Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er bakflæði?

Magnús Jóhannsson

Flestir kannast við óþægindi eins og brjóstsviða, nábít og uppþembu, einkenni sem koma oft eftir máltíð og versna við að beygja sig fram eða liggja útaf. Slík óþægindi stafa oftast af því að magainnihald nær að renna upp í vélinda, en það er kallað vélindabakflæði. Hjá langflestum gerist þetta sjaldan, er alveg meinlaust og viðkomandi losnar við óþægindin áður en þau fara að valda honum áhyggjum. Í slíkum tilfellum verða engar skemmdir á slímhúð vélindans. Þeir sem fá bakflæði upp í vélinda oft og ítrekað geta þó að lokum fengið bólgu og skemmdir á slímhúð vélindans en við það versna óþægindin verulega.

Vélindað er pípa sem flytur fæðuna úr munni og niður í maga. Þar sem vélindað opnast inn í magann er sterkur hringvöðvi sem hindrar að magainnihald geti flætt upp í vélindað. Vélindabakflæði verður þegar þessi hringvöðvi starfar ekki eðlilega. Þetta getur gerst ef hringvöðvinn hefur skemmst eða slappast af einhverjum ástæðum eða ef þindarslit er til staðar. Þindin er vöðvi sem skilur brjósthol frá kviðarholi og við þindarslit gúlpast hluti af maganum upp í brjósthol en við það aukast líkur á bakflæði upp í vélinda.

Vélindabakflæði er þegar magainnihald nær að renna upp í vélinda.

Algengustu óþægindi við vélindabakflæði eru brjóstsviði og nábítur eins og áður getur en einnig geta verið til staðar uppþemba, hæsi, þörf fyrir að ræskja sig, næturhósti og kyngingarörðugleikar en öll þessi einkenni versna eftir máltíðir og við að beygja sig niður eða liggja útaf. Sumar fæðutegundir auka sýrumyndun í maga og má þar nefna mikið kryddaðan og brasaðan mat en feitur matur hægir á magatæmingu og situr því lengur í maganum. Þetta eykur hættu á vélindabakflæði. Sumt veikir hringvöðvann og má þar nefna súkkulaði, piparmyntu, kaffi, áfengi og þó sérstaklega nikótín (úr tóbaki eða nikótínlyfjum). Offita, og þá sérstaklega ístra, þrýstir á magann og sama gerist á meðgöngu en þá er hringvöðvinn þar að auki kraftminni en annars.

Við langvarandi bakflæði í vélinda geta orðið skemmdir á slímhúðinni vegna þess að slímhúð vélindans er ekki gerð til að þola súrt magainnihald. Þetta getur leitt til bólgu, sára og blæðinga og á löngum tíma til örmyndunar sem þrengir vélindað og veldur kyngingarörðugleikum. Greiningin byggist mest á sjúkdómssögu, röntgenmyndatöku og speglun. Einnig eru stundum gerðar mælingar á þrýstingi og sýrustigi í vélindanu. Við röntgenmyndatöku er sjúklingurinn látinn gleypa skuggaefni og síðan eru teknar myndir. Speglun er gerð í deyfingu með svipuðu tæki og notað er við magaspeglun, og þá er hægt að skoða útlit slímhúðarinnar, taka sýni og oft er hægt að víkka út þrengingar ef þær eru til staðar.

Þeir sem þjást af vélindabakflæði geta sjálfir gert ýmislegt til að bæta ástandið. Forðast ber að neyta fæðu í 3 klukkustundir áður en gengið er til náða, þeir sem reykja eiga að hætta því án tafar, forðast ber feitan mat, mjólk, súkkulaði, piparmyntu, koffín, sítrusávexti, tómatvörur, pipar og áfengi (sérstaklega rauðvín eða hvítvín). Borða á minna í einu og forðast þröng föt. Gott er að ræða lyfjanotkun við lækni vegna þess að sum lyf auka hættu á bakflæði í vélinda. Hægt er að hækka höfðalag rúms um 10-20 cm, ekki er nóg að nota auka kodda vegna þess að það hækkar bara höfuðið. Þeir sem eru of feitir ættu að megra sig; stundum er það allt sem þarf. Stundum hjálpar að nota lyf sem minnka sýrumyndun í maga eða sem flýta magatæmingu. Ef þindarslit er til staðar getur verið þörf fyrir að laga það með skurðaðgerð og einnig eru stundum gerðar annars konar aðgerðir til að draga úr vélindabakflæði.

Frekari upplýsingar um bakflæði:

Mynd:

Hér er einnig að finna svör við eftirfarandi spurningum:
Af hverju stafar brjóstsviði, og hvernig er einfaldast að losna við hann? - Berglind Anna Sigurðardóttir

Hvernig myndast nábítur í hálsinum á manni? - Guðmundur Sævarsson

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

21.9.2000

Síðast uppfært

22.1.2019

Spyrjandi

Inga Mjöll Harðardóttir

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvað er bakflæði?“ Vísindavefurinn, 21. september 2000, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=924.

Magnús Jóhannsson. (2000, 21. september). Hvað er bakflæði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=924

Magnús Jóhannsson. „Hvað er bakflæði?“ Vísindavefurinn. 21. sep. 2000. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=924>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er bakflæði?
Flestir kannast við óþægindi eins og brjóstsviða, nábít og uppþembu, einkenni sem koma oft eftir máltíð og versna við að beygja sig fram eða liggja útaf. Slík óþægindi stafa oftast af því að magainnihald nær að renna upp í vélinda, en það er kallað vélindabakflæði. Hjá langflestum gerist þetta sjaldan, er alveg meinlaust og viðkomandi losnar við óþægindin áður en þau fara að valda honum áhyggjum. Í slíkum tilfellum verða engar skemmdir á slímhúð vélindans. Þeir sem fá bakflæði upp í vélinda oft og ítrekað geta þó að lokum fengið bólgu og skemmdir á slímhúð vélindans en við það versna óþægindin verulega.

Vélindað er pípa sem flytur fæðuna úr munni og niður í maga. Þar sem vélindað opnast inn í magann er sterkur hringvöðvi sem hindrar að magainnihald geti flætt upp í vélindað. Vélindabakflæði verður þegar þessi hringvöðvi starfar ekki eðlilega. Þetta getur gerst ef hringvöðvinn hefur skemmst eða slappast af einhverjum ástæðum eða ef þindarslit er til staðar. Þindin er vöðvi sem skilur brjósthol frá kviðarholi og við þindarslit gúlpast hluti af maganum upp í brjósthol en við það aukast líkur á bakflæði upp í vélinda.

Vélindabakflæði er þegar magainnihald nær að renna upp í vélinda.

Algengustu óþægindi við vélindabakflæði eru brjóstsviði og nábítur eins og áður getur en einnig geta verið til staðar uppþemba, hæsi, þörf fyrir að ræskja sig, næturhósti og kyngingarörðugleikar en öll þessi einkenni versna eftir máltíðir og við að beygja sig niður eða liggja útaf. Sumar fæðutegundir auka sýrumyndun í maga og má þar nefna mikið kryddaðan og brasaðan mat en feitur matur hægir á magatæmingu og situr því lengur í maganum. Þetta eykur hættu á vélindabakflæði. Sumt veikir hringvöðvann og má þar nefna súkkulaði, piparmyntu, kaffi, áfengi og þó sérstaklega nikótín (úr tóbaki eða nikótínlyfjum). Offita, og þá sérstaklega ístra, þrýstir á magann og sama gerist á meðgöngu en þá er hringvöðvinn þar að auki kraftminni en annars.

Við langvarandi bakflæði í vélinda geta orðið skemmdir á slímhúðinni vegna þess að slímhúð vélindans er ekki gerð til að þola súrt magainnihald. Þetta getur leitt til bólgu, sára og blæðinga og á löngum tíma til örmyndunar sem þrengir vélindað og veldur kyngingarörðugleikum. Greiningin byggist mest á sjúkdómssögu, röntgenmyndatöku og speglun. Einnig eru stundum gerðar mælingar á þrýstingi og sýrustigi í vélindanu. Við röntgenmyndatöku er sjúklingurinn látinn gleypa skuggaefni og síðan eru teknar myndir. Speglun er gerð í deyfingu með svipuðu tæki og notað er við magaspeglun, og þá er hægt að skoða útlit slímhúðarinnar, taka sýni og oft er hægt að víkka út þrengingar ef þær eru til staðar.

Þeir sem þjást af vélindabakflæði geta sjálfir gert ýmislegt til að bæta ástandið. Forðast ber að neyta fæðu í 3 klukkustundir áður en gengið er til náða, þeir sem reykja eiga að hætta því án tafar, forðast ber feitan mat, mjólk, súkkulaði, piparmyntu, koffín, sítrusávexti, tómatvörur, pipar og áfengi (sérstaklega rauðvín eða hvítvín). Borða á minna í einu og forðast þröng föt. Gott er að ræða lyfjanotkun við lækni vegna þess að sum lyf auka hættu á bakflæði í vélinda. Hægt er að hækka höfðalag rúms um 10-20 cm, ekki er nóg að nota auka kodda vegna þess að það hækkar bara höfuðið. Þeir sem eru of feitir ættu að megra sig; stundum er það allt sem þarf. Stundum hjálpar að nota lyf sem minnka sýrumyndun í maga eða sem flýta magatæmingu. Ef þindarslit er til staðar getur verið þörf fyrir að laga það með skurðaðgerð og einnig eru stundum gerðar annars konar aðgerðir til að draga úr vélindabakflæði.

Frekari upplýsingar um bakflæði:

Mynd:

Hér er einnig að finna svör við eftirfarandi spurningum:
Af hverju stafar brjóstsviði, og hvernig er einfaldast að losna við hann? - Berglind Anna Sigurðardóttir

Hvernig myndast nábítur í hálsinum á manni? - Guðmundur Sævarsson
...