Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Árið 1774 komu út í Hrappsey Nokkur þess alþekkta danska skálds sál. herr Christ. Br. Tullins kvæði, með litlum viðbætir annars efnis, á íslensku snúin af J. Th. Þýðandinn sem þannig var skammstafaður var Jón Þorláksson (1744-1819), síðar prestur, og fylgdu nokkur frumkveðin ljóð eftir hann sjálfan. Voru þetta fyrstu veraldlegu ljóðin sem fengust prentuð á Íslandi að höfundi lifandi og því merkisviðburður í útgáfusögunni. Jón hóf skáldferil sinn í Hrappsey en auk þýðingarstarfa sinna vann hann sem prófarkalesari við prentsmiðjuna. Árið 1783 voru svo prentuð í Hrappsey Nokkur ljóðmæli, sem það heiðurlega og velgáfaða skáld Jón Þorláksson kveðið hefur og var í þeirri útgáfu bæði að finna ljóð hans sem prentuð voru 1774 og mörg önnur að auki.
Samtíðarmenn kölluðu Jón Þorláksson þjóðskáld sem merkti höfuðskáld áður en orðið fór að taka á sig þjóðernislega þýðingu síðar á 19. öld. Nafnbótina á hann líklega fremur að þakka eigin þýðingum á heimsbókmenntunum en frumortum kvæðum sínum. Þó að hann væri mikilsmetið skáld á sínum tíma, seint á 18. og snemma á 19. öld, eru stórvirki hans öll á sviði þýðinga. Með þýðingum sínum átti Jón Þorláksson verulegan þátt í því að útbreiða skáldskaparsmekk upplýsingarinnar. Íslendingar fengu að kynnast því besta úr erlendum samtímaskáldskap í ljóðaþýðingum hans, þ. á m. einu höfuðriti upplýsingarinnar, Tilraun um manninn eftir Alexander Pope (An Essay on Man, 1733-1734). Jón þýddi líka tvo aðra kvæðabálka: Paradísarmissi (Paradise Lost, 1667) eftir John Milton (1608 1674) og Messías (Der Messias, 1745-1773) eftir Friedrich Gottlieb Klopstock (1724-1803). Hrappseyjarútgáfan 1774 á kvæðum C. B. Tullins (1728-1765) gaf því til kynna hvað í vændum var í hinu mikla þýðingarstarfi Jóns. Auk þess má segja að náttúrulýrík norska skáldsins (Tullin er reyndar kallaður danskur á titilblaðinu enda Danmörk og Noregur í ríkjasambandi fram til 1814) vísi fram á við til náttúruljóða íslenskrar rómantíkur.
Árið 1774 komu út í Hrappsey fyrstu veraldlegu ljóðin sem fengust prentuð á Íslandi að höfundi lifandi. Jón frá Bægisá hóf skáldaferil sinn í Hrappsey og var kallaður þjóðskáld af samtíðarmönnum sínum.
Paradísarmissir er víða snilldarlega þýtt kvæði. Jón kunni ekki ensku og þýddi fyrstu bækurnar úr dönsku en fékk svo í hendur þýska þýðingu sem var betri en sú danska og hafði hana þaðan í frá til hliðsjónar. Fyrstu tvær bækur þýðingarinnar voru prentaðar í Ritum Lærdómslistafélagsins 1794-1796 en Paradísarmissir var prentaður í heild að Jóni látnum 1828. Kvæði Miltons fjallar um brottrekstur Adams og Evu úr aldingarðinum Eden og hefur syndafallið að þungamiðju. Jón notar fornyrðislagið eins og Benedikt Gröndal eldri (1762-1825) gerði í þýðingum sínum en kvæðabálkur Miltons er ortur undir stakhendu (e. blank verse). Segja má að Jón hafi átt mikinn þátt í því að endurnýja íslenska ljóðrænu og sannfæra fólk um að hún væri ennþá til.
Frumort ljóð Jóns eru full af leik og stríðni. Magnús Stephensen upplýsingarmaður hafði gefið út nýja sálmabók 1801 sem var í háði kölluð Leirgerður (hún kom út í Leirárgörðum en leir er lélegur skáldskapur). Magnús ýmist endurbætti eða hafnaði sálmum Jóns að honum forspurðum en hann svaraði fyrir sig með því að yrkja mergjaðar vísur um leirburðinn í sálmabókinni. Magnús fyrirgaf séra Jóni þessar yrkingar enda orti skáldið iðrunarkvæði til hans, hina bljúgu Bragarbót. Bægisárskáldið hafði áður ort mikil kvæði um upplýsinguna sem einkennast af táknrænu tali um ljósið og sigur þess yfir myrkrinu sem hefur verið Magnúsi mjög að skapi.
Jón á Bægisá hafði ríka samúð með öllu sem anda dregur eins og sjá má á eftirmælum hans um ýmis dýr. Viðkvæmur tregi og góðleg gamansemi vega salt í þessum einstöku kvæðum og heiti þeirra eru lýsandi: Vakri-Skjóni, Um dauða mús í kirkju, Eftir spanskan hrút og Tittlings minning. Síðastnefnda kvæðið er ort um ellidauðan kanarífugl sem skáldið saknar sárlega: „Mjög er nú hljótt í söngva sæti! / Sá fór í burt er skemmta nam! / Er þá mitt fegurst eftirlæti orðið að dauðum tittlingsham? / Ó, gæti eg lifgað aftur þig! / Ó, hvað það mundi gleðja mig!“ (Jón Þorláksson, 366).
Mynd:
Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.
Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvað getið þið sagt mér um Jón Þorláksson frá Bægisá?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2022, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=12658.
Sveinn Yngvi Egilsson. (2022, 30. nóvember). Hvað getið þið sagt mér um Jón Þorláksson frá Bægisá? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=12658
Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvað getið þið sagt mér um Jón Þorláksson frá Bægisá?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2022. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=12658>.