Eðlilegu kyngingarviðbragði má skipta í fjögur stig. Fyrsta stigið er undirbúningur í munni en þá er fæðan tuggin (ef hún er á föstu formi) til að undirbúa hana fyrir kyngingu. Tungan kemur hér við sögu og hjálpar til við að gera fæðuna að mátulega stórum bita sem kemst í gegnum kok og vélinda. Munnvatnskirtlar gegna einnig hlutverki með því að seyta munnvatni sem í er slím sem gerir munnbitann sleipan og auðveldari að kyngja.
Þegar munnbitinn er tilbúinn hefst næsta stig kyngingar sem er munnfærslustigið, en þá færist bitinn aftast á tunguna. Þetta fær tunguna til að lyftast upp að framan og snerta góminn og þrýsta fæðunni aftur í munnkokið. Um leið lyftist úfurinn og nefkokið lokast svo að við getum ekki andað með nefinu. Þetta ferli er viljastýrt og stjórnað af heilataugum.
Á þriðja stiginu, kokstiginu, færist fæðan úr kokinu ofan í vélindað vegna bylgjuhreyfinga. Gómfillan lyftist að nefkokinu, en barki og málbein togast að barkaloki, þannig að leiðin ofan í barka lokast. Þetta gerist allt ósjálfrátt og er stjórnað af heilataugum. Á meðan á þessu stigi stendur hamlar kyngingarstöðin venjulegri starfsemi öndunarstöðvarinnar þannig að ekki er hægt að anda á meðan.
Á fjórða stiginu, vélindastiginu, opnast efri lokuvöðvi vélinda til að hleypa munnbitanum ofan í vélinda. Vöðvar í koki, ásamt bylgjuhreyfingum sléttra vöðva í vélindanu og slökun neðri lokuvöðva vélinda mjaka munnbitanum í gegnum vélindað og ofan í maga. Hægt er að lesa um leið fæðunnar eftir að hún er komin ofan í maga í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram?Eins og hér hefur komið fram er ekki hægt að kyngja og anda á sama tíma, enda gæti allt farið í vitleysu ef opið væri ofan í lungu þegar fæðan rennur niður. Sumir velta fyrir sér hvernig þetta virki eiginlega hjá ungbörnum sem virðast geta drukkið og andað bæði í einu. Sú er þó ekki raunin, á meðan barnið sígur getur það andað með nefinu en þegar það er tilbúið að kyngja lyftist gómfillan og lokar aftasta hluta nefganga til að hindra öndun. Nánast samtímis lokar barkalokið barkanum, svo að mjólkin fari í vélindað en ekki barkann. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvernig kyngjum við og af hverju eigum við stundum erfitt með að kyngja? eftir Ársæl Jónsson og Bryndísi Guðmundsdóttur.
- Hvað verður um munnvatnið þegar við sofum? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Swallow á Gastroenterology & Hepatology Resource Center. Skoðað 26. 5. 2008.
- Swallowing á Wikipedia. Skoðað 26. 5. 2008.
- Can an infant breathe and swallow simultaneously? á MadSci. Skoðað 26. 5. 2008.
- Mynd: dysphagiaonline.com. Sótt 28. 5. 2008.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Geta lítil börn kyngt og andað í einu?