Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver fann upp sjónaukann?

Loftur Altice Þorsteinsson

Uppfinning sjónaukans er eignuð Hollendingi, sem samkvæmt opinberum hollenskum skjölum bar nafnið Hans Lipperhey (1570-1619) og bjó hann lengst af í Middelburg, höfuðstað Zeelands. Vitað er að hann var aðfluttur frá borginni Wesel í Þýskalandi, sem liggur við ána Rín. Vatnaleiðin á milli þessara borga er um 250 km. Samkvæmt ýmsum heimildum var skírnarnafn hans Jóhannes Lippertzheim.

Hans kvæntist í Middelburg árið 1594 og hlaut borgararétt þar árið 1602. Hann starfaði sem gleraugnasmiður í Hollandi, en á þessum tíma var mikill uppgangur í Middelburg og hefur Hans væntanlega haft nóg að starfa við gleraugnasmíðar. Uppfinning hans tengist því á eðlilegan hátt ævistarfi hans. Reyndar er til sú saga að börn hans hafi verið að leik með sjóngler af verkstæði föður síns og hafi þá veitt athygli þeim eiginleika tveggja sjónglerja, sem sjónaukinn byggist á.



Bókun vegna einkaleyfisumsóknar frá Hans Liperhey
.

Elstu heimildir um sjónaukann er að finna í bréfi dagsettu 25. september 1608, sem héraðsstjórn Zeelands sendi til fulltrúa sinna á þingi Hollands. Fulltrúunum er falið að aðstoða handhafa bréfsins
sem segist eiga tæki þeirri náttúru gætt, að með því að horfa gegnum sjóngler þess megi greina mjög fjarlæga hluti, eins og í næsta nágrenni séu. Þetta tæki segir hann vera nýja uppfinningu.
Handhafi bréfsins var Hans Lipperhey.

Strax 2. október var einkaleyfisumsóknin tekin til umræðu á þinginu. Niðurstaðan var sú að einkaleyfi á sjónaukanum var hafnað, að því er virðist vegna ótta um að einkaleyfi myndi útbreiða þekkingu á gerð hans. Hér hafa hugmyndir um hernaðarnot greinilega ráðið ferðinni. Samtímis ákvað þingið að ráða Hans til að smíða allmarga sjónauka og var honum launað ríkulega fyrir.

Því hefur verið haldið fram að Henry IV konungur Frakklands hafi komist yfir sjónauka fyrir árslok 1608. Í Frakklandi á maður að nafni Jacques Bovedere að hafa greint mikilvægi sjónaukans fyrir stjörnuathuganir og komið upplýsingum um hann til Ítalans Galíleós Galíleí. Árið eftir, 1609, smíðaði Galíleó sinn fyrsta stjörnusjónauka.



Sú gerð sjónauka sem Hans Lipperhey smíðaði er nefnd tveggja glerja ljósbrotssjónauki. Tvö sjóngler verka saman, þannig að aðfallandi ljósi er safnað saman og þau myndrænu boð sem ljósið ber verða þess vegna skýrari. Það sjóngler sem nær er myndefninu nefnist hlutgler (e. objective) og í því hlutverki er safngler eða kúpt linsa (converging lens, convex lens). Ljósmagnið í sjónaukanum verður þeim mun meiri sem safnglerið hefur stærra þvermál, og myndin verður þá skýrari og bjartari. Hitt glerið sem nær er auganu nefnist augngler (eyepiece, ocular). Í þessum fyrstu sjónaukum Lipperheys og Galíleós var dreifigler (diverging lens, concave lens) í því hlutverki. Sameiginlega verða þessi gler til þess að augað sér stækkaða mynd af hlutnum sem horft er á.

Sjóngler hafa verið þekkt frá því um 2000 fyrir okkar tímatal, en slök gæði þessara fyrstu sjónglerja leyfðu ekki umtalsverða notkun. Fyrst um 1300 var hafin notkun sjónglerja í gleraugum og þá var notað náttúrulegt kvartsgler í stað þess tilbúna glers sem við þekkjum í dag. Í fyrstu sjónaukana var einnig notað náttúrulegt kvartsgler.

Frekara lesefni af Vísindavefnum

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

verkfræðingur og eðlisfræðikennari

Útgáfudagur

5.3.2002

Spyrjandi

Gerða Kristinsdóttir, fædd 1989

Tilvísun

Loftur Altice Þorsteinsson. „Hver fann upp sjónaukann?“ Vísindavefurinn, 5. mars 2002, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2156.

Loftur Altice Þorsteinsson. (2002, 5. mars). Hver fann upp sjónaukann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2156

Loftur Altice Þorsteinsson. „Hver fann upp sjónaukann?“ Vísindavefurinn. 5. mar. 2002. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2156>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver fann upp sjónaukann?
Uppfinning sjónaukans er eignuð Hollendingi, sem samkvæmt opinberum hollenskum skjölum bar nafnið Hans Lipperhey (1570-1619) og bjó hann lengst af í Middelburg, höfuðstað Zeelands. Vitað er að hann var aðfluttur frá borginni Wesel í Þýskalandi, sem liggur við ána Rín. Vatnaleiðin á milli þessara borga er um 250 km. Samkvæmt ýmsum heimildum var skírnarnafn hans Jóhannes Lippertzheim.

Hans kvæntist í Middelburg árið 1594 og hlaut borgararétt þar árið 1602. Hann starfaði sem gleraugnasmiður í Hollandi, en á þessum tíma var mikill uppgangur í Middelburg og hefur Hans væntanlega haft nóg að starfa við gleraugnasmíðar. Uppfinning hans tengist því á eðlilegan hátt ævistarfi hans. Reyndar er til sú saga að börn hans hafi verið að leik með sjóngler af verkstæði föður síns og hafi þá veitt athygli þeim eiginleika tveggja sjónglerja, sem sjónaukinn byggist á.



Bókun vegna einkaleyfisumsóknar frá Hans Liperhey
.

Elstu heimildir um sjónaukann er að finna í bréfi dagsettu 25. september 1608, sem héraðsstjórn Zeelands sendi til fulltrúa sinna á þingi Hollands. Fulltrúunum er falið að aðstoða handhafa bréfsins
sem segist eiga tæki þeirri náttúru gætt, að með því að horfa gegnum sjóngler þess megi greina mjög fjarlæga hluti, eins og í næsta nágrenni séu. Þetta tæki segir hann vera nýja uppfinningu.
Handhafi bréfsins var Hans Lipperhey.

Strax 2. október var einkaleyfisumsóknin tekin til umræðu á þinginu. Niðurstaðan var sú að einkaleyfi á sjónaukanum var hafnað, að því er virðist vegna ótta um að einkaleyfi myndi útbreiða þekkingu á gerð hans. Hér hafa hugmyndir um hernaðarnot greinilega ráðið ferðinni. Samtímis ákvað þingið að ráða Hans til að smíða allmarga sjónauka og var honum launað ríkulega fyrir.

Því hefur verið haldið fram að Henry IV konungur Frakklands hafi komist yfir sjónauka fyrir árslok 1608. Í Frakklandi á maður að nafni Jacques Bovedere að hafa greint mikilvægi sjónaukans fyrir stjörnuathuganir og komið upplýsingum um hann til Ítalans Galíleós Galíleí. Árið eftir, 1609, smíðaði Galíleó sinn fyrsta stjörnusjónauka.



Sú gerð sjónauka sem Hans Lipperhey smíðaði er nefnd tveggja glerja ljósbrotssjónauki. Tvö sjóngler verka saman, þannig að aðfallandi ljósi er safnað saman og þau myndrænu boð sem ljósið ber verða þess vegna skýrari. Það sjóngler sem nær er myndefninu nefnist hlutgler (e. objective) og í því hlutverki er safngler eða kúpt linsa (converging lens, convex lens). Ljósmagnið í sjónaukanum verður þeim mun meiri sem safnglerið hefur stærra þvermál, og myndin verður þá skýrari og bjartari. Hitt glerið sem nær er auganu nefnist augngler (eyepiece, ocular). Í þessum fyrstu sjónaukum Lipperheys og Galíleós var dreifigler (diverging lens, concave lens) í því hlutverki. Sameiginlega verða þessi gler til þess að augað sér stækkaða mynd af hlutnum sem horft er á.

Sjóngler hafa verið þekkt frá því um 2000 fyrir okkar tímatal, en slök gæði þessara fyrstu sjónglerja leyfðu ekki umtalsverða notkun. Fyrst um 1300 var hafin notkun sjónglerja í gleraugum og þá var notað náttúrulegt kvartsgler í stað þess tilbúna glers sem við þekkjum í dag. Í fyrstu sjónaukana var einnig notað náttúrulegt kvartsgler.

Frekara lesefni af Vísindavefnum

Heimildir:

Myndir:

...