Sólin Sólin Rís 04:51 • sest 22:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 05:07 • Sest 14:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:00 • Síðdegis: 14:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:33 • Síðdegis: 20:56 í Reykjavík

Hvað er slaufun og hvað er slaufunarmenning?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Á undanförnum árum hefur orðið ákveðin samfélagsvakning í þeim skilningi að framfaraskref hafa verið tekin í málefnum ýmissa jaðarsettra hópa. Þar má til dæmis nefna réttindi hinsegin fólks og vaxandi umræðu um kynþáttahyggju. Eins og flest hafa orðið vör við hefur umræða um kynferðisofbeldi og áreitni sem og kynbundið ofbeldi færst mjög í aukana og kröfur um úrbætur í þeim efnum hafa orðið æ háværari. Í þessu samhengi hefur svo stundum verið talað um slaufunarmenningu þegar einhverjum þykir of langt vera gengið í umræddum kröfum.

Íslenska orðið ‚slaufun‘ er þýðing á enska orðinu ‚cancel‘ og ‚slaufunarmenning‘ er þýðing á ‚cancel culture‘. Það sem er átt við með slaufun er að hætt sé við eitthvað sem annars stóð til. Ef til vill mætti allt eins kalla það aflýsingu eða afturköllun en algengast hefur verið að tala um slaufun. Þegar einhverjum er slaufað merkir það að viðkomandi hafi notið virðingar, áheyrnar, valda eða athygli í samfélaginu, til dæmis verið í stjórnunarstöðu, haft greiðan aðgang að fjölmiðlum, verið frægur og jafnvel álitinn fyrirmynd annarra, en að svo hafi eitthvað gert að verkum að hann veki vanþóknun annarra og frami hans sé stöðvaður. Þetta hugtak er fremur nýtt af nálinni og er talið eiga rætur að rekja til orðræðu baráttufólks fyrir réttindum svartra á Twitter í kringum miðjan 2. áratug þessarar aldar.

Það sem hefur verið kallað slaufun getur tekið á sig mismunandi myndir og komið til af mismunandi ástæðum. Þau tilvik sem við heyrum oftast um eru tvenns konar og að ýmsu leyti ólík. Annars vegar er um að ræða þau sem eru gagnrýnd og sniðgengin vegna orðræðu. Þar má nefna skrif í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum, grínista sem þykja fara yfir strikið eða fræðimenn sem eru ekki lengur velkomnir með fyrirlestra við háskóla eða aðrar stofnanir. Dæmi sem oft hefur verið nefnt nýlega er breski rithöfundurinn J.K. Rowling, höfundur hinna vinsælu bóka um Harry Potter, sem hefur verið gagnrýnd harðlega og sniðgengin af ákveðnum hópum vegna skrifa á samfélagsmiðlum sem þykja transfóbísk. Hins vegar er um að ræða fræga eða valdamikla einstaklinga sem hafa orðið uppvísir að alvarlegum hegðunarbrotum, eins og kynferðisofbeldi, sem hafa í kjölfarið misst atvinnu eða önnur tækifæri og ekki verið velkomnir á opinberum vettvangi. Rétt er að vekja athygli á því að með slaufun er átt við óformlega refsingu sem ekki á sér stað á vegum hins formlega dómskerfis. Í sumum tilvikum getur slaufun átt sér stað vegna brota sem einnig er tekið á innan dómskerfisins en það þarf alls ekki að vera og hún er ekki það sama og formleg refsing á vegum hins opinbera, á borð við fangelsisvist eða sektargreiðslur. Slaufun er þannig í eðli sínu eitthvað sem felst í viðbrögðum almennings með óformlegum hætti.

Með slaufun er átt við óformlega refsingu sem ekki á sér stað á vegum hins formlega dómskerfis. Slaufun er þannig í eðli sínu eitthvað sem felst í viðbrögðum almennings með óformlegum hætti. Þegar talað er um slaufunarmenningu er átt við að það sé sérstakt einkenni á tíðaranda okkar að fólk verði fyrir slaufun, jafnvel við minnsta tilefni og oft með óverðskulduðum hætti.

Þegar talað er um slaufunarmenningu er átt við að það sé sérstakt einkenni á tíðaranda okkar að fólk verði fyrir slaufun, jafnvel við minnsta tilefni og oft með óverðskulduðum hætti, og að þetta sé ákveðin ógn við æskilega lifnaðarhætti eða sjálfsagt frelsi okkar. Þannig er sjaldan talað um slaufunarmenningu nema af þeim sem telja að slaufun sé slæm og ósanngjörn og að þarna sé um samfélagsmein að ræða sem þurfi að uppræta. Deilt hefur verið um hvort þetta sé rétt mat.

Auðvitað er ekkert nýtt við það að fólk sé útilokað með einhverjum hætti eða missi fríðindi eða forréttindi í kjölfar hneykslismáls, eftir að hafa brotið af sér eða áunnið sér vanþóknun samfélagsins í kringum sig. Þannig hefur verið talað um að einhver hafi glatað mannorði sínu og þurft að hlíta afleiðingum þess. Allur gangur hefur verið á því hvort við teljum að slíkt hafi komið til með réttmætum hætti, við þekkjum eflaust ýmis dæmi bæði af fólki sem okkur þykir hafa hegðað sér með óviðunandi hætti þannig að sjálfsagt væri að það yrði látið víkja úr ábyrgðarstöðu en einnig af fólki sem varð fyrir ómaklegum orðrómi og glataði stöðu sinni og mannorði án þess að hafa í raun gert nokkuð sem okkur þykir slæmt. Hin óformlega refsing sem hlýst af mannorðsmissi getur þannig ýmist verið réttmæt eða rangmæt og eins getur verið misjafnt hvort hún sé hæfilega mikil miðað við tilefnið. Þetta er nokkuð sem er erfitt að eiga við, einmitt vegna þess að þarna er ekki um að ræða formlegt dómsferli heldur óformleg og yfirleitt óskipulögð viðbrögð almennings. Eins er yfirleitt ekki um það að ræða að þau sem verða fyrir mannorðsmissinum eða slaufuninni glati réttindum sem hægt er að fara fram á heldur glata þau fremur fríðindum eða forréttindum. Ekki er hægt að krefjast vinsælda, virðingar eða trausts; þetta eru fríðindi sem ráðast af afstöðu annarra til okkar.

Því hefur stundum verið haldið fram að áhyggjur af slaufunarmenningu séu dæmi um svokallað siðfár (e. moral panic), sem er hugtak sem upphaflega var sett fram af félagsfræðingnum Stanley Cohen (1942–2013). Siðfár er útbreiddur, ýktur ótti við að mikilvægum gildum og hagsmunum samfélagsins standi ógn af tilteknum hópi fólks, tiltekinni hegðun eða öðru ástandi. Óttinn þarf ekki endilega að vera með öllu tilefnislaus en þegar um siðfár er að ræða er hin meinta hætta og/eða möguleg áhrif hennar stórlega ofmetin. Dæmi um siðfár í íslenskri sögu er hið svokallaða „ástand“ á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar sem þótti skapast af því að sumar konur ættu í ástarsamböndum við breska eða bandaríska hermenn. Deila má um hvort siðfárshugtakið eigi réttilega við um áhyggjur af slaufunarmenningu, enda kann fólk að vera ósammála um hvort áhyggjurnar séu ýktar eða ekki og hvort gildin sem slaufunin þykir ógna séu mikilvæg.

Heimildir og frekara lesefni:

Mynd:

Upprunalega spurningin var: Hvað er slaufunarmenning?

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

22.4.2022

Spyrjandi

Sara Bergdís Albertsdóttir

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er slaufun og hvað er slaufunarmenning?“ Vísindavefurinn, 22. apríl 2022. Sótt 3. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=83487.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2022, 22. apríl). Hvað er slaufun og hvað er slaufunarmenning? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=83487

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er slaufun og hvað er slaufunarmenning?“ Vísindavefurinn. 22. apr. 2022. Vefsíða. 3. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=83487>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er slaufun og hvað er slaufunarmenning?
Á undanförnum árum hefur orðið ákveðin samfélagsvakning í þeim skilningi að framfaraskref hafa verið tekin í málefnum ýmissa jaðarsettra hópa. Þar má til dæmis nefna réttindi hinsegin fólks og vaxandi umræðu um kynþáttahyggju. Eins og flest hafa orðið vör við hefur umræða um kynferðisofbeldi og áreitni sem og kynbundið ofbeldi færst mjög í aukana og kröfur um úrbætur í þeim efnum hafa orðið æ háværari. Í þessu samhengi hefur svo stundum verið talað um slaufunarmenningu þegar einhverjum þykir of langt vera gengið í umræddum kröfum.

Íslenska orðið ‚slaufun‘ er þýðing á enska orðinu ‚cancel‘ og ‚slaufunarmenning‘ er þýðing á ‚cancel culture‘. Það sem er átt við með slaufun er að hætt sé við eitthvað sem annars stóð til. Ef til vill mætti allt eins kalla það aflýsingu eða afturköllun en algengast hefur verið að tala um slaufun. Þegar einhverjum er slaufað merkir það að viðkomandi hafi notið virðingar, áheyrnar, valda eða athygli í samfélaginu, til dæmis verið í stjórnunarstöðu, haft greiðan aðgang að fjölmiðlum, verið frægur og jafnvel álitinn fyrirmynd annarra, en að svo hafi eitthvað gert að verkum að hann veki vanþóknun annarra og frami hans sé stöðvaður. Þetta hugtak er fremur nýtt af nálinni og er talið eiga rætur að rekja til orðræðu baráttufólks fyrir réttindum svartra á Twitter í kringum miðjan 2. áratug þessarar aldar.

Það sem hefur verið kallað slaufun getur tekið á sig mismunandi myndir og komið til af mismunandi ástæðum. Þau tilvik sem við heyrum oftast um eru tvenns konar og að ýmsu leyti ólík. Annars vegar er um að ræða þau sem eru gagnrýnd og sniðgengin vegna orðræðu. Þar má nefna skrif í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum, grínista sem þykja fara yfir strikið eða fræðimenn sem eru ekki lengur velkomnir með fyrirlestra við háskóla eða aðrar stofnanir. Dæmi sem oft hefur verið nefnt nýlega er breski rithöfundurinn J.K. Rowling, höfundur hinna vinsælu bóka um Harry Potter, sem hefur verið gagnrýnd harðlega og sniðgengin af ákveðnum hópum vegna skrifa á samfélagsmiðlum sem þykja transfóbísk. Hins vegar er um að ræða fræga eða valdamikla einstaklinga sem hafa orðið uppvísir að alvarlegum hegðunarbrotum, eins og kynferðisofbeldi, sem hafa í kjölfarið misst atvinnu eða önnur tækifæri og ekki verið velkomnir á opinberum vettvangi. Rétt er að vekja athygli á því að með slaufun er átt við óformlega refsingu sem ekki á sér stað á vegum hins formlega dómskerfis. Í sumum tilvikum getur slaufun átt sér stað vegna brota sem einnig er tekið á innan dómskerfisins en það þarf alls ekki að vera og hún er ekki það sama og formleg refsing á vegum hins opinbera, á borð við fangelsisvist eða sektargreiðslur. Slaufun er þannig í eðli sínu eitthvað sem felst í viðbrögðum almennings með óformlegum hætti.

Með slaufun er átt við óformlega refsingu sem ekki á sér stað á vegum hins formlega dómskerfis. Slaufun er þannig í eðli sínu eitthvað sem felst í viðbrögðum almennings með óformlegum hætti. Þegar talað er um slaufunarmenningu er átt við að það sé sérstakt einkenni á tíðaranda okkar að fólk verði fyrir slaufun, jafnvel við minnsta tilefni og oft með óverðskulduðum hætti.

Þegar talað er um slaufunarmenningu er átt við að það sé sérstakt einkenni á tíðaranda okkar að fólk verði fyrir slaufun, jafnvel við minnsta tilefni og oft með óverðskulduðum hætti, og að þetta sé ákveðin ógn við æskilega lifnaðarhætti eða sjálfsagt frelsi okkar. Þannig er sjaldan talað um slaufunarmenningu nema af þeim sem telja að slaufun sé slæm og ósanngjörn og að þarna sé um samfélagsmein að ræða sem þurfi að uppræta. Deilt hefur verið um hvort þetta sé rétt mat.

Auðvitað er ekkert nýtt við það að fólk sé útilokað með einhverjum hætti eða missi fríðindi eða forréttindi í kjölfar hneykslismáls, eftir að hafa brotið af sér eða áunnið sér vanþóknun samfélagsins í kringum sig. Þannig hefur verið talað um að einhver hafi glatað mannorði sínu og þurft að hlíta afleiðingum þess. Allur gangur hefur verið á því hvort við teljum að slíkt hafi komið til með réttmætum hætti, við þekkjum eflaust ýmis dæmi bæði af fólki sem okkur þykir hafa hegðað sér með óviðunandi hætti þannig að sjálfsagt væri að það yrði látið víkja úr ábyrgðarstöðu en einnig af fólki sem varð fyrir ómaklegum orðrómi og glataði stöðu sinni og mannorði án þess að hafa í raun gert nokkuð sem okkur þykir slæmt. Hin óformlega refsing sem hlýst af mannorðsmissi getur þannig ýmist verið réttmæt eða rangmæt og eins getur verið misjafnt hvort hún sé hæfilega mikil miðað við tilefnið. Þetta er nokkuð sem er erfitt að eiga við, einmitt vegna þess að þarna er ekki um að ræða formlegt dómsferli heldur óformleg og yfirleitt óskipulögð viðbrögð almennings. Eins er yfirleitt ekki um það að ræða að þau sem verða fyrir mannorðsmissinum eða slaufuninni glati réttindum sem hægt er að fara fram á heldur glata þau fremur fríðindum eða forréttindum. Ekki er hægt að krefjast vinsælda, virðingar eða trausts; þetta eru fríðindi sem ráðast af afstöðu annarra til okkar.

Því hefur stundum verið haldið fram að áhyggjur af slaufunarmenningu séu dæmi um svokallað siðfár (e. moral panic), sem er hugtak sem upphaflega var sett fram af félagsfræðingnum Stanley Cohen (1942–2013). Siðfár er útbreiddur, ýktur ótti við að mikilvægum gildum og hagsmunum samfélagsins standi ógn af tilteknum hópi fólks, tiltekinni hegðun eða öðru ástandi. Óttinn þarf ekki endilega að vera með öllu tilefnislaus en þegar um siðfár er að ræða er hin meinta hætta og/eða möguleg áhrif hennar stórlega ofmetin. Dæmi um siðfár í íslenskri sögu er hið svokallaða „ástand“ á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar sem þótti skapast af því að sumar konur ættu í ástarsamböndum við breska eða bandaríska hermenn. Deila má um hvort siðfárshugtakið eigi réttilega við um áhyggjur af slaufunarmenningu, enda kann fólk að vera ósammála um hvort áhyggjurnar séu ýktar eða ekki og hvort gildin sem slaufunin þykir ógna séu mikilvæg.

Heimildir og frekara lesefni:

Mynd:

Upprunalega spurningin var: Hvað er slaufunarmenning?...