Hér er væntanlega verið að vísa til þumalputtareglu sem Ronald nokkur Canakaris beitir við val á hlutabréfum. Canakaris þessi stjórnar nokkrum bandarískum verðbréfasjóðum og starfar hjá fyrirtæki sem heitir Montag & Caldwell.
Canakaris einbeitir sér að stórum fyrirtækjum, með markaðsvirði umfram þrjá milljarða dollara. Hann reynir að finna fyrirtæki sem líklegt er að skili vaxandi hagnaði í framtíðinni og hafa skilað að minnsta kosti 10% vexti hagnaðar undanfarin ár. Með því að reikna út svokallað núvirði hagnaðar fyrirtækjanna miðað við spá hans um hagnað næsta áratug finnur hann út áætlað virði þeirra. Ef þetta mat hans á virði fyrirtækis er að minnsta kosti fjórðungi hærra en markaðsverð þess nú þá telur hann góð kaup í fyrirtækinu og kaupir bréf í því fyrir hönd sjóða sinna. Hann selur svo bréfin aftur ef markaðsverð þeirra er orðið jafnhátt eða hærra og mat hans á virði þeirra.
Þessi þumalputtaregla hefur skilað þokkalegum árangri. Helsti sjóðurinn sem Canakaris stjórnar hefur undanfarinn áratug skilað ávöxtun sem er um einu og hálfu prósentustigi hærri á ári en ávöxtun 500 stærstu hlutafélaga Bandaríkjanna að meðaltali.
Áhugamenn um hlutabréf gera sumir hverjir mikið úr svona þumalputtareglum en hafa ber í huga að það þarf ekki að gefa nein fyrirheit um árangur í framtíð þótt regla virðist hafa skilað góðum árangri í fortíð. Því fer fjarri að árangur Canakaris sé það miklu betri en markaðarins að meðaltali að munurinn sé tölfræðilega marktækur.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvernig geta fyrirtæki sem rekin hafa verið með tapi í mörg ár verið miklu meira virði en fyrirtæki sem skila góðri afkomu? eftir Lárus Bollason
- Hvaða hlutabréf er best að kaupa? eftir Gylfa Magnússon
- Hversu lengi getur hækkun á hlutabréfum fyrirtækja haldið áfram? Endar ekki með því að eitthvað springur? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað eru hlutabréfavísitölur? eftir Gylfa Magnússon
- Stjórnar græðgi hlutabréfaverði? eftir Gylfa Magnússon