Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna er aðeins hægt að rispa demanta með öðrum demöntum?

Við höfum eflaust öll tekið eftir því að sum efni rispast auðveldlega meðan önnur efni þola meira. Þegar tveimur föstum efnum með mismunandi hörku er nuddað saman rispast efnið sem er mýkra. Ekki er alltaf augljóst hvort efnið er harðara fyrr en á reynir. Fullkominn demantur er harðasta náttúrulega efnið sem um getur og hefur hörkuna 10 á svonefndum Mohs-kvarða sem er kenndur við þýska steindafræðinginn Friedrich Mohs (1773-1839). Eins og gefur að skilja geta efni sem eru mýkri en demantar ekki rispað þá. Það eina sem nær að rispa fullkominn demant er annar fullkominn demantur; mun þá sjá á báðum demöntunum við núninginn.

Kolefnisfrumeindirnar í demanti raða sér upp í sterka grind sem gerir demant að þéttasta og harðasta náttúrulega efni veraldar. Myndin sýnir aðeins brot af heildarkolefnisgrindinni.

Fullkominn demantur er uppbyggður af kolefnisfrumeindum sem hver og ein tengist fjórum öðrum kolefnisfrumeindum með sterkum samgildum tengjum. Saman mynda frumeindirnar grind eins og sést á mynd hér fyrir ofan. Þessi grind er einstaklega stíf og frumeindirnar pakkast afar þétt saman og haldast því fastar á sínum stað þótt önnur efni nuddist við demanta. Þessir eiginleikar gefa demöntum hörku (e. hardness) en harka efna segir til um hversu erfitt er að rispa þau.

Fæstir demantar hafa hörkuna 10 því einungis lítill hluti demanta er fullkominn. Óhreinindi eða gallar í kristalbyggingu demanta minnkar hörku þeirra og er þá hægt að rispa slíka demanta með fullkomnum demanti eða mögulega bórnítríði (e. boron nitride) en það er nánast jafn hart og fullkomnir demantar. Blöð hnífa eru gerð úr málmi og eru ekki til þess fallin að rispa demanta því málmar eru mun mýkri en demantar.

Mynd:

Útgáfudagur

26.9.2019

Spyrjandi

Gezim Haziri, Guðrún Jónsdóttir, Katrín Edda Möller

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Hvers vegna er aðeins hægt að rispa demanta með öðrum demöntum?“ Vísindavefurinn, 26. september 2019. Sótt 17. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=22361.

Emelía Eiríksdóttir. (2019, 26. september). Hvers vegna er aðeins hægt að rispa demanta með öðrum demöntum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=22361

Emelía Eiríksdóttir. „Hvers vegna er aðeins hægt að rispa demanta með öðrum demöntum?“ Vísindavefurinn. 26. sep. 2019. Vefsíða. 17. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=22361>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Halldór G. Svavarsson

1966

Halldór G. Svavarsson er dósent við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Rannsóknaviðfangsefni Halldórs hafa spannað vítt svið, frá steinsteypu og keramik til smáþörunga og örtækni. Halldór hefur þar að auki æft karate í 35 ár og var um tíma landsliðsþjálfari í greininni.