Þýðing Bernards Scudders:
The moment the coach set off, the girl started to miss the rock and the sea, and her sense of loss grew all the more painful after they reached where the grass grows, the birds sing, the river flows and the sun glitters on ponds and marshes. (47 orð)
Afþýðing okkar:
Um leið og rútan/vagninn lagði af stað fór stúlkan að sakna klettanna/grjótsins og sjávarins og þegar þau komu þangað sem grasið grær, fuglarnir syngja, áin rennur og sólin glitrar á tjörnum og mýrum varð söknuðurinn sárari. (34 orð)
Frumtexti Guðbergs:Við sjáum strax að okkur hefur tekist að ná inntaki textans nokkuð vel. Það er meira að segja lítill munur á orðafjölda en oft vill þýddur texti verða lengri en frumtexti. Hrynjandin í textunum öllum er nokkuð svipuð. Annað orkar þó nokkuð tvímælis. Í stað áætlunarbíls hjá Guðbergi er komin rúta eða vagn hjá okkur, í stað telpu er komin stúlka og svo vorum við ekki viss um hvort við ættum að þýða rock sem kletta eða grjót enda erfitt að ráða við það nema maður þekki sögusviðið nokkuð vel. Í seinni hluta málsgreinarinnar eru líka nokkur frávik: við tölum um á í stað fljóts og notum sögnina að glitra í stað glampa og síðast en ekki síst er orðaröð önnur. Þetta eru athyglisverð frávik sem beina sjónum okkar að því hvort í þýðingu glatist viss sérkenni úr frumtextanum. Hvers vegna gæti það þá verið? Það gæti til dæmis verið vegna þess að til þýðandans er gerð stíf krafa um að nota venjulegt mál og venjulega orðaröð, það er að textinn skuli vera sem læsilegastur á málinu sem þýtt er á. Sá þrýstingur getur skapast vegna ríkjandi þýðingahefðar á hverjum tíma og á tilteknu málsvæði og það eru gjarnan yfirlesarar sem beita honum. Þýðandi sem ekki fyndi fyrir þrýstingi sem þessum, til dæmis sá sem starfaði í landi þar sem önnur þýðingahefð væri höfð í hávegum, gæti allt eins farið í hina áttina og upphafið textann. Slíkt var ekki óalgengt í þýðingum hér á landi fyrir nokkrum áratugum og gerist jafnvel enn. Önnur ástæða fyrir muninum gæti einfaldlega verið sú að þýðandinn sé ekki skáld í sama skilningi og frumhöfundurinn. Ritunartími frumtextans getur líka haft áhrif á lausnir þýðandans en Svanurinn kom út árið 1991 og á þeim árum sem liðin eru kann málnotkun að hafa breyst ofurlítið sem og íslenskt samfélag. Af þeim sökum gæti verið vandasamara að ná stíl og sérkennum frumtextans. Telpa er til dæmis nánast aldrei notað nútildags. Og hvað með orðasamband sem hefði orðið til eftir að bókin kom út, væri réttlætanlegt að tjalda því? Þannig getur afþýðing sýnt okkur hvað bakgrunnur þýðandans og nálgun getur haft mikil áhrif á verk hans, og vitanlega spilar bakgrunnur „afþýðanda“ og nálgun hans einnig þar inn í. Ennfremur sýnir þetta ferli hvað næmi (af)þýðandans á frumtextann og þekking á því menningarumhverfi sem frumtextinn er sprottinn úr getur haft mikið að segja um gæði þýðingarinnar. Stúlka eða telpa, rúta eða áætlunarbíll? Það er ekki mikill munur á þessum orðum en samt skilsmunur sem getur haft áhrif á það hvort þýðandinn nær andrúmslofti frumtextans og tímaskírskotun. Fróðlegt gæti verið að endurtaka þessa æfingu, þýða afþýdda textann yfir á þriðja tungumálið og svo aftur til baka. Hvað mundi gerast við síendurteknar þýðingar af því tagi? Yrði þá eitthvað svipað upp á teningnum og ef maður frysti og afþíddi matvæli hvað eftir annað: Þau mundu smátt og smátt glata bragði sínu og verða að óboðlegum mat? En að þýða og þíða er náttúrlega ekki alveg sambærilegt, hvað þá að afþýða og afþíða. Frekara lesefni:
Um leið og áætlunarbíllinn lagði af stað fór telpan að sakna grjótsins og sjávarins, og söknuðurinn varð ennþá sárari eftir að komið var þangað sem grasið grær, fuglarnir syngja, fljótið rennur og sólin glampar á tjarnir og mýrar. (38 orð)
- Ástráður Eysteinsson. (1996) Tvímæli – þýðingar og bókmenntir. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun/Háskólaútgáfan.
- Rúnar Helgi Vignisson. (2015) „Svigrúm þýðandans – með hliðsjón af þýðingum á verkum J. M. Coetzee“. An Intimacy of Words/Innileiki orðanna, Essays in Honour of Pétur Knútsson/Festschrift til heiðurs Pétri Knútssyni, ritstj. Matthew Whelpton, Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, Birna Arnbjörnsdóttir, Martin Regal. Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum/Háskólaútgáfan.
- File:Sprengisandur bus breakdown by Bruce McAdam.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 7.01.2016).
Ef maður tekur bók á ensku og þýðir hana yfir á íslensku og þýðir hana svo aftur af íslensku yfir á ensku ertu þá ekki að AFþýða hana!?