Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvernig komu áhrif upplýsingarinnar fram á Íslandi?

Sveinn Yngvi Egilsson

Hekluganga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar markaði að ákveðnu leyti upphaf upplýsingarinnar hér á landi. Þeir klifu þetta víðfræga og alræmda fjall árið 1750 og afsönnuðu þá hjátrú að þar væri op Vítis en sýndu að hægt væri að mæla og rannsaka náttúruna á vísindalegan hátt. Fjallgangan var því táknræn fyrir aldahvörf og tímabilið 1750-1840 hefur verið kallað upplýsingaröld.

Eggert lagði stund á náttúrufræði við Hafnarháskóla og það gerði Bjarni einnig en hann lauk prófi í læknisfræði og var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 1760. Eggert vann úr rannsóknum þeirra félaga í Danmörku 1760-1766 og bjó Ferðabókina til útgáfu. Hann hafði ásamt fleiri Íslendingum í Kaupmannahöfn verið í því námsmannafélagi sem kallaðist Secta eða Sakir og hafði varðveislu og eflingu íslenskrar tungu á stefnuskrá sinni. Flokkadrættir urðu í félaginu og var annars vegar „bændasonaflokkur“ Eggerts og félaga og hins vegar „biskupssonaflokkur“ sem Hannes Finnsson (1739-1796), síðar biskup, fór fyrir. Persónuleg óvild Eggerts og Hannesar kann að hafa búið þar að baki en skoðanaágreiningur var líka milli hópanna. Bændasynir vildu byggja endurreisn og þjóðvakningu Íslands á sögulegum grunni en biskupssynir á alþjóðahyggju upplýsingarinnar.

Hekluganga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar árið 1750 markaði að ákveðnu leyti upphaf upplýsingarinnar hér á landi. Þegar þeir klifu fjallið afsönnuðu þeir þá hjátrú að þar væri op Vítis og sýndu að hægt væri að mæla og rannsaka náttúruna á vísindalegan hátt. Myndin er málverk af Heklu frá því um 1836.

Dönsk stjórnvöld áttu frumkvæðið að því helsta sem kenna má við upplýsinguna allt fram undir 1780 enda skorti Íslendinga raunveruleg völd til að geta gert eitthvað róttækt í sínum málum sjálfir. Áhrifin frá upplýsingunni birtast því frekar í ritsmíðum þeirra en framkvæmdum á þessu skeiði. Íslendingar skrifuðu um náttúruvísindi og þar ber hæst Ferðabók Eggerts og Bjarna sem fjallar um þjóðlíf og náttúru Íslands á upplýstan og fræðilegan hátt. Íslendingar rituðu enn fremur um atvinnumál og þar má nefna verk eftir Magnús Ketilsson og Skúla Magnússon (1711-1794) fógeta og stofnanda Innréttinganna. Þær voru merkilegt framfaraskref á sínum tíma og urðu öðru fremur til þess að Reykjavík varð miðstöð þjóðlífs í landinu. Verk þeirra Skúla og Magnúsar komu út hjá Hrappseyjarprentsmiðju en með henni fór upplýsingin að setja verulegt mark á bókaútgáfu. Síðast en ekki síst birtust áhrif upplýsingarinnar í íslenskum bókmenntum, til dæmis verkum Eggerts Ólafssonar, Björns Halldórssonar og Jóns Þorlákssonar á Bægisá.

Árið 1779 var stofnað Hið íslenska lærdómslistafélag. Jón Eiríksson (1728-1787) var forseti þess en hann hlaut mikinn frama í Danmörku, varð prófessor í lögfræði við akademíuna í Sórey á Sjálandi og háttsettur embættismaður í dönsku stjórnsýslunni í Kaupmannahöfn. Félaginu var ætlað að efla vísindastarf, auka lestur og bæta smekk þjóðarinnar, hvetja lærða Íslendinga til að miðla þekkingu sinni og stuðla að málhreinsun. Rit Lærdómslistafélagsins (Félagsritin) urðu alls 15 bindi en félagið lognaðist hægt út af á síðasta áratug 18. aldar eftir sviplegt fráfall Jóns Eiríkssonar. Margra grasa kenndi í þessum ritum, allt frá hagnýtum skrifum um landbúnaðarmál og náttúruvísindi til bókmenntaskrifa. Árin 1789-1790 birtist þar Musteri mannorðsins, þýðing Benedikts Gröndal eldri á The Temple of Fame (1715) eftir Alexander Pope (1688-1744). Einnig birtust þar stefnuyfirlýsingar í skáldskaparefnum sem vísa fram á við til aukinnar ljóðrænu og einfaldaðs skáldamáls íslenskrar rómantíkur á 19. öld.

Helstu þáttaskilin í sögu íslensku upplýsingarinnar urðu á síðasta áratug 18. aldar þegar Landsuppfræðingarfélagið tók við af Lærdómslistafélaginu og starfsemin færðist frá Danmörku til Íslands. Mikið kvað þá að Hannesi Finnssyni biskupi sem samdi alþýðlegt fræðslurit í upplýsingaranda, Kvöldvökurnar 1794 (gefnar út 1796-1797), en entist ekki aldur til að fylgja því eftir. Að honum látnum varð Magnús Stephensen helsti leiðtogi upplýsingarinnar og stóð að öflugri útgáfu fram á þriðja áratug 19. aldar. Hann var geysilega valdamikill maður um sína daga og segja má að sópað hafi að honum í íslensku menningarlífi. Magnús var dómstjóri við Landsyfirréttinn í Reykjavík í aldarþriðjung, stýrði prentsmiðju og líktist á vissan hátt hinum menntaða einvaldi sem upplýsingarmenn eins og Voltaire voru hrifnir af. Magnús veitti alþjóðlegum straumum til landsins og hafði franska menningu í hávegum. Hann var mikið gefinn fyrir dans og lífsins lystisemdir eins og hann fjallar um í æviágripi sínu (1888) og meðal rita sem komu út á vegum hans var fyrsta matreiðslubókin á íslensku, Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur eftir Mörtu Maríu Stephensen (1800, endurútgefin 1998). Magnús gaf út tvö tímarit, Minnisverð tíðindi (1796-1808) og Klausturpóstinn (1818-1827), einnig Skemmtilega vinagleði í fróðlegum samræðum og ljóðmælum (1797), Margvíslegt gaman og alvöru (1798), Ræður Hjálmars á Bjargi fyrir börnum sínum (1820) og margt fleira.

Eitt af því sem fjallað var um í Klausturpóstinum voru tilraunir til að endurlífga menn með raflosti. Magnús Stephensen greindi meðal annars frá alræmdri tilraun skoska eðlisfræðingsins Andrew Ure frá árinu 1818, en hún sést hér á myndinni.

Á þriðja áratug 19. aldar tók yngri kynslóð við merkjum upplýsingarinnar, ekki síst Baldvin Einarsson sem gaf út Ármann á Alþingi 1829-1832 ásamt Þorgeiri Guðmundssyni (1794-1871). Upplýsingarviðhorf setja auk þess svip á baráttumál Fjölnismanna, helstu fulltrúa rómantísku stefnunnar á fjórða áratugnum, enda voru þeir framfarasinnaðir og höfðu hagnýt mál á dagskrá sinni. Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson (1807-1841) var að nokkru leyti upplýsingarmaður og hið sama má segja um Jónas Hallgrímsson (1807-1845) sem oft er talinn til rómantískra skálda en leit á Eggert Ólafsson sem helsta fyrirrennara sinn. Þegar Jón Sigurðsson (1811-1879) og félagar hófu útgáfu nýs tímarits árið 1841 skírðu þeir það Ný félagsrit í höfuðið á Ritum Lærdómslistafélagsins. Andi upplýsingarinnar sveif því yfir sjálfstæðisbaráttunni og hugsjónir hennar lifðu áfram. Framfarahyggjan reyndist lífseig og framhald varð á útgáfu alþýðlegra fræðslurita á 19. og 20. öld. Langtímaáhrif upplýsingarinnar voru því umtalsverð á Íslandi. Árið 1994 var stofnað Félag um átjándu aldar fræði sem er helgað rannsóknum á upplýsingartímanum og hinni löngu 18. öld. Félagið hefur frá árinu 1998 gefið út Vefni sem er elsta rafræna fræðitímaritið sem gefið er út á Íslandi.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Sveinn Yngvi Egilsson

prófessor í íslenskum bókmenntum

Útgáfudagur

29.12.2023

Spyrjandi

Eygló Egilsdóttir

Tilvísun

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvernig komu áhrif upplýsingarinnar fram á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 29. desember 2023. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73141.

Sveinn Yngvi Egilsson. (2023, 29. desember). Hvernig komu áhrif upplýsingarinnar fram á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73141

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvernig komu áhrif upplýsingarinnar fram á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 29. des. 2023. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73141>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig komu áhrif upplýsingarinnar fram á Íslandi?
Hekluganga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar markaði að ákveðnu leyti upphaf upplýsingarinnar hér á landi. Þeir klifu þetta víðfræga og alræmda fjall árið 1750 og afsönnuðu þá hjátrú að þar væri op Vítis en sýndu að hægt væri að mæla og rannsaka náttúruna á vísindalegan hátt. Fjallgangan var því táknræn fyrir aldahvörf og tímabilið 1750-1840 hefur verið kallað upplýsingaröld.

Eggert lagði stund á náttúrufræði við Hafnarháskóla og það gerði Bjarni einnig en hann lauk prófi í læknisfræði og var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 1760. Eggert vann úr rannsóknum þeirra félaga í Danmörku 1760-1766 og bjó Ferðabókina til útgáfu. Hann hafði ásamt fleiri Íslendingum í Kaupmannahöfn verið í því námsmannafélagi sem kallaðist Secta eða Sakir og hafði varðveislu og eflingu íslenskrar tungu á stefnuskrá sinni. Flokkadrættir urðu í félaginu og var annars vegar „bændasonaflokkur“ Eggerts og félaga og hins vegar „biskupssonaflokkur“ sem Hannes Finnsson (1739-1796), síðar biskup, fór fyrir. Persónuleg óvild Eggerts og Hannesar kann að hafa búið þar að baki en skoðanaágreiningur var líka milli hópanna. Bændasynir vildu byggja endurreisn og þjóðvakningu Íslands á sögulegum grunni en biskupssynir á alþjóðahyggju upplýsingarinnar.

Hekluganga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar árið 1750 markaði að ákveðnu leyti upphaf upplýsingarinnar hér á landi. Þegar þeir klifu fjallið afsönnuðu þeir þá hjátrú að þar væri op Vítis og sýndu að hægt væri að mæla og rannsaka náttúruna á vísindalegan hátt. Myndin er málverk af Heklu frá því um 1836.

Dönsk stjórnvöld áttu frumkvæðið að því helsta sem kenna má við upplýsinguna allt fram undir 1780 enda skorti Íslendinga raunveruleg völd til að geta gert eitthvað róttækt í sínum málum sjálfir. Áhrifin frá upplýsingunni birtast því frekar í ritsmíðum þeirra en framkvæmdum á þessu skeiði. Íslendingar skrifuðu um náttúruvísindi og þar ber hæst Ferðabók Eggerts og Bjarna sem fjallar um þjóðlíf og náttúru Íslands á upplýstan og fræðilegan hátt. Íslendingar rituðu enn fremur um atvinnumál og þar má nefna verk eftir Magnús Ketilsson og Skúla Magnússon (1711-1794) fógeta og stofnanda Innréttinganna. Þær voru merkilegt framfaraskref á sínum tíma og urðu öðru fremur til þess að Reykjavík varð miðstöð þjóðlífs í landinu. Verk þeirra Skúla og Magnúsar komu út hjá Hrappseyjarprentsmiðju en með henni fór upplýsingin að setja verulegt mark á bókaútgáfu. Síðast en ekki síst birtust áhrif upplýsingarinnar í íslenskum bókmenntum, til dæmis verkum Eggerts Ólafssonar, Björns Halldórssonar og Jóns Þorlákssonar á Bægisá.

Árið 1779 var stofnað Hið íslenska lærdómslistafélag. Jón Eiríksson (1728-1787) var forseti þess en hann hlaut mikinn frama í Danmörku, varð prófessor í lögfræði við akademíuna í Sórey á Sjálandi og háttsettur embættismaður í dönsku stjórnsýslunni í Kaupmannahöfn. Félaginu var ætlað að efla vísindastarf, auka lestur og bæta smekk þjóðarinnar, hvetja lærða Íslendinga til að miðla þekkingu sinni og stuðla að málhreinsun. Rit Lærdómslistafélagsins (Félagsritin) urðu alls 15 bindi en félagið lognaðist hægt út af á síðasta áratug 18. aldar eftir sviplegt fráfall Jóns Eiríkssonar. Margra grasa kenndi í þessum ritum, allt frá hagnýtum skrifum um landbúnaðarmál og náttúruvísindi til bókmenntaskrifa. Árin 1789-1790 birtist þar Musteri mannorðsins, þýðing Benedikts Gröndal eldri á The Temple of Fame (1715) eftir Alexander Pope (1688-1744). Einnig birtust þar stefnuyfirlýsingar í skáldskaparefnum sem vísa fram á við til aukinnar ljóðrænu og einfaldaðs skáldamáls íslenskrar rómantíkur á 19. öld.

Helstu þáttaskilin í sögu íslensku upplýsingarinnar urðu á síðasta áratug 18. aldar þegar Landsuppfræðingarfélagið tók við af Lærdómslistafélaginu og starfsemin færðist frá Danmörku til Íslands. Mikið kvað þá að Hannesi Finnssyni biskupi sem samdi alþýðlegt fræðslurit í upplýsingaranda, Kvöldvökurnar 1794 (gefnar út 1796-1797), en entist ekki aldur til að fylgja því eftir. Að honum látnum varð Magnús Stephensen helsti leiðtogi upplýsingarinnar og stóð að öflugri útgáfu fram á þriðja áratug 19. aldar. Hann var geysilega valdamikill maður um sína daga og segja má að sópað hafi að honum í íslensku menningarlífi. Magnús var dómstjóri við Landsyfirréttinn í Reykjavík í aldarþriðjung, stýrði prentsmiðju og líktist á vissan hátt hinum menntaða einvaldi sem upplýsingarmenn eins og Voltaire voru hrifnir af. Magnús veitti alþjóðlegum straumum til landsins og hafði franska menningu í hávegum. Hann var mikið gefinn fyrir dans og lífsins lystisemdir eins og hann fjallar um í æviágripi sínu (1888) og meðal rita sem komu út á vegum hans var fyrsta matreiðslubókin á íslensku, Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur eftir Mörtu Maríu Stephensen (1800, endurútgefin 1998). Magnús gaf út tvö tímarit, Minnisverð tíðindi (1796-1808) og Klausturpóstinn (1818-1827), einnig Skemmtilega vinagleði í fróðlegum samræðum og ljóðmælum (1797), Margvíslegt gaman og alvöru (1798), Ræður Hjálmars á Bjargi fyrir börnum sínum (1820) og margt fleira.

Eitt af því sem fjallað var um í Klausturpóstinum voru tilraunir til að endurlífga menn með raflosti. Magnús Stephensen greindi meðal annars frá alræmdri tilraun skoska eðlisfræðingsins Andrew Ure frá árinu 1818, en hún sést hér á myndinni.

Á þriðja áratug 19. aldar tók yngri kynslóð við merkjum upplýsingarinnar, ekki síst Baldvin Einarsson sem gaf út Ármann á Alþingi 1829-1832 ásamt Þorgeiri Guðmundssyni (1794-1871). Upplýsingarviðhorf setja auk þess svip á baráttumál Fjölnismanna, helstu fulltrúa rómantísku stefnunnar á fjórða áratugnum, enda voru þeir framfarasinnaðir og höfðu hagnýt mál á dagskrá sinni. Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson (1807-1841) var að nokkru leyti upplýsingarmaður og hið sama má segja um Jónas Hallgrímsson (1807-1845) sem oft er talinn til rómantískra skálda en leit á Eggert Ólafsson sem helsta fyrirrennara sinn. Þegar Jón Sigurðsson (1811-1879) og félagar hófu útgáfu nýs tímarits árið 1841 skírðu þeir það Ný félagsrit í höfuðið á Ritum Lærdómslistafélagsins. Andi upplýsingarinnar sveif því yfir sjálfstæðisbaráttunni og hugsjónir hennar lifðu áfram. Framfarahyggjan reyndist lífseig og framhald varð á útgáfu alþýðlegra fræðslurita á 19. og 20. öld. Langtímaáhrif upplýsingarinnar voru því umtalsverð á Íslandi. Árið 1994 var stofnað Félag um átjándu aldar fræði sem er helgað rannsóknum á upplýsingartímanum og hinni löngu 18. öld. Félagið hefur frá árinu 1998 gefið út Vefni sem er elsta rafræna fræðitímaritið sem gefið er út á Íslandi.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. ...