Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað á Þjóðminjasafnið mörg vopn?

Þetta er eiginlega spurning sem erfitt eða jafnvel ómögulegt er að svara. Fyrir því liggja helst tvær ástæður, annars vegar sú stóra spurning: hvað er vopn? og hins vegar er það svo, sérstaklega með mjög gamla gripi, að vonlaust er að vita hvort þeir voru nýttir sem vopn eða verkfæri. Erfitt er að segja til um það hvort einhver ákveðinn hnífur hafi verið nýttur sem vopn eða verkfæri.

Þegar leitað er í skráningarkerfi Þjóðminjasafnsins eftir orðinu "vopn" koma upp á fimmta hundrað gripir. Það má þó fullyrða að eiginlegur fjöldi er ekki svo mikill. Það er ótal margt sem spilar þarna inn í. Til dæmis er í safninu varðveittur nokkur fjöldi „yngri“ sverða, korða, byssustinga, hnífa, rýtinga og fleiri gripa sem aldrei voru nýttir til annars en skrauts, til dæmis sem hlutar einkennisbúninga. Í safninu eru og varðveittar margar fallbyssukúlur. Eru þær vopn?

Hátt í 500 gripir koma upp þegar leitað er að orðinu vopn í skráningarkerfi Þjóðminjasafnsins.

Inn í töluna (um 450) teljast líka ýmsar eftirlíkingar vopna og líkön. Til að nefna eilítið raunsærri tölu má í það minnsta lækka töluna um 100 og skjóta á um 300-350 vopn. Eru þá meðtaldir allir vopnhlutar, svo sem spjótsoddar, döggskór, sverðshjölt, fallbyssukúlur og svo framvegis. Reyndar eru hnífar undanskildir. Mikill fjöldi hnífa er varðveittur í Þjóðminjasafninu en gera verður ráð fyrir að þeir hafi alla jafna verið verkfæri, ekki vopn. Þá má geta þess að safnið geymir steinaldarvopn (hefðbundin „tinnusteinsvopn“), flest komin frá Danmörku. Fjöldi þeirra er á bilinu 150-200, sem bætist þá við fyrri tölu.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um vopn ýmissa safna í skráningarkerfinu Sarpur. Hafi einstakir gripir verið aldursgreindir er aldurinn skráður þar.

Mynd:
  • Myndin er af sverðum í vörslu Þjóðminjasafns Íslands.

Útgáfudagur

17.2.2014

Spyrjandi

Pétur Ingimarsson

Höfundur

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir

sérfræðingur í munasafni Þjóðminjasafns Íslands

Tilvísun

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir. „Hvað á Þjóðminjasafnið mörg vopn?“ Vísindavefurinn, 17. febrúar 2014. Sótt 21. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=13403.

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir. (2014, 17. febrúar). Hvað á Þjóðminjasafnið mörg vopn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=13403

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir. „Hvað á Þjóðminjasafnið mörg vopn?“ Vísindavefurinn. 17. feb. 2014. Vefsíða. 21. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=13403>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gísli Pálsson

1949

Gísli Pálsson er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa spannað breitt svið, allt frá íslenskum fornbókmenntum til nútíma erfðafræði. Gísli hefur í ritum sínum fjallað um mörg viðfangsefni, oft á mörkum ólíkra fræðigreina, svo sem kvótakerfið, nafnahefðir og líftækni.