Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Framfarir í augnlækningum hafa verið gríðarlegar á undanförnum árum. Eitt af því nýstárlegasta sem fram hefur komið á síðustu áratugum eru aðgerðir við sjónlagsgöllum, það er að segja nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. Þessar aðgerðir voru þróaðar á síðustu áratugum tuttugustu aldar og hafa náð gríðarlegum vinsældum, einkum á síðasta áratug. (Þess má þó geta að aðgerðir við sjónskekkju hafa verið að þróast frá öndverðri nítjándu öld.) Þær byggjast einkum á því að breyta lagi hornhimnunnar til að breyta þeim geislum sem koma til augans. Með þessu má í mörgum tilfellum komast hjá því að nota gleraugu til að breyta geislunum. Fyrir nærsýna er hægt að ná þessu takmarki með því að fletja út hornhimnuna sem er í framhlið augans. Hornhimnan brýtur geislana þá minna en áður, sem er einmitt það sem nærsýnir þurfa, þar eð þeir eru með lengra auga en eðlilegt er. Öfugt er farið með fjarsýna, sem eru með styttra auga en gengur og gerist. Gera þarf þá hornhimnuna kúptari til að hún brjóti geislana í ríkara mæli.
Fyrstu hornhimnuaðgerðirnar til að breyta sjónlagi voru eingöngu framkvæmdar á nærsýnu fólki, og byggðust á því að gerðir voru litlir skurðir á hornhimnuna sem höfðu þau áhrif að hún flattist út. Þær náðu nokkrum vinsældum, sérstaklega í Evrópu og þá ekki síst í Rússlandi, þar sem aðgerðin var fundin upp og þróuð. Þessi aðgerð var nokkrum annmörkum háð og þóttu skurðirnir veikja hornhimnuna og gera hana óstöðuga.
Frá sjötta áratugnum voru vísindamenn iðnir við að þróa margvíslegar aðferðir við að breyta lögun hornhimnunnar. Meðal annars var þróuð aðferð til að skera af kúpu hornhimnunnar á sérstakan hátt, ekki ósvipað því þegar ostur er skorinn með ostaskera. Þetta þótti þó gefa misjafna raun, þar sem hnífarnir gáfu ekki nógu nákvæman skurð. Með þróun leysitækninnar kom í ljós að leysirinn gat skorið mjög nákvæma þykkt af hornhimnunni. Árið 1985 var fyrsta mannsaugað meðhöndlað með þessari nýju tækni og árið 1988 var fyrsta sjáandi augað meðhöndlað.
Þessi leysitækni hefur síðan verið þróuð enn frekar og hefur nánast alfarið rutt gömlu skurðtækninni úr vegi. Skipta má framförunum í fernt:
Hægt er að meðhöndla meiri nærsýni en áður var hægt, allt niður í -14.00 til -16.00.
Nú er unnt að meðhöndla fjarsýni með því að gera hornhimnuna kúptari.
Hægt er að meðhöndla sjónskekkju um leið og nærsýnin eða fjarsýnin er meðhöndluð.
Með nýrri tækni, svokallaðri LASIK, er hægt að fá hraðari bata en áður þekktist, auk þess sem fólk er jafnan nær einkennalaust eftir aðgerðina og getur farið í vinnu daginn eftir.
Þrátt fyrir miklar vinsældir þessara aðgerða og gríðarlegar framfarir eru þær ekki lausar við fylgikvilla. Þeir helstu eru bólga í hornhimnu, vöxtur hornhimnuþekju undir skurðflipann (á við um LASIK), sýking í hornhimnu og hornhimnuör. Þessir fylgikvillar eru þó sjaldgæfir og er jafnan hægt að meðhöndla þá án þess að viðkomandi missi sjón varanlega ef þeir greinast í tæka tíð.
Af öðrum aðferðum sem þróaðar hafa verið við sjónlagsgöllum má nefna linsur sem settar eru inn í augað, annaðhvort fyrir framan eða aftan lithimnu, og sérstaka silikonhringi sem komið er fyrir inni í hornhimnu og sem fletja hana út. Þeir gagnast enn sem komið er einungis þeim sem eru með væga nærsýni. Þessar aðferðir eru þó komnar allmiklu skemmra á veg.
Eftirspurn eftir aðgerðum við sjónlagsgöllum hefur orðið meiri en nokkurn óraði fyrir. Stefnir í að LASIK verði algengasta augnaðgerð sem framkvæmd er í Bandaríkjunum en um 700.000 slíkar aðgerðir voru gerðar þar á síðasta ári, sem samsvarar 700 aðgerðum á ári á Íslandi. Sýnt er að margir vilja leggja ýmislegt á sig til að leggja gömlu gleraugun eða linsurnar á hilluna. Þó ber að hafa í huga að um er að ræða aðgerð á annars heilbrigðu auga og skyldi fólk kynna sér vel alla þá kosti og galla sem þessi aðgerð hefur í för með sér áður en haldið er af stað.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Er hægt að lækna nærsýni og sjónskekkju, til dæmis með skurðaðgerð? Hvaða framfarir hafa orðið í sjónlækningum nýlega og við hverju má búast í nánustu framtíð?
Hér er einnig að finna svar við spurningu Steinars Yan Wang:
Er til „lækning“ við nær- eða fjarsýni? Hvað með sjónskekkju?
Jóhannes Kári Kristinsson. „Er hægt að lækna nærsýni og sjónskekkju með skurðaðgerð?“ Vísindavefurinn, 7. september 2000, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=887.
Jóhannes Kári Kristinsson. (2000, 7. september). Er hægt að lækna nærsýni og sjónskekkju með skurðaðgerð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=887
Jóhannes Kári Kristinsson. „Er hægt að lækna nærsýni og sjónskekkju með skurðaðgerð?“ Vísindavefurinn. 7. sep. 2000. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=887>.