Sólin Sólin Rís 09:08 • sest 17:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:49 • Sest 00:15 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:33 • Síðdegis: 14:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:44 • Síðdegis: 20:40 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:08 • sest 17:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:49 • Sest 00:15 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:33 • Síðdegis: 14:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:44 • Síðdegis: 20:40 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru þekkt dæmi um aðra íslenska fjöldamorðingja en Axlar-Björn?

Már Jónsson

Einnig var spurt:

Er eitthvað sannleikskorn í sögum af Kjósarmorðingjanum?

Til sanns vegar má færa að Björn Pétursson, öðru nafni Axlar-Björn – sem var líflátinn árið 1596 – sé eini Íslendingurinn sem getur staðið undir því nafni að teljast vera fjöldamorðingi eða raðmorðingi. Í þekktustu morðmálum Íslandssögunnar á Sjöundá árið 1802 og að Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828 voru tveir einstaklingar drepnir, en í öðrum kunnum tilvikum bara ein manneskja, nokkuð jafnt konur og karlar. Reyndar fullyrðir Jón Marteinsson (1711–1771) í samantekt af fréttum af Íslandi haustið 1758 að á Snæfellsnesi hafi aldraður maður drepið sjötuga konu og son hennar, en þess atburðar er ekki getið í öðrum heimildum, svo sem alþingisbókum eða dómabókum.

Sé leitað í netheimum birtast frásagnir sem myndu – væru þær sannar – hefja bónda nokkurn í Kjósinni upp á stall í annað sætið á eftir Axlar-Birni. Það er Magnús Sighvatsson sem fæddist á Hurðarbaki 9. júní 1704, varð bóndi á Fossá árið 1728 og lést þar árið 1779. Kona hans hét Þuríður Magnúsdóttir og börn þeirra sem komust á legg voru Guðrún, Oddný, Kristín, Jón, Ingigerður, Málhildur og Eyjólfur, fædd á bilinu 1728 til 1750.

Á ferðaslóðinni Ferlir er í löngu máli lýst ódæðum Magnúsar og vísað til greinar í helgarblaði dagblaðsins Dags á Akureyri. Elías Snæland Jónsson (1943–2022) stýrði blaðinu árin 1997–2001 og hefur áreiðanlega tekið saman greinina „Morðóður og ófrómur bóndi á Fossá“ sem blasti við á forsíðu laugardaginn 29. ágúst 1998 og Ferlir byggir alfarið á. Axlar-Björn er nefndur fyrstur manna og útskýrt að hann hafi ekki verið „sá eini sem lagðist á ferðamenn með þessum hætti. Magnús Sighvatsson, sem bjó á Fossá í Kjós á árabilinu 1729–1770, var sterklega grunaður um að myrða og ræna ferðamenn sem leið áttu um hlöð hans.“ Frásögn af ódæðum Magnúsar hefst með örnefninu Dauðsmannsbrekku á Reynivallahálsi í Kjós, því þar hafi „maður verið myrtur og sögn er til um að þar hafi Magnús á Fossá átt hlut að máli.“ Ekki er vísað til heimildar en þó nefndur „Jósafat ættfræðingur Jónasson“ sem hafi skrifað um Magnús „eftir sögnum á Hvalfjarðarströnd.“

Fossá í Kjós og Dauðsmannsbrekka um það bil fyrir miðri mynd.

Fossá í Kjós og Dauðsmannsbrekka um það bil fyrir miðri mynd.

Jósafat er þekktari sem Steinn Dofri (1875–1966), fæddur á Lækjarkoti í Þverárhlíð í Borgarfirði. Hann ólst upp á hrakningi en var lærdómsfús og heillaðist ungur af ættfræðirannsóknum. Hann fór haustið 1893 til Reykjavíkur að nema skósmíðar, sem hann hafði lítið gaman af. Árið 1897 var hann ráðinn sem afgreiðslumaður fréttablaðsins Þjóðólfs, en ritstjóri þess var frændi hans Hannes Þorsteinsson (1860–1935), síðar þjóðskjalavörður. Þeir stóðu að stofnun Sögufélags árið 1902 ásamt Jóni Þorkelssyni þjóðskjalaverði (1859–1924), auknefndum forna. Þremur árum áður hafði Jón gefið út bókina Þjóðsögur og munnmæli og útskýrir í formála að mikið af efninu sé tekið úr handritum Jóns Árnasonar (1819–1888) en meira þó eftir öðrum söfnurum sagna, og nefnir nokkur nöfn (Þjóðsögur og munnmæli, bls. iii–iv). Ekki er Jósafat þar á meðal en í bókinni er þátturinn „Magnús á Fossá“ eftir „handriti Jósafats ættfræðings Jónassonar í Reykjavík 1899, en hann hefir ritað eptir sögnum á Hvalfjarðarströnd“ (bls. 288). Hér er sá texti sem moðað var úr í Degi og vert að líta á það sem þar segir um morðin. Örnefnið Dauðsmannsbrekka er upphafspunkturinn, enda væri „sú sögn manna, að þar hafi verið myrtur maður fyrir laungu, og dragi brekkan af því nafn, og er til þess saga sú, er hér fer á eptir.“

Norðlenskur maður fór suður á land með allmikla fjármuni og gisti á Fossá. Morguninn eftir fór hann af stað og sá fljótlega að tveir menn veittu honum eftirför. Það voru Magnús og Eyjólfur sonur hans. Þeir náðu honum í brekku á hálsinum skammt frá Reynivöllum og heimtuðu féð. Hann tók því fjarri og þeir réðust á hann: „Er svo skýrt frá, að Magnús hafi látið Eyjólf son sinn ganga aptan að manninum, og hafi Eyjólfur lagt hnífi milli herða honum, meðan Magnús glímdi við hann að framan.“ Guðmundur nokkur sá til þeirra en þorði ekki gera neitt og bar þess aldrei bætur andlega. Líkið skildu þeir feðgar eftir í brekkunni „er síðan er kölluð Dauðsmannsbrekka.“ Enginn þorði að kæra Magnús, sem var göldróttur „og í öllu hinn versti viðurðeignar“ (bls. 290). Miðað við að Eyjólfur fæddist um 1750 hefur þetta átt að gerast nærri tveimur áratugum síðar þegar Magnús var nálægt sjötugu. Vert er að geta þess að í örnefnalýsingum úr Kjósinni frá 1967 og 1978 er ekki getið frásagna sem tengjast örnefninu Dauðsmannsbrekka (sjá vefinn nafnið.is).

Ættfræðingurinn Jósafat Jónasson (1875-1966), betur þekktur sem Steinn Dofri, skildi eftir sig mikið safn handrita sem geymd eru í Þjóðarbókhlöðunni.

Ættfræðingurinn Jósafat Jónasson (1875-1966), betur þekktur sem Steinn Dofri, skildi eftir sig mikið safn handrita sem geymd eru í Þjóðarbókhlöðunni.

Í beinu framhaldi segir Jósafat: „Margar fleiri sagnir eru um Magnús á Fossá, og þótti hann jafnan hinn mesti misindismaður, og menn þóttust vissir um, að hann hefði optar orðið ferðamönnum að bana.“ Þá fylgir stutt frásögn af séra Einari Torfasyni á Reynivöllum (f. 1710), sem áreiðanlega var til og fannst látinn í Svínaskarði 25. júlí 1758. Hann hafði verið á leið suður á Nes eftir fiski og sent menn sína á undan með hestana, eða eins og segir í samtíðarannál Sæmundar Gissurarsonar lögréttumanns á Ölfusvatni (1698–1762): „Síra Einar Torfason á Reynivöllum byrjaði reisu sína suður einn á ferð, drukkinn, fannst dauður og limlestur sunnan til í Svínaskarði, mundi hafa dottið af baki, rotazt og beinbrotnað“ (Annálar IV, bls. 378). Tíðindin bárust vestur á Snæfellsnes og sagan magnaðist, því Jón Ólafsson á Grímsstöðum í Breiðuvík (1691–1765) skrifaði eftirfarandi um séra Einar: „hann gerði á stað að búa lest sína suður á Nes, reið sjálfur síðar einn á ferð upp á fjallveg, kannske Svínaskarð þar syðra, kom ekki fram, var síðan fundinn af mönnum, blár og blóðrisa um alla bringuna, svo og um andlitið og jafnvel laskað höfuðið (eftir sannferðugri frásögn), meinast af mönnum gerðan. Segja sumir að maður hafi honum samferða orðið og hann í burtu, þá fannst, ásamt peningar, sem á honum vera áttu.“

Neðanmáls útskýrði útgefandinn málið: „Það var 25. júlí sunnan undir Svínaskarði, sem prestur fannst. Ætluðu sumir, að Magnús Sighvatsson á Fossá, alræmdur misindismaður, mundi valdur að dauða hans, en aldrei varð það uppvíst“ (Annálar III, bls. 636–637). Ekki er getið heimildar, en útgefandi var áðurnefndur Hannes Þorsteinsson, sem áreiðanlega þekkti frásögn Jósafats úr sagnasafni Jón Þorkelssonar, en þar segir: „Fanst séra Einar þar fallinn af hestinum, og marinn til dauða, með annan fótinn fastan í ístaðinu. Hugðu flestir, að þetta væri af manna völdum, og var Magnús á Fossi grunaður um að hafa valdið dauða prests, því menn þóttust áður vita, að óvild var á milli þeirra“ (bls. 290–291). Þetta hefti annálaútgáfunnar kom út árið 1938 og vert er að geta þess að í samantekt um séra Einar nokkrum árum fyrr vísar Hannes í Ölfusvatnsannál og bætir því að annar fótur séra Einars hafi verið í ístaðinu, sem ekki er í annálnum og einungis í frásögn Jósafats. Hannes tók einnig fram að frásögnin í Grímsstaðaannál væri ýkjukennd og að þar væri gefið í skyn að séra Einar hefði verið myrtur til fjár, en nefnir ekki nafn (bls. 170–172).

Magnús Sighvatsson í manntali árið 1762, grunlaus um sögur sem átti eftir að búa til um hann.

Magnús Sighvatsson í manntali árið 1762, grunlaus um sögur sem átti eftir að búa til um hann.

Lengsta atriðið í þjóðsögu Jósafats er um dauðdaga Magnúsar sjálfs. Borgfirðingur sem einhverju sinni gisti hjá honum á Fossá á leið til Reykjavíkur hét því að koma aftur á heimleið, en var varaður við og ákvað að sneiða hjá bænum. Magnús sat fyrir honum á Reynivallahálsi og spurði „hvers vegna hann hafi ætlað að forðast bæ sinn.“ Maðurinn svaraði því að hann hefði verið lengur í ferðinni en hann ætlaði og hefði þar að auki heyrt að Magnús væri ekki heima: „Magnús gefur þessu eingan gaum, en ræðst þegar á manninn, og segist ekki munu láta hann fara án þess að gera honum ráðningu fyrir að hafa brugðið loforði sínu, og skuli hann ekki gera það fleirum.“ Hinn tók á móti og reyndist vera sterkari „svo að Magnús verður að bíða lægra hlut af viðskiptum þeirra, og gekk hinn svo frá Magnúsi, að hann komst nauðuglega heim til sin, lagðist og dó skömmu síðar, og hörmuðu hann fáir, er hann þektu“ (bls. 292). Svo sem við mátti búast gekk Magnús aftur og hafði annan draug með sér sem menn ætluðu að væri norðlendingurinn sem hann hafði drepið í Dauðsmannsbrekku. Ófúið lík Magnúsar var svo grafið upp í Reynivallakirkjugarði um 1840 og magnaðist þá draugagangurinn, en sóknarprestinum tókst að bæla hann niður og hefur ekki verið hreyft við leiðinu síðan.

Eins og Haraldur Pétursson benti kurteislega á í æviskrám Kjósarmanna árið 1961 gætir þess hvergi að Magnús Sighvatsson hafi nokkru sinni komist í kast við lögin: „ekki sést af dómabókum sýslunnar að hann hafi sætt opinberum ákærum eða verið dæmdur til refsingar, má því telja víst að ýmsar af sögum þeim er af Magnúsi gengu hafi fremur verið sprottnar af óvinsældum hans en illverkum“ (bls. 68). Haraldur nefnir hvorki norðlendinginn né Borgfirðinginn eða brekkuna góðu, en rekur söguna af séra Einari og hefur greinilega lesið frásögn Jósafats, þótt ekki vísi hann til heimildar. Hún er líka ein til frásagnar um ódæði Magnúsar og gott dæmi um það hversu auðvelt og einfalt það er að ljúga upp á látið fólk. Aðrir taka svo vitleysuna upp og hvorki kanna málavöxtu né gæta þess að gera greinarmun á sönnu og lognu, heldur hafa það sem skemmtilegra reynist, eins og iðulega er haft á orði þegar ákafir sagnamenn hleypa fram af sér beislinu.

Heimildir og myndir:
  • Annálar 1500–1800 III–IV. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1933–1948.
  • Ferlir, https://ferlir.is/kjos-mordodur-og-ofromur-bondi-a-frossa/
  • Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 13. Þjóðskjalasafn Íslands.
  • Haraldur Pétursson, Kjósarmenn. Æviskrár. Reykjavík: Átthagafélag Kjósverja 1961.
  • Jón Marteinsson, „Almindelig relation fra Island, om hvis mærkværdigt der er passeret fra den sidste September 1757 og indtil den 1te October 1758 efter sandfærdige breve og de mellemreisende deres udsigende.“ Þjóðbókasafn Noregs í Osló. NB fol. 901.
  • Jósafat Jónsson, „Magnús á Fossá.“ Þjóðsögur og munnmæli. Nýtt safn. Jón Þorkelsson bjó til prentunar. Reykjavík: Sigfús Eymundsson 1899, bls. 288–294. Endurprentun: Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli. Önnur útgáfa. Freysteinn Gunnarsson bjó til prentunar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan 1956, bls. 254–259.
  • „Morðóður og ófrómur bóndi á Fossá.“ Dagur. Íslendingaþættir 29. ágúst 1998, bls. 1–2.
  • Ragnar Ólafsson, „Steinn Dofri ættfræðingur (Jósafat Jónasson).“ Fréttabréf Ættfræðifélagsins 22:2 (mars 2004), bls. 3–10.
  • Sigurgeir Þorgrímsson, „Jósafat Jónasson (Steinn Dofri) og stofnun Sögufélags.“ Saga 18 (1980), bls. 249–270.
  • Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn rentukammers D1/26. Manntal 1762: Suðuramt (mynd 407). Ljósmyndin er tekin af skjalavef safnsins, skjalaskrar.skjalasafn.is.
  • Kort: Náttúrufræðistofnun - Söguleg kort. https://atlas.lmi.is/mapview/?application=saga_kort
  • Myndir af Jósafat Jónssyni og handritum: Fréttabréf ættfræðifélagsins 2004, 22(2), bls. 3-4. https://timarit.is/page/5631259#page/n1/mode/2up
  • Yfirlitsmynd: File:2008-05-15 18 18 41 Iceland-Reynivellir.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 21.10.2025). Myndina tók HK og hún er birt undir leyfinu Deed - Attribution-ShareAlike 3.0 Unported - Creative Commons.

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

31.10.2025

Spyrjandi

Pála Margrét Gunnarsdóttir, Sigurður R.

Tilvísun

Már Jónsson. „Eru þekkt dæmi um aðra íslenska fjöldamorðingja en Axlar-Björn?“ Vísindavefurinn, 31. október 2025, sótt 31. október 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=88157.

Már Jónsson. (2025, 31. október). Eru þekkt dæmi um aðra íslenska fjöldamorðingja en Axlar-Björn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=88157

Már Jónsson. „Eru þekkt dæmi um aðra íslenska fjöldamorðingja en Axlar-Björn?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2025. Vefsíða. 31. okt. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=88157>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru þekkt dæmi um aðra íslenska fjöldamorðingja en Axlar-Björn?
Einnig var spurt:

Er eitthvað sannleikskorn í sögum af Kjósarmorðingjanum?

Til sanns vegar má færa að Björn Pétursson, öðru nafni Axlar-Björn – sem var líflátinn árið 1596 – sé eini Íslendingurinn sem getur staðið undir því nafni að teljast vera fjöldamorðingi eða raðmorðingi. Í þekktustu morðmálum Íslandssögunnar á Sjöundá árið 1802 og að Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828 voru tveir einstaklingar drepnir, en í öðrum kunnum tilvikum bara ein manneskja, nokkuð jafnt konur og karlar. Reyndar fullyrðir Jón Marteinsson (1711–1771) í samantekt af fréttum af Íslandi haustið 1758 að á Snæfellsnesi hafi aldraður maður drepið sjötuga konu og son hennar, en þess atburðar er ekki getið í öðrum heimildum, svo sem alþingisbókum eða dómabókum.

Sé leitað í netheimum birtast frásagnir sem myndu – væru þær sannar – hefja bónda nokkurn í Kjósinni upp á stall í annað sætið á eftir Axlar-Birni. Það er Magnús Sighvatsson sem fæddist á Hurðarbaki 9. júní 1704, varð bóndi á Fossá árið 1728 og lést þar árið 1779. Kona hans hét Þuríður Magnúsdóttir og börn þeirra sem komust á legg voru Guðrún, Oddný, Kristín, Jón, Ingigerður, Málhildur og Eyjólfur, fædd á bilinu 1728 til 1750.

Á ferðaslóðinni Ferlir er í löngu máli lýst ódæðum Magnúsar og vísað til greinar í helgarblaði dagblaðsins Dags á Akureyri. Elías Snæland Jónsson (1943–2022) stýrði blaðinu árin 1997–2001 og hefur áreiðanlega tekið saman greinina „Morðóður og ófrómur bóndi á Fossá“ sem blasti við á forsíðu laugardaginn 29. ágúst 1998 og Ferlir byggir alfarið á. Axlar-Björn er nefndur fyrstur manna og útskýrt að hann hafi ekki verið „sá eini sem lagðist á ferðamenn með þessum hætti. Magnús Sighvatsson, sem bjó á Fossá í Kjós á árabilinu 1729–1770, var sterklega grunaður um að myrða og ræna ferðamenn sem leið áttu um hlöð hans.“ Frásögn af ódæðum Magnúsar hefst með örnefninu Dauðsmannsbrekku á Reynivallahálsi í Kjós, því þar hafi „maður verið myrtur og sögn er til um að þar hafi Magnús á Fossá átt hlut að máli.“ Ekki er vísað til heimildar en þó nefndur „Jósafat ættfræðingur Jónasson“ sem hafi skrifað um Magnús „eftir sögnum á Hvalfjarðarströnd.“

Fossá í Kjós og Dauðsmannsbrekka um það bil fyrir miðri mynd.

Fossá í Kjós og Dauðsmannsbrekka um það bil fyrir miðri mynd.

Jósafat er þekktari sem Steinn Dofri (1875–1966), fæddur á Lækjarkoti í Þverárhlíð í Borgarfirði. Hann ólst upp á hrakningi en var lærdómsfús og heillaðist ungur af ættfræðirannsóknum. Hann fór haustið 1893 til Reykjavíkur að nema skósmíðar, sem hann hafði lítið gaman af. Árið 1897 var hann ráðinn sem afgreiðslumaður fréttablaðsins Þjóðólfs, en ritstjóri þess var frændi hans Hannes Þorsteinsson (1860–1935), síðar þjóðskjalavörður. Þeir stóðu að stofnun Sögufélags árið 1902 ásamt Jóni Þorkelssyni þjóðskjalaverði (1859–1924), auknefndum forna. Þremur árum áður hafði Jón gefið út bókina Þjóðsögur og munnmæli og útskýrir í formála að mikið af efninu sé tekið úr handritum Jóns Árnasonar (1819–1888) en meira þó eftir öðrum söfnurum sagna, og nefnir nokkur nöfn (Þjóðsögur og munnmæli, bls. iii–iv). Ekki er Jósafat þar á meðal en í bókinni er þátturinn „Magnús á Fossá“ eftir „handriti Jósafats ættfræðings Jónassonar í Reykjavík 1899, en hann hefir ritað eptir sögnum á Hvalfjarðarströnd“ (bls. 288). Hér er sá texti sem moðað var úr í Degi og vert að líta á það sem þar segir um morðin. Örnefnið Dauðsmannsbrekka er upphafspunkturinn, enda væri „sú sögn manna, að þar hafi verið myrtur maður fyrir laungu, og dragi brekkan af því nafn, og er til þess saga sú, er hér fer á eptir.“

Norðlenskur maður fór suður á land með allmikla fjármuni og gisti á Fossá. Morguninn eftir fór hann af stað og sá fljótlega að tveir menn veittu honum eftirför. Það voru Magnús og Eyjólfur sonur hans. Þeir náðu honum í brekku á hálsinum skammt frá Reynivöllum og heimtuðu féð. Hann tók því fjarri og þeir réðust á hann: „Er svo skýrt frá, að Magnús hafi látið Eyjólf son sinn ganga aptan að manninum, og hafi Eyjólfur lagt hnífi milli herða honum, meðan Magnús glímdi við hann að framan.“ Guðmundur nokkur sá til þeirra en þorði ekki gera neitt og bar þess aldrei bætur andlega. Líkið skildu þeir feðgar eftir í brekkunni „er síðan er kölluð Dauðsmannsbrekka.“ Enginn þorði að kæra Magnús, sem var göldróttur „og í öllu hinn versti viðurðeignar“ (bls. 290). Miðað við að Eyjólfur fæddist um 1750 hefur þetta átt að gerast nærri tveimur áratugum síðar þegar Magnús var nálægt sjötugu. Vert er að geta þess að í örnefnalýsingum úr Kjósinni frá 1967 og 1978 er ekki getið frásagna sem tengjast örnefninu Dauðsmannsbrekka (sjá vefinn nafnið.is).

Ættfræðingurinn Jósafat Jónasson (1875-1966), betur þekktur sem Steinn Dofri, skildi eftir sig mikið safn handrita sem geymd eru í Þjóðarbókhlöðunni.

Ættfræðingurinn Jósafat Jónasson (1875-1966), betur þekktur sem Steinn Dofri, skildi eftir sig mikið safn handrita sem geymd eru í Þjóðarbókhlöðunni.

Í beinu framhaldi segir Jósafat: „Margar fleiri sagnir eru um Magnús á Fossá, og þótti hann jafnan hinn mesti misindismaður, og menn þóttust vissir um, að hann hefði optar orðið ferðamönnum að bana.“ Þá fylgir stutt frásögn af séra Einari Torfasyni á Reynivöllum (f. 1710), sem áreiðanlega var til og fannst látinn í Svínaskarði 25. júlí 1758. Hann hafði verið á leið suður á Nes eftir fiski og sent menn sína á undan með hestana, eða eins og segir í samtíðarannál Sæmundar Gissurarsonar lögréttumanns á Ölfusvatni (1698–1762): „Síra Einar Torfason á Reynivöllum byrjaði reisu sína suður einn á ferð, drukkinn, fannst dauður og limlestur sunnan til í Svínaskarði, mundi hafa dottið af baki, rotazt og beinbrotnað“ (Annálar IV, bls. 378). Tíðindin bárust vestur á Snæfellsnes og sagan magnaðist, því Jón Ólafsson á Grímsstöðum í Breiðuvík (1691–1765) skrifaði eftirfarandi um séra Einar: „hann gerði á stað að búa lest sína suður á Nes, reið sjálfur síðar einn á ferð upp á fjallveg, kannske Svínaskarð þar syðra, kom ekki fram, var síðan fundinn af mönnum, blár og blóðrisa um alla bringuna, svo og um andlitið og jafnvel laskað höfuðið (eftir sannferðugri frásögn), meinast af mönnum gerðan. Segja sumir að maður hafi honum samferða orðið og hann í burtu, þá fannst, ásamt peningar, sem á honum vera áttu.“

Neðanmáls útskýrði útgefandinn málið: „Það var 25. júlí sunnan undir Svínaskarði, sem prestur fannst. Ætluðu sumir, að Magnús Sighvatsson á Fossá, alræmdur misindismaður, mundi valdur að dauða hans, en aldrei varð það uppvíst“ (Annálar III, bls. 636–637). Ekki er getið heimildar, en útgefandi var áðurnefndur Hannes Þorsteinsson, sem áreiðanlega þekkti frásögn Jósafats úr sagnasafni Jón Þorkelssonar, en þar segir: „Fanst séra Einar þar fallinn af hestinum, og marinn til dauða, með annan fótinn fastan í ístaðinu. Hugðu flestir, að þetta væri af manna völdum, og var Magnús á Fossi grunaður um að hafa valdið dauða prests, því menn þóttust áður vita, að óvild var á milli þeirra“ (bls. 290–291). Þetta hefti annálaútgáfunnar kom út árið 1938 og vert er að geta þess að í samantekt um séra Einar nokkrum árum fyrr vísar Hannes í Ölfusvatnsannál og bætir því að annar fótur séra Einars hafi verið í ístaðinu, sem ekki er í annálnum og einungis í frásögn Jósafats. Hannes tók einnig fram að frásögnin í Grímsstaðaannál væri ýkjukennd og að þar væri gefið í skyn að séra Einar hefði verið myrtur til fjár, en nefnir ekki nafn (bls. 170–172).

Magnús Sighvatsson í manntali árið 1762, grunlaus um sögur sem átti eftir að búa til um hann.

Magnús Sighvatsson í manntali árið 1762, grunlaus um sögur sem átti eftir að búa til um hann.

Lengsta atriðið í þjóðsögu Jósafats er um dauðdaga Magnúsar sjálfs. Borgfirðingur sem einhverju sinni gisti hjá honum á Fossá á leið til Reykjavíkur hét því að koma aftur á heimleið, en var varaður við og ákvað að sneiða hjá bænum. Magnús sat fyrir honum á Reynivallahálsi og spurði „hvers vegna hann hafi ætlað að forðast bæ sinn.“ Maðurinn svaraði því að hann hefði verið lengur í ferðinni en hann ætlaði og hefði þar að auki heyrt að Magnús væri ekki heima: „Magnús gefur þessu eingan gaum, en ræðst þegar á manninn, og segist ekki munu láta hann fara án þess að gera honum ráðningu fyrir að hafa brugðið loforði sínu, og skuli hann ekki gera það fleirum.“ Hinn tók á móti og reyndist vera sterkari „svo að Magnús verður að bíða lægra hlut af viðskiptum þeirra, og gekk hinn svo frá Magnúsi, að hann komst nauðuglega heim til sin, lagðist og dó skömmu síðar, og hörmuðu hann fáir, er hann þektu“ (bls. 292). Svo sem við mátti búast gekk Magnús aftur og hafði annan draug með sér sem menn ætluðu að væri norðlendingurinn sem hann hafði drepið í Dauðsmannsbrekku. Ófúið lík Magnúsar var svo grafið upp í Reynivallakirkjugarði um 1840 og magnaðist þá draugagangurinn, en sóknarprestinum tókst að bæla hann niður og hefur ekki verið hreyft við leiðinu síðan.

Eins og Haraldur Pétursson benti kurteislega á í æviskrám Kjósarmanna árið 1961 gætir þess hvergi að Magnús Sighvatsson hafi nokkru sinni komist í kast við lögin: „ekki sést af dómabókum sýslunnar að hann hafi sætt opinberum ákærum eða verið dæmdur til refsingar, má því telja víst að ýmsar af sögum þeim er af Magnúsi gengu hafi fremur verið sprottnar af óvinsældum hans en illverkum“ (bls. 68). Haraldur nefnir hvorki norðlendinginn né Borgfirðinginn eða brekkuna góðu, en rekur söguna af séra Einari og hefur greinilega lesið frásögn Jósafats, þótt ekki vísi hann til heimildar. Hún er líka ein til frásagnar um ódæði Magnúsar og gott dæmi um það hversu auðvelt og einfalt það er að ljúga upp á látið fólk. Aðrir taka svo vitleysuna upp og hvorki kanna málavöxtu né gæta þess að gera greinarmun á sönnu og lognu, heldur hafa það sem skemmtilegra reynist, eins og iðulega er haft á orði þegar ákafir sagnamenn hleypa fram af sér beislinu.

Heimildir og myndir:
  • Annálar 1500–1800 III–IV. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1933–1948.
  • Ferlir, https://ferlir.is/kjos-mordodur-og-ofromur-bondi-a-frossa/
  • Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 13. Þjóðskjalasafn Íslands.
  • Haraldur Pétursson, Kjósarmenn. Æviskrár. Reykjavík: Átthagafélag Kjósverja 1961.
  • Jón Marteinsson, „Almindelig relation fra Island, om hvis mærkværdigt der er passeret fra den sidste September 1757 og indtil den 1te October 1758 efter sandfærdige breve og de mellemreisende deres udsigende.“ Þjóðbókasafn Noregs í Osló. NB fol. 901.
  • Jósafat Jónsson, „Magnús á Fossá.“ Þjóðsögur og munnmæli. Nýtt safn. Jón Þorkelsson bjó til prentunar. Reykjavík: Sigfús Eymundsson 1899, bls. 288–294. Endurprentun: Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli. Önnur útgáfa. Freysteinn Gunnarsson bjó til prentunar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan 1956, bls. 254–259.
  • „Morðóður og ófrómur bóndi á Fossá.“ Dagur. Íslendingaþættir 29. ágúst 1998, bls. 1–2.
  • Ragnar Ólafsson, „Steinn Dofri ættfræðingur (Jósafat Jónasson).“ Fréttabréf Ættfræðifélagsins 22:2 (mars 2004), bls. 3–10.
  • Sigurgeir Þorgrímsson, „Jósafat Jónasson (Steinn Dofri) og stofnun Sögufélags.“ Saga 18 (1980), bls. 249–270.
  • Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn rentukammers D1/26. Manntal 1762: Suðuramt (mynd 407). Ljósmyndin er tekin af skjalavef safnsins, skjalaskrar.skjalasafn.is.
  • Kort: Náttúrufræðistofnun - Söguleg kort. https://atlas.lmi.is/mapview/?application=saga_kort
  • Myndir af Jósafat Jónssyni og handritum: Fréttabréf ættfræðifélagsins 2004, 22(2), bls. 3-4. https://timarit.is/page/5631259#page/n1/mode/2up
  • Yfirlitsmynd: File:2008-05-15 18 18 41 Iceland-Reynivellir.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 21.10.2025). Myndina tók HK og hún er birt undir leyfinu Deed - Attribution-ShareAlike 3.0 Unported - Creative Commons.

...