margrætt verið hvað marga hann myrt hafði. Sumir hafa sagt þeir hafi 18 verið með ungum og gömlum, sumir segja 14, en þá hann var aðspurður, hvað gamall hann hefði verið þá hann tók fyrst til þessa, hafði hann sagt sig þá 14 vetra er hann drap pilt einn í fjárhúsi og hann þar grafið hefði. Björn var dæmdur á Laugarbrekkuþingi. Var hann fyrst limamarinn með sleggju, sundur stykkjaður og síðan afhöfðaður og festur upp á stengur. Jón Jónsson lögmaður var yfirdómari, og þessi morðingi skal hafa dáið iðrunarlaust. Kona hans var þá með barni og því var hún ekki réttuð, en sem hún var léttari orðin var hún höfð á alþing og dæmd þrjú húðlát og þar gengið næst lífi hennar og síðan sleppt (Annálar IV, bls. 73–74).Skarðsárannáll var gefinn út á prenti árið 1774 og aukið við athugasemd um að hinir myrtu hefðu verið fjórtán eða átján, en að öðru leyti ekki prjónað við söguna (bls. 174). Það gerði aftur á móti Jón Espólín sýslumaður og sagnaritari í fimmta bindi Íslands árbóka sem kom út í Kaupmannahöfn 1826. Hann var vel að sér um eldri annála en hefur annaðhvort ekki þekkt Setbergsannál eða ákveðið að sleppa því sem þar kom fram og bæta heldur við sögu frá eigin brjósti um systkini nokkur:
Björn hét maður og var Pétursson, hann bjó að Öxl í Breiðuvík. Til hans kom einn sveinn með systur sinni um kveld, og er þau voru aðskilin heyrði sveinninn emjan til hennar, vildi hann þá komast út og forða sér, en fékk því eigi orkað. Í því fann hann fyrir sér ræsi er lá í fjósið og duldist þar; var hans leitað með með ljósi og komst hann þó á brott, en stúlkan var drepin. Kom þetta fyrir Jón lögmann, er þá sýslu hafði með fleirum öðrum og Stapaumboð, og lét hann taka Björn. Meðkenndist hann þá að hafa drepið og myrt níu menn, suma til fjár, en aðra fátæka er í nánd voru þá er hann myrði hina, en ef honum varð aflkostur, þá veitti kona hans honum lið, brá snæri um háls þeim og rotaði með sleggju. Gróf hann þá í fjósi og heygarði, og fundust fleiri manna bein en hann meðkenndi að hafa myrða, kvaðst hann hafa fundið þá dauða og nennt ei at flytja til kirkju. En þar af hafa menn dregið líkindi að hann hafi myrða fjórtán en sumir segja átján menn (bls. 84–85).Sögur Gísla Þorkelssonar og Jóns Espólíns eru auðvitað tóm vitleysa og sama gildir um þær frásagnir sem einkum er stuðst við nú á dögum og urðu til um og eftir miðja 19. öld. Fyrstur til var Páll Melsteð (f. 1812) sem árið 1852 tók saman söguþátt um Axlar-Björn „eftir sögnum og munnmælum á Snæfellsnesi“, en þar var hann sýslumaður árin 1849–1854. Þátturinn birtist í fréttablaðinu Íslendingi 22. september og 4. október 1860. Móðir morðingjans sem verða skyldi drakk blóð úr fæti eiginmanns síns á meðgöngu og hana dreymdi fyrir því að drengurinn yrði „óskapaskepna“, með fleiru sem líklegra er að fremur sé skáldskapur Páls en munnmæli höfð eftir heimamönnum.

Þær frásagnir sem einkum er stuðst við nú á dögum um Axlar-Björn eru tóm vitleysa. Þær urðu til um og eftir miðja 19. öld. Páll Melsted (f. 1812) tók fyrstur saman söguþátt sem birtist í í fréttablaðinu Íslendingi 1860.
- ^ Tugir samantekta hafa á síðustu áratugum birst í dagblöðum og enginn segir af ferðum sínum fyrir Snæfellsnes í ræðu eða riti án þess að nefna Björn og Þórdísi konu hans á Öxl í Breiðuvík sem svæsnustu glæpamenn Íslandssögunnar. Skilti var sett upp á staðnum fyrir nokkrum árum sem tíundar ódæðisverkin og í ferð Lionsmanna vorið 2007 var kuflklæddur leikari með öxi í hönd látinn hrekkja mannskapinn. Að því loknu var borinn fram blóðheitur drykkur (Skessuhorn 23. maí 2007, bls. 37). Leikrit innblásin af Birni voru sett upp í Reykjavík og á Rifi árið 2012, og næstu árin voru í smíðum að minnsta kosti þrjú handrit að kvikmyndum sem ekkert varð úr. Snemma árs 2018 hófst framleiðsla á bjórnum Axlar-Birni og þá um sumarið fóru sjónvarpsmenn á vettvang og lásu upp úr þjóðsögum.
- Handrit í Landsbókasafni-Háskólabókasafni
- Lbs 528 4to. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I.
- Lbs 533 4to. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri VI.
- Alþingisbækur Íslands III. Reykjavík 1917–1918.
- Annálar 1400–1800. Átta bindi. Reykjavík 1922–1988.
- Annálar þess fróma og velvitra sáluga Björns Jónssonar á Skarðsá. Hrappsey 1774.
- Arnaldur Indriðason, „Sólarlitlir dagar“, Lesbók Morgunblaðsins 21. september 1996, bls. 4–5.
- Einar Arnórsson, „Munnmæli og arfsagnir“, Blanda 7 (1940) bls. 97–180 (um Axlar-Björn á bls. 141–151).
- Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Sex bindi. Safnað hefur Jón Árnason. Árni Böðvarsson og Jón Böðvarsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1961.
- Jón Espólín, Íslands árbækur 5. Kaupmannahöfn 1826.
- Haraldur Pétursson, Kjósarmenn. Æviskrár. Reykjavík 1961.
- „Morðóður og ófrómur bóndi á Fossá“, Dagur. Íslendingaþættir 29. ágúst 1998, bls. 1–2.
- Páll Melsteð, „Sagan af Axlar-Birni“, Íslendingur 1:12–13 (1860), bls. 93–100.
- Þorsteinn frá Hamri, „Illa brotna bein á huldu“, Fálkinn 34:4 (1961), bls. 12–13, 21, 34.
Prentað efni
- Axlar-Björn — ð+þ. (Sótt 2.10.2025).
- prospect Axlar-Björn - Iceland The Beautiful. (Sótt 2.10.2025).
- Íslendingur - 04.10.1860 - Tímarit.is. (Sótt 2.10.2025).