Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er miltisbrandur?

Haraldur Briem

Miltisbrandur er sjúkdómur sem sýkill að nafni Bacillus anthracis veldur. Það eru einkum grasbítandi dýr sem taka þennan sjúkdóm en menn geta þó af og til sýkst af honum. Sjúkdómar sem finnast í dýrum en geta jafnframt lagst á menn eru nefndir súnur (zoonosis).

Sýkillinn getur myndað dvalagró eða spora. Sporarnir geta lifað áratugum saman í jarðvegi, einkum rökum og súrum. Af þessum ástæðum getur miltisbrandur verið alvarlegt vandamál í búfjárrækt. Stærð sporanna, sem eru 2-6 míkron (míkrómetrar, milljónustu partar úr metra) í þvermáli, gerir þá kjörna til að setjast á slímhúð í öndunarvegum manna og dýra. Sporarnir loða hins vegar við jarðveginn en það dregur úr líkum á því að menn smitist með beinum hætti frá jarðvegi. Þegar sporar komast í hýsil þar sem skilyrði eru hagstæð breytast þeir í það form sem sýkillinn hefur þegar hann er að vaxa. Sýkillinn ber með sér eiturefni eða toxín sem er afar skaðlegt og veldur drepi.

Einkenni miltisbrands ráðast að nokkru af því hvernig dýr og menn smitast. Þegar sýkilsins er neytt með mengaðri fæðu kemst hann í blóðrásina og sogæðakerfið um meltingarveginn. Milti dýra bólgnar upp og skemmist af völdum dreps. Af þessu er nafnið miltisbrandur dregið. Þá getur sýkillinn komist gegnum húð sem er rofin. Þetta er algengasta smitleið til manna. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir dýra sem hafa drepist af völdum sjúkdómsins, svo sem húðkeipi, ull eða kjöt, eru í mestri hættu. Veldur sýkillinn þá kýli sem rofnar síðar og er þá með svörtum sárbotni vegna dreps (af því er væntanlega nafnið anthrax dregið en það merkir kol). Að lokum geta sporar sýkilsins borist í öndunarveg og þaðan í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu. Þeir sem eru í mestri hættu að smitast á þann veg eru starfsmenn í ullariðnaði og sláturhúsum.

Svartur sárbotn vegna dreps af völdum miltisbrands.

Miltisbrandur er þekktur sjúkdómur um heim allan frá fornu fari. Páll A. Pálsson hefur fjallað um miltisbrand á Íslandi í Bók Davíðs, Háskólaútgáfan, 1996, bls. 545-558. Páll kallar sjúkdóminn miltisbruna og bendir á að hann hafi gengið undir ýmsum nöfnum hér á landi svo sem miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest. Talið er að miltisbrands hafi fyrst orðið vart á Íslandi árið 1865 eða 1866[1] en árið áður hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum sem áttu uppruna í Afríku. Sjúkdómsins varð síðar vart af og til og olli hann talsverðum búsifjum og einnig manntjóni á Suður- og Vesturlandi. Síðasta þekkta tilfelli miltisbrands kom upp í Ölfusi 1965. Ætla má að þessi síðkomnu tilfelli hafi átt rætur að rekja til spora sem hafi lifað í jarðvegi áratugum saman. Páll hefur bent á að heimildir um urðun sýktra dýra finnist ekki eða séu ónákvæmar. Þess vegna er ekki loku fyrir það skotið að sjúkdómurinn eigi eftir að skjóta upp kollinum hér á landi að nýju, einkum við jarðrask þar sem sýkt dýr voru urðuð. Skepnur sem deyja fyrirvarlaust án undangenginna sjúkdómseinkenna geta verið sýktar af miltisbruna.

Miltisbrandur á sér aðra hlið og alvarlegri. Bacillus anthracis hefur lengi verið talinn kjörinn til notkunar í hernaði. Hugmyndin er að úða sporum í andrúmsloftið þegar vindátt er hagstæð til árásar á óvini. Með þeim hætti má sýkja margt fólk á stuttum tíma en þeir sem sýkjast smita sjaldan aðra. Dánartíðni er mjög há þar sem vörnum verður ekki komið við. Nokkur kíló af sýklinum geta drepið jafn marga og dóu í kjarnorkuárásinni á Hírósíma 1945 (Siegrist, D.W., Emerging Infectious Diseases 1999; 5: 505-8). Ókostur við notkun miltisbrands í hernaði er að hann mengar jarðveg. Það veldur því að nánast er ómögulegt að stunda landbúnað á slíkum svæðum í langan tíma.

Augu manna hafa á undanförnum árum beinst að því að hryðjuverkamenn kynnu að nota þennan sýkil. Engin reynsla er af notkun miltisbrands til árása á fólk. Slys sem varð í vopnaverksmiðju í Sverdlovsk í fyrrum Sovétríkjunum árið 1979 gefur þó vísbendingu um afleiðingarnar af lungnasmiti (Meselson, M., et al., Science 1994; 266: 1202-7). Þar var unnið við þróun á miltisbrandi til hernaðar.

Meðgöngutími frá lungnasmiti þar til einkenni gera vart við sig er 1-6 dagar. Meðgöngutíminn getur verið langur í sumum tilvikum eða allt að 43 dagar. Fyrstu einkenni lungnasmits eru lík inflúensu með hita, vöðvaverk, höfuðverk, þurrum hósta og smávægilegum óþægindum fyrir brjósti sem vara í örfáa daga. Næstu 1-3 daga eftir upphafseinkenni líður sjúklingi betur en versnar svo skyndilega í kjölfarið með háum hita, andnauð og losti. Oft má sjá bjúg á brjóstkassanum og geta sjúklingar fengið blæðandi heilahimnubólgu. Allir deyja sem fá ekki viðeigandi meðferð og talið er að allt að 95% sýktra deyi ef meira en 48 tímar líða frá því að einkenni hófust þar til meðferð hefst.

Sýkillinn er næmur fyrir ýmsum algengum sýklalyfjum. Þó má búast við að þeir sem stunda þá glæpsamlegu iðju að þróa sýklavopn reyni að fá fram stofna sem eru ónæmir fyrir sýklalyfjum. Ef vitað er um að hætta sé á smitun má gefa sýklalyf í forvarnarskyni þar til hættan á sýkingu er liðin hjá. Þá er til bóluefni gegn þessum sjúkdómi. Ending varnaráhrifa frá bólusetningu er hins vegar stutt og þeir sem eru í smithættu þurfa árlega endurbólusetningu. Verði miltisbrandi einhvern tímann beitt í hryðjuverki má gera ráð fyrir því að árásin sé óvænt og að heilbrigðisþjónustan sé henni óviðbúin enda upphafseinkenni sjúkdómsins afar óljós. Það dregur úr líkum á því að sjúkdómurinn greinist nógu tímanlega til að hindra umtalsvert manntjón.
Uppfærsla frá ritstjórn:

Í desember árið 2004 kom upp miltisbrandur í fjórum hrossum sem höfðu haldið til við eyðibýlið Sjónarhól á Vatnsleysuströnd. Þrjú þeirra létust úr sjúkdómnum og því fjórða var lógað og voru hræin brennd til varnar frekara smiti. Ekki fannst smit í fleiri dýrum. Talið er að sjúkdómurinn hafi komið upp við landbrot í landi Sjónarhóls.

Mynd:

Tilvísun:
  1. ^ Sjá m.a.: Einar G. Pétursson, „Vitleysa á kreiki: Fjárdauðinn á Skarði á Skarðsströnd veturinn 1865 “, Breiðfirðingur, 62. árgangur 2008-9, 1. tölublað - Timarit.is. (Sótt 10.09.2019).

Höfundur

Haraldur Briem

læknir, dr.med.

Útgáfudagur

2.10.2000

Síðast uppfært

12.9.2019

Spyrjandi

Sigurjón Valberg

Tilvísun

Haraldur Briem. „Hvað er miltisbrandur?“ Vísindavefurinn, 2. október 2000, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=958.

Haraldur Briem. (2000, 2. október). Hvað er miltisbrandur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=958

Haraldur Briem. „Hvað er miltisbrandur?“ Vísindavefurinn. 2. okt. 2000. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=958>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er miltisbrandur?
Miltisbrandur er sjúkdómur sem sýkill að nafni Bacillus anthracis veldur. Það eru einkum grasbítandi dýr sem taka þennan sjúkdóm en menn geta þó af og til sýkst af honum. Sjúkdómar sem finnast í dýrum en geta jafnframt lagst á menn eru nefndir súnur (zoonosis).

Sýkillinn getur myndað dvalagró eða spora. Sporarnir geta lifað áratugum saman í jarðvegi, einkum rökum og súrum. Af þessum ástæðum getur miltisbrandur verið alvarlegt vandamál í búfjárrækt. Stærð sporanna, sem eru 2-6 míkron (míkrómetrar, milljónustu partar úr metra) í þvermáli, gerir þá kjörna til að setjast á slímhúð í öndunarvegum manna og dýra. Sporarnir loða hins vegar við jarðveginn en það dregur úr líkum á því að menn smitist með beinum hætti frá jarðvegi. Þegar sporar komast í hýsil þar sem skilyrði eru hagstæð breytast þeir í það form sem sýkillinn hefur þegar hann er að vaxa. Sýkillinn ber með sér eiturefni eða toxín sem er afar skaðlegt og veldur drepi.

Einkenni miltisbrands ráðast að nokkru af því hvernig dýr og menn smitast. Þegar sýkilsins er neytt með mengaðri fæðu kemst hann í blóðrásina og sogæðakerfið um meltingarveginn. Milti dýra bólgnar upp og skemmist af völdum dreps. Af þessu er nafnið miltisbrandur dregið. Þá getur sýkillinn komist gegnum húð sem er rofin. Þetta er algengasta smitleið til manna. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir dýra sem hafa drepist af völdum sjúkdómsins, svo sem húðkeipi, ull eða kjöt, eru í mestri hættu. Veldur sýkillinn þá kýli sem rofnar síðar og er þá með svörtum sárbotni vegna dreps (af því er væntanlega nafnið anthrax dregið en það merkir kol). Að lokum geta sporar sýkilsins borist í öndunarveg og þaðan í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu. Þeir sem eru í mestri hættu að smitast á þann veg eru starfsmenn í ullariðnaði og sláturhúsum.

Svartur sárbotn vegna dreps af völdum miltisbrands.

Miltisbrandur er þekktur sjúkdómur um heim allan frá fornu fari. Páll A. Pálsson hefur fjallað um miltisbrand á Íslandi í Bók Davíðs, Háskólaútgáfan, 1996, bls. 545-558. Páll kallar sjúkdóminn miltisbruna og bendir á að hann hafi gengið undir ýmsum nöfnum hér á landi svo sem miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest. Talið er að miltisbrands hafi fyrst orðið vart á Íslandi árið 1865 eða 1866[1] en árið áður hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum sem áttu uppruna í Afríku. Sjúkdómsins varð síðar vart af og til og olli hann talsverðum búsifjum og einnig manntjóni á Suður- og Vesturlandi. Síðasta þekkta tilfelli miltisbrands kom upp í Ölfusi 1965. Ætla má að þessi síðkomnu tilfelli hafi átt rætur að rekja til spora sem hafi lifað í jarðvegi áratugum saman. Páll hefur bent á að heimildir um urðun sýktra dýra finnist ekki eða séu ónákvæmar. Þess vegna er ekki loku fyrir það skotið að sjúkdómurinn eigi eftir að skjóta upp kollinum hér á landi að nýju, einkum við jarðrask þar sem sýkt dýr voru urðuð. Skepnur sem deyja fyrirvarlaust án undangenginna sjúkdómseinkenna geta verið sýktar af miltisbruna.

Miltisbrandur á sér aðra hlið og alvarlegri. Bacillus anthracis hefur lengi verið talinn kjörinn til notkunar í hernaði. Hugmyndin er að úða sporum í andrúmsloftið þegar vindátt er hagstæð til árásar á óvini. Með þeim hætti má sýkja margt fólk á stuttum tíma en þeir sem sýkjast smita sjaldan aðra. Dánartíðni er mjög há þar sem vörnum verður ekki komið við. Nokkur kíló af sýklinum geta drepið jafn marga og dóu í kjarnorkuárásinni á Hírósíma 1945 (Siegrist, D.W., Emerging Infectious Diseases 1999; 5: 505-8). Ókostur við notkun miltisbrands í hernaði er að hann mengar jarðveg. Það veldur því að nánast er ómögulegt að stunda landbúnað á slíkum svæðum í langan tíma.

Augu manna hafa á undanförnum árum beinst að því að hryðjuverkamenn kynnu að nota þennan sýkil. Engin reynsla er af notkun miltisbrands til árása á fólk. Slys sem varð í vopnaverksmiðju í Sverdlovsk í fyrrum Sovétríkjunum árið 1979 gefur þó vísbendingu um afleiðingarnar af lungnasmiti (Meselson, M., et al., Science 1994; 266: 1202-7). Þar var unnið við þróun á miltisbrandi til hernaðar.

Meðgöngutími frá lungnasmiti þar til einkenni gera vart við sig er 1-6 dagar. Meðgöngutíminn getur verið langur í sumum tilvikum eða allt að 43 dagar. Fyrstu einkenni lungnasmits eru lík inflúensu með hita, vöðvaverk, höfuðverk, þurrum hósta og smávægilegum óþægindum fyrir brjósti sem vara í örfáa daga. Næstu 1-3 daga eftir upphafseinkenni líður sjúklingi betur en versnar svo skyndilega í kjölfarið með háum hita, andnauð og losti. Oft má sjá bjúg á brjóstkassanum og geta sjúklingar fengið blæðandi heilahimnubólgu. Allir deyja sem fá ekki viðeigandi meðferð og talið er að allt að 95% sýktra deyi ef meira en 48 tímar líða frá því að einkenni hófust þar til meðferð hefst.

Sýkillinn er næmur fyrir ýmsum algengum sýklalyfjum. Þó má búast við að þeir sem stunda þá glæpsamlegu iðju að þróa sýklavopn reyni að fá fram stofna sem eru ónæmir fyrir sýklalyfjum. Ef vitað er um að hætta sé á smitun má gefa sýklalyf í forvarnarskyni þar til hættan á sýkingu er liðin hjá. Þá er til bóluefni gegn þessum sjúkdómi. Ending varnaráhrifa frá bólusetningu er hins vegar stutt og þeir sem eru í smithættu þurfa árlega endurbólusetningu. Verði miltisbrandi einhvern tímann beitt í hryðjuverki má gera ráð fyrir því að árásin sé óvænt og að heilbrigðisþjónustan sé henni óviðbúin enda upphafseinkenni sjúkdómsins afar óljós. Það dregur úr líkum á því að sjúkdómurinn greinist nógu tímanlega til að hindra umtalsvert manntjón.
Uppfærsla frá ritstjórn:

Í desember árið 2004 kom upp miltisbrandur í fjórum hrossum sem höfðu haldið til við eyðibýlið Sjónarhól á Vatnsleysuströnd. Þrjú þeirra létust úr sjúkdómnum og því fjórða var lógað og voru hræin brennd til varnar frekara smiti. Ekki fannst smit í fleiri dýrum. Talið er að sjúkdómurinn hafi komið upp við landbrot í landi Sjónarhóls.

Mynd:

Tilvísun:
  1. ^ Sjá m.a.: Einar G. Pétursson, „Vitleysa á kreiki: Fjárdauðinn á Skarði á Skarðsströnd veturinn 1865 “, Breiðfirðingur, 62. árgangur 2008-9, 1. tölublað - Timarit.is. (Sótt 10.09.2019).

...