Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kadmín (e. cadmium) er frumefni númer 48 í lotukerfinu og er skammstöfun þess Cd. Kadmín er mjúkur og silfurlitur málmur með bræðslumarkið 321°C.
Rafeindir á ysta hvolfi frumeindar kallast gildisrafeindir (e. valence electrons) og ræður skipan þeirra miklu um eiginleika frumefnanna. Frumefni sama dálks í lotukerfinu hafa sama fjölda gildisrafeinda og þar af leiðandi svipaða efnafræðieiginleika (e. chemical properties).
Kadmín tilheyrir hliðarmálmum (ljósbleika blokkin á mynd 1) og er í 12. dálki eins og sink (Zn), kvikasilfur (Hg) og kópernikín (Cp). Kadmín á því að hegða sér svipað í efnahvörfum og þessi frumefni þó að eituráhrif frumefnanna geti verið æði misjöfn, enda endurspeglast eituráhrifin oft af notagildi viðkomandi frumefnis í líkamanum.
Kadmín hefur vanalega oxunartöluna +2 eins og sink og kvikasilfur þó það fyrirfinnist einnig sem +1 og þá sem tvíatóma jónin Cd22+ eins og kvikasilfur.
Mynd 1. Í lotukerfinu eru öll frumefnin flokkuð eftir eiginleikum þeirra. Efni sem hafa sama lit á myndinni hegða sér svipað í efnahvörfum og efnasamböndum. Frumefnin eru samtals 118. Litir frumefnanna á myndinni hafa ekkert með raunverulega liti frumefnanna að gera. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.
Frumefnið kópernikín (sætistala 112) finnst ekki í náttúrunni og hefur einungis örlítið magn af því verið búið til á rannsóknarstofu; áhrif þess á líkamann eru því ekki þekkt.
Sink er nauðsynlegt snefilefni fyrir okkur. Skortur á sinki getur haft áhrif á eðlilegan vöxt barna, matarlyst, bragð- og lyktarskyn, frjósemi og fleira.
Kvikasilfur og kadmín gegna hins vegar ekki þekktu hlutverki í lífverum. Bæði efnin geta verið skaðleg í litlu magni og er því sérstaklega fylgst með þessum óæskilegu þungmálmum í umhverfinu, bæði í dýra- og jurtaríkinu.
Kadmín getur haft áhrif á ýmsa efnaferla og kvikasilfur getur haft áhrif á heilastarfsemi, sérstaklega í fóstrum og ungviði. Kadmín skemmir nýru og lungu, veikir beinin og veldur þannig verkjum í liðamótum og er hugsanlega krabbameinsvaldandi
Þungmálmar koma úr bergi og finnast í örlitlum mæli í umhverfinu og í öllum lífverum. Þungmálmar berast til dæmis út í náttúruna við eldgos og við rof. Styrkur þungmálmanna í umhverfinu og í lífverum er misjafn milli landa og jafnvel innan landa. Þungmálmar safnast fyrir í lífverum og gróðri í vistkerfinu og berast þannig í fólk í gegnum fæðuna.
Kadmín er meðal annars að finna í áburði sem dreift er á tún, í svonefndum nikkel-kadmín-rafhlöðum, kadmín-litarefnum auk þess sem það er notað til að húða málma sem eiga það á hættu að ryðga.
Heiti kadmíns er dregið af gríska orðinu kadmeia sem var notað um sinkauðuga leirtegund en kadmín finnst einmitt helst innan um sinkgrýti.
Heimildir og myndir:
Emelía Eiríksdóttir. „Hvað er kadmín og hvaða áhrif hefur það á líkamann?“ Vísindavefurinn, 11. janúar 2012, sótt 13. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=21356.
Emelía Eiríksdóttir. (2012, 11. janúar). Hvað er kadmín og hvaða áhrif hefur það á líkamann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=21356
Emelía Eiríksdóttir. „Hvað er kadmín og hvaða áhrif hefur það á líkamann?“ Vísindavefurinn. 11. jan. 2012. Vefsíða. 13. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=21356>.