Óvíst er hvenær smokkurinn var fyrst fundinn upp. Þó er víst að ýmsir hlutir hafa verið notaðir í aldanna rás til að þekja getnaðarlimi í þeim tilgangi að vernda gegn þungun og sýkingum og til skrauts og örvunar. Nokkurs konar slíður til að setja á getnaðarlim var notað af egypskum karlmönnum um 1350 fyrir Krist. Óvíst er um tilgang notkunarinnar en talið er að það hafi verið ætlað til skrauts.
Árið 1564 lýsti ítalski líffærafræðingurinn Fallopius slíðri úr hör. Fljótlega fylgdu í kjölfarið slíður úr dýragörn. Það var ekki fyrr en á 18. öldinni sem farið var að nefna þessi slíður smokka. Upp úr 1840 var svo farið að framleiða smokka úr gúmmíi en um 1930 kom fram nýtt gúmmíkennt plastefni, latex, sem þótti henta betur (Robertson, 1990; Hatcher, o.fl., 1990; Everett, 1998).
Heimildir:
Everett, S. (1998). Handbook of contraception and family planning. London: Bailliére Tindall.
Hatcher, R.A., Stewart, F., Trussell, J., Kowal, D., Guest, F., Stewart, G.K. og Cates, W. (1990). Contraceptive technology. New York: Irvington Publishers, Inc.
Robertson, W.H. (1990). An illustrated history of contraception. New Jersey: The Parthenon Publishing Group.
Mynd: HB