Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Voru einhverjar konur að semja tónlist á 17. öld?

Árni Heimir Ingólfsson

Það þótti sæma konum fyrr á öldum að kunna sitthvað fyrir sér í tónlist, en ætíð innan ákveðinna marka. Í karllægum heimi fengu þær yfirleitt litla hvatningu til tónsmíða eða annarra skapandi starfa. Þó tókst nokkrum ítölskum kventónskáldum að sinna hugðarefnum sínum á fyrri hluta 17. aldar og nutu þær virðingar fyrir tónsmíðar sínar. Hvað svo sem segja má um almenna þjóðfélagsskipan í borgríkjum Ítalíuskaga þá fengu kventónskáld þar ólíkt fleiri tækifæri en stallsystur þeirra annars staðar í álfunni. Nær varð ekki komist jafnrétti í þessum efnum fyrr en á 20. öld.

Það létti tónlistarkonum sennilega róðurinn að konur höfðu umtalsverð völd í stjórnmálum Ítalíuskaga, ekki síst eftir að Cosimo erkihertogi í Flórens lést árið 1621. Barnungur sonur hans erfði ríkið en í reynd tóku við stjórntaumunum þær María, móðir piltsins, og Kristína, föðuramma hans. Þessar mektarkonur tóku undir verndarvæng sinn Francescu Caccini (1587-1641), sem var dóttir Giulios söngvara og tónskálds. Hjá föður sínum hafði hún hlotið bestu menntun sem völ var á og var vart komin á unglingsár þegar hún tók þátt í fumuppfærslu óperunnar Euridice eftir Peri. Síðar á ævinni þjónaði hún hirðinni sem söngkona, kennari og tónskáld. Ekki verður annað sagt en hæfileikar hennar hafi verið metnir að verðleikum því að um 1620 var hún orðin hæstlaunaði músíkant við Medicihirðina. Francesca afkastaði miklu við tónsmíðar en fátt hefur varðveist af verkum hennar. Hún gaf út sönglög og var fyrsta kventónskáldið sem fékk óperu gefna út á prenti, La liberazione di Ruggiero dall‘isola d‘Alcina (Ruggiero bjargað af eyju Alcinu, 1625). Þá óperu pantaði einmitt María erkihertogaynja og lét færa upp í tilefni þess að pólskur prins sótti hirðina heim.

Barbara Strozzi (1619-77) var ekki síður merkt tónskáld. Hún var fædd í Feneyjum, dóttir skálds að nafni Giulio Strozzi og var því nákunnug lista- og menntafólki borgarinnar. Rétt eins og Francesca hlaut hún fyrsta flokks þjálfun í listinni, lærði til dæmis hjá hinu dáða óperutónskáldi Francesco Cavalli. Barbara gaf út átta nótnahefti með eigin tónsmíðum, meðal annars madrígalabók við kvæði föður síns. Flest verka hennar eru einsöngskantötur og var hún einn afkastamesti höfundur slíkra verka um miðja 17. öld. Kantatan Lagrime mie (Tár mín, útg. 1659) er tjáningarrík tónsmíð þar sem söngröddin er hvað eftir annað ómstríð við bassatónana, ekki ósvipað því sem oft gerist í einsöngsverkum Monteverdis.

Barbara Strozzi (1619-1677).

Það voru ekki aðeins dætur virtra listamanna sem létu til sín taka á sviði tónsmíða. Allmörg kventónskáld 17. aldar störfuðu innan klausturveggja. Þar náðu þær stundum markverðum árangri þó að yfirvöld í Páfagarði legðu margvíslegar hömlur á sönglist í nunnuklaustrum og meinuðu jafnvel utanaðkomandi tónlistarkennurum og kórstjórum aðgang. Meðal þeirra sem náðu langt í listinni var Lucrezia Vizzana (1590-1662) sem var systir við klaustur heilagrar Kristínar í Bologna og gaf út mótettubók í Feneyjum árið 1623. Tónlistin er fyrir eina og tvær sópranraddir ásamt fylgibassa, í hinum nýja stile moderno með tilþrifamiklum söng og óvæntum ómstríðum tónum, textanum til áhersluauka. Nokkru yngri var Isabella Leonarda (1620-1704) sem gekk sextán ára gömul í klaustur í Novara á Norður-Ítalíu. Þar bjó hún til æviloka, kenndi systrum sínum í klaustrinu söng og samdi töluvert af trúartónlist, messur og mótettur. Þó braut hún ekki síst blað með því að semja sónötur, ýmist fyrir eina eða tvær fiðlur með fylgibassa, og var fyrsta kona sögunnar sem gaf út tónlist fyrir hljóðfæri eingöngu.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

3.8.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Voru einhverjar konur að semja tónlist á 17. öld? “ Vísindavefurinn, 3. ágúst 2018. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=74784.

Árni Heimir Ingólfsson. (2018, 3. ágúst). Voru einhverjar konur að semja tónlist á 17. öld? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=74784

Árni Heimir Ingólfsson. „Voru einhverjar konur að semja tónlist á 17. öld? “ Vísindavefurinn. 3. ágú. 2018. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=74784>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Voru einhverjar konur að semja tónlist á 17. öld?
Það þótti sæma konum fyrr á öldum að kunna sitthvað fyrir sér í tónlist, en ætíð innan ákveðinna marka. Í karllægum heimi fengu þær yfirleitt litla hvatningu til tónsmíða eða annarra skapandi starfa. Þó tókst nokkrum ítölskum kventónskáldum að sinna hugðarefnum sínum á fyrri hluta 17. aldar og nutu þær virðingar fyrir tónsmíðar sínar. Hvað svo sem segja má um almenna þjóðfélagsskipan í borgríkjum Ítalíuskaga þá fengu kventónskáld þar ólíkt fleiri tækifæri en stallsystur þeirra annars staðar í álfunni. Nær varð ekki komist jafnrétti í þessum efnum fyrr en á 20. öld.

Það létti tónlistarkonum sennilega róðurinn að konur höfðu umtalsverð völd í stjórnmálum Ítalíuskaga, ekki síst eftir að Cosimo erkihertogi í Flórens lést árið 1621. Barnungur sonur hans erfði ríkið en í reynd tóku við stjórntaumunum þær María, móðir piltsins, og Kristína, föðuramma hans. Þessar mektarkonur tóku undir verndarvæng sinn Francescu Caccini (1587-1641), sem var dóttir Giulios söngvara og tónskálds. Hjá föður sínum hafði hún hlotið bestu menntun sem völ var á og var vart komin á unglingsár þegar hún tók þátt í fumuppfærslu óperunnar Euridice eftir Peri. Síðar á ævinni þjónaði hún hirðinni sem söngkona, kennari og tónskáld. Ekki verður annað sagt en hæfileikar hennar hafi verið metnir að verðleikum því að um 1620 var hún orðin hæstlaunaði músíkant við Medicihirðina. Francesca afkastaði miklu við tónsmíðar en fátt hefur varðveist af verkum hennar. Hún gaf út sönglög og var fyrsta kventónskáldið sem fékk óperu gefna út á prenti, La liberazione di Ruggiero dall‘isola d‘Alcina (Ruggiero bjargað af eyju Alcinu, 1625). Þá óperu pantaði einmitt María erkihertogaynja og lét færa upp í tilefni þess að pólskur prins sótti hirðina heim.

Barbara Strozzi (1619-77) var ekki síður merkt tónskáld. Hún var fædd í Feneyjum, dóttir skálds að nafni Giulio Strozzi og var því nákunnug lista- og menntafólki borgarinnar. Rétt eins og Francesca hlaut hún fyrsta flokks þjálfun í listinni, lærði til dæmis hjá hinu dáða óperutónskáldi Francesco Cavalli. Barbara gaf út átta nótnahefti með eigin tónsmíðum, meðal annars madrígalabók við kvæði föður síns. Flest verka hennar eru einsöngskantötur og var hún einn afkastamesti höfundur slíkra verka um miðja 17. öld. Kantatan Lagrime mie (Tár mín, útg. 1659) er tjáningarrík tónsmíð þar sem söngröddin er hvað eftir annað ómstríð við bassatónana, ekki ósvipað því sem oft gerist í einsöngsverkum Monteverdis.

Barbara Strozzi (1619-1677).

Það voru ekki aðeins dætur virtra listamanna sem létu til sín taka á sviði tónsmíða. Allmörg kventónskáld 17. aldar störfuðu innan klausturveggja. Þar náðu þær stundum markverðum árangri þó að yfirvöld í Páfagarði legðu margvíslegar hömlur á sönglist í nunnuklaustrum og meinuðu jafnvel utanaðkomandi tónlistarkennurum og kórstjórum aðgang. Meðal þeirra sem náðu langt í listinni var Lucrezia Vizzana (1590-1662) sem var systir við klaustur heilagrar Kristínar í Bologna og gaf út mótettubók í Feneyjum árið 1623. Tónlistin er fyrir eina og tvær sópranraddir ásamt fylgibassa, í hinum nýja stile moderno með tilþrifamiklum söng og óvæntum ómstríðum tónum, textanum til áhersluauka. Nokkru yngri var Isabella Leonarda (1620-1704) sem gekk sextán ára gömul í klaustur í Novara á Norður-Ítalíu. Þar bjó hún til æviloka, kenndi systrum sínum í klaustrinu söng og samdi töluvert af trúartónlist, messur og mótettur. Þó braut hún ekki síst blað með því að semja sónötur, ýmist fyrir eina eða tvær fiðlur með fylgibassa, og var fyrsta kona sögunnar sem gaf út tónlist fyrir hljóðfæri eingöngu.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

...