Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Iglur (Hirudinea) eru oft kallaðar blóðsugur á íslensku. Í raun er þó aðeins lítill hluti iglna sem tilheyrir ytri sníkjudýrum, en stór hluti þeirra rúmlega 600 tegunda sem lýst hefur verið lifir annars konar ránlífi. Flestar tegundir iglna finnast í ferskvatni en einnig lifa þær í sjó og einhverjar tegundir finnast á þurrlendi, þó aðallega þar sem mikill raki er, til dæmis í mýrlendi.
Allar iglur eru tvíkynja, þannig að hver fullorðinn einstaklingur hefur bæði karl- og kvenkyns æxlunarfæri. Dýrin hafa nokkurs konar getnaðarlim sem flytur sæðið í kynop hins dýrsins. Frjóvgunin sjálf fer fram innvortis, sem er ólíkt því sem gerist á meðal ánamaðka (oligochaete), en annars er margt líkt með æxlunarkerfi iglna og ána. Við mökunina skiptast tveir einstaklingar á sæði og þannig verður víxlfrjóvgun. Eggin eru í hylkjum, líkt og hjá ánamöðkum, en í hverju hylki geta verið nokkur egg. Sem dæmi má nefna norður-amerísku tegundina Erpobdella punctata en hjá henni eru fimm egg í hverju hylki og venjulega framleiðir hún tíu egghylki sem hún verpir 3-4 vikum eftir æxlun.
Igla af tegundinni Helobdella stagnalis.
Í hverju hylki er einnig næringarefni á borð við albúmín sem nýtist nýklöktu ungviðinu í einhverja daga áður en það brýst út úr egghylkinu. Sumar tegundir, eins og Piscicola geometra (sjá mynd), sem lifa sníkjulífi festa egghylkin við hýsla sína. Annars er það frekar regla en undantekning að þær iglur sem lifa sníkjulífi yfirgefi hýsla sína á meðan þær verpa eggjum sínum og festa þau við botninn. Einnig þekkist innan nokkurra tegunda að foreldri festi egghylkin við líkama sinn.
Það er breytilegt eftir tegundum hve langur tími líður frá mökun og þar til eggjunum er verpt. Hjá sumum tegundum líða aðeins tveir dagar en hjá öðrum nokkrir mánuðir.
Sú iglutegund sem við könnumst eflaust flest við er tegundin Hirudo medicinalis (læknablóðsuga) sem notuð hefur verið við lækningar í árþúsundir. Tegund þessi er sníkjudýr á spendýrum, þar á meðal mönnum og fannst meðal annars víðs vegar um Evrópu en er nú ákaflega sjaldgæf í náttúrunni. Dýrið hefur tvær sogskálar sem hún notar til að festa sig við húð fórnarlambsins og bítur sig í gegnum hana með kröftugum kjálkum til að ná til blóðrásarinnar. Læknablóðsugan hefur þrjá kjálka sem hún beitir stíft á meðan hún sýgur blóð fórnarlambsins. Óáreitt hangir hún á fórnarlambi sínu í 30-40 mínútur og sýgur 10-15 ml af blóði. Við slíka máltíð stækkar hún 8-11 falt og er södd í hálft ár, en það er tíminn sem það tekur að fullmelta þetta magn af blóði. Aðeins fullorðin dýr lifa með þessum hætti á spendýrum en ungviðin sækja í froskdýr þar sem kjálkar þeirra eru ekki orðnir nægilega sterkir til að vinna á húð spendýra.
Iglutegundin Hirudo medicinalis hefur verið notuð til lækninga í þúsundir ára.
Erfitt hefur reynst að finna upplýsingar um hve lengi iglur lifa og á það reyndar líka við um marga aðra hryggleysingja. Svo virðist sem mönnum finnist það ekki nógu áhugavert rannsóknarefni. Ef við komumst yfir upplýsingar um málið munum við að sjálfsögðu birta þær.
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvað lifa iglur (blóðsugur) lengi og hvernig fjölga þær sér?“ Vísindavefurinn, 26. september 2001, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1881.
Jón Már Halldórsson. (2001, 26. september). Hvað lifa iglur (blóðsugur) lengi og hvernig fjölga þær sér? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1881
Jón Már Halldórsson. „Hvað lifa iglur (blóðsugur) lengi og hvernig fjölga þær sér?“ Vísindavefurinn. 26. sep. 2001. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1881>.