
Opna úr dómabókinni. Neðst á hægri síðu er upphafið að yfirheyrslu yfir Jóni bróður Bjarna, sem var vinnumaður á bænum: 1. „Hvað vissir þú til ósamlyndis, svo vel milli Bjarna og Jóns heitins á Sjöundá í fyrra, sem og milli Jóns og Steinunnar?“ Hann svaraði: „Eftir því sem á leið veturinn óx jafnan ósamlyndi bæði milli hjónanna og bændanna. Það reis ætíð út af ítrekaðri aðfyndni Jóns við konu sína að þau Bjarni og Steinunn drægju sig saman, þar þau oft innan um bæinn og úti fyrir dyrunum voru á tali þá annað fólk sat upp á lofti, hvað ég sá og heyrði. Þegar deila reis af þessu milli hjónanna sló Bjarni sér þar fram í ætíð mót Jóni heitnum.“
Þann 1. apríl næstliðinn, lítið fyrir miðjan dag, fórum við Jón heitinn að láta út kindur okkar og rákum þær saman ofan í fjöruna, gengum svo saman að fjárhúsunum aftur. Þar skildum við. Fór ég heim en hann neðan á Dal á þann veg sem liggur að Skorarhlíðum. Þangað gjörði hann ráð fyrir við mig að fara til að reyna hvort þær væru færar, því í Skor, sem aðskilst frá Sjöundá með greindum Hlíðum, áttum við hey sem okkur lá á að sækja til lífs okkar nær því fóðurlausa pening. Honum léði ég staf minn er var úr espi með húna. ... Jón kom ei aftur á þeim tíma sem kona hans og ég von á áttum. Fór ég því að leita að hans eftir hennar beiðni. ... Ég þræddi svo eftir förum Jóns einlægt yfir Landbrotsskafl þar sem Hlíðarnar fyrst byrja, inn fyrir þar næsta klettabrík og að því næsta svaði fyrir innan. Þar enduðu förin og þar strax sá ég á svellglottungnum fyrir neðan líkast sem far eftir óhreina drægju, hvar af ég slúttaði að hér hefði Jón hrapað. Sneri ég svo til baka meir hryggur en glaður, kom heim um sólarlag og sagði Guðrúnu konu minni þessa ályktun mína, sem strax sagði Steinunni sama.Andláti Guðrúnar lýsti hann svo:
Viðvíkjandi dauða Guðrúnar Egilsdóttur þá framber Bjarni að henni hefði orðið illt af uppsölu kvöldtíma þá hann ⟨hefði⟩[1] enn ei verið háttaður, sem henni hefði daginn eftir aldeilis batnað, og að mestu ósjúk verið til þess dags er hún dó, þá hún um morguninn nokkuð lasburða vildi fylgjast með Steinunni frá bænum ofan að fjárhlaðinu, þangað sem að stíað var. Þar varð henni illt án þess þó hún talaði neitt við Bjarna þaðan [af]. Sótti þá Steinunn henni að drekka, sem henni hefði runnið niður, hvar eftir hún hefði verið borin heim og skömmu síðar dáið. Og þóttist ekkert vita víðar, enn þótt hann væri margsinnis aðspurður, en þrætti berlega sínum tilverknaði til hennar dauða.Sýslumanni þótti lýsingin vera svo ótrúverðug og vafasöm að hann bað séra Eyjólf um að „reyna til að uppgötva sannleikann þess misgruns sem á honum liggur um morðin.“ Steinunn var nú kölluð inn og lýsti hvarfi Jóns:
Þann morgun eftir gjafir er ég sá síðast Jón minn heitinn gjörði hann ráð fyrir að hann vildi fara inn í Skor og bað mig um skó. Ég gjörði honum tvenna roð[skó]. Síðan fór hann á stað og hélt á þeim í hendinni út úr bænum. Matmálsstund þar á eftir fór Bjarni líka ofan af loftinu, rímilegast til að láta út kindur. Kom Bjarni þá aftur nokkru þar eftir og sagði að Jón [hefði] haldið á veginn [inn á Skorarhlíðar, en settist síðan] að byrjuðum bróksaum sínum. Síðar um daginn, þá mér fór að lengjast, fór ég út að skyggnast að honum og sá hann ei. Fór ég til Guðrúnar heitinnar Egilsdóttur og kvartaði um þetta, sem ásamt mér beiddi Bjarna að ganga inn eftir að skyggnast að honum, sem hann og gjörði og kom aftur fyrir sólarlag lítið. Heyrði ég þá af Guðrúnar og Bjarna samtali fyrir innan vegginn, en þó ljósara af henni sjálfri síðar að maður minn mundi hrapað hafa.Steinunn gekkst við því að hafa skammtað Guðrúnu graut, sem var á ferð til að mjólka, og hefði Bjarni áður sáldrað einhverju út á hann:
Um kvöldið át hún svo úr ausunni og fékk mér aftur tóma, en þá allt var háttað um nóttina fékk hún uppsölu mikla. Fór þá Bjarni á fætur frá henni og sótti henni blávatn að drekka, og skömmu eftir fylgdum við Bjarni henni ofan og út, og eftir stutta útiveru batnaði henni smá saman þá inn kom.Daginn eftir voru Bjarni og Steinunni yfirheyrð sitt í hvoru lagi og endurtóku framburð sinn. Vitnin voru þá kölluð inn til að vinna eið um sannsögli sína. Áður en sú athöfn hófst kom séra Eyjólfur og tilkynnti að eftir samræður þeirra kvöldið áður og um morguninn hefði Bjarna snúist hugur og hann væri „reiðubúinn til að frásegja um sinn frekasta tilverknað til morðs Jóns heitins Þorgrímssonar.“ Það vildi hann fá að gera strax. Guðmundur ákvað samt að bíða, því honum sýndist það „ei samkvæmt lagaformi að taka nýja meðkenning af Bjarna“ fyrr en vitnin væru tekin í eið og yfirheyrð. Líklega var sú ákvörðun helsta ástæða þess að hann endurgerði réttarhöldin og í textanum sem hann sendi suður lét hann einmitt kalla Bjarna inn um leið og séra Eyjólfur hafði flutt boðskap sinn, það er áður en vitnin voru yfirheyrð. Í dómabókinni gengu þau fyrir og hafa atvik sem þau sögðu frá þegar verið nýtt í lýsingu á aðdraganda morðanna. Þó má nefna til viðbótar að Jón bróðir Bjarna, sem hafði verið vinnumaður á Sjöundá veturinn á undan, lét þess getið að daginn sem Jón Þorgrímsson hvarf hefði Bjarni skyggnst í kringum sig við bæinn og þóst sjá Jón ganga á skaflinn. Jón Bjarnason hafði orðið var við uppsölur Guðrúnar en vissi ekki til þess að Bjarni eða Steinunn hefðu gefið henni að drekka, heldur hefði hann sjálfur fært henni vatn um morguninn og hún sagt „að nú hefði átt að sálga sér.“ Hann var farinn til sjós þegar Guðrún lést. Bjarni og Steinunn voru viðstödd þessar yfirheyrslur en að þeim loknum „á hendur falin vökturum til morguns, svo að hvorugt gæti við annað talað né burt sloppið.“

Tóftir bæjarins Sjöundá á Rauðasandi.
Við Steinunn ræddum oft um þá á leið veturinn að myrða Jón, í hvaða ráði ég var heldur frekari. ... Ei minnist ég við deildum sama morgun og hann dó og ei man ég okkar viðskipti þann dag fyrr en við gengum eftir morgungjafir ofan að fjárhúsum að láta [út] féð og rákum það saman ofan í fjöru með þykkju á báðar síður, og án þess [að segja] nokkuð hvor við annan. Við héldum hvor á sínum staf og formerkti ég hann vildi eftir mér ganga. Lít ég svo um öxl mér þá við nærri höfðum rekið féð á vana stað í fjörunni og reiddi hann þá stafinn rétt upp og segir: „Það skal fram sem ætlað er.“ Keyrði ég þá staf minn að vanga hans, hvar við hans stafur hraut úr hendi hans, minn brotnaði og maðurinn féll dauður niður. Sprakk svo fyrir á höfði hans og rann út blóð. Þar næst tók ég líkamann án þess að veita honum meiri áverka og bar hann í sjó fram af mósköflunum. Ég kastaði svo brotunum af mínum staf í sjóinn og gekk skömmu eftir heim, og sagði Steinunni hið sanna, en konu minni og fólkinu að hann hefði gengið í Skor, með hvörri uppdiktun ég vildi hafa skýlt illvirki mínu.Skömmu síðar fann hann líkið í fjörunni, tók það og gróf í skafli. Eftir fardaga sótti hann það og kastaði í sjóinn: „Af þessu vissi Steinunn en ei sá hún hann og ei hjálpaði hún mér til þessa.“ Næst lýsti hann kröfu hennar um að fyrst Jón væri allur yrði Bjarni líka að drepa Guðrúnu og þess vegna settu þau eirsvarf í grautinn hennar, sem hún bara veiktist af. Nokkrum vikum síðar tókst þeim ætlunarverk sitt:
Nokkrum vikum þar eftir, sem var sá 5. júní, fór ég og Steinunn niður að hlaðinu en Guðrún heitin var eftir, og kom svo skömmu seinna. Þá við sáum til hennar sagði Steinunn: „Þú verður nú annaðhvort að gjöra eður ég opinbera öll þín verk.“ „Gjörðu það“, sagði ég. „Það get ég ei einsömul.“ Hvar eftir við fórum bæði á móti henni og tók ég hana höndum, annarri á hálsinn, annarri neðarlega á bakið, og féll hún þá niður.“ Hann aðspurður: „Skrafaði hún þá nokkuð?“ Svarar: „Ætli þið að drepa mig.“ Þar eftir tók ég annarri hendinni fyrir vitin á henni (nasirnar og munninn) og hélt henni svo fastri til þess [að] hún skyldi kafna, en Steinunn hélt höndunum með síðunum svo hún spriklaði minna. En þá af henni var dregið sýnilega lífið fór Steinunn [heim] að bænum og sótti brekán að bera hana heim á, sem [við og] gjörðum og veittum henni skömmu þar eftir nábjargirnar.Steinunn var nú kölluð inn og gekkst við sinni hlutdeild að morðunum með stuttum svörum við fjölda spurninga, þar á meðal um Guðrúnu: „Eftir skipun hans [hélt] ég litla stund á henni höndunum meðan hann kyrkti hana, sótti síðan heim brekán og bar hana heim með honum í því.“ Aftur á móti þvertók hún fyrir það að hún hefði hvatt Bjarna til að drepa Guðrúnu. Hann var þá sóttur og þau látin þrefa um frumkvæðið:
Eftir langa þrætni þeirra á millum, þá hvort bar upp á annað eggjanina en afsakaði sig sjálf, færði Bjarni það síðast til röksemda til síns fyrra morðs að hún hefði sagt að hún þyrði ei að eiga Jón heitinn mann sinn lengur yfir höfði sér, hvað hún meðkenndi sig sagt hafa. Til hins síðara fann hann til að hún hefði sagt að hann yrði að drepa Guðrúnu heitina sem fyrst, svo hún bæri ekki neitt út af háttsemi þeirra né heimilisástandi, hvað hún eftir nokkra þrætni sannaði.Að síðustu voru þau innt eftir því hver ástæðan hefði verið fyrir morðunum tveimur og svöruðu bæði: „Innbyrðis velvild og elska til hins fyrra, en ektaskaparþanki og hræðsla að Guðrún mundi segja öðrum frá [000]um þeirra hefði verið orðsök til hins síðara.“[2] Daginn eftir, 11. nóvember, voru þau dæmd til dauða og var sá dómur staðfestur í landsyfirrétti og hæstarétti. Steinunni lést í fangavist í Reykjavík 31. ágúst 1805 og Bjarni var fluttur til Kristjánssands í Noregi þar sem hann var höggvinn á háls 4. október sama ár.

Steinunn Sveinsdóttir lést í fangavist í Reykjavík 31. ágúst 1805 og var dysjuð á Skólavörðuholti. Jarðneskar leifar hennar voru síðar fluttar í Hólavallakirkjugarð. Teikning í Lesbók Morgunblaðsins 31.1.1971.
Þá fór ég um morguninn að reka saman ærnar, sem eftir hjörðu, svo þær yrðu mjólkaðar. Ætluðu þær Guðrún mín og Steinunn að koma ofan eftir og mjólka þá ég væri búinn að smala. Þegar ég hafði rekið ærnar í hlaðið kemur Steinunn til mín og þá sáum við Guðrúnu halda frá bænum. Steinunn segir: „Þér er nú annaðhvort að gjöra ellegar ég opinbera þig.“ Guðrún mín setur sig niður á leiðinni, fer ég svo frá kvínni og upp eftir til hennar. Hún stendur upp, en ég tek annarri hendinni fyrir hálsinn á henni en annarri slæ ég á bakið, og féll hún þá niður. Þar eftir tók ég báðum höndum um vitin, nefnilega munninn og nasirnar á henni, svo hún skyldi kafna, en Steinunn sem kom strax á eftir mér til Guðrúnar heitinnar hélt höndunum á henni svo hún spriklaði minna, ofan með síðunum. En þá af Guðrúnu var dregið sýnilega lífið fór Steinunn heim að bænum og sótti brekán til að bera hana heim á, sem við og gjörðum, og lögðum hana upp í rúm og veittum henni skömmu þar eftir nábjargirnar.Af einhverjum ástæðum sleppti Guðmundur því sem átakanlegast er í eiginlegri játningu Bjarna, en það er spurning Guðrúnar hvort þau nú ætli að drepa hana. Guðmundur var þó ekkert að reyna að fegra ódæðisverkin eða verja sakafólkið, heldur að passa upp á sjálfan sig. Í tveimur skáldsögum sem hafa verið skrifaðar um Sjöundarmál gætir mun meiri samúðar í garð þeirra Steinunnar og einkum Bjarna. Gunnar Gunnarsson gaf Svartfugl út á dönsku árið 1929 og endurskoðaða gerð á íslensku árið 1971, þar sem ekki er efast um játningarnar en sagan engu að síður gerð að ástarsögu, eða eins og Gunnar orðaði það árið 1950: „Því var semsé svo varið með Bjarna og Steinunni, að einhvern veginn áttu þau heima í sólskini, þrátt fyrir allt. ... Og sólarljós er aldrei gersneytt sælu. Ást í meinum og morðum er einnig ást.“ Og í nýlegri sögu Steinunnar Kristjánsdóttur eru þau gerð að saklausum fórnarlömbum grimmrar réttvísinnar og Bjarni látinn minnast falskra játninga sinna eftir vist í myrkraholu og þrengingar af hálfu sýslumanns og prests, allt til þess að þau Steinunn gætu gifst: „Gátum við eitthvað annað gert en að láta undan vilja yfirvaldsins? Svo hjálpi mér Guð“ (bls. 199). Var þá nokkur drepinn? Auðvitað geta rithöfundar skrifað það sem þeim sýnist og borið fyrir sig lögmál skáldskaparins en uppspuni breytir ekki raunveruleikanum og hann má greina í þeim gögnum sem til eru úr samtímanum, svo sem hér hefur verið lýst, hversu ófullkomin sem þau eru og gagnrýniverð. Tilvísanir:
- ^ Oddklofinn merkir að það sem stendur innan hans er viðbót svarshöfundar, því skrifari hefur gleymt einhverju.
- ^ Hornklofinn í tilvitnuninni merkir að handritið er skemmt á þessum stað og núllin þrjú tákna að það vantar þrjá bókstafi inn í handritið.
- Gunnar Gunnarsson, Svartfugl. Skáldsaga um Sjöundármálin 1802–1805. Þýðandi Magnús Ásgeirsson. Reykjavík 1938.
- Gunnar Gunnarsson, „Sjöundá og Arnarhváll“, Jörð. Rit IX. Reykjavík 1950, bls. 293–297.
- Gunnar Gunnarsson, Svartfugl. Reykjavík 1971.
- Landsyfirrjettardómar og hæstarjettardómar í íslenzkum málum 1802–1874 I. Reykjavík 1916–1918.
- Steinunn Kristjánsdóttir, Dauðadómurinn. Bjarni Bjarnason frá Sjöundá 1761–1805. Reykjavík 2024.
- Þessi frægu glæpamál. Morðin á Sjöundá og Illugastöðum. Jón Torfason og Már Jónsson tóku saman. Reykjavík 2024 (texti dómabókar á bls. 83–105 og endurgerðarinnar á bls. 107–160).
- Yfirlitsmynd: Morðin á Sjöundá - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Sótt 7.10.2025).
- Mynd af dómabók: Þjóðskjalasafn Íslands.
- Mynd af rústum Sjöundá: Mats: Icelandic Image Library © Mats Wibe Lund. Birt með góðfúslegu leyfi. (Sótt 6.10.2025).
- Teikning: Lesbók Morgunblaðsins 5. tbl. 46. árgangur. 31.1.1971. bls. 1. https://timarit.is/page/3293859?iabr=on#page/n0/mode/2up/search/Steinka