Regnbogar eru af ýmsum stærðum og gerðum. Hvers vegna spanna þeir mismargar gráður? (Sveinn Guðmarsson) Af hverju er regnbogi bogalaga? (Sveinn Birkir Björnsson) Af hverju er regnboginn "bogi"? Af hverju er hann til dæmis ekki kassalaga eða spírall? (Kjartan Gunnþórsson) Er algengt að regnbogi myndi hring í kringum sólina? Ég sá það 10. ágúst síðastliðinn á Þingvöllum. (Gróa Pétursdóttir)Regnboga sjáum við þegar staðbundið skúraveður og sólskin fara saman og þá oftast þegar við erum sjálf á uppstyttusvæði. Ef skúraveðrið skilar sér ekki getum við gengið að regnboganum vísum í fossúða í sólskini. Þegar við horfum á regnbogann höfum við sólina í bakið.


Upphaflegu geislarnir koma allir frá sól og stefna á þann punkt sem er andstæður sólinni á himinkúlunni, séð frá okkur (raunar yfirleitt í stefnu niður í jörðina). Geislarnir frá regnboganum koma hins vegar allir til okkar undir fyrrnefndu horni miðað við þessa stefnu, en þeir punktar sem hafa slíka stefnu mynda einmitt boga. Þetta sést vel á myndum á vefsetrinu Patterns in Nature. Til að skilja enn betur hvað liggur til grundvallar lögun regnbogans, sem hringboga af tiltekinni stærð, er auðveldast að útbúa einfalt hjálparverkfæri. Klipptu út A4 pappaörk líkt og sýnt er á mynd 3. Hornið 42 gráður milli hliðanna AC og CD samsvarar stefnubreytingu rauða ljóssins við vatndropa-árekstur. Festu prjón eða mjóan pinna á kantinn BA svo oddhvassi endinn sé í A. Verkfærinu er komið þannig fyrir að pinnaendinn í A er lagður á borðplötu og pinnanum beint þannig að hann stefni til sólar. Þá stefnir kanturinn CD líka til sólar. Hugsum okkur nú sólgeisla sem kemur inn eftir stefnu DC og lendir á vatnsdropa í C, breytir um stefnu og fer til A. Athugandi í A sér rauðan blett á himninum í stefnu AC. Nú getum við snúið pinnanum um eigin ás þannig að hann stefni alltaf á sólu. Punkturinn C færist þá eftir hringferli og markar rauða hluta regnbogans. Samskonar tól með 40 gráðum milli hliðanna DC og CA markar bláa hlutann.

Verkfærið getum við líka notað til að skilja breytingar á regnboganum með sólarhæð. Þegar sólin er hátt á lofti þurfum við að reisa pinnann meira, svo punkturinn C færist nær borðplötunni. Þetta samsvarar því að regnboginn færist neðar og við sjáum minni hluta hringbogans. Á jafnsléttu sjáum við engan regnboga ef sólarhæðin er meiri en 42 gráður, sem samsvarar því að punkturinn C, staðsetning regndropa, sé neðanjarðar. Á sama hátt getum við sagt að regnboginn rís ekki hærra en 42 gráður yfir jafnsléttu. Til þess að sjá regnbogann sem heilan hringferil þurfum við að standa á hárri klettasnös, mjóum fjallstindi eða vera í flugvél.

- Er regnbogi alltaf í sömu fjarlægð frá manni? eftir Ara Ólafsson
- Sjáum við litina eins? Sé ég rauðan eins og þú sérð rauðan? Sérð þú kannski rauðan eins og ég sé grænan? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur
- Hvað eru litir? eftir Þorstein Vilhjálmsson