Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju rennur engin jökulá úr Snæfellsjökli?

Oddur Sigurðsson

Í riti sínu Enarrationes1 frá 1749 taldi Eggert Ólafsson Snæfellsjökul og Glámu merkilega lík fjöll. Bæði væru miklir jöklar en frá hvorugu runnu jökulár. Nú á dögum þykja þetta mjög ólík fjöll. Snæfellsjökull er jökultyppt eldkeila og meðal stæðilegustu eldfjalla landsins en Gláma er tiltölulega flöt háslétta úr 14 milljón ára gömlu basalti og þar er ekki jökull. Nú gæti hugsast að á dögum Eggerts hefði verið jökull á Glámu en vissa hans fyrir því að þaðan rynnu ekki jökulár tekur nánast af tvímæli um að þar var ekki eiginlegur jökull.Snæfellsjökull 18. október 2001. Háahraun er fyrir miðri mynd en Dagverðará þar til hægri. Lóndrangar og Þúfubjarg eru neðst til vinstri en Öndverðarnes efst til vinstri.

Allt önnur skýring er á því að engin jökulá rennur frá Snæfellsjökli. Þar eru hraun á yfirborði, ung og svo gropin að mest allt vatn hripar niður jafnharðan, bæði úrkoma og leysingarvatn frá jöklinum. Ekki er samt loku skotið fyrir að í mestu leysingum síðsumars renni jökulvatn í vatnsföll sem frá Snæfellsjökli koma og það er ekki svo sjaldséð. Meðan vikur var unninn við jökulinn var honum fleytt áleiðis niður hlíðina með leysingarvatni frá jöklinum í Sandalæk, sem fellur fram af Sölvahamri, og verður hann á stundum mjög moraður af jökli. Jökullitur hefur og oft sést í Barnaá sem rennur í Hamraendalæk. Í Stapagili hjá Stapafelli, í Dagverðará vestan við Hellna og Gufuskálamóðu innan við Öndverðarnes sem og fleiri vatnsföll kemur oft jökulvatn síðsumars.

Allvatnsmiklar lindir koma á nokkrum stöðum undan rótum Snæfellsjökuls svo sem Sleggjubeina sem rennur í Breiðuvík. Mörg hinna vatnsfallanna, sem nefnd eru hér að ofan til dæmis Dagverðará og Gufuskálamóða eru að stórum hluta lindár. Vitna þær um að mikið vatn hripar niður í jörð ofar í hlíðum. Einnig er vitað um ferskvatnslindir neðan sjávarmáls skammt undan strönd.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: Oddur Sigurðsson

Neðanmálsgrein:
  • Fullur titill verksins er miklu lengri, hann má sjá hér í Gegni.

Höfundur

jarðfræðingur hjá Orkustofnun

Útgáfudagur

14.11.2008

Spyrjandi

Haukur Magnússon

Tilvísun

Oddur Sigurðsson. „Af hverju rennur engin jökulá úr Snæfellsjökli?“ Vísindavefurinn, 14. nóvember 2008, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=15135.

Oddur Sigurðsson. (2008, 14. nóvember). Af hverju rennur engin jökulá úr Snæfellsjökli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=15135

Oddur Sigurðsson. „Af hverju rennur engin jökulá úr Snæfellsjökli?“ Vísindavefurinn. 14. nóv. 2008. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=15135>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju rennur engin jökulá úr Snæfellsjökli?
Í riti sínu Enarrationes1 frá 1749 taldi Eggert Ólafsson Snæfellsjökul og Glámu merkilega lík fjöll. Bæði væru miklir jöklar en frá hvorugu runnu jökulár. Nú á dögum þykja þetta mjög ólík fjöll. Snæfellsjökull er jökultyppt eldkeila og meðal stæðilegustu eldfjalla landsins en Gláma er tiltölulega flöt háslétta úr 14 milljón ára gömlu basalti og þar er ekki jökull. Nú gæti hugsast að á dögum Eggerts hefði verið jökull á Glámu en vissa hans fyrir því að þaðan rynnu ekki jökulár tekur nánast af tvímæli um að þar var ekki eiginlegur jökull.Snæfellsjökull 18. október 2001. Háahraun er fyrir miðri mynd en Dagverðará þar til hægri. Lóndrangar og Þúfubjarg eru neðst til vinstri en Öndverðarnes efst til vinstri.

Allt önnur skýring er á því að engin jökulá rennur frá Snæfellsjökli. Þar eru hraun á yfirborði, ung og svo gropin að mest allt vatn hripar niður jafnharðan, bæði úrkoma og leysingarvatn frá jöklinum. Ekki er samt loku skotið fyrir að í mestu leysingum síðsumars renni jökulvatn í vatnsföll sem frá Snæfellsjökli koma og það er ekki svo sjaldséð. Meðan vikur var unninn við jökulinn var honum fleytt áleiðis niður hlíðina með leysingarvatni frá jöklinum í Sandalæk, sem fellur fram af Sölvahamri, og verður hann á stundum mjög moraður af jökli. Jökullitur hefur og oft sést í Barnaá sem rennur í Hamraendalæk. Í Stapagili hjá Stapafelli, í Dagverðará vestan við Hellna og Gufuskálamóðu innan við Öndverðarnes sem og fleiri vatnsföll kemur oft jökulvatn síðsumars.

Allvatnsmiklar lindir koma á nokkrum stöðum undan rótum Snæfellsjökuls svo sem Sleggjubeina sem rennur í Breiðuvík. Mörg hinna vatnsfallanna, sem nefnd eru hér að ofan til dæmis Dagverðará og Gufuskálamóða eru að stórum hluta lindár. Vitna þær um að mikið vatn hripar niður í jörð ofar í hlíðum. Einnig er vitað um ferskvatnslindir neðan sjávarmáls skammt undan strönd.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: Oddur Sigurðsson

Neðanmálsgrein:
  • Fullur titill verksins er miklu lengri, hann má sjá hér í Gegni.
...