Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær voru lög um bann við ættarnöfnum samþykkt á Alþingi? Hvað yrði gert ef ég byggi til mitt eigið ættarnafn í dag?

Halldór Gunnar Haraldsson

Ættarnöfn komu mjög seint til sögunnar hér á landi og má heita að Íslendingar einir norrænna þjóða haldi hinum forna sið að kenna sig til föður eða móður. Er talið að fyrstu ættarnöfnin hér á landi séu frá 17. öld en þeim fjölgaði mjög á 19. öld vegna danskra áhrifa. Árið 1881 fluttu tveir alþingismenn frumvarp til laga um mannanöfn, sem meðal annars var ætlað að stemma stigu við notkun ættarnafna. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu. Þann 1. janúar árið 1915 tóku hins vegar gildi lög nr. 41/1913 um nýnefni. Var mönnum með þeim lögum heimilað að taka upp ný ættarnöfn.

Árið 1925 voru sett lög nr. 54/1925, einkum fyrir tilstuðlan Bjarna Jónssonar frá Vogi. Var hann mjög andsnúinn ættarnöfnunum sem voru mjög í tísku þegar þarna var komið sögu. Þó var þeim íslenskum þegnum og niðjum þeirra sem báru ættarnöfn, sem eldri voru en frá þeim tíma er lög nr. 41/1913 gengu í gildi, leyft að halda þeim, enda hefðu þau ættarnöfn, sem yngri voru en frá síðastliðnum aldamótum, verið tekin upp með löglegri heimild.

Heita má að lög nr. 54/1925 hafi verið dauður bókstafur því lítið sem ekkert var farið eftir þeim. Það var síðan með lögum nr. 37/1991 sem festu var komið á nafngiftir. Gömul ættarnöfn, lögleg sem ólögleg, voru leyfð, en bann lagt við upptöku nýrra ættarnafna. Nú gilda lög nr. 45/1996 um mannanöfn og segir í 7. mgr. 8. gr. þeirra að óheimilt sé að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.

Spurt er hvað yrði gert ef einhver byggi til sitt eigið ættarnafn í dag. Slíkt nafn hlyti ekki samþykki mannanafnanefndar enda ólöglegt. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 45/1996 er skylt að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess. Í 1. mgr. 25. gr. laganna er Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, heimilað að leggja dagsektir á forsjármenn barns sinni þeir ekki áskorun um að gefa barninu löglegt nafn. Má gera aðför til fullnustu dagsektanna. Ef einhver byggi til ættarnafn handa sér eða barni sínu yrði það því ekki skráð hjá Hagstofunni en vissulega yrði lítið hægt að gera við því þótt menn kölluðu sig slíku nafni. Alkunna er að fólk beri ólögleg ættarnöfn, en þau eru þá ekki skráð hjá Hagstofunni og hafa í sjálfu sér ekkert lagalegt gildi.

Heimild

Páll Sigurðsson, Lagaþættir III, útg. 1994

Höfundur

Útgáfudagur

23.3.2001

Spyrjandi

Gunnar Sigurðsson

Tilvísun

Halldór Gunnar Haraldsson. „Hvenær voru lög um bann við ættarnöfnum samþykkt á Alþingi? Hvað yrði gert ef ég byggi til mitt eigið ættarnafn í dag?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2001, sótt 20. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1405.

Halldór Gunnar Haraldsson. (2001, 23. mars). Hvenær voru lög um bann við ættarnöfnum samþykkt á Alþingi? Hvað yrði gert ef ég byggi til mitt eigið ættarnafn í dag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1405

Halldór Gunnar Haraldsson. „Hvenær voru lög um bann við ættarnöfnum samþykkt á Alþingi? Hvað yrði gert ef ég byggi til mitt eigið ættarnafn í dag?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2001. Vefsíða. 20. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1405>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær voru lög um bann við ættarnöfnum samþykkt á Alþingi? Hvað yrði gert ef ég byggi til mitt eigið ættarnafn í dag?
Ættarnöfn komu mjög seint til sögunnar hér á landi og má heita að Íslendingar einir norrænna þjóða haldi hinum forna sið að kenna sig til föður eða móður. Er talið að fyrstu ættarnöfnin hér á landi séu frá 17. öld en þeim fjölgaði mjög á 19. öld vegna danskra áhrifa. Árið 1881 fluttu tveir alþingismenn frumvarp til laga um mannanöfn, sem meðal annars var ætlað að stemma stigu við notkun ættarnafna. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu. Þann 1. janúar árið 1915 tóku hins vegar gildi lög nr. 41/1913 um nýnefni. Var mönnum með þeim lögum heimilað að taka upp ný ættarnöfn.

Árið 1925 voru sett lög nr. 54/1925, einkum fyrir tilstuðlan Bjarna Jónssonar frá Vogi. Var hann mjög andsnúinn ættarnöfnunum sem voru mjög í tísku þegar þarna var komið sögu. Þó var þeim íslenskum þegnum og niðjum þeirra sem báru ættarnöfn, sem eldri voru en frá þeim tíma er lög nr. 41/1913 gengu í gildi, leyft að halda þeim, enda hefðu þau ættarnöfn, sem yngri voru en frá síðastliðnum aldamótum, verið tekin upp með löglegri heimild.

Heita má að lög nr. 54/1925 hafi verið dauður bókstafur því lítið sem ekkert var farið eftir þeim. Það var síðan með lögum nr. 37/1991 sem festu var komið á nafngiftir. Gömul ættarnöfn, lögleg sem ólögleg, voru leyfð, en bann lagt við upptöku nýrra ættarnafna. Nú gilda lög nr. 45/1996 um mannanöfn og segir í 7. mgr. 8. gr. þeirra að óheimilt sé að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.

Spurt er hvað yrði gert ef einhver byggi til sitt eigið ættarnafn í dag. Slíkt nafn hlyti ekki samþykki mannanafnanefndar enda ólöglegt. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 45/1996 er skylt að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess. Í 1. mgr. 25. gr. laganna er Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, heimilað að leggja dagsektir á forsjármenn barns sinni þeir ekki áskorun um að gefa barninu löglegt nafn. Má gera aðför til fullnustu dagsektanna. Ef einhver byggi til ættarnafn handa sér eða barni sínu yrði það því ekki skráð hjá Hagstofunni en vissulega yrði lítið hægt að gera við því þótt menn kölluðu sig slíku nafni. Alkunna er að fólk beri ólögleg ættarnöfn, en þau eru þá ekki skráð hjá Hagstofunni og hafa í sjálfu sér ekkert lagalegt gildi.

Heimild

Páll Sigurðsson, Lagaþættir III, útg. 1994

...