Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hver uppgötvaði stofnfrumur og hvenær voru þær fyrst notaðar til lækninga?

Erna Magnúsdóttir

Orðið stofnfruma kemur fyrst fyrir í fræðitexta árið 1868 þegar þýski fósturfræðingurinn Ernst Haeckel (1834-1919) notaði orðið stamzelle um einfrumung sem síðar þróaðist yfir í fjölfrumulífveru, en í bók sinni velti Haeckel meðal annars fyrir sér frumulíffræðilegum grundvelli þróunarkenningar Darwins. Síðar notaði hann svo orðið um frjóvgaða eggfrumu sem gefur af sér fullburða einstakling í fjölfrumulífveru.[1][2] Þótt Haeckel hafi fyrst notað orðið yfir frumu sem gefur af sér dótturfrumur af mismunandi tegundum er þó í raun ekki hægt að segja að hann hafi uppgötvað stofnfrumur eins og við skiljum hugtakið í dag.

Orðið stofnfruma kom fyrst fyrir árið 1868 í ritinu Natürliche Schöpfungsgeschichte eftir þýska líffræðinginn og fósturfræðinginn Ernst Haeckel (1834-1919).

Oft er talað um að kanadísku vísindamennirnir James Till og Ernest McCulloch hafi uppgötvað stofnfrumur með frumkvöðlavinnu sinni við rannsóknir á blóðmyndandi stofnfrumum um miðja 20. öld.[3] Þó er það ekki alveg nákvæmt, því þótt uppgötvun Till og McCulloch á marghæfni[4], blóðmyndandi stofnfruma hafi verið mikilvæg, höfðu birst vísindagreinar áratugina á undan sem höfðu blóðmyndandi stofnfrumur og eiginleika þeirra sem viðfangsefni. Það má því segja að þótt Till og McCulloch fái opinberlega oft heiðurinn af uppgötvun stofnfruma sé raunin sú að áratugavinna margra vísindamanna hafi smám saman afhjúpað eðli og virkni stofnfruma. Í raun má rekja fyrstu greinarnar um stofnfrumur allt til annars áratugar 20. aldar.

Fyrsta stofnfrumumeðferðin þar sem tókst að láta gjafastofnfrumur dafna að einhverju marki í stofnfrumuþega var framkvæmd árið 1959. Læknirinn E. Donall Thomas framkvæmdi þá beinmergsígræðslu með því að flytja beinmerg úr heilbrigðum einstaklingi yfir í eineggja tvíbura hennar sem var með hvítblæði.[5]

Þroskun mismunandi blóðfruma úr blóðmyndandi stofnfrumu.

Við beinmergsskipti sætir sjúklingur geislameðferð sem drepur blóðmyndandi stofnfrumur hans á sama tíma og æxlisfrumur deyja. Við það að stofnfrumurnar deyja myndast tækifæri til þess að græða í sjúklinginn stofnfrumur úr beinmerg annars einstaklings sem geta þá tekið sér vist í beinmerg sjúklingsins, þar sem þar eru þá engar stofnfrumur fyrir. Við það að græða beinmerg úr eineggja tvíbura komst Dr. Thomas hjá því að sjúklingurinn hafnaði beinmerg gjafans þar sem tvíburar eru erfðafræðilega eins og því þekkir ónæmiskerfi þegans ekki muninn á sínum eigin frumum og frumum tvíbura síns. Heill áratugur leið þó áður en í fyrsta skipti var framkvæmd árangursrík beinmergsígræðsla á milli einstaklinga sem ekki voru tvíburar, en þá var fluttur beinmergur úr einu systkini í annað. E. Donall Thomas hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1990 ásamt Joseph E. Murray fyrir vinnu sína við rannsóknir á beinmergsígræðslu.

Beinmergsígræðsla er enn algengasta stofnfrumumeðferðin sem beitt er og ýmis afbrigði af henni hafa verið þróuð. Í dag hljóta til dæmis flestir mergæxlasjúklingar undir sjötugu stofnfrumumeðferð með eigin stofnfrumum úr beinmerg. Þá er stofnfrumum sjúklingsins safnað úr mergnum og þær geymdar á meðan sjúklingurinn undirgengst háskammtalyfjameðferð til þess að vinna bug á æxlinu. Síðan eru stofnfrumurnar græddar í sjúklinginn á ný og þær mynda þá nýjar blóðfrumur. Þar sem stofnfrumurnar eru úr sjúklingnum sjálfum er ekki hætta á höfnun. Slík háskammtameðferð hefur verið í boði á Landspítalanum frá árinu 2003.[6]

Tilvísanir:
  1. ^ Ramalho-Santos M, Willenbring H. On the Origin of the Term “Stem Cell”. Cell Stem Cell. 2007;1(1):35–8. (Skoðað 14.02.2017).
  2. ^ Haeckel E. Natürliche Schöpfungsgeschichte. Berlin: Georg Reimer; 1868.
  3. ^ Becker AJ, McCulloch EA, Till JE. Cytological demonstration of the clonal nature of spleen colonies derived from transplanted mouse marrow cells. Nature. 1963;197(4866):452–4.
  4. ^ Marghæfni er eiginleiki vefjasértækra stofnfruma að mynda mismunandi gerðir dótturfruma sem sérhæfast í starfsfrumur vefjarins.
  5. ^ Appelbaum FR. Hematopoietic-Cell Transplantation at 50. The New England Journal of Medicine. 2007;357(15):1472–5. (Skoðað 14.02.2017).
  6. ^ Straumhvörf í meðferð blóðsjúkdóma - Ritstjórnargreinar - Læknablaðið. (Skoðað 14.02.2017).

Myndir:

Höfundur

Erna Magnúsdóttir

dósent í lífeinda- og líffærafræði við læknadeild HÍ

Útgáfudagur

21.2.2017

Spyrjandi

Þorgrímur Magni Sveinsson

Tilvísun

Erna Magnúsdóttir. „Hver uppgötvaði stofnfrumur og hvenær voru þær fyrst notaðar til lækninga?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2017. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=68432.

Erna Magnúsdóttir. (2017, 21. febrúar). Hver uppgötvaði stofnfrumur og hvenær voru þær fyrst notaðar til lækninga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=68432

Erna Magnúsdóttir. „Hver uppgötvaði stofnfrumur og hvenær voru þær fyrst notaðar til lækninga?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2017. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=68432>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver uppgötvaði stofnfrumur og hvenær voru þær fyrst notaðar til lækninga?
Orðið stofnfruma kemur fyrst fyrir í fræðitexta árið 1868 þegar þýski fósturfræðingurinn Ernst Haeckel (1834-1919) notaði orðið stamzelle um einfrumung sem síðar þróaðist yfir í fjölfrumulífveru, en í bók sinni velti Haeckel meðal annars fyrir sér frumulíffræðilegum grundvelli þróunarkenningar Darwins. Síðar notaði hann svo orðið um frjóvgaða eggfrumu sem gefur af sér fullburða einstakling í fjölfrumulífveru.[1][2] Þótt Haeckel hafi fyrst notað orðið yfir frumu sem gefur af sér dótturfrumur af mismunandi tegundum er þó í raun ekki hægt að segja að hann hafi uppgötvað stofnfrumur eins og við skiljum hugtakið í dag.

Orðið stofnfruma kom fyrst fyrir árið 1868 í ritinu Natürliche Schöpfungsgeschichte eftir þýska líffræðinginn og fósturfræðinginn Ernst Haeckel (1834-1919).

Oft er talað um að kanadísku vísindamennirnir James Till og Ernest McCulloch hafi uppgötvað stofnfrumur með frumkvöðlavinnu sinni við rannsóknir á blóðmyndandi stofnfrumum um miðja 20. öld.[3] Þó er það ekki alveg nákvæmt, því þótt uppgötvun Till og McCulloch á marghæfni[4], blóðmyndandi stofnfruma hafi verið mikilvæg, höfðu birst vísindagreinar áratugina á undan sem höfðu blóðmyndandi stofnfrumur og eiginleika þeirra sem viðfangsefni. Það má því segja að þótt Till og McCulloch fái opinberlega oft heiðurinn af uppgötvun stofnfruma sé raunin sú að áratugavinna margra vísindamanna hafi smám saman afhjúpað eðli og virkni stofnfruma. Í raun má rekja fyrstu greinarnar um stofnfrumur allt til annars áratugar 20. aldar.

Fyrsta stofnfrumumeðferðin þar sem tókst að láta gjafastofnfrumur dafna að einhverju marki í stofnfrumuþega var framkvæmd árið 1959. Læknirinn E. Donall Thomas framkvæmdi þá beinmergsígræðslu með því að flytja beinmerg úr heilbrigðum einstaklingi yfir í eineggja tvíbura hennar sem var með hvítblæði.[5]

Þroskun mismunandi blóðfruma úr blóðmyndandi stofnfrumu.

Við beinmergsskipti sætir sjúklingur geislameðferð sem drepur blóðmyndandi stofnfrumur hans á sama tíma og æxlisfrumur deyja. Við það að stofnfrumurnar deyja myndast tækifæri til þess að græða í sjúklinginn stofnfrumur úr beinmerg annars einstaklings sem geta þá tekið sér vist í beinmerg sjúklingsins, þar sem þar eru þá engar stofnfrumur fyrir. Við það að græða beinmerg úr eineggja tvíbura komst Dr. Thomas hjá því að sjúklingurinn hafnaði beinmerg gjafans þar sem tvíburar eru erfðafræðilega eins og því þekkir ónæmiskerfi þegans ekki muninn á sínum eigin frumum og frumum tvíbura síns. Heill áratugur leið þó áður en í fyrsta skipti var framkvæmd árangursrík beinmergsígræðsla á milli einstaklinga sem ekki voru tvíburar, en þá var fluttur beinmergur úr einu systkini í annað. E. Donall Thomas hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1990 ásamt Joseph E. Murray fyrir vinnu sína við rannsóknir á beinmergsígræðslu.

Beinmergsígræðsla er enn algengasta stofnfrumumeðferðin sem beitt er og ýmis afbrigði af henni hafa verið þróuð. Í dag hljóta til dæmis flestir mergæxlasjúklingar undir sjötugu stofnfrumumeðferð með eigin stofnfrumum úr beinmerg. Þá er stofnfrumum sjúklingsins safnað úr mergnum og þær geymdar á meðan sjúklingurinn undirgengst háskammtalyfjameðferð til þess að vinna bug á æxlinu. Síðan eru stofnfrumurnar græddar í sjúklinginn á ný og þær mynda þá nýjar blóðfrumur. Þar sem stofnfrumurnar eru úr sjúklingnum sjálfum er ekki hætta á höfnun. Slík háskammtameðferð hefur verið í boði á Landspítalanum frá árinu 2003.[6]

Tilvísanir:
  1. ^ Ramalho-Santos M, Willenbring H. On the Origin of the Term “Stem Cell”. Cell Stem Cell. 2007;1(1):35–8. (Skoðað 14.02.2017).
  2. ^ Haeckel E. Natürliche Schöpfungsgeschichte. Berlin: Georg Reimer; 1868.
  3. ^ Becker AJ, McCulloch EA, Till JE. Cytological demonstration of the clonal nature of spleen colonies derived from transplanted mouse marrow cells. Nature. 1963;197(4866):452–4.
  4. ^ Marghæfni er eiginleiki vefjasértækra stofnfruma að mynda mismunandi gerðir dótturfruma sem sérhæfast í starfsfrumur vefjarins.
  5. ^ Appelbaum FR. Hematopoietic-Cell Transplantation at 50. The New England Journal of Medicine. 2007;357(15):1472–5. (Skoðað 14.02.2017).
  6. ^ Straumhvörf í meðferð blóðsjúkdóma - Ritstjórnargreinar - Læknablaðið. (Skoðað 14.02.2017).

Myndir:

...