Sólin Sólin Rís 05:33 • sest 21:22 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:14 • Sest 05:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:26 • Síðdegis: 23:41 í Reykjavík

Hvað er fornyrðislag?

Ármann Jakobsson

Kvæði lík eddukvæðum eru til á ýmsum germönskum tungumálum, svo sem fornensku og fornháþýsku. Enn er deilt um aldur hinnar fornensku Bjólfskviðu og fornháþýsku Hildibrandskviðu en bæði kvæðin eru þó bersýnilega undir sama samgermanska bragarhættinum og norræn kvæði á borð við Völuspá og Atlakviðu. Þannig eru eddukvæðin vissulega íslensk listgrein en einnig norræn og germönsk. Arftaki þessa sameiginlega bragarháttar hefur hlotið heitið fornyrðislag á íslensku.

Fornyrðislagi má í fljótu bragði lýsa þannig að hvert erindi sé átta ljóðlínur eða vísuorð sem stuðla tvö og tvö en hvert vísuorð er 4-5 atkvæði. Þetta er í raun sami háttur og er á germönsku kvæðunum sem hér voru nefnd og hann hefur líka fundist á rúnum sem ristar voru á 9. öld á Rök-steininum svokallaða í Svíþjóð sem fannst í kirkjuvegg frá miðöldum snemma á 19. öld. Því er þessi háttur greinilega eldri en landnám Íslands. Á íslenskum tíma virðist hann hins vegar hafa þróast í átt til æ meiri reglu bæði hvað varðar fjölda vísuorða í erindi og fjölda atkvæða í vísuorði. Til verður ívið reglulegra afbrigðið málaháttur með fimm vísuorðum. Þá mynduðust síðar afbrigði háttarins sem eru notuð í dróttkvæðum (kviðuháttur, toglag og haðarlag).

Rök-steinninn svokallaði er frá upphafi 9. aldar. Á honum eru fallegar rúnir og þar á meðal þessar línur sem eru augsýnilega fornyrðislag: Réð Þjóðríkr / hinn þormóði, / stillir flotna, / strǫndu Hreiðmarar. / Sitr nú gǫrr / á gota sínum, / skildi umb fatlaðr, / skati Mæringa.

Samgermönsku tengslin sjást ekki aðeins í notkun sama bragarháttar, hliðstæðum umfjöllunarefnum eða svipuðum efnistökum heldur eru dæmi um sömu vísuorð í eddukvæðum og germönskum kveðskap. Þannig sést línan „jörð fannst æva né upphiminn“ í kvæðinu Völuspá[1] líka í fornháþýska trúarkvæðinu Wessobrunner Gebet (Braune, 82-83: „ero ni uuaf noh ufhimil“) sem er frá lokum 8. aldar og til í handriti frá upphafi 9. aldar.

Ár var alda
þat er arar gullu,
hnigu heilög vötn
af himinfjöllum;
þá hafði Helga
inn hugumstóra
Borghildr borit
í Brálundi.

Hér fyrir ofan er dæmi um fornyrðislag, upphaf Helgakviðu Hundingsbana I en í Konungsbók eru tvær Helgakviður Hundingsbana og þessi er nefnd I vegna þess að hún stendur fyrr í handritinu en er þó talin yngri en hin. Fyrsta vísuorðið kemur einnig fyrir í Völuspá eins og hún er í Snorra-Eddu (Ár var alda).

Tilvísun:
  1. ^ Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason (útg.), Eddukvæði I, Reykjavík 2014, bls. 292.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Ármann Jakobsson

prófessor við íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

28.11.2022

Spyrjandi

Peter Joel Streich

Tilvísun

Ármann Jakobsson. „Hvað er fornyrðislag?“ Vísindavefurinn, 28. nóvember 2022. Sótt 21. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=29163.

Ármann Jakobsson. (2022, 28. nóvember). Hvað er fornyrðislag? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=29163

Ármann Jakobsson. „Hvað er fornyrðislag?“ Vísindavefurinn. 28. nóv. 2022. Vefsíða. 21. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=29163>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er fornyrðislag?
Kvæði lík eddukvæðum eru til á ýmsum germönskum tungumálum, svo sem fornensku og fornháþýsku. Enn er deilt um aldur hinnar fornensku Bjólfskviðu og fornháþýsku Hildibrandskviðu en bæði kvæðin eru þó bersýnilega undir sama samgermanska bragarhættinum og norræn kvæði á borð við Völuspá og Atlakviðu. Þannig eru eddukvæðin vissulega íslensk listgrein en einnig norræn og germönsk. Arftaki þessa sameiginlega bragarháttar hefur hlotið heitið fornyrðislag á íslensku.

Fornyrðislagi má í fljótu bragði lýsa þannig að hvert erindi sé átta ljóðlínur eða vísuorð sem stuðla tvö og tvö en hvert vísuorð er 4-5 atkvæði. Þetta er í raun sami háttur og er á germönsku kvæðunum sem hér voru nefnd og hann hefur líka fundist á rúnum sem ristar voru á 9. öld á Rök-steininum svokallaða í Svíþjóð sem fannst í kirkjuvegg frá miðöldum snemma á 19. öld. Því er þessi háttur greinilega eldri en landnám Íslands. Á íslenskum tíma virðist hann hins vegar hafa þróast í átt til æ meiri reglu bæði hvað varðar fjölda vísuorða í erindi og fjölda atkvæða í vísuorði. Til verður ívið reglulegra afbrigðið málaháttur með fimm vísuorðum. Þá mynduðust síðar afbrigði háttarins sem eru notuð í dróttkvæðum (kviðuháttur, toglag og haðarlag).

Rök-steinninn svokallaði er frá upphafi 9. aldar. Á honum eru fallegar rúnir og þar á meðal þessar línur sem eru augsýnilega fornyrðislag: Réð Þjóðríkr / hinn þormóði, / stillir flotna, / strǫndu Hreiðmarar. / Sitr nú gǫrr / á gota sínum, / skildi umb fatlaðr, / skati Mæringa.

Samgermönsku tengslin sjást ekki aðeins í notkun sama bragarháttar, hliðstæðum umfjöllunarefnum eða svipuðum efnistökum heldur eru dæmi um sömu vísuorð í eddukvæðum og germönskum kveðskap. Þannig sést línan „jörð fannst æva né upphiminn“ í kvæðinu Völuspá[1] líka í fornháþýska trúarkvæðinu Wessobrunner Gebet (Braune, 82-83: „ero ni uuaf noh ufhimil“) sem er frá lokum 8. aldar og til í handriti frá upphafi 9. aldar.

Ár var alda
þat er arar gullu,
hnigu heilög vötn
af himinfjöllum;
þá hafði Helga
inn hugumstóra
Borghildr borit
í Brálundi.

Hér fyrir ofan er dæmi um fornyrðislag, upphaf Helgakviðu Hundingsbana I en í Konungsbók eru tvær Helgakviður Hundingsbana og þessi er nefnd I vegna þess að hún stendur fyrr í handritinu en er þó talin yngri en hin. Fyrsta vísuorðið kemur einnig fyrir í Völuspá eins og hún er í Snorra-Eddu (Ár var alda).

Tilvísun:
  1. ^ Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason (útg.), Eddukvæði I, Reykjavík 2014, bls. 292.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum....