Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hver er munurinn á kolvetnum og kaloríum?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson

Munurinn á kolvetnum og kaloríum er margvíslegur þótt bæði hugtökin tengist orku og varma og geti tengst mannslíkamanum. Kolvetni (e. carbohydrates) eru tiltekinn flokkur efna sem er skilgreindur nánar út frá samsetningu efnanna. Kaloría (e. calorie) er hins vegar mælieining um orku eða varma. Meðal annars er hægt að nota þessa einingu til að mæla orkuna sem við fáum úr hinum ýmsu fæðutegundum, þar á meðal kolvetnum.

Kolvetni eru einn af þremur flokkum efna sem flytja líkamanum orku og geyma hana, og má því kalla orkuefni. Hinir flokkarnir eru fita og prótín. Af þessum flokkum þurfum við hlutfallslega mest af kolvetnum úr fæðunni en eins og fram kemur í svari við spurningunni Hver eiga hlutföll fitu, kolvetnis og prótíns að vera í ráðlögðum dagskammti matar? er æskilegt að fá 50-60% af orkunni sem við notum úr kolvetnum. Heilinn notar til dæmis nánast eingöngu orku úr kolvetnum til sinna starfa.

Auk kornmetis eru ávextir ein helsta uppspretta kolvetna.

Kolvetni eru einnig kölluð sykrur (e. saccharides) og skiptast í einsykrur (e. monosaccharides), til dæmis þrúgusykur eða glúkósi, tvísykrur (e. disaccharides), til dæmis strásykur eða súkrósi, og fjölsykrur (e. polysaccharides) eins og sterkja (e. starch) og beðmi (e. cellulose). en saman ganga fyrstu tveir flokkarnir stundum undir heitinu smásykrur.

Frá náttúrunnar hendi fáum við kolvetni fyrst og fremst úr afurðum úr jurtaríkinu, sykur úr til dæmis ávöxtum, berjum og ávaxtasafa og sterkju úr kartöflum og öllu kornmeti. Auk þess fáum við kolvetni úr ýmsum unnum matvælum sem búið er að bæta sykri út í og er þá talað um viðbættan sykur til aðgreiningar frá öðrum sykri. Sá sykur er unninn ýmist úr sykurreyr eða sykurrófum.

Kaloría er aftur á móti mælieining sem notuð er til þess að mæla orku (e. energy) eða upphaflega varma (e. heat) sem er ein tegund orku samkvæmt niðurstöðum eðlisfræðinnar frá 19. öld. Kalorían er upphaflega skilgreind sem sú orka sem þarf til að hita eitt gramm af vatni um eitt stig á Selsíus.

Lífverur þurfa orku til að vaxa og til ýmiss konar innri starfsemi. Lífverur sem hreyfa sig af eigin rammleik eins og til dæmis dýr þurfa einnig orku til þess, og jafnframt fara fram ýmiss konar hreyfingar inni í dýrum, til dæmis hjartsláttur, öndun og melting. Orkuna sem við þurfum til þessara hreyfinga fáum við með því að brenna næringarefnum fæðunnar með hjálp súrefnis úr loftinu sem við öndum að okkur.

Líkaminn vinnur misjafnlega mikla orku úr hinum ýmsu næringarefnum og til að lýsa magni orkunnar gætum við notað eininguna kaloríu. Hún er þó helstil lítil til að henta og því er í staðinn oft notuð einingin kílókaloría (kkal) sem er þúsund kaloríur eins og þær sem lýst var hér á undan. Einhverra hluta vegna er forskeytinu “kíló” þó oft sleppt í daglegu tali þegar fjallað er um orku í matvælum en í næringarfræðinni er alltaf talað um kílókaloríur. Sami aðili getur hins vegar ekki notað þessi orð sem samheiti, ekki frekar en hægt er að nota hugtökin metra og kílómetra um það sama. Vísindavefurinn mælir því með að þeir sem vilja fara með rétt mál noti orðið kílókaloríu eða hitaeiningu þegar fjallað er um orku í matvælum.



Orkan sem fæst úr 100 grömmum af þessu morgunkorni er 1565 kJ eða 370 kkal. Eins og aðrar kornvörur er þetta morgunkorn auðugt af kolvetnum en aðeins lítill hluti þeirra er sykur.

Ein hitaeining jafngildir einni kílókaloríu (eða 1000 kaloríum). Það hugtak er gott og gilt í næringarfræðinni og þeim sem finnst óþjált að tala um kílókaloríur eða vilja ekki nota það hugtak af annarri ástæðu geta með góðri samvisku talað um hitaeiningar.

Síðan er til önnur mælieining sem nefnist kílójúl (kJ) og er hún að ryðja sér meira til rúms. Það er því ekki óalgengt að sjá báðar einingarnar notaðar þegar næringargildi matvæla eru gefin upp. Hver hitaeining eða kílókaloría samsvarar 4,2 kílójúlum.

Þessi eining er ekki valin af handahófi heldur er júlið einmitt orkueining metrakerfisins. Þegar við beitum kraftinum 1 N (njúton, newton) á hlut og færum hann um einn metra þá höfum við notað orkuna 1 júl. Einingin vatt (e. watt) sem við notum um afköst eða afl raftækja og véla er eitt júl á sekúndu (1 J/s) og orkueiningin kílóvattstund, sem er á rafmagnsreikningunum okkar, er 3.600.000 júl.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimild og mynd:


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hver er munurinn á kaloríum, kílókaloríum og svo hitaeiningum. Hvernig setur maður þetta í samhengi við hvort annað?
  • Samkvæmt málvenju er talað um kaloríur en á vísindamáli er það kílókaloríur. Hvort er réttara?

Höfundar

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

21.5.2008

Spyrjandi

Aldís Björg Jónasdóttir
Daði Sveinsson
Illugi Torfason

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er munurinn á kolvetnum og kaloríum?“ Vísindavefurinn, 21. maí 2008. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=18503.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2008, 21. maí). Hver er munurinn á kolvetnum og kaloríum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=18503

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er munurinn á kolvetnum og kaloríum?“ Vísindavefurinn. 21. maí. 2008. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=18503>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á kolvetnum og kaloríum?
Munurinn á kolvetnum og kaloríum er margvíslegur þótt bæði hugtökin tengist orku og varma og geti tengst mannslíkamanum. Kolvetni (e. carbohydrates) eru tiltekinn flokkur efna sem er skilgreindur nánar út frá samsetningu efnanna. Kaloría (e. calorie) er hins vegar mælieining um orku eða varma. Meðal annars er hægt að nota þessa einingu til að mæla orkuna sem við fáum úr hinum ýmsu fæðutegundum, þar á meðal kolvetnum.

Kolvetni eru einn af þremur flokkum efna sem flytja líkamanum orku og geyma hana, og má því kalla orkuefni. Hinir flokkarnir eru fita og prótín. Af þessum flokkum þurfum við hlutfallslega mest af kolvetnum úr fæðunni en eins og fram kemur í svari við spurningunni Hver eiga hlutföll fitu, kolvetnis og prótíns að vera í ráðlögðum dagskammti matar? er æskilegt að fá 50-60% af orkunni sem við notum úr kolvetnum. Heilinn notar til dæmis nánast eingöngu orku úr kolvetnum til sinna starfa.

Auk kornmetis eru ávextir ein helsta uppspretta kolvetna.

Kolvetni eru einnig kölluð sykrur (e. saccharides) og skiptast í einsykrur (e. monosaccharides), til dæmis þrúgusykur eða glúkósi, tvísykrur (e. disaccharides), til dæmis strásykur eða súkrósi, og fjölsykrur (e. polysaccharides) eins og sterkja (e. starch) og beðmi (e. cellulose). en saman ganga fyrstu tveir flokkarnir stundum undir heitinu smásykrur.

Frá náttúrunnar hendi fáum við kolvetni fyrst og fremst úr afurðum úr jurtaríkinu, sykur úr til dæmis ávöxtum, berjum og ávaxtasafa og sterkju úr kartöflum og öllu kornmeti. Auk þess fáum við kolvetni úr ýmsum unnum matvælum sem búið er að bæta sykri út í og er þá talað um viðbættan sykur til aðgreiningar frá öðrum sykri. Sá sykur er unninn ýmist úr sykurreyr eða sykurrófum.

Kaloría er aftur á móti mælieining sem notuð er til þess að mæla orku (e. energy) eða upphaflega varma (e. heat) sem er ein tegund orku samkvæmt niðurstöðum eðlisfræðinnar frá 19. öld. Kalorían er upphaflega skilgreind sem sú orka sem þarf til að hita eitt gramm af vatni um eitt stig á Selsíus.

Lífverur þurfa orku til að vaxa og til ýmiss konar innri starfsemi. Lífverur sem hreyfa sig af eigin rammleik eins og til dæmis dýr þurfa einnig orku til þess, og jafnframt fara fram ýmiss konar hreyfingar inni í dýrum, til dæmis hjartsláttur, öndun og melting. Orkuna sem við þurfum til þessara hreyfinga fáum við með því að brenna næringarefnum fæðunnar með hjálp súrefnis úr loftinu sem við öndum að okkur.

Líkaminn vinnur misjafnlega mikla orku úr hinum ýmsu næringarefnum og til að lýsa magni orkunnar gætum við notað eininguna kaloríu. Hún er þó helstil lítil til að henta og því er í staðinn oft notuð einingin kílókaloría (kkal) sem er þúsund kaloríur eins og þær sem lýst var hér á undan. Einhverra hluta vegna er forskeytinu “kíló” þó oft sleppt í daglegu tali þegar fjallað er um orku í matvælum en í næringarfræðinni er alltaf talað um kílókaloríur. Sami aðili getur hins vegar ekki notað þessi orð sem samheiti, ekki frekar en hægt er að nota hugtökin metra og kílómetra um það sama. Vísindavefurinn mælir því með að þeir sem vilja fara með rétt mál noti orðið kílókaloríu eða hitaeiningu þegar fjallað er um orku í matvælum.



Orkan sem fæst úr 100 grömmum af þessu morgunkorni er 1565 kJ eða 370 kkal. Eins og aðrar kornvörur er þetta morgunkorn auðugt af kolvetnum en aðeins lítill hluti þeirra er sykur.

Ein hitaeining jafngildir einni kílókaloríu (eða 1000 kaloríum). Það hugtak er gott og gilt í næringarfræðinni og þeim sem finnst óþjált að tala um kílókaloríur eða vilja ekki nota það hugtak af annarri ástæðu geta með góðri samvisku talað um hitaeiningar.

Síðan er til önnur mælieining sem nefnist kílójúl (kJ) og er hún að ryðja sér meira til rúms. Það er því ekki óalgengt að sjá báðar einingarnar notaðar þegar næringargildi matvæla eru gefin upp. Hver hitaeining eða kílókaloría samsvarar 4,2 kílójúlum.

Þessi eining er ekki valin af handahófi heldur er júlið einmitt orkueining metrakerfisins. Þegar við beitum kraftinum 1 N (njúton, newton) á hlut og færum hann um einn metra þá höfum við notað orkuna 1 júl. Einingin vatt (e. watt) sem við notum um afköst eða afl raftækja og véla er eitt júl á sekúndu (1 J/s) og orkueiningin kílóvattstund, sem er á rafmagnsreikningunum okkar, er 3.600.000 júl.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimild og mynd:


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hver er munurinn á kaloríum, kílókaloríum og svo hitaeiningum. Hvernig setur maður þetta í samhengi við hvort annað?
  • Samkvæmt málvenju er talað um kaloríur en á vísindamáli er það kílókaloríur. Hvort er réttara?
...